29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

186. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Landlæknir sendi heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. þetta frv. og óskaði flutnings. N. sá ekki ástæðu til að synja um flutning á málinu og hefur lagt það hér fram, en annars hafa nm. algerlega óbundnar hendur um einstök atriði, og n. flytur frv. án þess að hafa lesið það sérstaklega yfir.

Markmið þessa frv. er fyrst og fremst að færa saman heildarlög um læknaskipan frá 1932 og þær breyt., sem síðan hafa verið gerðar á þessum l., en þær eru allmargar, ekki færri en átta. Þó felast einnig í frv. nokkrar breytingar á skipun læknishéraða í landinu. Flestar eru þær settar í samræmi við óskir íbúanna eða a. m. k. að undangengnum viðræðum við forsvarsmenn héraðanna.

Þá eru í frv. tilfærslur nokkrar milli læknishéraða vegna þeirrar þjóðarspjaldskrár, er hagstofan hefur með höndum. Hagstofan telur það verulegu máli skipta, að takmörk læknishéraða séu hin sömu og hreppa, og eru nokkrar tilfærslur í frv., sem eiga að stuðla að þessu. En samhliða eru tekin upp ákvæði um það, að íbúar þeirra hreppshluta, sem þannig eru færðir milli læknishéraða, eigi eftir sem áður fullan rétt til læknisvitjunar í því héraði, sem þeir áður höfðu tilheyrt.

Í frv. er ákvæði um það, að allt að 6 tiltölulega fjölmenn, afskekkt byggðarlög eigi rétt á verulegum styrk úr ríkissjóði til að launa sérstaka hjúkrunarkonu, eða allt að 2/3 af launum hjúkrunarkonunnar. Þetta mun áður hafa verið tíðkað á einum eða tveim stöðum með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum, en ekki gert ráð fyrir þó þetta víðtækri heimild fyrr.

Nokkur fleiri atriði eru að vísu í frv., en ég vil leyfa mér að vísa til þeirrar mjög svo ýtarlegu grg., sem frv. fylgir, og mun ekki hafa þessi orð fleiri.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til heilbr.- og félmn.umr. lokinni.