04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (2764)

159. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 414 flytur sjútvn. þessarar deildar frv. til l. um breyt. á l. frá 1947, um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip. Frv. er flutt eftir beiðni stjórnar og forstjóra Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, og fylgir því svo hljóðandi athugasemd, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þeim 16 árum, sem liðin eru síðan sett voru lög um vátryggingarfélög fyrir vélbáta, hefur orðið stórfelld breyting á stærð vélbáta, svo að ákvæði laganna um hámarksstærð skyldutryggðra skipa er algerlega úrelt.“

Þessi athugasemd Samábyrgðarinnar er rétt. Vélbátar þeir, sem útgerðarmenn hafa nú almennt með höndum, eru yfirleitt stærri skip og betri en áður þekktust samhliða því, að þeir eru búnir fleiri og betri öryggistækjum. Það hefur sýnt sig á þeim 16 árum, sem vátryggingarfélög hafa starfað innan Samábyrgðarinnar, að sjótjón eru tíðust á smærri og eldri skipunum, sem greiða þó tiltölulega, lág iðgjöld, en valda oft sjótjónum, sem mikill kostnaður er við að bæta. Hins vegar valda stærri skipin í flestum tilfellum miklu færri sjótjónum, en greiða þó stórum hærri iðgjöld til tryggingarfélaganna. Það, sem veldur þessum mismun á sjótjónshættu stærri og minni fiskiskipanna, er sjálfsagt m. a. það, að á stærri skipin veljast hæfari skipstjórnarmenn og betri skipshafnir, og einnig hitt, að þau eru búin betri og fullkomnari öryggistækjum en minni skipin. Það gefur því auga leið, að það er áríðandi fyrir Samábyrgðina og tryggingarfélögin, sem starfa innan hennar, að fá ákvæði um hámarksákvæði skyldutryggðra skipa hækkað í allt að 150 rúmlestir brúttó, eins og frv. það, sem hér er til meðferðar, kveður á um. Það er trú mín, að þessi breyting á lögunum ætti einnig að koma útgerðinni til góða, þegar stundir líða. Ég vil mælast til þess við hv. alþm., að þeir fylgi þessari breyt. á frv. Að öðru leyti hafa hv. meðnm. mínir í sjútvn. áskilið sér óbundna afstöðu til frv., eins og um getur á þskj. 414.

Þar sem frv. er flutt af nefnd, vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr.