29.03.1954
Efri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (2820)

186. mál, læknaskipunarlög

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að mér finnst þessi siðferðisprédikun hæstv. dómsmrh. mjög að ófyrirsynju flutt hér í d. og alveg fullkomlega að tilefnislausu.

Samkv. grg. þeirri, sem frv. fylgir, og eins og frsm. tók skýrt fram hér í byrjun, þá er þetta frv. flutt samkvæmt beiðni landlæknis og þess getið jafnframt, að um það mál hafi verið rætt við hæstv. heilbrmrh. (Dómsmrh.: Ekki er þess getið í grg.) Þess er getið í bréfi landlæknis, og það hefur ekki verið vefengt af neinum. Ef hæstv. heilbrmrh. hefði talið eitthvað því til fyrirstöðu, að frv. væri flutt hér í d. af n., hefði hann án efa haft uppburði til þess að láta n. um það vita, því að honum var fullkunnugt um, að málíð yrði tekið til flutnings.

Hugleiðingum hæstv. ráðh. um það, hvernig embættismönnum beri að haga sér í sínum störfum, get ég raunar látið ósvarað. En ég hygg, að það geti enginn meinað landlækni, ef hann telur það rétt, að senda sín erindi beint til ákveðinnar þn. Að sjálfsögðu mun svo sú þn. bera sig saman við þann ráðherra, sem málið heyrir undir, ef hún telur ástæðu til þess, en annars hefur ráðh. allra manna bezt aðstöðu að sjálfsögðu til þess að fylgjast með gangi mála á þingi.

Ég vil alveg taka undir það, sem hv. frsm. sagði hér, að einmitt með tilliti til þess, að á næsta þingi má þess vænta. að frv. um þetta efni verði lagt fyrir Alþ., þá er beinlínis flýtisauki að því, að málið komi fram nú, þannig að hv. þm. geti kynnt sér það þegar á þessu þingi, ekki sízt þegar litið er til þess, að hér liggja nú fyrir þessu þingi og hafa legið undanfarið ýmsar tillögur um breytingar á læknaskipunarlögunum í einstökum atriðum og því einmitt mikilsvert að fá til hliðsjónar hugmyndir landlæknis um heildarskipun þessara mála.