18.12.1953
Sameinað þing: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (2832)

133. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég leyfi mér fyrir hönd ríkisstj. að leggja til, að Alþ. ákveði fyrir sitt leyti að fresta fundum þingsins frá og með deginum í dag að telja, enda komi það saman aftur ekki síðar en 5. febr. n. k., svo sem greinir í till.

Ýmis rök hníga að þessari till. Ég nefni fyrst þau, að eins og hv. þm. er kunnugt, þá tók núverandi ríkisstj. ekki við völdum fyrr en rúmum hálfum mánuði áður en Alþ. kom saman. Henni vannst þess vegna nær enginn tími til að undirbúa þau mál, sem hún þarf að leggja fyrir Alþ. til efnda á málefnasamningnum, sem gerður var, þegar stjórnin var mynduð.

Stjórnin hefur að sönnu eftir fremstu getu unnið að málum sínum síðan, svo sem frá var skýrt við eldhúsdagsumræður þær, sem nýverið fóru fram hér frá Alþ., en hún hyggst nú að nota þinghléið til þess að reyna að komast nokkru lengra áleiðis í þeim efnum. Þá var það og vilji margra þm., ekki sízt þeirra, sem utan Reykjavíkur búa og ýmsum störfum þurfa að gegna í heimahögum um áramótin, að hlé verði á störfum Alþ. Og enn get ég þess, að líklegt er, að bæjarstjórnarkosningar, sem fram eiga að fara í janúarlok víða um land, mundu trufla störf þingsins, og mætti ýmislegt fleira til nefna.

Ég leyfi mér því að vænta, að hv. Alþ. samþykki þessa till.