29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

186. mál, læknaskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ekki man ég, hvaða ár það var, en það var líklega 1937 eða 1939, á þeim árum, sem það var geysilega mikið talað um þessi læknamál hér á Alþ. Þá skiptust menn í tvær mjög ólíkar fylkingar um þessi mál.

Sumir litu þannig á, að stefnan í læknamálum ætti að verða sú, að það kæmu upp spítalar á ýmsum stöðum um landið, við hvern þeirra yrðu tveir læknar, og um leið yrðu læknishéruðin stækkuð, — með tilliti til þess, að vegir hefðu batnað, brýr hefðu komið o. s. frv., þá yrði læknunum fækkað, og þessir tveir menn, sem yrðu læknar við spítala í stærri héruðunum, fullnægðu þá læknisvitjanabeiðnunum saman.

Aðrir héldu því fram, að þetta væri alröng stefna, landsspítalinn ætti að vera hér í Reykjavík. Hann ætti að taka á móti sjúklingunum. Svo ættu læknarnir að vera margir, helzt eins margir og prestarnir.

Um þetta var hnakkrifizt lengi, endaði með því, að enginn sigraði. Það var gengið inn á aðra stefnuna á einum stað og hina á hinum, sitt á hvað, eftir því sem hrossakaup og annað lá fyrir, og svo síðast sett n. í málið, sem í var landlæknir, borgarstjórinn í Reykjavík, núverandi, Gunnar Thoroddsen, og bæjarlæknirinn, er þá var í Reykjavík, Magnús Pétursson. Þeir hafa aldrei skilað áliti. Þeir hafa fengið greiddar 2000 kr. fyrir sitt starf fyrsta árið, en aldrei skilað áliti, og enginn veit enn þá, hvað út úr þeirra áliti kemur eða að hvaða niðurstöðu þeir hafa komizt, hafi þeir nokkuð gert.

Nú kemur hér nýtt frv., sem gengur enn á snið við þetta. Það setur ekki tvo lækna neins staðar, þar sem spítalar eru. Áfram einn læknir. Þeim dettur ekki í hug að setja tvo lækna á Blönduós, þó að það sé verið að reisa spítala þar, eða tvo lækna á Akureyri, þó að það sé kominn spítali þar, o. s. frv. Nei, einn læknir skal það vera áfram. Þó vita allir, að þeir, sem nýuppskornir eru, geta dáið drottni sínum, á meðan læknirinn er sóttur út í héraðið, sé hann aðeins einn. Aftur eru búin til ný læknishéruð alveg við hliðina á stöðum, þar sem tveir ættu að vera, eins og úti á Skagaströnd, 23 km frá Blönduósi, þar sem þurfa að koma tveir læknar eftir eitt eða tvö ár. Þar á að fá nýjan lækni. Hér er því enn þá sami grauturinn, nákvæmlega sami grauturinn og við deildum um hérna á Alþ., þegar þessi n. var sett til að reyna að finna lausn á málinu, og frv. er samið af form þeirrar n., landlækninum sjálfum. Ég veit ekki, hvað landlæknir segir um þennan gamla ágreining, en hann virðist ekki kominn að neinni niðurstöðu enn um, hvort réttari sé þessi stefnan eða hin.

Mér finnst þessi vinnubrögð neðan við allar hellur Alþ. setur nefnd, ráðh. skipar hana, hún á að starfa, hún skilar engu áliti — gerir ekkert. Hún á að fjalla um mikið deilumál á Alþingi, sem Alþ. gat ekki orðið ásátt um. Og svo nú eftir öll þessi ár kemur frv., byggt eins og það hafi ekkert verið um málið deilt áður og enginn skoðanamunur um það komið fram. Þetta er ekki rétt afgreiðsla á málinu. Það verður að reyna að finna út úr því, hvor stefnan eigi að ríkja, og svo fylgja þeirri stefnu. Og þegar n. nú hefur fjallað um þetta mál, og ég er með því, að því sé vísað til hennar aftur, þá vona ég, að hún taki þetta til athugunar. Það er óforsvaranlegt að hafa ekki nema einn lækni, þar sem eru stór sjúkrahús, og það er engin ástæða til að setja nýjan lækni 10–20 km frá stað, þar sem tveir læknar eru og á milli bílfærir, upphleyptir akvegir.