02.03.1954
Neðri deild: 56. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í C-deild Alþingistíðinda. (2761)

157. mál, fiskveiðalandhelgi Íslands

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um fiskveiðalandhelgi Íslands, er í öllum aðalatriðum byggt á kenningum dr. Gunnlaugs Þórðarsonar, sem fram komu í doktorsritgerð hans og eru þess efnis, að Íslendingar eigi rétt til alls landgrunnsins í kringum Ísland og þeirra verðmæta, sem þar sé hægt að vinna.

Þó að undarlegt megi virðast, þá munu ekki vera til nein lagaákvæði um, hver landhelgi Íslands skuli vera. Það voru til gamlar tilskipanir um þetta efni, sem höfðu gildi, þangað til Danir gerðu samning við Bretaveldi árið 1901 um, að landhelgi Íslands skyldi vera 3 sjómílur. Þar með féllu úr gildi ákvæði hinna gömlu tilskipana, en vitanlega komu þær aftur í gildi, þegar samningnum við Breta frá 1901 var sagt upp á ný. En síðan eru ekki önnur ákvæði til um landhelgi Íslands heldur en ákvæði hinna gömlu tilskipana. Mér virðist það vera alveg óviðunandi, að um slíkan undirstöðurétt þjóðarinnar séu ekki til skýr og ákveðin lagafyrirmæli. Þess vegna gerðist ég flm. þessa frv.

Það er augljóst mál, að hugmyndir manna og þjóða um landhelgi hafa mjög verið að breytast á síðustu árum. Það þótti firnum sæta fyrir nokkru, þegar Sovétríkin ákváðu 12 sjómílna landhelgi hjá sér, — þótti mjög frekleg krafa. En nú höfum við heyrt hin síðustu ár kröfur um landhelgi, sem gengið hafa miklu lengra en það. Eitt nýjasta dæmið er, að eitt af sambandslöndum Breta, Ástralía, hefur ákveðið 50 sjómílna landhelgi, og virðist ekki hafa orðið neinn styrr út af því. Þetta samveldisland Breta er þar með að helga rétt sinn gagnvart einu af fyrrverandi stórveldum heimsins, Japönum. Og vitanlega er það lífsnauðsyn viðkomandi þjóða, sem verður að vera hyrningarsteinninn undir slíkum kröfum þjóðanna. Það er alveg óumdeilanlegt að því er Ísland snertir, að það er í raun og veru um að ræða tilverurétt íslenzkrar þjóðar og allrar fjárhagsafkomu hennar, þegar hún er að helga sér landhelgi eins og nauðsyn krefur vegna hins íslenzka sjávarútvegs.

Nýjasta atriðið í umræðum á alþjóðavettvangi um landhelgismál bar að á seinasta þingi Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa Bandaríkjamenn kröfur uppi um það, að þeir helgi sér 200 sjómílna landhelgi að því er snertir námuréttindi á hafsbotni. Það er líklega sú krafa, sem lengst hefur gengið um landhelgisrétt að því er ákveðin verðmæti snertir. Þá kemur það auðvitað inn í umræðurnar, hvort ekki sé þá sjálfsagt og jafnréttmætt, að þjóðum almennt sé helgaður réttur til allra þeirra verðmæta, sem finnist í hafinu yfir þeim hafsbotni, sem helgaður sé með ákvæðum um landhelgi. Tóku fulltrúar Íslendinga á þingi Sameinuðu þjóðanna þátt í þessum umr. og báru fram till., sem leiddi til þess, að málinu var frestað, og þetta mál stendur nú opið á þessum víðtækasta alþjóðavettvangi, sem slík mál eru rædd á.

Ég tel, að ein höfuðnauðsyn þess, að Íslendingar hafi nú þegar uppi fyllstu kröfur sínar um rétt til landhelgi umhverfis Ísland, sé m. a. sú, að málið stendur núna svo á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það væri glapræði hið mesta að mínu áliti, ef Íslendingar hefðu ekki orð á neinum fyllri kröfum en nú hafa verið hafðar frammi um íslenzka landhelgi, áður en málinu væri lokið á þingi Sameinuðu þjóðanna. Auðvitað er alveg sjálfsagður hlutur, að Íslendingar hafi gert sínar fyllstu kröfur, áður en málið kemur á ný fyrir Sameinuðu þjóðirnar, svo að það sé ekki hægt að segja, að nein þjóð hafi þurft að ganga í þeirri dul, að Íslendingar gerðu ekki og ætluðu sér ekki að gera fyllri landhelgiskröfur en þegar hefðu verið hafðar uppi.

Annað atriði, sem ég tel reka mjög á eftir okkur um að bera fram okkar ýtrustu landhelgiskröfur, er einmitt deila Íslendinga við Breta. Bretar vilja líta svo á, að landhelgi okkar sé mörkuð af þeirri núverandi friðunarlínu, sem ákveðin var með reglugerðinni frá 1952. En flestir Íslendingar munu vera þeirrar skoðunar, að þar með hafi ekki verið ákveðin landhelgi Íslands, heldur ákveðin mörk fyrir friðunarlínu, sem eigi að vernda íslenzk fiskimið fyrir ágangi innlendra og erlendra veiðiskipa, og að þar með sé engu slegið föstu um landhelgi Íslands. En eftir þessari skoðun Breta mætti líta svo á, að ef svo giftusamlega tækist til, að Bretar leystu nú þessa deilu, sem við eigum í við þá, þ. e. a. s. breyttu sinni ákvörðun um að hætta að kaupa íslenzkan fisk, — það gera þeir sennilega fyrr eða síðar, — og við hefðum ekki haft uppi neinar kröfur um frekari landhelgi en enn þá hefur verið talað um, þá gætu Bretar sagt sem svo: Ja, hvernig stóð á því, að meðan við deildum um þessi mál, þá opnaði enginn Íslendingur sinn munn um það, að Íslendingar hefðu í hyggju að gera frekari landhelgiskröfur, en nú, þegar deilan er leyst, þá komið þið með hnífinn í bakið á okkur og öðrum þjóðum, sem þurfa að stunda fiskveiðar við Ísland, og gerið margfalt strangari kröfur? Ég tel, að ef við höguðum okkur svoleiðis, þá gengjum við aftan að andstæðingum okkar; það mætti kannske saka okkur um, að við værum að stinga andstæðingana í bakið. En með þessu a. m. k. að hafa uppi okkar kröfur nú, meðan deilan er óleyst, þá komum við þó framan að okkar andstæðingi og látum vita, að við gefum ekki eftir af okkar þjóðlega rétti og ætlum ekki að gera það, og það mætti heldur vera Bretum leiðbeining um, að þeim þýddi ekki að gera sér neinar vonir um, að við drögum úr þeim ákvörðunum, sem við þegar höfum tekið, þeim lágmarksákvörðunum, sem við lítum á aðeins sem fyrsta skref í þessu stóra máli. Það mætti því heldur, þegar fram væru komnar kröfur af hendi Íslendinga um margfalt meiri rétt en við höfum þegar helgað okkur að lögum, gera Bretum skiljanlegt, að Íslendingar séu siður en svo að hugsa um neitt undanhald í þessu máli, þeir hafi þegar látið í ljós, að þeir hafi aðeins stigið eitt lítið byrjunarspor.

Þetta tvennt tel ég að hafi verið í raun og veru knýjandi nauðsyn fyrir okkur til þess að hafa málið uppi sem allra fyrst, afstaðan til Breta og afstaðan til þess, að mál viðvíkjandi landhelgi þjóðanna er nú til umræðu og meðferðar, en ekki komið til lokaafgreiðslu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Það má segja það, að kenningin um eignarrétt hlutaðeigandi þjóðar á landgrunni sínu sé tiltölulega ný kenning, mun ekki vera miklu eldri en frá því um seinustu aldamót. En nauðsynin á því að notfæra sér rétt samkv. þessari kenningu hefur margfaldazt frá því um aldamót. Botnvörpuveiðar eru þá í byrjun. Síðan hafa þær eflzt og margfaldazt, og það er einmitt þessi breyting í veiðitækninni, sem gerir það nauðsynlegt fyrir fiskveiðaþjóð eins og Íslendinga að rýmka sína landhelgi, friða meiri svæði meðfram ströndunum vegna þess margfaldaða ágangs, sem botnvörpuveiðarnar veita. Það má vel vera, að þriggja sjómílna landhelgi hefði dugað til að vernda íslenzk fiskimið, ef áfram hefði verið eingöngu veitt á handfæri, lóðir og í net. En botnvarpan kom til sögunnar, og þá þurfti að helga miklu víðtækari landhelgi en gert hafði verið með samningnum frá 1901.

Nú er vel hægt að hugsa sér, að áframhaldandi aukin tækni geri það að verkum, að það þurfi á miklu meiri vernd að halda en nú. Það er fyrir nokkru farið að tala um að veiða fisk með rafmagnstækjum. Það er enginn vafi á því, að komi til þess almennt, að fiskur verði veiddur með slíkum tækjum, þá verða þau veiðitæki miklu stórtækari en botnvarpan, eyða miklu meira af fiskstofninum, og þá gæti svo farið, að okkar hugmyndir um nauðsynina á 16 mílna landhelgi eða friðunarbelti, eða jafnvel 50 mílna landhelgi, verði á nokkrum áratugum úreltar. En svo mikið er víst, að fleygi þessari tækni fram, eins og nú má ætla, þá verður með engu móti hægt að gera sér vonir um, að íslenzk fiskimið með fjögurra mílna friðunarbelti kringum landið standist þann ágang.

Í 1. gr. þessa frv. er auk ákvæðisins um, að Ísland skuli helga sér allt landgrunnið sem fiskveiðalandhelgi, skilgreining á því, hvernig skuli draga mörk hugtaksins landgrunn. Til skamms tíma hefur það verið nokkurn veginn algild skilgreining á hálendi, að það sé land, sem liggi meira en 200 m yfir sjó, og að láglendi skuli teljast það land, sem er minna en 200 m yfir sjó, að grunnsævi skuli teljast það hafsvæði, sem hefur minna en 200 m dýpi, og úthafsdjúp það hafsvæði, sem hefur meira en 200 m dýpi. Hugmynd okkar um landgrunn Íslands hefur þess vegna fyrst og fremst byggzt á því, að það væri línan, sem dregin væri á 200 metra dýptarbaugnum umhverfis strendur landsins. Vitanlega yrði sú lína mjög óregluleg og yrði þess vegna ekki eins skýr mörk og æskilegt væri, ef eingöngu væri miðað við þessa línu. En eitt af því, sem breytzt hefur í þessum málum, er það, að þjóðirnar, hver á fætur annarri, hafa frekar tekið upp þann háttinn að miða þau landhelgismörk, sem þær hafa verið að ákveða, við fjarlægð frá ströndum. Hér í þessu frv., í 1. gr., þar sem orðuð er skilgreiningin á landgrunninu kringum Ísland, er farið bil beggja. Það er miðað að nokkru leyti við gamla hugtakið, 200 m dýptarlínuna, og að nokkru leyti við fjarlægð frá ströndum, og skilgreiningin á landgrunninu samkv. 1. gr. er sú, að landgrunnið skuli markast af línu, sem dregin sé 50 sjómílur fyrir utan yztu nes og eyjar og sker við landið, en þar sem 200 m dýptarlína landgrunnsins nái út fyrir 50 sjómílna línuna, skuli landgrunnið takmarkast af henni. Á þeim uppdrætti, sem fylgir hér með frv., kemur í ljós, að þessi hugsaða lína, 50 mílna lína frá ströndinni, er alls staðar á dýptarlínunum milli 200 og 400 og þó víðast hvar nálægt 200 m dýptarlínunni, en 200 m dýpi nær þó á einum fjórum stöðum út fyrir þessa vegalengd frá ströndum, og er talað um, að 200 m dýptarlínan skuli ráða á þessum fjórum stöðum.

Hitt meginatriðið í frv. felst í 2. gr. Þar er ákveðið, að með reglugerð megi setja ákvæði um framkvæmd löggæzlu innan fiskveiðalandhelginnar og um stærð gæzlusvæðisins á hverjum tíma. Meginhugsunin er sú, að núverandi 4 mílna friðunarlína skuli vera takmörk algers friðunarsvæðis, innan 4 mílna svæðis megi hvorki íslenzk né erlend skip veiða með botnvörputækjum eða neinum slíkum tækjum, sem gangi of nærri fiskstofninum, en inni á 12 sjómílna belti frá þessari línu megi engin erlend fiskiskip stunda fiskveiðar og að íslenzk stjórnarvöld skuli halda uppi löggæzlu á því svæði, en síðan sé það aðeins reglugerðarákvæði á hverjum tíma, hvort íslenzk stjórnarvöld ákveða að framkvæma lögreglueftirlit og hafa löggæzlu á meira eða minna svæði út fyrir þetta innan landhelgissvæðisins. M. ö. o. sé alfriðað svæði 4 sjómílur, friðað svæði fyrir erlendum skipum 12 sjómílur í viðbót, þ. e. a. s. alfriðað og hálffriðað svæði allt upp í 16 sjómílur, en landhelgi Íslands upp í 50 mílna fjarlægð frá ströndum og frjálst ríkisstj. á hverjum tíma að ákveða, að hve miklu leyti löggæzlu sé haldið uppi á því svæði.

Í 3. gr. frv. er kveðið svo á, að lög þessi skuli öðlast gildi þann 17. júní 1954. Það er ekki alveg út í bláinn. Þann dag eru 10 ár liðin síðan lýðveldi var stofnað á Íslandi, og þar sem hér er um að ræða að gera breytingu á í raun og veru hugtakinu Ísland, þ. e. a. s., hvað skuli heyra undir íslenzka lögsögu, þá finnst mér ekki óeðlilegt, að þessi lagasetning taki gildi á 10 ára afmæli lýðveldisins Íslands.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta stórkostlega mál, en legg til, að því verði að umræðunni lokinni vísað til sjútvn.