07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2924)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau ummæli, sem hér hafa fallið, að mér virðist undarlegt, að hv. nefnd skuli mæla í svo stuttu máli með till, sem gert er og ekki gera neina grein fyrir því, hverjar till. hafi borizt frá landlækni, sem mun hafa fengið till. til umsagnar.

Till. er í tveimur meginliðum. Hinn fyrri er sá að gera till. um fjölda, stærð og staðsetningu sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila í landinu. Ég hygg, að verkefni á þessu sviði sé ákaflega lítið og takmarkað og fjarri öllum sanni að ætla, að það sé ástæða til þess að setja sérstaka nefnd fimm eða þriggja manna til þess að gera till. um þetta atriði. Ég hygg, að það sé rétt, sem hæstv. heilbrmrh. sagði hér áðan, að ákvarðanir hafi þegar verið teknar um staðsetningu og byggingu þeirra sjúkrahúsa, sem til greina kemur að byggja að nýju. Núna á síðari árum hafa verið byggð fjögur ný sjúkrahús: á Akureyri, í Hafnarfirði, í Keflavík og á Akranesi, og eru öll fullgerð og tekin til starfa. Enn fremur hefur verið byggt fyrir skömmu sjúkrahús á Patreksfirði, sem einnig er tekið til starfa. Í byggingu er nú eða hafinn undirbúningur að byggingu sjúkrahúss í Neskaupstað, sjúkrahúss hér í Reykjavík og sjúkrahúss á Blönduósi. Þegar svo litið er til þess, hvaða sjúkrahús eru á öðrum stöðum, þá kemur í ljós, að þegar hafa verið teknar ákvarðanir um eða byggð sjúkrahús í öllum kaupstöðum landsins, og engar minnstu líkur eru til þess, að hér verði breytt um, hvort sem mönnum sýnist nú að hér hafi verið ráðið hyggilegs í hvert skipti það, sem gert hefur verið. Ég hygg, að þessi sjúkrahús, sem upp eru komin, séu öll fullnotuð, nema sjúkrahúsið á Patreksfirði, sem virðist enn þá vera við vöxt, óþarflega stórt fyrir það hérað, og sjúkrahúsið, sem St. Jósepssystur hafa byggt í Stykkishólmi og ekki kemur neitt heilbrigðisstjórninni við að því er fjárútlát eða rekstur snertir. Ég held, að þá hafi einnig verið sett ákveðin lög um, hverra kjara skuli njóta, þ. e., hvaða styrks úr ríkissjóði og undir hvaða rekstur fellur sjúkrahús, sem væntanlega verður byggt á Suðurlandsundirlendinu, og mun því mega líta svo á, að ákvörðun hafi verið tekin um byggingu sjúkrahúss þar. Á þessu get ég ekki látið mér detta í hug að verði gerðar neinar breytingar. Sumpart er búið að reisa þessar byggingar, sumpart er hafinn undirbúningur og sumpart eru þær í smíðum, eins og t. d. á Blönduósi. Ég veit það vel, að ýmsir mæla, að sjúkrahúsið á Blönduósi muni vera byggt óþarflega stórt fyrir það hérað. Um það skal ég ekki fullyrða, en ég vil bara benda á, að þar eins og reyndar víðar þar, sem nýju sjúkrahúsin eru á leiðinni, er gert ráð fyrir því, að sérstök deild sé fyrir lasburða gamalmenni, sem þurfa sérstakrar umönnunar og hjúkrunar við, þó að ekki þurfi beinar læknisaðgerðir, og það er margt, að minni hyggju, sem mælir með því að sameina þetta hjá einni og sömu stofnun með spítalarekstri. Ég hygg, þó að ég hafí ekki hér við höndina umsögn landlæknis, sem í þessu tilfelli mun hafa verið Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir, sem jafnframt er heilbrigðiseftirlitsstjóri trygginganna, að umsögn hans hafi hnigið að því, að ekki væri sérstök þörf nefndarskipunar í þessu efni, og ég er honum alveg sammála um það. Ég hygg líka, að hann hafi bent á, að í almannatryggingalögunum eru ýmis ákvæði um heilsuvernd, sem að vísu vegna frestunar á framkvæmd þess kafla laganna eru ekki enn komin í framkvæmd, en að minni hyggju eru fullkomlega réttmæt og engin minnsta ástæða er til þess að breyta. Nú liggur fyrir á þessu ári endurskoðun tryggingalaganna, m. a. með það fyrir augum að taka ákvörðun um, hvort heilsugæzlukaflinn skuli ekki koma til framkvæmdar. Í þessum kafla er gert ráð fyrir því, að heilsuverndarstöðvar komist upp í öllum kaupstöðum landsins. Heilsuverndarstöðin hér í Reykjavík er nú að verða fullbúin, og hún á að verða eins og aðrar heilsuverndarstöðvar miðstöð almennra heilsuverndarráðstafana í bæjarfélaginu og jafnframt miðstöð til fræðslu fyrir almenning um þau efni, sem varða heilbrigðismál almennt. Og hið sama verkefni er öðrum heilsuverndarstöðvum úti um landið ætlað. Þá er gert ráð fyrir því í þessum kafla tryggingalaganna, að heilsuverndin sé úti um land, þar sem ekki eru heilsuverndarstöðvar, hjá héraðslæknunum, að svo miklu leyti sem þau einstöku læknishéruð geta ekki notað heilsuverndarstöðvar bæjanna, og að læknishéruðum, sem liggja fjarri slíkum stöðvum, sé veitt aðstoð í þessu starfi með því, að lærðar hjúkrunarkonur séu tengdar við héraðið. Ég hygg, að þetta sé langlíklegasta leiðin til þess að fá heilsuverndarstarfsemina í lag einnig úti um byggðir landsins. Komið hefur til athugunar í því sambandi, hvort ekki muni unnt að sameina það starf að einhverju leyti við störf ljósmóður, ekki sízt með tilliti til þess, að alltaf fjölgar þeim meira og meira, sem leita til sjúkrahúsa eða fæðingarstofnana í kaupstöðum til að ala þar börn sín og að starf ljósmæðranna yrði þá í mörgum tilfellum að fylgjast með heilsufari þungaðra kvenna og annað slíkt, auk þess sem þær að sjálfsögðu þyrftu að taka á móti börnum öðru hverju.

Ég held, að þær meginreglur, sem lagðar eru í kaflanum um heilsuvernd í tryggingalögunum, séu þær, sem líklegastar séu til að bera árangur í því efni að koma fram og fræða almenning um ráðstafanir til þess að efla almenna heilbrigði og heilsuvernd í landinu, en ekki sé ástæða til þess, sízt samtímis því sem endurskoðun tryggingalaganna fer fram, að setja sérstaka n. til þess að fjalla um þessi málefni.

Ég játa það fullkomlega með hv. flm., að það er mikilsvert og þýðingarmikið, að þessi mál séu bæði í sem beztu lagi á hverjum tíma hjá okkur og að almenningur sé gerður meðstarfandi, ef svo mætti segja, í þeim ráðstöfunum, sem lúta að almennri heilsuvernd og heilbrigðisstarfsemi í landinu.

Niðurstaða mín af þessum hugleiðingum er nánast sú, að eðlilegasta afgreiðsla þessa máls væri sú að vísa till. til afgreiðslu hjá hæstv. ríkisstj.