04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir góða og tiltölulega fljóta afgreiðslu á þessu máli, og þær breytingar, sem hún flytur, eru ekki efnislegar breytingar, heldur aðeins orðabreytingar, sem virðast vera sjálfsagðar og til bóta frá því, sem er í frv. Ég vil einnig nefna hér till. á þskj. 231 frá hv. 3. þm. Reykv. (BÓ). Mér virðist hún einnig vera til bóta, það er aðeins orðabreyting við bráðabirgðaákvæði frv. Svo eru hér margar brtt. á þskj. 239, sem ég mun gera nokkuð að umræðuefni, og brtt. frá hv. 9. landsk. á þskj. 241, sem ég mun einnig gera nokkuð að umtalsefni.

Ég vil fyrst vekja athygli á því, sem hv. 8. landsk. þm. sagði hér áðan, þegar hann talaði um, að þetta frv. væri lítið mál, og hann gaf sér ekki tíma til að minnast á annað í frv. en 8. og 9. gr. og talaði um það hér áðan, að samkvæmt 8. gr. væri ekki um raunveruleg nein nýmæli að ræða eða rýmkun frá því, sem gilt hefði nú í fjárhagsráði undanfarið. Þetta er náttúrlega reginmisskilningur, vegna þess að nú verða menn að sækja um fjárfestingarleyfi fyrir öllu, smáu sem stóru, ef það kostar meira en 10 þús. kr., og þótt nokkuð hafi verið rýmkað síðustu mánuðina og fjárhagsráð verið greiðara á að veita leyfi nú síðustu mánuðina en áður, þá er þetta vitanlega reginmunur, sú framkvæmd hjá fjárhagsráði nú og það, sem beinlínis er ákveðið með 8. gr. þessa frv. Hv. þm. talaði um það, að smáíbúðirnar væru 520 mg, því að það hefði verið þannig, að það hefði verið veitt leyfi fyrir kjallaranum eftir á. Og einn hv. þm. gall hér fram í og spurði, hvort það hefði verið þannig, að kjallarinn hefði verið byggður á eftir risinu, og þá vildi hv. þm. af eðlilegum ástæðum ekkert eiga við að svara því. Það er kunnugt, að smáibúðirnar eru miklu minni að rúmmáli en 520 m3, þ.e.a.s., ef kjallarinn er ekki reiknaður með, og þessum hv. þm., sem hefur starfað í fjárhagsráði, ætti að vera kunnugt um, að það var rifizt um það, hvort þessir menn, sem voru að byggja smáíbúðirnar, fengju að hafa port á loftinu, til þess að það mætti verða að einhverjum notum, og þeim var bannað það. Þetta er það frjálslyndi, sem hv. 8. landsk. vill hrósa, og hann telur, að þetta frv. ríkisstj., sem rýmkar verulega um fjárfestingarmálin, sé raunverulega ekki til bóta. En ég undrast ekkert, úr því að þessi hv. þm. talar um, að það hafi verið veitt leyfi fyrir kjallaranum eftir á, þótt hann jafnvel telji, að 8. gr. þessa frv. sé ekki rýmkun frá því, sem gilt hefur.

Þá talaði hv. þm. um það, að útihús í sveitum hafi verið raunverulega frjáls síðustu 4 árin, því að það hafi alltaf verið veitt leyfi fyrir þeim. Það er rétt, að fyrir útihúsum í sveitum hefur verið veitt leyfi, en alltaf hafa nú menn orðið að sækja um leyfin, sækja leyfin eða bíða eftir þeim, og mikið erfiði og umstang hefur þetta kóstað. Veit ég, að bændur landsins fagna því að vera lausir við þessa skriffinnsku og þau spor, sem þeir áttu vegna haftanna, jafnvel þótt þeir hafi fengið leyfi, og þeir munu áreiðanlega kunna að meta það betur en 8. landsk. þm., vegna þess m.a., að hann veit ekki, hvað það er að standa í þessu að sækja um leyfi, bíða eftir viðtölum, hvort leyfin eru fengin, og standa í öllum þeim snúningum, sem því fylgja.

Hv. 8. landsk. talaði um það, að byggingarnefndir í sveitum ættu að halda áfram, oddvitar ættu að safna skýrslum um þær framkvæmdir, sem kostuðu yfir 40 þús. kr. Þetta er alveg rétt, og það er vegna þess, að ríkisstj. hefur hugsað sér að framkvæma það, sem hv. 8. landsk. þm. var hér áðan að tala um að væri til stórbóta í frv., sem er 9. gr., og hann fagnar að er í frv. Þessi hv. þm. veit eða ætti að vita, að það er ekki unnt að semja þjóðhagsreikninga nema fylgjast með fjárfestingunni, fá að vita, hvað mikið fjármagn er sett í fjárfestingu hverju sinni bæði til sjós og lands, og ákvæðin í 8. gr., að oddvitar og byggingarnefndir fylgist með fjárfestingunni og sendi mánaðarlega skýrslur, eru tilkomin hér m.a. og aðallega vegna þess atriðis.

9. gr. frv. vill hv. þm. breyta og hefur flutt brtt. þar um, en sú breyting er ekki til bóta. Það er eðlilegt, að Framkvæmdabankinn hafi þetta með höndum. Það hefur verið athugað, hvort hagstofan gæti haft þessi störf, en hvort tveggja er, að hagstofan getur ekki tekið þetta að sér nema bæta við sig miklum mannafla og hefur ekki beinlínis aðstöðu til þess, og eins hitt, að eðlilegt er að öllu athuguðu, að Framkvæmdabankinn hafi þetta með höndum, og þess vegna er ráð fyrir því gert í 9. gr.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að segja fleira við hv. 8. landsk. um þetta mál. Hann telur frv. litið mál. Það er hans skoðun. Hún er byggð á misskilningi og á því, að hann sjálfur hefur ekki kynnzt því persónulega, hvað allur almenningur, sem eitthvað hefur viljað gera í þessu landi undanfarið, hefur þurft að leggja á sig mikið auka- og óþarfaerfiði til þess að fá leyfi hjá fjárhagsráði með því að bíða á biðstofum, skrifa umsóknir og skýrslur og elta þessa menn, sem með völdin hafa farið í fjárhagsráði. Nú er fjárfestingin frjáls, að því leyti sem að almenningi lítur, og íbúð, sem er 520 m3, er engin smáíbúð. Og þið getið hér, hv. þm., setzt niður og reiknað og gert ykkur grein fyrir, hvernig íbúð þetta er. Það er — skulum við segja — hæð að flatarmáll 150 m2, 6–7 herbergja íbúð, og auk þess er pláss í kjallara fyrir þvottaherbergi, miðstöð og geymslu. Ef gert væri ráð fyrir, að tveir tækju sig saman og byggðu hús, þá getur húsið þannig verið tvær hæðir og kjallari, 150 m2 að flatarmáli. Og hv. 8. landsk. hlýtur að vera það reikningsglöggur að geta reiknað þetta út án þess að spyrja og án þess að fá leiðbeiningu frá mér eða öðrum. Ég fullyrði það, að allur fjöldinn kærir sig ekki um að byggja stærra en þetta.

Hv. 1. landsk. þm. er hér með margar brtt. og hélt nokkuð langa ræðu og fór út í vísindalegar hugleiðingar, sem ekkert er óeðlilegt, þar sem um hagfræðiprófessor er að ræða. Hv. þm. talaði um það, að þetta frv. væri ekkert spor í frelsisátt. Ég held, að ef hann gefur sér tíma til að athuga 8. gr. frv., þá hljóti hann að verða að taka þetta aftur, jafnvel þótt hann sé á annarri skoðun með innflutninginn eða 1. gr. frv., og vísa ég þá til þess, sem ég áðan var að tala um 8. gr. Ég veit, að hv. 1. landsk. leyfir sér ekki að mótmæla, hafi hann hlustað á það, sem ég sagði.

Það var 1. gr. frv., sem hv. 1. landsk. talaði nokkuð mikið um og taldi, að hún boðaði ekkert frelsi í innflutningi, og telur þess vegna nauðsynlegt að flytja brtt. við hana og snúa gr. við, af því að það sé óeðlilegt, eins og hann segir, að ákveða með reglugerð, hvað skuli vera frjálst. Þetta er óeðlilegt frá hans sjónarmiði, en þetta er samt sem áður alveg eðlilegt og sjálfsagt, að ríkisstj. ákveði með reglugerð hverju sinni, hvaða vörur skuli vera frjálst að flytja til landsins, og hafi það hverju sinni eftir því, sem hægt er af gjaldeyrisástæðum. Nú er það vitað, hver er stefna ríkisstj. í innflutningsmálunum. Stefnan er sú að gera innflutningsverzlunina sem frjálsasta. ef ekki er talið fært að gera hana frjálsa að öllu leyti. Reglugerðin verður þess vegna sniðin eftir því, hvernig gjaldeyrisástandið er.

Hv. þm. var hér áðan að tala um það, að ekki væri unnt að tala um frjálsa verzlun, nema gjaldeyrisyfirfærslurnar væru frjálsar. Hann talaði í sömu andránni um það, að gjaldeyrisástandið væri ekki gott, það væri ekkert betra nú en á sama tíma í fyrra. Ég vil þó benda á, að þessi hv. þm. hlýtur að hafa góða trú á því, að úr rætist, vegna þess að hann flytur brtt. við frv. um það, að allur innflutningur til landsins skuli vera frjáls, en segir þó um leið, að innflutningur til landsins geti ekki verið frjáls, nema nægilegur gjaldeyrir sé fyrir hendi, og það gleður mig, að hagfræðingurinn, hv. 1. landsk. þm., lítur ekki dekkri augum á ástandið en það, að hann telur nú vera hægt að nema öll höft í burt og ákveða, að innflutningur til landsins skuli vera frjáls, og ég vil segja þessum hv. þm. það, að ekki mun standa á núverandi ríkisstj. að ákveða með reglugerð, að allur innflutningur til landsins skuli vera frjáls, ef gjaldeyrisástandið verður þannig eins og þessi hv. þm. spáir með sínum till. En því miður hefur ríkisstj. litið þannig á, að það væri ekki enn unnt að afnema öll höft, enda þótt stórt spor sé stigið í rétta átt og hafi áður verið stigið í rétta átt af fyrrv. ríkisstj. og af þessari ríkisstj. Með flutningi þessa frv. og með ákvæðum um það, að með reglugerð megi hverju sinni ákveða, hversu mikill hluti af innflutningnum til landsins skuli vera frjáls, er ríkisstjórninni fengið í hendur vald til þess að ákveða þetta og haga gerðum sínum eftir því, hvernig gjaldeyrisástandið er. Hver ríkisstj. hlýtur að vilja hafa slíkt vald, og það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir hana að hafa slíkt vald. Hv. 1. landsk., sem nú vill afnema öll höft, hlýtur að sætta sig við það, að núverandi ríkisstj., sem hefur þá stefnuyfirlýsingu að gera verzlunina frjálsa, strax og unnt er, hlýtur að vera ánægður með það, að svo er nú komið, að ekki þarf nema reglugerð frá hendi ríkisstj. til þess, að innflutningurinn verði að öllu leyti frjáls.

Hv. þm. var að tala um það, hvað hefði verið mikið á frílista 10 fyrstu mánuði þessa árs, hvað mikið á bátalista og hvað mikið hefði verið háð leyfisveitingum. Þessar tölur, sem hann nefndi, munu ekki vera í aðalatriðum réttar, þær eru allónákvæmar.

Það verður ekki hægt að deila á fyrrv. ríkisstj. fyrir það, að hún hafi ekki gert það, sem í hennar valdi stóð til þess að gera verzlunina frjálsa. Og hv. 1. landsk. staðfesti það hér áðan með því að segja, að gjaldeyrisástandið sé raunverulega ekkert betra núna en það var á sama tíma í fyrra. Fyrrv. ríkisstj. hefur þess vegna farið eins langt og hægt var í því að losa um höftin, og samkvæmt því, sem hv. 1. landsk. sagði hér áðan, eru það 53% af innflutningnum, sem hafa verið á frílista fyrstu 10 mánuði þessa árs, en er miklu meira. Er það vitanlega mikill munur frá því, sem var, á meðan allar vörur voru háðar leyfisveitingum. Og þannig var það a.m.k. á meðan flokksbróðir hv. 1. landsk. hafði stjórnarforustuna í þessu landi. Þá voru höftin í algleymingi, og þá var það fyrir hendi, sem hv. þm. var að lýsa hér áðan, að það var ekki heilbrigt ástand í atvinnumálum, peningamálum og fjármálum. Ég vil ekki segja, að það sé enn algerlega heilbrigt ástand í peningamálum, fjármálum og atvinnumálum. En úr því að það hefur verið kleift að gera meira en helminginn af verzluninni frjálsan, þá leiðir það af sjálfu sér samkvæmt kenningum hv. 1. landsk., að ástandið í peningamálum, fjármálum og atvinnumálum hefur batnað. Og ég vil segja hv. 1. landsk. það, að það er stefna núverandi ríkisstjórnar eins og hinnar fyrrverandi að laga það, sem aflaga fer í atvinnumálum og fjármálum og peningamálum, og stuðla þannig að því, að það verði ekki aðeins rúmlega 60% á frílista af þeim vörum, sem til landsins eru fluttar, heldur megi gera verzlunina algerlega frjálsa. En eigi að síður tel ég ekki að svo komnu fært að samþ. till. þessa þm. á þskj. 239 og ekki ástæðu til þess, vegna þess að núverandi ríkisstj. ætlar að losa af höftin með reglugerð hverju sinni, eftir því sem unnt er. Og það er vitanlega heppilegri og skynsamlegri aðferð heldur en að segja í dag: Verzlunin skal vera frjáls, — jafnvel þótt við hefðum trú á því, að þetta mætti takast.

Í rauninni eru till. á þskj. 239 frá hv. 1. landsk. trausttillögur á núverandi ríkisstj. Og hafi hv. þingmenn hlustað á það, sem ræðumaður sagði hér áðan, að það væru skilyrði til þess, að innflutningurinn væri frjáls, að atvinnuástandið væri heilbrigt, að peningamálin og fjármálin væru heilbrigð, — hafi menn hlustað á það og lesið svo till. þessa hv. þm., þá sjá allir, að þetta eru trausttill., því að þessi hv. þm. gæti ekki flutt till. um afnám allra hafta, nema hann treysti núverandi ríkisstj. til þess að uppfylla þessi grundvallarskilyrði, sem þurfa að vera fyrir hendi, til þess að innflutningsverzlunin geti verið frjáls. Og það er ákaflega fróðlegt að hlusta á ræðu eins og hjá hv. 1. landsk. Það eru vísindalegar hugleiðingar, eins og vænta má hjá prófessor við Háskóla Íslands. Jafnvel þótt það séu ekki þung fræði, þá getur samt verið dálítið gaman að því, því að það er stundum, sem mönnum virðist hann vera að leggja spurningar fyrir sjálfan sig, en ekki fyrir áheyrendurna, og hann sé að leitast við að svara sjálfum sér, en ekki þeim, sem hann annars hefði verið að spyrja, og sumar af þessum spurningum voru nú þannig, að þær hefðu passað í gagnfræðaskóla frekar en hér í þingsölunum. Ég nefni gagnfræðaskóla, af því að þessi sami hv. þm. var að tala um gagnfræðaskóla hér í fyrradag í sambandi við viðræður, sem hann átti við hv. 8. landsk. þm.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til að fara fleiri orðum um till. hv. þm. Ég vil þó minna á, að hann var áðan að tala hér um, að það væri æskilegt, að einstaklingar og allur almenningur í þessu landi ættu þess kost að gera pantanir eftir vörulistum og fara þannig fram hjá kaupmönnum og kaupfélögum í þessu landi, og þetta gæti orðið aðhald, þetta gæti skapað meiri samkeppni og orðið aðhald og gert ýmsum hægara fyrir. En ég vil benda á, að það er þó eitt, sem mælir gegn því, að þessi háttur verði á hafður, og það er sérstaklega það, að þessir vörulistar, sem eru sendir hingað til athugunar fyrir einstaklinga til að panta eftir, eru frá smásöluverzlunum, og það er alls ekki um heildsöluverð að ræða á þessum verðlistum, heldur smásöluverð. Og ég vil aðeins benda á það, að ég býst við, að gjaldeyrir þjóðarinnar drýgðist ekki með því, að farið væri að innleiða slíka verzlunarhætti, að gefa öllum almenningi kost á því að kaupa vörur beint erlendis frá á smásöluverði. Það hefur verið bent á, að það væru ekki drýgindi á gjaldeyri, þegar sjómenn fara í verzlanir í hafnarborgum og kaupa á smásöluverði. Og það er alveg rétt, það eru ekki drýgindi á gjaldeyri. Það er þess vegna mjög hættulegt og vafasamt fyrir hagfræðiprófessorinn að vera með till. í þessa átt.

Um útflutninginn, sem þessi hv. þm. er með og eins hv. 9. landsk., vil ég segja það, að fyrirkomulagið á útflutningnum nú er eins og framleiðendur og útflytjendurnir sjálfir vilja hafa það. Þeir hafa sjálfir með sínum samþykktum kosið þetta skipulag, og það hefur reynzt vel, og í landi okkar, sem vegsamar lýðræðið, getur nú verið, að það þætti dálítið hart að fara að gripa þannig fram fyrir hendurnar á framleiðendum og skipa þeim að hafa annað fyrirkomulag á þessu heldur en þeir sjálfir kjósa. Ég býst við, að bæði bændur og verkamenn mundu líta það óhýru auga, ef löggjafinn vildi fara að gripa inn í um það, hvernig fyrirkomulag ætti að vera á verkalýðsfélögunum og hvernig fyrirkomulag ætti að vera á búnaðarfélögunum og bændasamtökunum. Það hefur verið haft þannig í þessum greinum, að það hefur verið tekið tillit til óska aðilanna sjálfra í þessum efnum, og löggjafinn hefur látið þessi samtök vera í friði. Það er ekki ástæða til þess að gripa þar inn í af löggjafans hendi, nema komið hafi í ljós, að það sé þjóðhagsleg nauðsyn, en um það er ekki að ræða í þessu tilfelli.