10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (2899)

198. mál, fiskveiðasjóður

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það voru eiginlega fyrst og fremst nokkur orð, sem hv. þm. Vestm. (JJós) lét falla áðan, sem gáfu mér tilefni til þess að standa hér upp og segja nokkur orð um þáltill. þá, sem hér liggur fyrir.

Hann fór, eins og vænta mátti, að vísu viðurkenningarorðum um þá viðleitni, sem hér væri uppi um eflingu fiskveiðasjóðsins og þann tilgang, sem aðallega er undirstrikaður í þessari till. til þál. á þskj. 642 um lánveitingar úr sjóðnum, þ. e. a. s. til bátasmíða innanlands. En hann tók fram um leið, og sjálfsagt einnig réttilega, að það væri mjög mikill verðmunur á þeim bátum, sem keyptir væru frá útlöndum, og hinum, sem smíðaðir væru hér. Hann nefndi í því sambandi — ég held ég hafi tekið rétt eftir — 3500–4000 kr. á rúmlest báts. Ég skal nú ekki fara langt út í það að ræða þessa tölu eða aðra, sem nefnd kann að vera um þennan mismun. Hitt er víst, að það er einhver mismunur þarna á milli, þó að ég leyfi mér nú að draga í efa, að þessi mismunur sé eins mikill og hv. þm. nefndi.

Þá vil ég einnig leyfa mér að benda á, að það hafa verið hér uppi till. í hv. Alþ. að undanförnu til þess að reyna að draga úr þessum mismun og gera ráðstafanir til þess að lækka hann sem allra mest. M. a. var hér samþ. heimild í fyrra — og ég ætla að hún hafi einnig verið gerð nú í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, — um að heimila ríkisstj. að gefa eftir tolla á efni til bátasmíðanna, og voru leidd rök að því, að þetta mundi draga mjög verulega úr þeim kostnaðarmismun, sem þarna er á ferð á milli útlendra og innlendra báta. Ég veit þó, að þó að þetta sé gert, þá dugir það sjálfsagt ekki til, og það má enn betur, ef duga skal. Hins vegar ber á það að líta, að það er ákaflega nauðsynlegt, einnig fyrir fiskimennina, sem bátana kaupa, að starfsemi skipasmíðanna leggist ekki algerlega niður, vegna þess að þá vanti verkefni, því að það verður ekki hægt til lengdar að reka hér skipasmíðastöðvar, sem eingöngu byggjast á viðgerðum og eru svo tímabundnar eftir árstíðum, að það geta verið tímabil, sem þurfi að halda á fjölda smíða til viðgerða, en svo aftur önnur, sem ekkert er að gera. Þetta bil er ekki hægt að brúa á annan hátt en þann, að þessar skipasmíðastöðvar, sem kannske að mestu leyti vinna að viðgerðum báta, mjög nauðsynlegu og óumflýjanlegu fyrir bátaeigendurna, hafi einnig við hliðina á viðgerðunum möguleika til nýsmíða, sem þær geti beint starfsmönnum sínum að, þegar störf við viðgerðirnar eru ekki fyrir hendi. Þó að það sé rétt, sem hv. þm. sagði, að þetta sé a. m. k. jöfnum höndum mál iðnaðarmanna eins og sjávarútvegsmanna, þá er því ekki að leyna, að þetta er vissulega einnig þýðingarmikið atriði fyrir útgerðarmennina og eigendur bátanna, að starfsemi þessi geti haldizt við lýði og falli ekki niður, því að hvar eru þeir þá staddir með menn til þess að gera við sína báta, þegar þeir þurfa á því að halda? Ég held þess vegna, að það sé vissulega rétt stefna að reyna að styrkja bátasmíðina innanlands, bæði með því að reyna að draga úr þeim hömlum, — eða hvað ég á að kalla það, — þeim steinum, sem hafa verið lagðir í þeirra götu með ósanngjörnum tollgreiðslum á efnivörum, og eins með hinu, að gera fiskveiðasjóði kleift að lána til þessara bátabygginga á þann hátt, að eigendur bátanna eða kaupendur þeirra sækist eftir því frekar lánskjaranna vegna að fá bátana byggða innanlands. Þannig mætti einnig draga nokkuð úr þeim mismun, sem eftir kann að verða á milli hins erlenda og innlenda báts.

Hv. þm. lagði á það höfuðáherzlu í sínu máli, að það yrðu ekki lagðar neinar hömlur á innflutning erlendra báta, þar sem þeir væru svona miklu ódýrari, eins og hann vildi nú vera láta, heldur en hinir innlendu (Gripið fram í.) eða á meðan, segir hv. þm., þetta er ekki leyst. En ég held þvert á móti, að það megi ekki leyfa takmarkalaust innflutning á erlendum bátum, jafnvel þótt ekki sé til fulls búið að leysa þetta, sem ég hef nú verið að geta um, vegna þess að þegar svo margir erlendir bátar eru komnir til landsins, þá verður þörfin fyrir nýsmíðina innanlands kannske svo tiltölulega lítil, að þeir geta ekki rekið sínar skipasmíðastöðvar, miðað við hana eingöngu.

Ég held þess vegna, og það er það, sem ég vildi undirstrika, að það beri að fara varlega í það og mjög varlega að heimila mönnum að flytja takmarkalaust erlenda báta til landsins.

Ég vil líka á það benda, að margir útgerðarmenn, — það er mér kunnugt um, — vilja heldur báta, sem smíðaðir eru hér heima, heldur en þá, sem erlendis eru gerðir, jafnvel þó að þeir séu eitthvað dýrari, vegna þess að þeir telja, að þeir séu traustbyggðari og betur sniðnir eftir hinum íslenzku þörfum.

Allt þetta er nú kannske útkjálkaatriði af því máli, sem hér er til umræðu, en snertir það vissulega þó. Það, sem hér er til umræðu, er það, á hvern hátt fiskveiðasjóður verði bezt efldur til þess að sinna bæði þessu verkefni og öðrum, sem hann þarf nú að sinna og honum er ætlað að sinna, og kannske enn öðrum nýjum, sem ekki hefur enn verið lögtekið að hann sinni.

Ég vil í því sambandi leyfa mér að geta þess, að þessi mál fiskveiðasjóðsins hafa verið til umr. í sjútvn. Nd. frá því að þingið kom fyrst saman. Það hefur oft verið á eftir því ýtt þar í n., að einhver lausn væri fundin á þeim málum, en það hefur hvorki gert að reka né ganga. af hvaða ástæðum sem það hefur nú verið, og ég tel, að báðar þessar till., sem hér eru á dagskrá á þessum fundi, séu raunverulega ekki nema bráðabirgðaúrræði, sem séu ekki nándar nærri nóg til þess að leysa úr þeim vanda, sem fyrir liggur.

Hv. 5. þm. Reykv. lýsti því hér áðan, hvernig fjármálum fiskveiðasjóðs væri komið. Þeim er í stuttu máli þannig komið, að allt laust fé sjóðsins, sem hann átti og nam allverulegri upphæð fyrir stuttu, eða nokkuð miklu á annan tug milljóna, — allt þetta fé er uppétið eða sem sagt uppétið, því öllu ráðstafað í nýjar lánbeiðnir, og þó ekki hægt að sinna nema rétt um helmingnum eða tæplega helmingnum af þeim lánbeiðnum, sem borizt hafa. Það liggja enn óafgreiddar, sagði hann, hjá stjórn fiskveiðasjóðs umsóknir — ég held, að ég hafi tekið rétt eftir — í kringum 16 millj. kr., án þess að það sé nokkur peningur til þess að láta upp í þessi lán. Upp í þetta hefur svo sjóðurinn í ár náttúrlega sínar árlegu tekjur, sem mér er sagt að nemi um 8 millj. kr., og svo heldur ekki meira.

Í þeirri till., sem hér liggur fyrir, á þskj. 642, er skorað á hæstv. ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að afla fiskveiðasjóði viðbótarfjár til nauðsynlegra stofnlána vegna endurnýjunar og eðlilegrar aukningar fiskibátaflotans með bátasmíði innanlands. Nú langar mig til að spyrja: Hvernig er ætlazt til, að hæstv. ríkisstj. geri þetta? Hvaða möguleika hefur hún til að gera þetta? Við heyrðum, að hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að hann vildi líta á málið með fullum skilningi, en hann treysti sér ekki til þess að lofa neinu. Í l. um fiskveiðasjóð er, að ég ætla, eingöngu heimild til þess að taka 4 millj. kr. lán, þannig að það ýtrasta, sem hægt væri þá að koma sjóðnum til hjálpar með því að nota allar hans heimildir og þó að ríkisstj. tækist nú að fá fé til þess, að þessar heimildir væru fullnotaðar, þá yrðu það þó ekki nema 4 millj. kr., og það er í þessu sambandi ekki nema lítið brot af því, sem þarf á þessari stundu. Það hefur þess vegna orðið að ráði hjá nokkrum meðlimum sjútvn. Nd. að flytja aðra till., þar sem skorað er á ríkisstj. að láta fara fram heildarendurskoðun á l. um fiskveiðasjóð og taka þar m. a. til athugunar, hvort ekki mætti setja ný ákvæði um fjáröflun til sjóðsins og enn önnur um aukið starfssvið fyrir sjóðinn. En þessi till. kemur náttúrlega ekki að neinu gagni á þessu ári að öðru leyti en því, að hún undirbýr málið, ef samþ. verður, og getur náttúrlega þar af leiðandi orðið og verður vonandi til gagns fyrir framtíðina. En þó að ég sé hér aðili að annarri till., þá finnst mér þetta of skammt farið. Það er enginn vafi á því, að fiskveiðasjóður þarf á miklu meira fé að halda heldur en hér getur verið um að ræða, nema þá með breyttum l. sjóðsins, og samkvæmt yfirlýsingu hæstv. forsrh., þá er meira að segja engan veginn víst, að það fé fáist, áður en þing kemur saman næst.

Ég minnist þess í þessu sambandi, að það hefur hér áður á fyrri þingum verið talað um bátasmíðar innanlands og um aukningu fiskveiðasjóðs í því sambandi, og það hefur verið látin í ljós mjög vinsamleg skoðun á starfsemi sjóðsins og mjög vinsamleg orð látin falla um þörf á auknu fé honum til handa, en niðurstaðan hefur samt orðið sú til þessa, að það hefur ekki orðið af framkvæmdum.

Ég vildi í þessu sambandi leggja áherzlu á tvennt: annað það, að það yrði ekki takmarkalaus innflutningur erlendra báta leyfður, svo að næstum gæti af þeim orsökum stöðvazt hin innlenda bátasmíði, og að hinu leytinu vildi ég leyfa mér að leggja áherzlu á, að það yrði a. m. k. reynt að nota þá heimild til lántöku, sem í l. um fiskveiðasjóðinn er nú til, þó að hún sé ekki meiri en þetta. Það mundi þó sjálfsagt muna nokkuð um hana, þó að til frekari aðgerða yrði þá horft með nýrri lagasetningu um sjóðinn.