24.11.1953
Neðri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Lúðvík Jósefsson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði ekki lokið máli mínu að fullu í gær, þegar umr. var frestað, en átti ekki mikið óflutt af minni ræðu, svo að ég mun nú ekki hafa mál mitt langt að þessu sinni.

Ég tók eftir því í ræðu hæstv. viðskmrh., þegar hann talaði fyrir þessu frv., að hann taldi, að það markaði tímamót, og hæstv. forsrh. lagði áherzlu á hið sama og sagði, að hér væri tvímælalaust um nýja stefnu að ræða í verzlunar- og fjárfestingarmálum. Ég hafði nú lýst því í minni fyrri ræðu, að ég kem ekki auga á það í þessu frv., hvar þar er að finna þau ákvæði, sem mættu leiða til þess, að hér yrði um verulega stefnubreytingu að ræða í þessum málum, og finnst mér, að það geti þá ekki legið í öðru en því, að í þessu frv. er svo fyrir mælt, að ríkisstj. sé heimilt með reglugerð að veita aukið frelsi í sambandi við innflutning á vörum og í sambandi við fjárfestingarmál. En þó held ég, að það sé ekki að efa, að sams konar heimild sé nú í dag fyrir hendi í þessum efnum, og að því leyti boði lögin í rauninni heldur ekkert nýtt. Ég veit ekki annað en að hæstv. ríkisstj. hafi nú fulla heimild til þess að veita með reglugerð allverulega rýmkun á innflutningi og á fjárfestingarframkvæmdum manna. Auk þess er svo það, að ekki væri óeðlilegt, að hv. alþm. færu þá fram á það við þá ráðh., sem lýsa yfir, að þetta frv. tákni hér tímamót í þessum efnum og nýja stefnu, að þeir lýstu því hér á hv. Alþ., hvaða rýmkun í þessum málum er fyrirhuguð, að hvaða leyti á að gera innflutninginn frjálsari en nú er og að hvaða leyti á að gera fjárfestingarframkvæmdir minni höftum háðar en nú er. Þetta hefur ekki komið hér fram, og ég fyrir mitt leyti vildi óska eftir því, að hér yrðu veittar upplýsingar um það, ef nú er ætlunin í rauninni að gefa út reglugerð, sem rýmkar eitthvað í þessum efnum frá því, sem verið hefur.

Það hefur verið lögð nokkur áherzla á það, að það þurfi að auka frelsið, það þurfi að auka verzlunarfrelsið, auka frelsi einstaklinga og félaga til framkvæmda í landinu. En það er nú svo, að það hefur komið greinilega í ljós, að það virðast ekki allir eiga við eitt og hið sama, þegar þeir tala um aukið frelsi í verzlunar- og athafnamálum. Ég dreg það t.d. mjög í efa, að það sé það frelsi, sem meiri hluti landsmanna óskar eftir í þessum efnum, að t.d. verzlunarstéttin fái rýmra olnbogarúm til þess að flytja inn og verzla með hvers kyns óþarfavörur eða að menn fái ótakmarkað frelsi til þess að leggja í fjárfestingarframkvæmdir, sem eru hreinlega óþarfar og koma þjóðinni ekki, hvorki í nútíð né framtíð, að gagni.

Ég tók eftir því, að hæstv. viðskmrh. skýrði hér frá í sinni ræðu, að á þeim tíma, sem liðinn er af þessu ári, eða ég held reyndar á níu fyrstu mánuðum þessa árs, hefði sparifjáraukning numið í kringum 140 millj. kr. Það er í rauninni gleðilegt, að sparifjáraukningin skuli hafa orðið þetta mikil. Það er ofur eðlilegt, þegar um sparifjáraukningu er að ræða, að þá muni fjármagnið leita í auknum mæli til hvers kyns kaupa og framkvæmda. Ef þá ríkir hið fullkomna frelsi, sem sumir virðast keppa að, t.d. með innflutning og sölu á alls konar óþarfavarningi,en raunverulega gilda í framkvæmdinni allverulegar hömlur á því, sem varðar framkvæmdir félaga og einstaklinga til hinna stærri og nauðsynlegri framkvæmda, þá er ósköp hætt við því, að einmitt þetta fjármagn, sem nú er að safnast fyrir, leiti beinlínis í það að kaupa óþarfann. Ég lít svo á, að jafnvel þó að sé um nokkra sparifjáraukningu að ræða í landinu, þá verði ekki ráðizt í það af einstaklingum eða félögum að hefja gagnlegar byggingar fyrir framtíðina, meðan svo háttar málum í landinu, að það er ekki hægt að fá nein skapleg lán til þeirra framkvæmda. Ég á heldur ekki von á því, að einstaklingar eða félög leggi verulega mikið fé fram til þess að kaupa fiskiskip, stór eða smá, byggja fiskiðjuver eða annað þess háttar, meðan þannig er högum háttað í okkar landi, að það er ekki möguleiki á því að fá neitt eðlilegt fé að láni til þessara framkvæmda. Það er að vísu gott, að sparifé safnast, en meðan þær reglur gilda í landinu, að lánastarfseminni er háttað eins og nú er, verður kyrrstaða í öllum gagnlegum framkvæmdum landsmanna. Það frelsi, sem menn væru þá að berjast fyrir, mundi rannverulega koma fram í því, að sparifjáraukningin mundi sækja í að kaupa það, sem væri flutt inn hömlulaust, alls konar óþarfavarning, sem framtíðinni kæmi ekki að neinu gagni. Það er því mín skoðun, að eitt af því fyrsta, sem þyrfti að tryggja, ef ætti að verða um stefnubreytingu raunverulega í okkar landi í þessum efnum að ræða, sé, að fjármagnið verði látið renna til gagnlegra framkvæmda, sem horfa til þjóðarheilla og eru meira miðaðar við framtíðina en daginn í dag, — það verði að skapa möguleika til þess, að það fjármagn, sem saman safnast á hverjum tíma í formi sparifjár, gangi einmitt til þessara framkvæmda í gegnum lánastarfsemi. Engin slík ákvæði er að finna í þessu frv., og ekkert slíkt hefur komið fram hér í þessum umr., sem maður gæti búizt við að ætti að þýða slíka breytingu.

Ég vil lýsa því yfir beinlínis sem minni skoðun, að aukið innflutningsfrelsi á slíkum varningi sem ég hef rætt um er ekki æskilegt. Það mun ekki bæta úr neinu ástandi í okkar landi nú, nema þá helzt að auka nokkuð á gróðabrall þeirra, sem vilja endilega verzla með slíkan varning.

Sem dæmi til skýringar á því, hvað ég á í rauninni við í þessum efnum, vil ég nefna það, að þó að svo hátti, að einstaklingar, vegna þess að það er mikil atvinna í landi, safni nokkru fé saman, — við skulum taka til dæmis, að einstaklingur hefur lagt fyrir á tveimur, þremur árum 40–50 þús. kr., hann hefur tekið sinn þátt í því að auka spariféð í landinu, vegna þess að hann hefur haft mikla atvinnu og góðar tekjur og hans hagur hefur verið þannig, að hann hefur getað lagt fyrir af einni eða annarri ástæðu, það eru litlar vonir til þess, að þessi maður mundi leggja í það að byggja sér íbúðarhús, sem kostar 300 þús. kr. eða jafnvel yfir það, á meðan þannig er farið með málin, að hann á enga leið til þess að fá neitt lán til viðbótar við það fé, sem hann leggur fram til þessarar framkvæmdar. Hann á því ekki þess kost að breyta því fé, sem hann leggur fyrir, í gagnlegar framkvæmdir fyrir þjóðina bæði fyrir nútíð og framtíð, en hætt er aftur við því, að hann ráðstafi sínu fé einmitt í krafti þessa verzlunarfrelsis, sem sumir eru að tala um, í óþarfavarninginn.

Ég vil líka einmitt í þessu sambandi, þegar hér er verið að upplýsa á hv. Alþ., að sparifjáraukningin hafi numið um 140 millj. kr. á 9 mánuðum ársins, að fyrir mér snýr það þannig og eftir því, sem ég þekki bezt til, þá veit ég ekki til þess, að það hafi í annan tíma verið þrengra fyrir framleiðsluatvinnuvegi landsins heldur en einmitt nú í dag að fá nokkurn pening að láni til eðlilegra framkvæmda. Það hefur aldrei verið örðugra en nú í dag að fá fé að láni til þess að kaupa nýja n fiskibát. Það hefur aldrei verið örðugra en nú í dag að fá fé að láni, meira að segja í gagnlegan framleiðslurekstur. Það hefur því síður en svo orðið stefnubreyting í þeim efnum, jafnvel þó að sparifé sé að aukast í landinu; það hefur síður en svo orðið stefnubreyting í þá átt að hlynna í rauninni að frelsi manna til þess að vinna að þessum gagnlegu framkvæmdum fyrir þjóðarheildina.

Mér sýnist, að þetta frv. bendi að öllu leyti til þess, að í staðinn fyrir 5 manna fjárhagsráð þá komi 2 manna innflutningsskrifstofa. Ég get ekki séð, að það verði um aðra breytingu að ræða. Og ef innflutningsskrifstofan, sem nú á að taka við, á að starfa í meginatriðum á sama grundvelli og fjárhagsráð hefur starfað, þá verður þar heldur engin breyting á í þessum efnum.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. sagði m.a. í sinni ræðu, að það væri í rauninni sá grundvallarmunur á þessu frv. um innflutningsskrifstofu og l. um fjárhagsráð, að þetta frv. væri viljayfirlýsing ríkisstj. um breytta stefnu, um aukið frelsi, í staðinn fyrir, eins og maður gat helzt skilið, að þá hefðu aftur l. um fjárhagsráð verið hið öfuga, viljayfirlýsing um, að það ætti að auka höftin. Hver sá, sem ber nú saman l. um fjárhagsráð og þetta frv., sem hér liggur fyrir, hlýtur að taka eftir því, að það var meira að segja lofað í þessum efnum miklu meiru í fjárhagsráðsl. heldur en nokkurn tíma í þessu frv. Og það var sannarlega ekki sparað af þeim, sem þá höfðu framsögu fyrir því frv. um fjárhagsráð á sínum tíma, að geta fagrar yfirlýsingar og mikil loforð um það, að úr ýmsu yrði bætt hér á landi. Ég fyrir mitt leyti tek því með mikilli varúð allar yfirlýsingar um það, að andi þessara l. sé eitthvað annað en andi þeirra l., sem þar voru fyrir áður.

Sömuleiðis finnst mér ástæða til þess að segja það út af þessari yfirlýsingu forsrh., að þá væri full ástæða til þess, að hann eða ríkisstj. lýsti því hér yfir fyrir alþm., hvaða breytingar eru í rauninni fyrirhugaðar, sem verða áþreifanlegar í þessum efnum. Hvað er það, sem á að tilkynna með nýrri reglugerð og skapar virkilega aukið frelsi, það frelsi, sem menn óska raunverulega eftir í þessum efnum? Hvað er það, sem fyrir liggur? Á meðan það kemur ekki fram, þá er engin ástæða til annars en að þm. taki frv. eins og það birtist hér, og það er ekki hægt að finna annað en að það sé í meginatriðum á sama grundvelli og frv. um fjárhagsráð var.

Ég hef lagt hér fram litla brtt. við þetta frv. Ég hef í fyrri hluta ræðu minnar gert grein fyrir þeirri brtt. og sé því ekki ástæðu til þess að fara að ræða hana frekar nú, en í sambandi við þau ummæli, sem hæstv. viðskmrh. lét hér falla m.a. um tilgang frv., þá þætti mér full ástæða til þess að búast við því, að mín brtt. yrði einmitt samþ., og ég vil vænta, að hún nái hér fram að ganga.