24.11.1953
Neðri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja neitt umr. um þetta mál, því að sú ræða, sem hæstv. forsrh. hélt, gefur heldur ekki tilefni til þess. Ég vildi aðeins ítreka frekar en ég gerði í gær þann mun, sem er á þeim till., sem við sósíalistar höfum alltaf flutt um lausn málanna hér á Íslandi á sviði fjárhagsog atvinnulífsins. Okkar till. hafa verið um þjóðnýtingu á ákveðnum sviðum í þjóðlífinu. Það, sem fólst í fjárhagsráðsl., og það, sem felst í núverandi l., eru till. um einokun til handa einstökum fésýslumönnum á ákveðnum möguleikum. Það er þetta tvennt, sem alltaf verður að aðskilja algerlega, þegar maður er að ræða um þessi mál, hvort t.d. ríkið tekur í sínar hendur til þess að þjóðnýta einhvern alveg ákveðinn hluta atvinnulífsins og rækir hann þar með, t.d. innflutningsverzlun, til ágóða fyrir alla þjóðina eða hvort ríkisstj. fær vald til þess að geta hagnýtt fyrir einstaka fésýsluhópa allan innflutning landsins eða eins stóran hluta af honum og ríkisstj. lízt. Og ég hef svo greinilega sýnt fram á, hvaða heimilda ríkisstj. er að afla sér með þessum l. til að gera allt slíkt með reglugerðum og hvernig hún hefur hagnýtt undanfarið þessa möguleika, að ég þarf ekki frekar orðum um það að fara. Okkar till. frá 1946, till. um þjóðnýtingu innflutningsverzlunarinnar m.a., koma til með gagnvart sögunni, þegar dæmt verður um þróun þessara ára, að standa sem till. í anda sósialismans, þar sem hins vegar sú framkvæmd, sem verið hefur, og þau l., sem hér á nú að fara að lögfesta, kemur til með að standa sem dæmi um einokunarauðmagnið á Íslandi, þess vald og þess hagnýtingu á ríkisvaldinu einstökum fésýsluhópum til framdráttar.

En það var eitt, sem ég alveg sérstaklega beindi fyrirspurnum til hæstv. ríkisstj. um í minni fyrstu ræðu um þetta mál, og það var út af bátagjaldeyrinum, hvort hæstv. ríkisstj. áliti, að samkvæmt 1. gr. þessara laga væri henni heimilt að gefa út reglugerðir eins og fjárhagsráð var látið gefa út eftir ósk ríkisstj. 8. mars 1951, um svo kallaðan bátagjaldeyri, og eins og ég hef margsýnt fram á þýðir líka, að það væri hægt að gefa út reglugerð um smjörgjaldeyri, togaragjaldeyri eða hvaða gjaldeyri sem vera skal, lækka gengi krónunnar raunverulega alveg eins og ríkisstj. þóknast bara með reglugerðum um slíkar sérstakar tegundir gjaldeyris. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til að svara þessu, og ég veit, að hún á bágt. Hún veit, að hún er búin að brjóta lög í tvö ár viðvíkjandi bátagjaldeyrinum og heimta inn á annað hundrað millj. kr. af þjóðinni án lagaheimildar. Nú þykist ég vita. að hún álitur, að eins og þessi lög eru orðuð, þá séu þær skorður, sem áður voru í fjárhagsráðsl. við setningu reglugerða eins og um bátagjaldeyrinn, í brott fallnar, þannig að með reglugerðinni samkvæmt 1. gr. þessara laga geti ríkisstj. innheimt peninga banda sjálfri sér eða öðrum eins og henni þóknast af almenningi og hækkað verð á innfluttum vörum og raunverulega fellt gengi íslenzku krónunnar í sambandi við einstakar vörutegundir eins og henni þóknast. Þessu fæst hæstv. ríkisstj. ekki til að svara, og ég veit, að við fáum ekkert svar við þessu, fyrr en við fáum næstu reglugerðirnar um smjörgjaldeyrinn eða togaragjaldeyrinn eða annað slíkt.

Ég vildi hins vegar skjóta því til þeirrar n., sem þær þetta til athugunar, að hún gangi alvarlega úr skugga um þessa hluti og knýi fram svör um það, að það sé alveg greinilegt, hvort eftir þeim l., sem nú á að fara að samþ., sé svona álagning eins og bátagjaldeyrisins heimil. Ég hef áður gert það að till. minni, að þetta frv. fari til fjhn., og ég vil vonast til, að þessi hv. n. gangi úr skugga um þessi mál, þannig að það sé hægt að vita alveg um skilning Alþ., þegar þetta mál kemur til 2. umr., hvað þetta efni snertir.