12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (2909)

203. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af þessari till. leyfi ég mér að vísa til þess, sem ég sagði um þá till., sem hér er á dagskrá næst á undan þessari till. Ég leyfði mér þá — og með a. m. k. þegjandi samþykki hæstv. forseta — að víkja nokkrum orðum að þessari till., sem nú er til umr. Ég sé ekki ástæðu til að bæta neinu við það, sem hv. frsm. hér hefur sagt, og get lýst yfir fyrir hönd stj., að einnig þessi till. mun verða tekin til allrar þeirrar athugunar og fyrirgreiðslu, sem stjórnin getur í té látið.

Ég get hins vegar ekki fremur um þessa till. en hina gefið á þessu stigi málsins bindandi loforð um, hver niðurstaða verði af tilraunum okkar til að efla fjárhag fiskveiðasjóðsins.