10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2951)

206. mál, togaraútgerðin

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég tel mig ekki þurfa að fylgja þessu máli úr hlaði með langri framsöguræðu. Till. sjálf ber með sér, að lagt er til, að Alþ. kjósi sjö manna n. til þess að athuga hag togaraútgerðarinnar og ef n. að lokinni þessari rannsókn telur ástæðu til, þá beri hún fram till. til úrbóta fyrir útgerðina, sem n. telur að muni koma að viðhlítandi gagni, eins og kveðið er á.

Ég get í rauninni látið nægja að vísa til umræðna, sem farið hafa fram hér tvívegis nýverið á Alþ. um hag togaraútgerðarinnar í sambandi við fyrirspurnir. Var þá nokkuð rætt um afkomu togaraútgerðarinnar á undanförnum tveim árum aðallega og gefnar um það upplýsingar, að útgerðarmenn teldu hag sinn standa höllum fæti, ríkisstj. teldi hins vegar ekki enn þá færðar sönnur á, hve mikil brögð væru að hallarekstri á þessu sviði atvinnulífsins, og þess vegna teldi ríkisstj. sig heldur ekki viðbúna til þess að benda á, hverjum úrræðum bæri að beita til þess að ráða bót á þeim vandkvæðum, sem þarna kynnu að vera á ferðum.

Ríkisstj. hefur nú fengið nokkru meiri upplýsingar í þessum efnum heldur en hún hafði, þegar síðast var um þetta mál rætt, og því miður staðfesta þær upplýsingar, að rekstur togaranna hafi gengið illa, svo að ég kveði ekki sterkar að, á árinu 1953 og það sem af er þessu ári, en þó — og á það legg ég áherzlu — liggja enn ekki fyrir nægjanlega almennar sannanir til þess, að hægt sé á þeim skýrslum að byggja dóm né till. til úrbóta.

Ríkisstj. hefur þess vegna talið eðlilegt, að Alþ. skipaði 7 manna n. til þess að rannsaka hag þessa hluta útvegsins og gera till. um úrbætur, ef n. telur, að hér sé um varanlega meinsemd að ræða.

Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt hér, að auðvitað mega menn ekki verða uppvægir og sízt þeir, sem sjávarútveg stunda, þó að um tímabundinn hallarekstur sé að ræða. Við vitum það, að það er eðli þessa atvinnurekstrar, að öðru hverju verður hann að taka á sig þung töp. Það, sem ber að rannsaka, er því, hvers eðlis eða hverjar eru rætur þeirra meina, sem fram eru komin, og hvort menn geta gert sér vonir um, að breyttar kringumstæður kunni að ráða bót á því, sem nú kynni að upplýsast að útvegurinn væri ekki einfær um að rísa undir.

Nú kynnu menn að spyrja, hvort ríkisstj. teldi sig vera að fría sig ámæli með því að bera fram slíka till., hvað ríkisstj. hygðist að gera, ef rannsókn leiddi í ljós, að það væri nauðsyn fyrir aðgerðir. Ég get um það því til svarað, að auðvitað verður að fara með þann vanda eins og annan vanda, sem ævinlega getur steðjað að, hvort sem þing á setu eða ekki. Ef vandinn væri talinn svo örlagaríkur, að nauðsynlegt væri að kalla saman þing út af honum, þá er það auðið. Það er líka auðið að gera ráðstafanir án þess, að þing kæmi saman, í samráði við þingflokkana. En það er ekki auðið að segja á þessu stígi málsins, hvort aðgerða sé þörf, jafnvel þótt um taprekstur hafi verið að ræða undanfarna — við skulum segja — 12–14 mánuði, og það er enn síður hægt að kveða á um það, hvaða úrræðum skuli beita, fyrr en sú rannsókn hefur farið fram, sem ég gat um og ég vildi með mínum fáu orðum hafa bent á, að á að gefa bendingar um, í fyrsta lagi, hvort úrræða er þörf, og í öðru lagi, hver úrræði helzt gætu komið að viðhlítandi gagni.

Ég sé svo ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fylgja þessu máli úr hlaði með frekari orðalengingum og leyfi mér að vísa til þeirra umræðna, sem um þetta hafa farið fram undanfarnar vikur tvívegis hér á Alþingi.