10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (2895)

198. mál, fiskveiðasjóður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð á s. l. hausti, þá var mjög um það rætt innan stjórnarflokkanna að taka beinlínis upp í stjórnarsamninginn ákvæði um eflingu fiskveiðasjóðsins. Sú varð þó að lokum niðurstaðan af þeim umr., að ekki þótti rétt að hníga að því ráði. Með réttu þótti mikið í fang færzt að gefa þau fyrirheit, sem tilgreind eru í stjórnarsamningnum varðandi verklegar framkvæmdir og nauðsynlegar lántökur í því sambandi, svo sem 250 millj. kr. til rafvirkjana í dreifbýlinu og 100 millj. til áframhaldandi Sogsvirkjunar, stórkostlegar aðgerðir varðandi húsabyggingamál og annað fleira, sem þar greinir. Vitað var og, að ef kringumstæður leyfðu, væri öruggur þingvilji í stjórnarflokkunum — og efa ég nú ekki, að hans mætti einnig leita víðar á Alþ. — um það að efla fiskveiðasjóðinn eða að afla meira fjár til stofnlána sjávarútvegsins.

Á öndverðu þessu þingi kom þegar í ljós ríkur hugur margra stjórnarliða um að hefjast handa um flutning frumvarpa eða tillagna, sem gætu fullnægt betur þessari ríku lánsfjárþörf heldur en auðið er að óbreyttum lögum og heimildum. Það varð þó enn að samkomulagi milli stjórnarflokkanna að hafast ekki að í bili, heldur skyldu menn athuga, hverju fram yndi um framkvæmd þeirra fyrirheita, sem gefin hefðu verið í stjórnarsamningnum, og reyna þá, ef auðið þætti, að taka málið upp í þinglokin.

Nú liggja hér fyrir tvær þáltill., önnur frá hv. fjvn., sem hv. formaður nefndarinnar með ágætum rökum í fallegri ræðu hefur hér lýst. Hin er frá stjórnarliðum og raunar einum stjórnarandstæðingi, sem á sæti í sjávarútvegsnefnd. Á ég þar við hv. 5. landsk. (EmJ). Báðar þessar till. hníga að því, að gerðar verði nú ráðstafanir, ef auðið er, til þess að afla þessum sjóði, fiskveiðasjóðnum, meira lánsfjár. Sú till., sem hér er til umr., takmarkast fyrst og fremst við það, að sjóðnum verði tryggt aukið fé í því skyni, að hann hafi aðstöðu til þess að lána til bátabygginga eða bátasmíða innanlands. Hin till. — hún er hér næsta mál á dagskrá, og ég vænti, að hæstv. forseti telji mig ekki fara út fyrir ramma eðlilegra umr., þó að ég minnist á hana — hnígur að því að láta fram fara á þessu ári endurskoðun laga frá 1943 um fiskveiðasjóð, m. a. í því skyni, að starfsfé sjóðsins og starfssvið verði aukið, og leggja frv. til nýrra laga um sjóðinn fyrir næsta Alþ. Ég segi það um þessar tvær till., og veit mig mæla það fyrir hönd ríkisstj. allrar, að það er mikill hugur í mönnum um það að geta framkvæmt það, sem þarna er farið fram á. Ég vil hins vegar ekki á þessu stigi málsins staðhæfa, að sá góði vilji leiði til þeirrar æskilegu niðurstöðu, að auðið verði að tilkynna Alþ., þegar það kemur saman á hausti komanda, að fyrir hendi sé nú nýtt stofnfé eða lánsfé handa fiskveiðasjóðnum. Ég get gefið um það fyrirheit, að verði þessar till. samþ. báðar, sem ég tel öruggt að verði, þá mun stjórnin í fyrsta lagi láta endurskoða lögin, sem till. á þskj. 712 mælir fyrir um, og í öðru lagi reyna að afla sjóðnum fjár, en um það fjalla báðar till., till. á þskj. 642, sem nú er hér til umr., og hin á þskj. 712.

Það væri að sjálfsögðu full ástæða til að ræða þetta merka mál, þ. e. a. s. starfsemi fiskveiðasjóðsins og hlutverk hans í þjóðfélaginu, nokkru ýtarlegar af minni hendi við slíkar umr., en með því að hv. frsm. gerði málinu svo glögg skil sem hann gerði og þar sem nú er mjög áliðið þingtímans og með því enn fremur, að ég geri ráð fyrir, að af hendi flm. till. á þskj. 712 verði einnig gerð nokkur grein fyrir, hvað fyrir þeim vakir, sem þá till. flytja, sé ég ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Í nafni stjórnarinnar lýsi ég yfir, að hún mun með ánægju taka á móti þessum till. og reyna að uppfylla þær vonir, sem tengdar eru við flutning þeirra, án þess að mér eða öðrum, sem sæti eiga í ríkisstj., sé á þessu stigi málsins auðið að gefa yfirlýsingar um annað eða meira en skilning á málinu og góðan vilja til að hefjast handa um framkvæmdir.