01.04.1954
Neðri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (2783)

188. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var misskilningur, sem fram kom hjá hv. 1. flm. þessa máls, hv. þm. A-Húnv. (JPálm), að í þeim frv. um áburðarverksmiðjuna, sem nú liggja fyrir hér í þessari hv. d. til 2. umr., væri fólgin einhver gerbreyting á l. um áburðarverksmiðjuna, sem fyrir eru. Raunverulega er þar aðeins um að ræða að slá föstum þeim upphaflega tilgangi, sem hafði verið með lögunum um áburðarverksmiðjuna, og gera skýrt og ótvírætt um eignarréttinn á henni. Og það er alveg eðlilegt, að í sambandi við umræðurnar um þetta frv., sem hér liggur nú fyrir á þskj. 567, komi þetta til athugunar.

Ég vil leyfa mér að bera fram þá fsp. til hv. 1. flm., hv. þm. A-Húnv., hvernig þeir flm. skilji þetta frv., sem þeir hér eru að leggja fram. Þeir leggja til, að áburðarsala ríkisins, sem hefur náttúrlega verið alveg ótvíræð eign ríkisins, sé lögð niður, en áburðarverksmiðjan fái einkarétt til innflutningsins. Áburðarverksmiðjan er eftir lögunum eign ríkisins og eftir 3. gr. laganna sjálfseignarstofnun, sem ekki má selja eða veðsetja án samþykkis Alþingis. Og ég tek eftir því, að í 1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, er notað orðalagið: öðlast áburðarverksmiðjan einkarétt. En það er ekki sagt Áburðarverksmiðjan h/f. Það er ekki talað þarna, eftir því sem ég skil þetta, um annað en þá áburðarverksmiðju, sem er átt við í 3. gr. laganna um áburðarverksmiðju, sem sé þá áburðarverksmiðju, sem er sjálfseignarstofnun og ríkið á, að það sé sú stofnun ríkisins, sem eigi að öðlast þennan einkarétt til innflutnings, sem þarna er um að ræða. Ég vil leyfa mér að spyrja, hvort þetta er ekki rétt skilið hjá mér, og ég þykist hafa þar nokkuð fyrir mér, vegna þess að mér er ákaflega vel kunnugt um, að ýmsir þm. Sjálfstfl. líta svo á, að áburðarverksmiðjan sé ótvíræð eign ríkisins, en að hins vegar rekstrarfélagið, Áburðarverksmiðjan h/f, hafi ekki með neitt nema rekstur áburðarverksmiðjunnar að gera. Nú verð ég að segja það, að svo framarlega sem því er alveg slegið föstu og Sjálfstfl. og tveir af hans forustumönnum hér í d. flytja nú þetta mál og Sjálfstfl. er sammála þarna um, þá er það vissulega spursmál, sem er alveg sjálfsagt að taka fyrir til raunhæfrar og góðrar athugunar nú þegar á þessu þingi.

Það er alveg rétt um þau tvö ríkisfyrirtæki, sem bæði eru ótvíræð ríkiseign, að það er svo sem ekki þörf á að vera að reka þau í tvennu lagi. En hitt er aftur á móti alveg gefið um leið, að það er nauðsynlegt að ganga frá þessum málum í heild. Þær þjófnaðartilraunir, sem hafa átt sér stað á áburðarverksmiðju ríkisins, verður að stöðva, og það liggja þegar fyrir till. í því efni hér fyrir hv. d., og það getur ekki gengið að láta það viðgangast áfram, að það sé reynt að taka þetta fyrirtæki upp á 125–130 millj. kr. úr eign ríkisins og gera það að einu litlu hlutafélagi hér í bænum. Í þessari till. frá hv. þingmönnum Sjálfstfl. virðist að ýmsu leyti gert ráð fyrir því, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins, eins og hún er eftir l. um áburðarverksmiðju, og þess vegna sé að mörgu leyti eðlilegt að sameina áburðarsöluna og áburðarverksmiðjuna, þegar hvort tveggja sé ríkiseign, og ég álít, að slík till. verðskuldi fulla athugun hér.

Ég tók eftir því, að hæstv. landbrh. talaði um, að það væri nauðsynlegt að fresta þessu máli. Ég held, að það sé stórhættulegt atriði af hálfu Alþ. að fresta þessu máli lengur. Ég hef áður vakið eftirtekt á því, hver er tilgangurinn með þeim frestunum, sem alltaf er reynt að knýja fram í þessum málum. Það á að reyna að sjá það, hvort áburðarverksmiðjan muni vera gróðafyrirtæki eða ekki, reyna að sjá það nægilega greinilega, áður en Alþ. eigi endanlega að skera úr um, hvort ríkið haldist sem sá eigandi, sem það raunverulega er þar að, eða hvort áburðarverksmiðjan verður endanlega gefin einkaaðilum.

Ég vil þess vegna eindregið óska þess í sambandi við þetta frv., sem er þriðja frv., sem fram kemur nú á Alþ. og það í þessari sömu hv. d., um breyt. á l. um áburðarverksmiðju, að það fái þinglega meðferð og sé ekki kæft í landbn. Ég held, að það sé alveg rétt, að það hafi verið lagt til, að það færi til hennar, var það ekki? Ég álít, að meðferð landbn. á þessum málum um áburðarverksmiðjuna hafi ekki verið til fyrirmyndar, það sem af er. Ég hef sjaldan séð aðra eins afgreiðslu á till. eins og þær rökstuddu dagskrár, sem liggja fyrir frá meiri hl. landbn. í sambandi við tvö önnur frv., sem eru hér um áburðarverksmiðjuna. Það er í báðum þessum rökstuddu dagskrám, á þskj. 522 og þskj. 523, verið að vitna í, , að það sé verið að leitast fyrir um söfnun hlutafjár í áburðarverksmiðjuna meðal bænda. Ég vil bara leyfa mér að spyrja þessa hv. landbn. þessarar d.: Hver hefur leyft henni og samkv. hvaða heimild í l. dirfist hún að vitna í það, að það eigi að fara að safna hlutafé í verksmiðju, sem ríkið hefur ekkert ákveðið um, að neinu meiru hlutafé skuli safnað í? Hvaðan er tekið upp á því og með hvaða heimild á að fara að ákveða það að leita fyrir sér um söfnun meðal bænda um hlutafé í áburðarverksmiðjuna? Það er engin heimild frá Alþ. til þess, ekki í neinum! Ég vil leyfa mér að spyrja eiginlega, hvers konar aðferðir þetta eru, sem hér eru viðhafðar? Það hefur enginn maður gefið neinum aðilum heimild til þess að leita fyrir um söfnun hlutafjár í áburðarverksmiðjuna meðal bænda. Það er ekki til. Og mér finnst það hálfundarlegt, þegar ein n. hér á Alþ. er að fara að vitna í eitthvað slíkt og ætlar að fara að vísa málum frá á grundvelli þess, um leið og ég vil leyfa mér að átelja alvarlega þá spillingu, sem er að koma fram í því í sambandi við till. þessarar n. að ætla að fara að segja við bændur á Íslandi:

„Gerizt þið þátttakendur í því þjófnaðarfyrirtæki að stela áburðarverksmiðjunni af ríkinu, og ef þið verðið hluthafar í slíku fyrirtæki, þá getið þið þagað á eftir.“ Það er þessi spilling, sem þarna er verið að reyna að skipuleggja í trássi við lög og rétt. Það að ætla að reyna að taka áburðarverksmiðjuna, fyrirtæki upp á 125–130 millj. kr., úr eign ríkisins og afhenda það litlu hlutafélagi hér í Reykjavík, slíkt rán verður ekki betra með því að ætla að fara að tæla bændur til þess að taka þátt í þess háttar óhæfuverki. Og ég vil leyfa mér að vekja eftirtekt á því, hvað þær n. eru að gera, sem leyfa sér að vitna í svona hluti og undirbúa svona hluti og ætla kannske að gefa svona aðferðum einhvern löglegan blæ með sínum yfirlýsingum. Það eru búin að eiga nóg hneykslismál sér stað hér viðvíkjandi meðferðinni á áburðarverksmiðjunni. Það er búið að gefa yfirlýsingar hér af hálfu ríkisstj. um, að áburðarverksmiðjan, sem er ríkiseign eftir l., sé eign lítils hlutafélags, og það er hægt að vitna í þessar yfirlýsingar ráðh. Framsfl. af hálfu þeirra, sem vilja fara í stórkostlegt skaðabótamál við ríkið af hálfu þeirra núverandi hluthafa í rekstrarfélaginu Áburðarverksmiðjan h/f.

Ég álít þess vegna, að það sé tími til kominn, að hér sé tekið í taumana, og ég vil leyfa mér að spyrja hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, þó fyrst og fremst hv. þm. A-Húnv. (JPálm), hvað þeir meini með 3. málsgr. í sínu frv.: „Eignir áburðarsölu ríkisins skulu afhentar áburðarverksmiðjunni til umráða.“ Ég skil þetta alveg tvímælalaust þannig, að eignir áburðarsölu ríkisins skuli afhentar þeirri áburðarverksmiðju, sem ríkið á, til umráða. Það er líka alveg greinilegt hér, að það er tekið fram „áburðarverksmiðjunni“, en ekki Áburðarverksmiðjunni h/f, enda get ég ekki skilið, að það væri tilgangur þessara hv. þm. Sjálfstfl. að ætla að fara að taka þarna eign ríkisins og afhenda einhverjum einstaklingum til umráða. Svo framarlega sem það væri tilgangurinn hjá þessum hv. þm. Sjálfstfl., þá hlytu þeir auðvitað að gera ráð fyrir því, að eignir áburðarsölu ríkisins væru seldar þessu hlutafélagi. Ég þykist alveg vita og skilja það réttilega, að þessum hv. þm. Sjálfstfl. dettur ekki í hug að ætla að taka eign ríkisins, eins og þarna eignir áburðarsölu ríkisins, og afhenda einhverju einkahlutafélagi til eignar og umráða. Ef þeir hafa hugsað sér eitthvað slíkt, þá mundu þeir auðvitað leggja til að selja það viðkomandi hlutafélagi og viðkomandi hlutafélag mundi greiða peninga í staðinn. Hér aftur á móti leggja þeir til: „Eignir áburðarsölu ríkisins skulu afhentar áburðarverksmiðjunni til umráða.“ Og þetta er alveg rökrétt. Þetta þýðir bara, að eitt fyrirtæki ríkisins er afhent öðru fyrirtæki ríkisins til umráða. Það þarf engin sala að fara fram, það þurfa engar slíkar breytingar að verða. Þetta er alveg rökrétt, og þetta getur alveg staðizt.

Ég skil þess vegna þetta frv. svo, að það sé aðeins um að ræða að sameina tvö ríkisfyrirtæki, tvær ríkiseignir, vegna þess að það sé hentugra að reka þau þannig, en ég skil það ekki þannig, að það sé meiningin að fara að afhenda áburðarsölu ríkisins til einhvers einkafyrirtækis. Nokkrir sjálfstæðismenn hér í þinginu komu fram með till. um það, að skipaútgerð ríkisins skyldi skipt upp á milli tveggja einkafyrirtækja. Sú till. var felld hér, vegna þess að menn voru á móti því að taka þannig úr eign ríkisins og afhenda það tveimur mismunandi einkafélögum. Hér er hins vegar verið að leggja til, eftir því sem ég skil, að taka eina eign ríkisins og afhenda hana annarri eign ríkisins, sameina sem sé tvær eignir ríkisins, annars vegar áburðarsölu ríkisins og hins vegar áburðarverksmiðjuna, vegna þess að það sé miklu praktískara. Þessu þætti mér ákaflega vænt um að fá einmitt skýringar á, hvort ég hef skilið rétt hjá hv. 1. flm., því að ég gæti vel trúað, að ef gott samkomulag næst um afgreiðslu þessara mála, þá sé alveg sjálfsagt að taka þessar ábendingar, sem koma fram í þessu frv., til raunhæfrar athugunar.