04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það hafa orðið hér miklar umr. um lítið málefni, því að satt bezt að segja er það rétt, sem ýmsir af hv. ræðumönnum hér hafa tekið fram, að hér er um mjög lítið mál að ræða í eðli sínu, þó að hæstv. ríkisstj. hafi talið þetta eitt af meginmálunum, sem hún hafi hér lagt fram.

Ég mun ekki fjölyrða mikið um þetta mál eða lengja um það umr., enda þótt það væri freistandi að fara ýmsum orðum um þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 175. Það hefur komið fram hjá nokkrum andstæðingum þessa frv. ofur lítill misskilningur, sem ég vildi þó mega leiðrétta. Þeir hafa talið, að í 8. gr. frv. fælist nokkur rýmkun um byggingu íbúðarhúsa og útihúsabygginga frá því, sem nú er. Þetta er alger misskilningur, og vildi ég mega leiðrétta það. Það, sem í 8. gr. segir, að heimilt skuli vera að byggja íbúðir án fjárfestingarleyfa, sem séu að stærð allt að 520 m3, er nákvæmlega það sama og nú gildir um smáíbúðir. Það hefur verið núna í tvö ár heimilt að byggja smáíbúðir að stærð 340 m3, hæð og rís, en síðan hefur hver maður, sem vildi, getað fengið að byggja kjallara undir þessi hús, ef bæjaryfirvöld hafa talið það nauðsynlegt eða mælt með því af einhverjum ástæðum. Slík hús hafa því getað farið meira að segja yfir 520 m3. Þetta hafa allir fengið, sem hafa fengið lóð hjá bæjaryfirvöldunum. — Hv. 5. þm. Reykv. gripur fram í og segir, að þetta sé tilhæfulaus vitleysa. Ég vil benda honum á, að þessi ummæli hans munu ekki geta staðizt nema örfáa daga, þannig að nokkur trúi þeim, því að skýrsla fjárhagsráðs um fjárfestingarmál mun verða afhent þingmönnum innan fárra daga, og þá mun hann geta séð það þar með eigin augum, hvað hæft er í þessu máli. — Í öðru lagi er hér mælt svo fyrir, að útihúsabyggingar í sveitum skuli vera frjálsar. Það hafa s.l. 4 ár verið veittar allar umsóknir um útihús í sveitum, hver ein og einasta, þannig að þær hafa verið raunverulega frjálsar, og eftirlitinu, sem með þeim hefur verið haft, þ.e.a.s. því eftirliti, að það hefur þurft að sækja formlega um leyfi til fjárhagsráðs fyrir þeim, er hér haldið enn þá, þar sem segir svo í 8. gr., að byggingarnefndir og oddvitar skuli mánaðarlega senda innflutningsskrifstofunni tilkynningu um hverja þá fjárfestingarframkvæmd, sem hafin er í umdæmi þeirra. Og eins og áður hefur komið fram í þessum umr., þá er eftirlit jafnvel hert með þessu frv. frá því, sem verið hefur. T.d. segir svo í 8. gr., að þar sem byggingarnefndir starfa ekki, skuli oddvitar gæta þess, að ekki séu hafnar framkvæmdir, er háðar eru fjárfestingarleyfum, án leyfis innflutningsskrifstofunnar, svo og að framkvæmdir, sem hefja má án leyfis, séu í samræmi við lög þessi. Þetta er aukið eftirlit frá því, sem verið hefur.

Þá var líka á það minnzt af hæstv. viðskmrh., að það væri talsverð rýmkun í þessum málum, að leyft væri nú að hefja án leyfis fjárfestingarframkvæmdir, sem kostuðu ekki meira en 40 þús. kr. samtals, miðað við 10 þús. kr. áður. Rýmkuninni, sem í þessu felst, geta menn gert sér grein fyrir, ef þeir athuga það, að sæmilegur bilskúr kostar meira en 40 þús. kr., og fjárhagsráð hefur undanfarin ár veitt leyfi fyrir öllum minni háttar viðbyggingum og endurbótum, sem sótt hefur verið um, en það er nákvæmlega það, sem mundi falla undir þessa heimild um 40 þús. kr. fjárfestingu. Það er því engin rýmkun, sem felst í þessu frv., og það er ekkert nýtt, sem felst í þessu frv. heldur, að undanteknu einu atriði, sem ég mun koma að síðar.

Fjárhagsráð var á sínum tíma stofnað fyrst og fremst til þess að taka við óánægju, sem ríkisstj. hefði annars orðið fyrir í sambandi við störf sín. Því hefur verið haldið hér fram, að fjárhagsráð hafi farið með mikið vald. Það er rétt, að eftir lögunum um fjárhagsráð hafði það mikið vald, en í reyndinni hafði það ekkert vald og gerði aldrei neitt annað en að fara eftir till. og fyrirmælum ríkisstj. Breytingin, sem hér er gerð á með þessu frv., er því sú, að nú skal það ákveðið með lögum, að þessi stofnun ríkisstjórnarinnar, sem er til þess að taka við ýmissi óánægju fyrir ríkisstj., skal nú lögum samkvæmt vera valdalaus og skyldug til þess eins að taka við þessari óánægju. Og það er vitað mál, að þessi stofnun, sem hér er lagt til að verði sett á fót, mun innan fárra ára hafa hlotið þær óvinsældir hjá almenningi, að ríkisstj. neyðist til að breyta um nafn á henni eða gera einhverjar aðrar breytingar, — neyðist sjálf til þess, á sama hátt og nú með fjárhagsráð, að snúast á sveif með almenningi og sparka í þessa stofnun sína, því að það er það, sem hæstv. ríkisstj. hefur raunverulega gert í sambandi við skrif sín og ræðuhöld um hina lamandi hönd fjárhagsráðs, eins og hæstv. forsrh. kallaði það hér um daginn. — Ég skal svo ekki orðlengja fleira um þetta mál.

Ég gat þess áðan, að í þessu frv. væri eitt nýmæli. Það er í 9. gr. frv., þar sem lagt er til, að farið sé að semja hér þjóðartekjureikninga, þjóðhagsreikninga. Mér þykir mjög vænt um að sjá þetta nýmæli. Ég ræddi nokkuð um þetta hér við 1. umr. fjárlaga, og þó að hæstv. fjmrh. virtist ekki skilja það þá, þar sem hann kallaði það, sem ég sagði, heimspekilegar hugleiðingar, þá er sýnilegt, að hæstv. ríkisstj. hefur nú áttað sig á því að nokkru leyti, hvað þetta þýðir og til hverra nota slíkir reikningar gætu orðið. En þó að ég sé ánægður með að sjá það, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið þetta atriði til meðferðar, þá er ég jafnóánægður með það, hvað hún hefur misþyrmt þessu í frv. Í frv. er lagt til, að Framkvæmdabanki Íslands skuli annast þetta hlutverk. Þetta mun nú algert einsdæmi í allri löggjöf, að einhverjum banka sé falið þetta hlutverk. Þar sem þjóðhags- og þjóðartekjureikningar eru samdir, mun það vera gert af stofnunum, sem eru algerlega hliðstæðar við Hagstofu Íslands hér, enda langeðlilegast og langsjálfsagðast, að slík stofnun hafi þetta hlutverk með höndum. Hjá Hagstofu Íslands eru nú þegar ýmis gögn, sem byggja yrði slíka reikninga á, og Hagstofa Íslands hefur allra stofnana bezta möguleika í þessu þjóðfélagi til þess að afla sér þeirra gagna, sem á vantar. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera hér fram skriflega brtt. við 9. gr. frv., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 9. gr. Greinin orðist svo:

Hagstofa Íslands skal semja áætlun um þjóðartekjurnar, myndun þeirra, skiptingu og notkun. Hlutaðeigandi aðilum skal skylt að veita Hagstofu Íslands allar upplýsingar, sem hún þarfnast vegna þessa hlutverks.“

Vænti ég þess, að hæstv. forseti sjái sér fært að taka þessa brtt., þó að hún sé skrifleg.