07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (2790)

199. mál, kornrækt

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þessu frv., sem hér liggur fyrir, fylgir mjög ýtarleg grg. og sömuleiðis nál., sem gerir ýtarlega grein fyrir þessu máli. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til þess að fara að flytja um þetta langt mál, þó að ástæða hefði verið til þess að öðrum kosti. Ég vil aðeins vekja athygli á nokkrum atriðum í sambandi við þetta.

Í fyrsta lagi vil ég benda á, að inn eru fluttar nú árlega kornvörur til skepnufóðurs fyrir 5—6 millj. kr. að minnsta kosti, að vísu nokkuð breytilegt eftir árferði og öðrum ástæðum.

Á undanförnum árum hefur því verið hreyft alloft, bæði í blöðum og á mannfundum, hvort bændur gætu ekki sparað sér þennan innflutning og þar með sparað erlendan gjaldeyri að einhverju leyti með aukinni kornrækt. Framleiðsluráð landbúnaðarins tók þetta mál fyrir og skipaði 5 manna nefnd til þess að athuga þetta mál og gera till. sérstaklega um eftirfarandi atriði: Í fyrsta lagi aðstöðu landbúnaðarins til aukinnar kornræktar, og í öðru lagi, hvaða aðgerða væri þörf til þess að auka kornræktina, ef n. teldi aðstöðu til hennar hérlendis þess eðlis, að það hefði hagnýta þýðingu fyrir landbúnaðinn og þjóðina.

N. var sammála um, að að fenginni reynslu af kornyrkju hér á landi væri full ástæða til þess að taka þetta mál öðrum tökum en gert hefur verið, og þá sérstaklega hafði hún það í huga, að kornyrkjunni væri veittur verulegur stuðningur henni til eflingar. Nefndin taldi, að fyrst og fremst væri aðgerða þörf til að auka þekkingu bænda á kornrækt. Þessu taldi n. bezt náð með því, að stuðlað væri að því, að einstakir bændur tækju kornræktina upp sem lið í búrekstri sínum, og þeim veitt til þess fræðileg aðstoð og nokkurt framlag til stofnkostnaðar, sem mundi leiða af þeirri breytingu á búskaparháttum þeirra að taka upp kornyrkju.

Frv. það, sem hér er lagt fram, er byggt á þessu áliti n. Því hefur oft verið haldið fram, að kornræktin sé misferlasöm hér á landi og því sé rétt að láta aðrar þjóðir, sem hafa betri aðstöðu til kornræktar, um það að rækta korn og við að kaupa það af þeim. En á það má benda, að kornrækt er a. m. k. í sumum landshlutum árvissari en kartöflurækt, og þó eru þær raddir teljandi, sem mæla með því, að hætt sé að rækta kartöflur hér á landi. En í því sambandi má líka benda á, að það tók íslenzku þjóðina líklega allt að því eina og hálfa öld að koma kartöfluræktinni á það stig, að hún gæti talizt nokkurn veginn almenn. Það þarf þess vegna engan að undra, þó að kornrækt, sem tekin er upp fyrir um 30 árum, þá að vísu aðeins í tilraunastöðvum fyrst, sé enn þá skammt á veg komin, ef miðað er við þá reynslu og þann hraða, sem var á ræktun kartaflnanna. Það er því ekki að undra, þó að kornrækt hér á landi hafi átt erfitt uppdráttar nú á þessu fyrsta tímabili.

Í þessu frv. er bent á leið til að greiða fyrir því, að bændur auki kornyrkju frá því, sem nú er. Þetta er að mínu áliti merkileg tilraun, sem á samkv. frv. að endurskoða innan 10 ára, og ætti þá að hafa fengizt sú reynsla í kornræktarmálum, sem skeri úr um framtíð kornræktarinnar hér á landi.

Að þessu sinni er þetta frv. flutt fyrst og fremst til að kynna það hv. alþm. og enn fremur til þess að þjóðin fái tækifæri til að kynna sér þetta mál, en það er von okkar landbn.manna, að stjórnin sjái sér fært að taka þetta mál upp sem stjórnarfrv. á næsta þingi, eftir að hafa yfirvegað það og athugað. Það teldum við ákjósanlegustu lausn fyrir þetta mál.