18.12.1953
Sameinað þing: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2837)

133. mál, frestun á fundum Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir mjög miður, að hæstv. forsrh. treystir sér ekki til þess að gefa loforð um að láta ógert að gefa út brbl., t. d. til lausnar á deilunni um fiskverðið, þann tíma, sem þingfresturinn stendur, og það dregur úr mér að greiða þessari þáltill. atkv. Ég geri ráð fyrir, að ég sitji hjá við atkvgr., og áskil mér fullan rétt til, ef til þess skyldi koma, að finna að þeim gerðum hæstv. ríkisstj. að taka sér vald til útgáfu brbl. í sambandi við lausn þessa máls.

Hæstv. ráðh. sagði, að 1948 hefði þáverandi ríkisstj. fengið sams konar heimild undir svipuðum kringumstæðum. Ég minnist þess nú ekki gerla, hvort þetta er rétt frá skýrt. En að því er mína afstöðu snertir, þá get ég sagt það, að hún var öll önnur þá en nú. Þá var sá maður forsrh., sem hafði stuðning Alþfl. og ég vissi að mundi ekki beita þessari heimild, án þess að það yrði fullkomlega athugað í samráði og með vitund Alþfl. En eftir reynslu á starfi hæstv. núverandi ríkisstj. hef ég litla trú á því, að Alþfl. eða þeim þm., sem hann fylla, verði gerð fullnægjandi grein fyrir málavöxtum, þó að gripið yrði til slíkra úrræða að gefa út brbl.