03.12.1953
Efri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (2807)

110. mál, almannatryggingar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um tvö atriði aðeins. — Hið fyrra atriði er það, að nú þegar skuli hefja heildarendurskoðun á tryggingalögunum og því verki skuli hraðað svo, að brtt. verði afhentar ríkisstj. það snemma, að hún geti lagt þær fyrir næsta reglulegt Alþingi, þegar er það kemur saman. Er þá gert ráð fyrir því eftir venju, að þingið komi saman næsta haust, ekki seinna en 1. okt. eða einhvern tíma í september, þannig að afgreiðslu á þeim till., sem ríkisstj. leggur fram, geti verið lokið fyrir áramót 1954 og tekið gildi í ársbyrjun 1955. En eins og tekið er fram í grg., eru mörg atriði laganna, sem falla úr gildi í árslok 1954, og því er óhjákvæmilegt að gera einhverja skipan á fyrir lok þess árs.

Hitt atriðið í frv. er þess efnis, að á næsta ári, meðan endurskoðunin fari fram, leggi ríkissjóður fram nokkurt viðbótarframlag til Tryggingastofnunarinnar, og þó settar þær takmarkanir, að þetta viðaukaframlag fari ekki fram úr 90% af rekstrarhalla stofnunarinnar á árinu og alls ekki fram úr 6.3 millj. kr., og er þá við þessa ákvörðun hámarksins miðað við fjárhagsáætlun Tryggingastofnunarinnar fyrir sama ár.

Grg., sem fylgir þessu frv., er allýtarleg, og ég hef leyft mér að prenta sem fylgiskjöl með henni áætlun Tryggingastofnunarinnar fyrir árið 1954, yfirlit yfir tekjur og gjöld á árinu 1952, sem er seinasta árið, sem reikningar liggja fyrir um, og loks yfirlit yfir skiptingu kostnaðar vegna Tryggingastofnunarinnar, sjúkrasamlaga og ríkisframfærslu á árunum 1948 og 1952 á þá aðila, sem bera þennan kostnað, en það er ríkissjóður, sveitarsjóðir, atvinnurekendur og hinir tryggðu.

Ég vil leyfa mér að minna á það, að almannatryggingalögin frá 1946 eru nú orðin rétt sjö ára. Því var spáð af ýmsum, þegar þessi löggjöf var sett, að hún mundi verða ákaflega þungur baggi á ríkissjóði, og jafnvel haft við orð, að hér væri verið að gerbreyta þjóðfélaginu. Sumir spáðu því einnig, að þessi löggjöf mundi ekki eiga sér langan aldur, boginn væri of spenntur, eins og það var orðað, og það yrði að stiga hér spor til baka, ef þjóðin ætti að geta staðið undir þessum tryggingum. Ég hygg nú, hvað sem menn segja um tryggingalöggjöfina og framkvæmd hennar á þessum árum, að þá séu þó allir á einu máli um, að þessir spádómar hafi reynzt alveg tilefnislausir og að það hafi sýnt sig á þessum árum, að því sé fjarri, að þjóðinni sé um megn að standa undir tryggingunum, enda væri það illt, ef svo væri, því að það væri sama sem að viðurkenna það, að þjóðfélagið gæti ekki tryggt fólkinu, sem lifir í landinu, þær brýnustu nauðþurftir, sem þarf til þess að draga fram lífið. Í því sambandi þykir mér rétt að vekja athygli hv. dm. á því, sem raunar ætti að vera óþarft, að þau sjö ár, sem liðin eru síðan tryggingalöggjöfin var samþykkt, hefur ekki þurft að leita til ríkisins um einn einasta eyri til stofnunarinnar umfram það framlag, sem lögboðið hefur verið á hverjum tíma. Hafa þó á þessum tíu árum orðið stórfelldari breytingar á verðlagi, kaupgjaldi og lifnaðarháttum fólks hér á landi heldur en nokkru sinni fyrr á jafnskömmu eða löngu tímabili. Ég leyfi mér því að fullyrða, að sá undirbúningur, sem var fyrir hendi, þegar þessi löggjöf var samþykkt, hafi verið mjög góður og ýtarlegur og þær áætlanir, sem þá voru gerðar, hafi fullkomlega staðizt, eins og líka verður ljóst af því, sem ég áðan sagði um afkomu stofnunarinnar á þessu tímabili.

Á s. l. ári voru gerðar stórfelldar breytingar á tryggingalöggjöfinni. Þær voru gerðar með nokkuð öðrum hætti en þær breytingar, sem höfðu verið gerðar árið þar á undan, en tryggingalöggjöfinni hefur, eins og hv. dm. er kunnugt, verið breytt á hverju ári frá því að lögin voru sett, sem var eðlilegt og nauðsynlegt og sjálfsagt vegna þeirra stórfelldu breytinga, sem urðu hér á atvinnuháttum, afkomu manna, verðlagi og öðru, sem snertir hag trygginganna, en þær breytingar, sem gerðar voru á árinu 1952, voru minna undirbúnar af hálfu trygginganna en nokkrar aðrar breytingar, sem hafa verið samþykktar.

Útgjöld Tryggingastofnunarinnar sjálfrar reyndust á árinu 1952 rétt í kringum 94 millj. kr., en í þeirri áætlun, sem nú liggur fyrir fyrir árið 1954, tveimur árum síðar, er gert ráð fyrir, að útgjöld hennar verði um 123 millj. kr. Hækkunin á þessu tveggja ára tímabili er því áætluð rétt í kringum 28 millj. kr. Meginástæðan til þessarar hækkunar er að sjálfsögðu þær breytingar á löggjöfinni, sem gerðar voru á síðasta þingi í sambandi við vinnudeiluna í des. 1952. Þær hinar nýju bætur, sem þá voru lögleiddar, eru í fyrsta lagi viðbótarfjölskyldubætur og mæðralaun, sem er áætlað að nemi um 16 millj. kr. Þá var einnig í þeim samningum ákveðið, að kaupgjald láglaunafólks skyldi greitt miðað við 10 stigum hærri vísitölu en sú almenna kaupgjaldsvísitala ákvað, og var það að sjálfsögðu einnig látið ná til bótaþega trygginganna. Af þeim ástæðum hefur vísitalan, sem miðað er við, hækkað úr 148 upp í 157 stig. Það er aðeins áætlun, því að það er vísitalan í marz næsta ár, sem ákveður þær raunverulegu tekjur, og vísitala hvers mánaðar, sem ákveður bæturnar. Ef miðað er við þessa áætlun, 157 stig, þá er hækkunin 9 stig eða rétt 6% eða réttar 6 millj. kr. Þessar 22 millj. kr. eru bein afleiðing af samningunum í des. 1952 og þeirri löggjöf, sem sett var í sambandi við það.

Þá hefur komið í ljós, að þær töflur, sem áætlanirnar um tölu gamalmenna á hverjum tíma voru byggðar á, hafa ekki reynzt réttar. Fjölgun fólks á níræðisaldri er stórum meiri en gert hefur verið ráð fyrir. Tryggingastofnunin hafði látið reikna út töflur um dánarlíkur og meðalaldur fólks allt fram til ársins 1956. Við manntalið 1950 kemur í ljós, að tala fólks á níræðisaldri er fullum 500 hærri en gert hafði verið ráð fyrir í þessum töflum. Það kemur þó ekki í ljós til fulls fyrr en við úrvinnslu manntalsins 1950, sem hefur legið fyrir fyrst núna á s. l. sumri, en það má gena ráð fyrir, að lífeyrir til þessara 500 manna nemi eitthvað nálægt 3 millj. kr. á ári.

Þá hefur einnig annað atriði í þeim útreikningi, sem byggt var á, breytzt stórkostlega, og það er fjölgun unga fólksins, fjölgun barnanna, eða hækkun á fæðingatölunni. Árin 1936–40 fæddust hér að meðaltali á hverju ári 2407 börn, árið 1951 var tala fæðinga yfir 4100 og árið 1950 rétt í kringum 4000. Mismunurinn á þeim árgöngum, sem fæðast, og þeim, sem verða sextán ára og hafa ekki lengur rétt til bóta þess vegna frá Tryggingastofnuninni, er því núna um 1600, en þó, ef miðað er við fæðingatöluna eingöngu, eitthvað lægri vegna barna, sem deyja á þessu tímabili. Mér þykir sennilegt, að mismunurinn á þeim árgöngum, sem eru á þeim aldri, að þeir fá rétt til bóta, og þeim, sem hafa komizt yfir bótaaldurinn, yfir sextán ár, sé a. m. k. 1500 núna.

Nú mun eftir þá breytingu, sem gerð var með barnalífeyri og fjölskyldubætur á síðasta þingi, mega gera ráð fyrir, að milli 2/5 og helmingur allra barna muni njóta einhverra bóta frá Tryggingastofnuninni, annaðhvort mæðralauna eða fjölskyldubóta eða barnalífeyris, svo að það er auðséð, hve þessi gífurlega fjölgun á börnunum hefur mikil áhrif á afkomu trygginganna. Þær hækkanir, sem gert er ráð fyrir á þessum tveimur árum, frá 1952–54, nema að því er snertir gamalmenni og öryrkja 2.3 millj. kr., eða rösklega einni millj. hvort árið, en það svarar aftur til fjölgunar um tæplega 200 á þessum tveimur árum af gamalmennum. En bætur vegna fjölgunar barna, sem bætur koma til, er áætlað að nemi í krónum í kringum 1.7 millj. kr.

Þessar upphæðir, sem ég nú hef greint, nýju bæturnar, vísitöluhækkunin og sú ófyrirséða fjölgun gamalmenna og barna, nema réttum 26 millj. kr. á tímabilinu frá 1952–54, aðrar hækkanir eru áætlaðar kringum 2 millj. kr., og eru þá fengnar þær 28 millj., sem gert er ráð fyrir að útgjöldin hækki um. Upp í þetta hefur Tryggingastofnunin fengið á s. l. ári hækkun um 17% á grunniðgjöldum, sem talið var líklegt, þegar lögin um mæðralaun og aukningu fjölskyldubóta voru sett, að mundi nokkurn veginn hrökkva fyrir þeim útgjaldaauka, sem af því stafaði. Nú þykir sýnt, að kostnaðurinn verði heldur meiri en þar var gert ráð fyrir, auk þess sem vísitöluhækkunin og sú mikla fjölgun barna og gamalmenna, sem ég drap á áðan, kemur til viðbótar.

Niðurstaðan er því sú, að þó að tekjur Tryggingastofnunarinnar séu með tilliti til góðs árferðis í ár áætlaðar 3–4 millj. kr. hærri heldur en undanfarið, þá skortir samt á næsta ári um 7 millj. kr. á, að endarnir nái saman, að tekjurnar nægi til þess að hrökkva fyrir útgjöldunum. Er því farið fram á í þessu frv., að ríkissjóði sé gert að greiða 90% af þessu sem viðbótarframlag til stofnunarinnar, þannig að ekki þurfi á næsta ári að breyta öðrum tekjustofnum til hækkunar, en það eru iðgjöld atvinnurekenda, það eru iðgjöld hinna tryggðu, og það eru framlög sveitarfélaganna.

Ýmsir kunna nú að segja, að Tryggingastofnunin hafi verulega sjóði undir höndum og henni ætti því ekki að vera ofvaxið, þó að halli yrði á þessu ári, eins og gert er ráð fyrir, að standa undir því með eigin fé. Ég álít, að það sé ákaflega mikill misskilningur og það væri allt of mikil léttúð og ábyrgðarleysi að ganga svo frá fjárlögum og áætlun Tryggingastofnunarinnar, að fyrirsjáanlegt væri, að slíkur halli lenti á henni á árinu 1954.

Þrjú fyrstu ár trygginganna safnaðist verulegt fé í sjóði hjá þeim. Það stafaði sumpart af því, að það var mikið góðæri, og í öðru lagi og kannske aðallega af því, að meðan menn voru að venjast löggjöfinni, var ekki gengið til fulls eftir þeim réttindum, sem tryggingalöggjöfin veitti, af ýmsum aðilum, sem höfðu ekki knýjandi þörf fyrir þau. En á þessum þremur fyrstu árum varð tekjuafgangur hjá Tryggingastofnuninni, sem rann í tryggingasjóð til þess að mæta sveiflum í framtíðinni, rétt í kringum 16 millj. kr. En eftir að sú stórfellda röskun varð á verðlagi og kaupgjaldi og framfærslukostnaði, sem leiddi af gengislækkuninni og þeim breytingum, sem síðan hafa verið gerðar, þá hefur jafnan tekjuaukning trygginganna verið á eftir útgjaldaaukningunni, því að bætur hafa alltaf verið greiddar með sömu vísitölu og kaupgjald til láglaunafólks, en tekjurnar hafa verið fram að árinu 1952 miðaðar við vísitölu næsta árs á undan. Hefur því Tryggingastofnunin haft nokkurn tekjuhalla öll þessi ár síðan 1949, — árið 1950, árið 1951 og árið 1952, — þannig að nú er ekki eftir af þessum 16 millj. kr., sem safnað var í tryggingasjóð, nema rétt í kringum 11 millj. kr. Það er miðað við ártalið 1951, og á þá eftir að taka halla ársins 1952, sem er ekki gerður upp að fullu, og svo fyrirsjáanlegan halla á árinu 1953. Ég skal ekki spá neinu um, hvað þá verði eftir af tryggingasjóði, þegar sá halli er jafnaður, en mér þykir trúlegt, að það verði ekki mikið yfir milli 5–7 millj. kr., þannig að ef reikna má með 7 millj. kr. halla á árinu 1954, er fyrirsjáanlegt, að hann yrði étinn upp að fullu, og vafasamt, að hann hrykki til að mæta honum.

Ég veit það, að ýmsir telja — og það réttilega, að Tryggingastofnunin hafi fleiri sjóði en tryggingasjóðinn einan til að mæta þessu. Það er rétt. Tryggingastofnunin hefur varasjóð, sem nú nemur um 55 millj. kr. Það er það fé, sem Tryggingastofnunin tók við frá alþýðutryggingunum gömlu, lífeyrissjóður Íslands og afgangur slysatrygginganna, sem samtals nam tæpum 40 millj. kr. En samkv. tryggingalögunum er til þess ætlazt, að þessi sjóður verði ekki eyðslufé, heldur eigi hann að vaxa um vextina á hverju ári, og kom það fram, þegar tryggingalögin voru sett, að það þætti allt of lítill vöxtur fyrir slíkan sjóð að fá aðeins vextina eina. Meiningin með þessum sjóði er sú, að hann á að vera eins konar baktrygging fyrir tryggingarnar og vaxa nokkurn veginn í hlutfalli við fólksfjölgunina í landinu og veltu Tryggingastofnunarinnar. Það hefur ekki tekizt, — og því er mjög fjarri.

Árið 1949 voru útgjöld trygginganna nokkuð yfir 50 millj. kr. Þá var varasjóðurinn orðinn eitthvað liðlega 40 millj. kr., 42 eða 43 millj. kr., þ. e. a. s. hlutfallið á milli veltu og varasjóðs var þá það, að varasjóðurinn samsvaraði hér um bil 80% af veltu stofnunarinnar. Nú er gert ráð fyrir, að veita stofnunarinnar verði 122 millj. kr. á árinu 1954, en varasjóðurinn verður þá eitthvað innan við 60 millj., alls ekki meira, þannig að það skortir talsvert á, að hann nái þá 50% af veltunni, og hefur hann þannig, miðað við hana, lækkað úr 80% og niður í 50%. En eins og áður er sagt, þá var það ætlunin, þegar tryggingalöggjöfin var sett, að sjóður þessi gæti vaxið og orðið baktrygging stofnunarinnar nokkurn veginn hlutfallslega við fólksfjölgunina í landinu og aukna veltu hjá Tryggingastofnuninni, en yrði alls ekki eyðslufé, enda er það fram tekið í lögunum. Þessum sjóði er líka, eins og hv. dm. er kunnugt, ætlað sérstakt verkefni. Honum er ætlað að lána fé til ýmissa framkvæmda, sjúkrahúsbygginga, elliheimilabygginga og annað slíkt, Auk þess hefur, meðan ekki hefur orðið af framkvæmdum í þessu efni, verið töluverðu af þessu fé varið til almennra útlána, sem ríkisstj. og héraðsstjórnir hafa sérstaklega haft þörf fyrir til þess að koma upp ýmsum nauðsynlegum mannvirkjum eins og kunnugt er. Og ég tel, að sú lánastarfsemi, sem Tryggingastofnunin hefur getað leyft sér að hafa með höndum vegna varasjóðsins undanfarin ár, hafi orðið ákaflega mörgum sveitar- og bæjarfélögum, sem hafa gert framkvæmdir, verulegur styrkur, og væri miður, ef yrði að ganga ríkar eftir greiðslu á þessu en gert er ráð fyrir.

Það er heimilað í lögunum að veita lán til tryggingasjóðs, ef halli er á rekstri stofnunarinnar, úr varasjóðnum, en aðeins skyndilán í bili, sem yrðu svo að endurgreiðast aftur af tekjum stofnunarinnar eða framlögum til hennar.

Ég tel því, að sú leið sé alveg ófær að ætla sér að eyða þeim sjóðum, sem fyrir eru. Það er ekki líklegt, að tryggingasjóðurinn nægi til þess að greiða þann halla, sem er fyrirsjáanlegur á árinu 1954, og varasjóðinn er ekki heimilt að nota í slíku skyni nema aðeins sem bráðabirgðalán, veita gálgafrest ef svo mætti segja.

Á síðasta þingi var sú leið farin að hækka tekjustofna tryggingarinnar, iðgjöldin meðal annars, — hækka tekjustofnana alla um 17%. Þess ber að gæta, þegar litið er á iðgjöldin til trygginganna, að þau taka ekki yfir tryggingarnar allar, Tryggingastofnunin tekur ekki allar tryggingarnar enn þá, því að sjúkratryggingarnar eru enn í höndum sérstakra sjúkrasamlaga. Eigi því að gera grein fyrir tryggingagjöldum almennings, þarf ekki aðeins að taka tillit til Tryggingastofnunarinnar, heldur líka til sjúkrasamlaganna. Hér er í grg. bent á það, að tryggingaiðgjöld í Reykjavík fyrir kvæntan mann nema núna 1362 kr. fyrir yfirstandandi ár. Það skiptist þannig, að 714 kr. eru tillag til Tryggingastofnunarinnar, en svo borgar maður og kona hvort um sig iðgjald til sjúkrasamlagsins, sem er 342 kr. Samtals eru þetta þess vegna 1362 kr. á ári. Fyrir einhleypan mann er, þetta 970 kr. í Reykjavík og fyrir ógiftar konur um 800 kr. á ári. Á öðru verðlagssvæði eru iðgjöldin til Tryggingastofnunarinnar milli 20 og 25% lægri en í Reykjavík, eða á fyrsta verðlagssvæði, og sjúkrasamlagsgjöldin mjög mismunandi, sums staðar jafnvel allt niður í 120 kr. á ári, en á öðrum stöðum nálgast þau iðgjöldin hér í Reykjavík.

Nú get ég sagt það sem mína skoðun, að fyrir kvæntan karlmann hér í Reykjavík, sem hefur 34–35 þús. kr. tekjur og annaðhvort er barnlaus eða aðeins á eitt barn, þá finnst mér 1360 kr. ekki óhæfilegt iðgjald. Það eru rétt um 4% af tekjunum. Þegar tekið er tillit til þess öryggis, sem hann kaupir sér með þessum greiðslum, þá hygg ég, að ekki verði sagt, að hér sé óhæfilega langt gengið, þó að það verði að viðurkennast, að fyrir slíkan mann er það að borga á annað hundrað kr. á mánuði talsvert þungur baggi. En fyrir þá, sem hafa lægri tekjur, er alveg augljóst, að tryggingagjöldin eru þungur baggi og því þyngri sem tekjurnar. eru lægri. Sérstaklega er mikið undan því kvartað og með rökum, að á heimilum, þar sem eru margir unglingar á aldrinum 16–21 árs, sem allir greiða sín fullu iðgjöld, sé þessi baggi orðinn heimilinu um megn. Einnig er kvartað undan því, að fólki, sem er orðið tekjurýrt á aldrinum 60 eða 65–67 ára, sé ekki ætlandi að greiða jafnhá iðgjöld og fólki á bezta starfsaldri. Og mikið er til í þessu.

Af þessum ástæðum öllum er það augljóst, að það er ekki fært að halda áfram á sömu leið og gert hefur verið að hækka bara þessa tekjuliði um ákveðna prósentu eftir því, sem þarfir Tryggingastofnunarinnar aukast. Það þarf því að endurskoða ákvarðanir um iðgjaldagreiðslur með þetta fyrir augum. Enn fremur er þess að gæta, að tvö atriði tryggingalaganna hafa enn ekki komið til framkvæmda, sem bæði hafa ákaflega mikil áhrif á fjárhag hennar og afkomu. Þessi ákvæði hvor tveggja falla úr gildi í árslok 1954, og verður þá að taka upp einhverja skipun, áfram þá, sem nú er, eða aðra nýja. En þessi tvö atriði eru:

Í fyrsta lagi framkvæmd heilsugæzlukafla, þ. e. a. s. III. kafla í almannatryggingalögunum, sem hefur verið frestað að framkvæma til ársbyrjunar 1955. Samkv. þessum kafla er til þess ætlazt, að sjúkrasamlögin hætti störfum, hin einstöku sjúkrasamlög, en Tryggingastofnunin taki að sér sjúkratryggingarnar í þeirra stað og láti umboðsmenn sína úti um land annast þau störf fyrir hennar hönd, sem sjúkrasamlögin hafa haft hvert á sínum stað. Það er augljóst að, að ýmsu leyti er þetta léttir, sérstaklega að því er snertir innheimtu iðgjalda og annað slíkt. Innheimtan yrði þá að sjálfsögðu sameinuð innheimtu iðgjaldanna til Tryggingastofnunarinnar í eitt iðgjald. En ýmis önnur atriði hafa valdið því, að það hefur ekki þótt fært til þessa að ráðast í þessar framkvæmdir. Það er gert ráð fyrir, að þá verði sú breyting á sjúkratryggingunum, að í staðinn fyrir, að sjúkrasamlögin greiða nú að fullu læknishjálp heimilislæknis, þá skuli Tryggingastofnunin aðeins greiða að ¾ hlutum læknishjálpina, en ¼ eigi sjúklingarnir sjálfir að greiða eftir ákveðinni. gjaldskrá, sem heilbrigðisstjórnin setur.

Nú hefur verið oftsinnis leitað samkomulags við lækna um breytingu á samningum við: . þá með tilliti til þess, að ,Tryggingastofnunin ætti ekki að greiða nema ¾ af læknishjálpinni, í staðinn fyrir að samlögin hafa greitt hana að fullu hjá flestum læknum samlaganna. Þeir, samningar hafa ekki tekizt enn og borið talsvert mikið á milli. Enn fremur hefur heilbrigðisstjórnin ekki treyst sér til þess að setja gjaldskrá fyrir þann fjórða hluta, sem sjúklingarnir eiga sjálfir að greiða; og hefur því ekki náðst samkomulag heldur um það atriði.

Nú má náttúrlega segja, að það sé léleg frammistaða að láta það standa í vegi þess, að þessi kafli komi til framkvæmda, að ekki hafi náðst samkomulag um þessi atriði. En þess er að geta í þessu sambandi, að örðugt — að ég ekki segi ókleift — er að reka þessa starfsemi án þess að hafa samninga og samkomulag við læknana annars vegar og ótækt nema gjaldskrá ákveði um greiðslu fjórða hlutans, meðan svo er ástatt sem nú er í okkar heilbrigðismálum. Hér í Reykjavík t. d. er svo mikill skortur á sjúkrarúmum, að hundruð manna liggja rúmliggjandi í heimahúsum og bíða eftir því að geta komizt inn í sjúkrahús. Heilsuverradarstöðin er nú bráðum að komast í rekstrarhæft ástand, og léttir það að sjálfsögðu mikið. En lækningastöð, sem gert er ráð fyrir að verði, byggð hér í bænum þar sem saman störfuðu bæði almennir læknar og sérlæknar og þar sem hægt væri að veita læknisþjónustu allan sólarhringinn, er ekki komin upp enn og ekki heldur búið að ráða starfsmenn að henni. Af þessum sökum er ákaflega torvelt að framkvæma heilsugæzlukaflann að svo komnu, því að þær stofnanir, sem ég nefndi nú, heilsuverndarstöðvar, lækningastöðvar og sjúkrahús, eru undirstaðan undir því, að þessum framkvæmdum sé hægt að koma sæmilega fyrir. Að minnsta kosti er svo að segja ógerningur að framkvæma þetta nema með fyllsta samkomulagi við læknana, ef þessar stofnanir eru ekki fyrir hendi.

Það verður nú eitt verkefni þeirrar n., sem endurskoðar löggjöfina, að ráða fram úr þessu efni, hvað gera skuli. En það er augljóst, að um leið og sjúkrasamlögin falla niður, þá verða iðgjöldin til Tryggingastofnunarinnar að hækka sem svarar þeim kostnaði, sem á henni lendir nú og sjúkrasamlögin hafa borið til þessa, enda eru ákvæði um það í gildandi lögum, því að iðgjöld til Tryggingastofnunarinnar eru 30% lægri en ella vegna þess, að sérstök iðgjöld eru heimt inn til sjúkrasamlaganna. En þá verður að sjálfsögðu enn þá meira aðkallandi að athuga hlutfallið milli hinna einstöku gjaldenda við álagningu tryggingaiðgjaldsins, þegar sjúkrasamlagsiðgjöldin bætast við, því að til sjúkrasamlaganna greiða menn nú, eins og kunnugt er, jafnhátt tryggingagjald bæði fyrir karl og konu. Aftur á móti er iðgjaldið til Tryggingastofnunarinnar sameiginlegt fyrir karl og konu og miklum mun lægra en tveggja persóna iðgjald, eins og hv. þm. er kunnugt um.

Annað atriði, sem skiptir miklu bæði fyrir hina tryggðu og fyrir fjárhag tryggingarinnar, er það, hvort enn verður framlengt eða niður fellt með öllu það ákvæði í lögunum, sem skerðir rétt manna til lífeyris, þeirra sem komnir eru á lífeyrisaldur, eftir því, hversu miklar tekjur þeir hafa. Það var athugað fyrir tveimur árum, hversu miklu mundi muna, ef þetta ákvæði yrði fellt niður með öllu og um leið breytt ákvæðunum um frádrátt eða lækkun á lífeyri til þeirra, sem njóta eftirlauna samkv. 18. gr. fjárlaga, og það var talið, að þetta mundi þá auka kostnað við Tryggingastofnunina, ef þetta yrði fellt niður með öllu, eitthvað milli 10 og 12 millj. kr. Það verður annað viðfangsefni þeirrar n. eða þeirra manna, sem athuga tryggingalöggjöfina, að finna lausn á þessu, en um það hafa legið tillögur fyrir Alþ. eins og kunnugt er, og hefur verið bent þar á ýmsar leiðir. En allt hnígur þetta að því sama. Það sýnir, að við endurskoðunina verður að gera gagngerðar breytingar á iðgjaldaákvörðunum og öðrum tekjustofnum trygginganna, og því væri mjög óráðlegt núna að fara að ákveða prósentuhækkun á sama hátt og seinast var gerð á þessum tekjustofnum fyrir þetta eina ár, meðan endurskoðunin fer fram. Sérstaklega verður þetta óeðlilegt og ég vil segja ranglátt, þegar þess er gætt, að til þess var ætlazt, þegar tryggingalöggjöfin var sett, að kostnaðurinn við framkvæmd hennar yrði borinn í ákveðnum hlutföllum af ríkissjóði, sveitarsjóðum, hinum tryggðu og atvinnurekendum. Og þessi hlutföll var gert ráð fyrir að yrðu þau, að ríkissjóður greiddi þriðjunginn, hinir tryggðu sjálfir greiddu þriðjunginn, en þriðji þriðjungurinn skiptist á milli sveitarfélaga og atvinnurekenda nokkurn veginn að jöfnu, þannig að hvor þeirra bæri 1/6 hluta. Þetta er að vísu ekki lögfest í sjálfum lögunum, en útreikningarnir og ákvörðun framlags og iðgjalds hvers um, sig voru miðuð við það, að þessi skyldu verða hlutföllin. Nú hafa þessi hlutföll raskazt nokkuð í framkvæmdinni, eins og sést á fskj. III, sem er prentað á bls. 8 á þskj. Fyrir árin 1948–52 hefur útkoman orðið sú, að ríkissjóður borgar tæp 32%, eða nokkru minna en gert var ráð fyrir. Sveitarsjóðirnir hafa borgað meira en gert var ráð fyrir, eða um 19%, atvinnurekendur stórum minna en gert var ráð fyrir, eða 14%, og tryggðir verulega meira en gert var ráð fyrir, eða 35%.

Þetta stafar sumpart af því, að sjúkrasamlagsiðgjöldin hafa hækkað meira hlutfallslega en iðgjöldin til Tryggingastofnunarinnar. Þau eru borin að mestum hluta af hinum tryggðu. Iðgjöld atvinnurekenda hafa verið lækkuð á öðru verðlagssvæði um 25% strax árið 1948, eins og kunnugt er, og síðan gerðar nokkrar tilliðkanir í þeim efnum á því, hvernig reikna skyldi þau út, þannig að þau hafa orðið talsvert lægri en ráð var fyrir gert. Hluti sveitarfélaganna hefur orðið hærri, en hluti ríkissjóðs, eins og ég áðan sagði, lægri en ætlunin var, þannig að á þessu tímabili, 1948–52, hafa hinir tryggðu greitt 6.6 milljónum meira en þriðjung af heildarkostnaði á þessu tímabili, en ríkissjóður aftur á móti greitt 5.2 millj. kr. minna en þriðjung á þessu sama tímabili. Er þá ekki miðað aðeins í þessu yfirliti við útgjöld Tryggingastofnunarinnar, heldur útgjöld allra sjúkrasamlaga á landinu og útgjöld ríkisframfærslunnar, en allt þetta verksvið átti að sameinast undir Tryggingastofnuninni eftir hinum upprunalegu lögum, um leið og heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda.

Þó að ríkissjóði yrði því gert að greiða sem aukaframlag á árinu 1954 allt að 6.3 millj. kr., þá mundi ekki hans hlutur af heildarkostnaðinum á þessu tímabili fara fram úr þeim þriðjungi, sem upphaflega var gert ráð fyrir, og ekki fást heldur full leiðrétting á því, að hinir tryggðu hafa greitt á þessu tímabili 6.6 millj. kr. meira en þriðjunginum nemur. Mér finnst því, að öll sanngirni mæli með því og skynsemi, að á þessu ári, meðan endurskoðunin fer fram, verði ríkissjóði gert að greiða þetta aukaframlag allt að þeirri upphæð, sem þarna er miðað við, 6.3 millj. kr., því að tryggingasjóðnum ætti ekki að vera ofvaxið að standa undir þessum 10% eða þótt eitthvað yrði meira, sem þarna er gert ráð fyrir, þrátt fyrir það þó að hann fái halla á árinu 1952 og 1953. En hins vegar tel ég það fullkomið neyðarúrræði að hækka almennt iðgjöld hinna tryggðu og framlög sveitarfélaganna til trygginganna, á meðan endurskoðunin fer fram, sem hlýtur að beinast í þá átt að leggja iðgjöldin á almenning eftir nokkuð öðrum reglum en nú er gert.

Ég þykist vita, að einhver verði til að spyrja, hvaðan eigi að taka fé til þessa, og þó að ég geti alls ekki á það fallizt, að í hvert skipti sem fluttar eru till. um fjárútlát úr ríkissjóði, sé jafnframt gerð grein fyrir, hvernig teknanna skuli aflað til þess, þá skal ég þó leitast við að mæta þessu að nokkru.

Það, sem er vert að taka fram, er þá fyrst, að þær 6 millj., sem hér er um að ræða, eru þó ekki nema tæplega 1½% af áætluðum útgjöldum ríkissjóðs og því ekki nema einn lítill blóðmörskeppur í sláturtíð, ef svo mætti segja, sem óhætt væri að reikna með. En ég vék að því við umr. um annað mál hér fyrr á þessum fundi, að mér sýnist, að fært væri enn að hækka verð á „svartadauða“ og öðrum slíkum nauðsynjavörum, og mér telst svo til, að ef hækkuð væri um 10 krónur flaskan af „svartadauða“, þá mundi það hrökkva langt til að mæta þeim aukagjöldum, sem þarna eru lögð á ríkissjóð. (BSt: Var það ekki í staðinn fyrir söluskattinn?) Ég tók það fram áðan, að ég hefði nú hugsað mér einmitt þá upphæð í annað, því að það hrekkur skammt í söluskattinn, — ég skal játa það, — og hef þó ekki gert grein fyrir því, í hvað ég hafði hugsað mér að benda á þetta.

En annars tel ég, að við samningu fjárlaga upp á milli 400 og 500 millj. kr. sé tilefnislaust að krefja hvern þann þm., sem flytur till. um einhverja útgjaldaaukningu, sem nemur ekki hærri upphæð en hér um ræðir, tillagna um sérstaka tekjuöflun í því sambandi. Þetta er því aðeins gert til þess að mæta vini mínum, hv. 1. þm. Eyf., í því að benda á möguleika til þess að finna þó eitthvert fé, sem hann sýnist heldur torskyggn á.

Ég skal svo ekki þreyta hv. dm. með lengra máli um þetta, en vísa til grg., og að sjálfsögðu eru allar upplýsingar, sem menn óska og ég gæti látið í té, jafnan til reiðu, en vildi leggja til, að frv. yrði að lokinni umr. vísað til heilbr.- og félmn. til skjótrar og góðrar afgreiðslu.