18.12.1953
Sameinað þing: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (2833)

133. mál, frestun á fundum Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru, eins og hæstv. forsrh. kom inn á, að vísu mörg rök, sem mæla með því að fresta þingi til þess tíma, sem hér er lagt til, og ekki óeðlilegt að veita hæstv. ríkisstj. þann rétt og það vald. En það er ekki óeðlilegt, að áður en það sé gert, þá fengju þm. eitthvað að vita um, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér að gera í þeim málum, sem eru allra brýnust úrlausnar núna, viðvíkjandi sjávarútveginum sérstaklega og ekki hvað sízt viðvíkjandi bátunum, þar sem vitanlegt er, að nú stendur yfir deila og útlit fyrir eða a. m. k. ekki víst, að flotinn fari af stað í janúarbyrjun.

Ég skil það að vísu mjög vel, að hæstv. ríkisstj. vill máske sumpart með tilliti til þessa hafa heimild til þess að geta gefið út bráðabirgðalög í þinghléinu, en um leið og farið er fram á það við þingmenn að veita þennan rétt, þá væri ekki óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj. segði okkur, að hún hugsaði a. m. k. að vinna alvarlega að þessari lausn og að því, að það mætti takast að koma bátaflotanum út.

Ég vildi þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort það hefði enn þá verið nokkuð ráðið af hálfu ríkisstj. viðvíkjandi þeim málum. Það er, eins og gefur að skilja, ekki að öllu leyti skemmtilegt að þurfa að skiljast við þau eins og nú standa sakir, en hins vegar vitanlegt aftur á móti, að ef svona till. væri ekki samþ., þá hefði ríkisstj. ekki heldur rétt til þess að gefa út nein brbl., sem gætu þó máske orðið að einhverju leyti til aðstoðar við lausn á deilunni.

Ég vildi þess vegna mega vænta þess, að hæstv. forsrh. segði okkur, hvað ríkisstj. hyggst að gera í þessum efnum eða að hún hyggist a. m. k. að sínu leyti að gera sitt ýtrasta til þess að finna lausn á þessum málum í tíma, þannig að það þurfi ekki að fara svo, að bátaflotinn liggi jafnvel mestallan janúar.