10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2952)

206. mál, togaraútgerðin

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa því yfir, að mér þykir þessi till. vera harla lítil lausn, eins og nú er komið með hag togaraútgerðarinnar í landinu, að bregðast þannig við þeim vanda, sem allir landsmenn þekkja nú orðið að mjög verulegu leyti, að nú þegar þing er að slíta störfum, þá skuli sett niður mþn. til þess að rannsaka málið, og a. m. k. eftir því, sem maður verður að ætla um kröfur ríkisstj. um upplýsingar í þessum málum, miðað við það, sem á undan er gengið, getur hún varla skilað störfum fyrr en næsta haust.

Út af fyrir sig tel ég ekkert við það að athuga, að skipuð væri mþn. til þess að rannsaka þetta mál og fá það sem bezt upplýst fyrir alþjóð. En þegar sá vandi steðjar að, að togarafloti landsmanna er ýmist hættur rekstri, eins og staðreyndir liggja fyrir um, eða augljóslega liggur fyrir, að hann er allur að hætta störfum, og þar með mundi færast stöðvun yfir hálfan íslenzka sjávarútveginn a. m. k., þá tel ég það heldur seinvirka leið til úrbóta að ætla að setja mþn. í málið, sem sennilega mundi þurfa að vinna að rannsókn sinni í næstu 6–7 mánuði.

Ég hef verið á þeirri skoðun, eins og ég hygg, að margir fleiri væru, að það vekti fyrir hæstv. ríkisstj. að koma fram nú, áður en þingi yrði slitið, einhverjum þeim ráðstöfunum, sem mættu gagna til þess að tryggja það, að togararnir stöðvuðust ekki nú á þessu ári, jafnvel þó að um bráðabirgðaráðstöfun yrði að ræða, sem ekki yrði hægt að byggja á til frambúðar. Ég hef búizt við þessu, því að ég hef haft ástæðu til þess að ætla, að hæstv. ríkisstj. hefði gert sér fyllilega ljósa grein fyrir því, hvernig komið er með rekstur togaraflotans. En annaðhvort er, að hún hefur ekki gert sér fyllilega ljósa grein fyrir því, hvernig ástatt er í þessum efnum, eða þá að hún metur það að svona litlu, þó að allur togaraflotinn þurfi að liggja óstarfræktur í hálft ár, að hún telur það fyllilega fært að slíta þingi undir slíkum kringumstæðum. Annaðhvort mun sennilega vera, en hvorugt er að mínum dómi gott.

Hæstv. forsrh. lét þau orð falla hér, þegar hann talaði fyrir þessari till., að ríkisstj. teldi, að ekki lægi nægilega ljóst fyrir, hvort raunverulega væri þörf á opinberri aðstoð í sambandi við togarareksturinn. Hann taldi, að þó að ríkisstj. hefði fengið upplýsingar frá samtökum togaraeigenda, þá væru þær þannig, að það væri ekki af þeim hægt að draga þá skoðun, að hér væri um vanda að ræða, sem væri til langframa, heldur jafnvel, eftir því sem hans orð lágu, mætti helzt búast við því, að hér væri aðeins um tímabundinn vanda að ræða, sem ef til vill kynni að leysast að mestu leyti af sjálfu sér. Í þessu efni taldi hann nauðsynlegt, að sú n., sem skipuð yrði, rannsakaði, hvers eðlis þessi vandi væri, hvernig á honum stæði og þá hvaða úrbætur mættu helzt koma til greina. Af þessum ástæðum þykir mér full ástæða til þess að rifja hér upp með örfáum orðum nokkuð af því, sem hefur verið að gerast í sambandi við togarareksturinn og mætti nú vera öllum landsmönnum fyllilega ljóst.

Ég vil þá benda á það, að það er engin smáræðis breyting, sem orðið hefur í sambandi við togararekstur okkar Íslendinga, þegar ísfiskmarkaðurinn brást með öllu. Við það, að ísfiskmarkaðurinn hvarf alveg úr sögunni, gerbreyttist aðstaða útgerðarinnar til þess að láta endana ná saman í rekstrinum. Sérstaklega kom þetta fram í sambandi við skipshafnirnar. Þeir kjarasamningar, sem sjómenn hafa unnið eftir á undanförnum árum, hafa verið þannig og eru þannig enn í dag, að launakjörin eru heldur betri á skipunum, ef þau sigla með aflann á erlendan markað og selja hann þar nýjan. Auk þess, að launakjörin voru þannig, að launin voru yfirleitt betri, þegar þetta gamla rekstrarform var viðhaft, þá fylgdu þessu rekstrarformi allverulega mikil fríðindi fyrir sjómenn fram yfir það, sem þeir eiga nú við að búa, eftir að hið nýja rekstrarform var tekið upp með heimalandanir hjá skipunum. Yfirleitt mátti segja, að í hvern einn ísfisktúr á erlendan markað færu í beina siglingu í kringum 11–13 dagar. Þessa 11–13 daga hafði verulegur hluti af skipshöfninni hreinlega frí frá störfum — svo nefnt siglingafrí — og gat því hvílt sig í landi, án þess að kaup skertist við það. Um leið og breyting varð á rekstri skipanna, þá sneri það aftur við sjómönnunum, að þeir urðu að vinna alla þessa daga. Þeir fengu um það bil á mánuði hverjum helmingi fleiri vinnudaga úti á sjó heldur en þeir höfðu haft áður. Á meðan aflinn var seldur nýr á erlendum markaði, höfðu skipverjar einnig allveruleg gjaldeyrisfríðindi, sem flestir þekkja. Þetta hvarf gersamlega úr sögunni við það, að skipin fóru að landa innanlands. Afleiðingarnar af þessu hafa m. a. komið fram í því, að sjómennirnir hafa réttilega bent á það, að kjör þeirra á þessum síðustu árum hafi stórum farið versnandi á skipunum. Þeir hafa því leitað í önnur störf. Þetta var ofur eðlilegur hlutur. En auk þess gaf það líka auga leið, að fyrir sjálfa útgerðina var sala á fiskinum á erlendum markaði miklum mun hagkvæmari á margan hátt heldur en að leggja fiskinn upp heima. M. a. kom það fram í því, að þá gátu skipin tekið verulegan hluta af rekstrarkostnaði sínum út í vörum á hinu erlenda verðlagi, keypt sér allar útgerðarvörur, viðhald skipanna og margt og margt fleira, miðað við það verðlag, sem þekktist í nágrannalöndum okkar, en með hinu breytta formi færist þetta allt inn á það verðlag, sem gildir í okkar landi, sem er margfalt hærra.

Nú vita menn það, að þetta breytta viðhorf í sambandi við togarareksturinn hefur eðlilega komið til greina í sambandi við þær aðgerðir, sem allir landsmenn voru sammála um að gera, sem var setning hinnar nýju fiskveiðalandhelgi. Eins og setning hinnar nýju fiskveiðalandhelgi var landsmönnum almennt til gagns og góða, þá varð framkvæmd hennar þannig eðlilega, að það hlaut að bitna talsvert í svipinn á rekstri togaranna. Enginn togaraeigandi hefur kvartað undan þessu, því að þeir hafa allir skilið það svo, að þeir mundu, þegar tímar líða fram, hafa gagn af stækkuðu friðunarsvæði við landið og það mundi, þegar tímar líða fram, einnig aukast afli á þeirra miðum. En í svipinn hefur þetta eðlilega bitnað verulega á rekstri skipanna. Ég hygg, að það væri sanngjarnt og réttmætt, að landsmenn almennt, og þá ekki sízt Alþ., gerðu sér fyllilega grein fyrir því, að á sama tíma sem Íslendingar hafa staðið í stríði í sambandi við það að fá viðurkennda hina nýju fiskveiðalandhelgi sína og á sama tíma sem íslenzki bátaflotinn og fjöldamargir landsmenn hafa haft mjög gott af því, að landhelgin var stækkuð, þá hafa þær ráðstafanir í fyrsta kasti komið nokkuð við rekstur togaraútgerðarinnar. Við það má svo einnig bæta því, að vitanlega var það augljóst mál, að stækkun landhelginnar þýddi það líka í framkvæmd, að af togaraflota okkar voru tekin allþýðingarmikil veiðisvæði frá því sem áður var. Þeir urðu að víkja af þeim veiðisvæðum, missa þar allþýðingarmikil fiskimið. Þeir hafa ekki heldur kvartað undan þessu og óska ekki eftir að kvarta undan því á neinn hátt, því að þeir meta að fullu þá þörf, sem var fyrir hendi í þessum efnum. Eigi að síður ber að líta á þetta, og það verður hver og einn að skilja það, af þessu hlaut að leiða, að í svipinn hlaut að þrengjast nokkuð um fyrir togaraútgerð landsmanna.

En auk þessa, sem ég hef nú lítillega minnzt á, hefur vitanlega togaraútgerðin fengið að taka á miklum mun erfiðari hlutum en jafnvel þessu. Það er staðreynd, að togaraútgerðin hefur þurft að búa við það verðlag á afurðum sínum, sem heimsmarkaðurinn hefur skammtað á hverjum tíma. Togararnir hafa ekki fengið nein sérstök fríðindi eða neinar fiskuppbætur frá hinu opinbera. Þegar það gerist, að á árinu 1953 fellur verð á heimsmarkaði á saltfiski og skreið, þannig að það mun að meðaltali rúmlega 15% verðlækkun og bara verðlækkunin á saltfiskinum einum mun nema í kringum 500 þús. kr. á togara að meðaltali á ári, þá er skiljanlegt, að þetta segi til sín í rekstrinum og það allalvarlega. Sama er að segja um skreiðina, að fyrir rétt rúmlega ári var geysilega hátt verð á skreið, og á árinu 1952 bjuggu nokkur skip við tiltölulega hagstætt verð á þeirri framleiðsluvöru. En á þessu ári, á árinu 1953 og síðast á því ári var þar um mjög verulega verðlækkun að ræða, sem vitanlega hefur komið fram í rekstri skipanna. Þannig má nefna miklu fleiri dæmi. Ég get nefnt það, að á árinu 1951 og mikið af árinu 1952 var verð t. d. á þorskalýsi kr. 6.40 kg, en allt s. 1. ár fór verðið á þessum afurðum hæst upp í kr. 2.80 á kg. Þarna var líka um geysilega mikla verðlækkun að ræða. Þetta hlaut vitanlega að koma fram í rekstrarafkomu skipanna.

Áður hef ég minnzt lítillega á það, að við hið breytta rekstrarform togaranna, með því að reksturinn færðist meira inn í landið, hlaut allur tilkostnaður skipanna, hvort sem það var í sambandi við viðhald þeirra, veiðarfærakostnað eða annað, að hækka til mikilla muna frá því, sem áður var, og það gefur auga leið, vegna þess að hið innlenda verðlag hér er miklum mun hærra en hið erlenda verðlag, sem skipin gátu notið áður. Ég hef t. d. í þessu efni áður bent á það hér á Alþ., og það er aðeins eitt lítið dæmi, sem segir svolítið um þetta, að ef togari núna þarf að kaupa sér ljósavél, sem bilar í skipinu, þá kostar slík vél núna í Englandi 233 þús. kr., og það hefðu skipin þurft að greiða fyrir vélina, ef þau hefðu siglt á erlendan markað, því að þau höfðu leyfi til þess að kaupa slíkar nauðsynjar þá úti á því verði. En hvað bætist við þessa vél núna eftir réttum reglum með því að þurfa að flytja hana inn í landið? Við þetta verð, 233 þús., bætast 47303 kr., og af því tekur ríkissjóður einn bara í söluskatt 21798.05 kr., en auk þess tekur auðvitað ríkissjóður miklu meira en þetta í bæði vörumagnstoll og verðtoll og aðra tolla, sem á þessum nauðsynjum hvíla við innflutning. Þannig er það, að tilkostnaður skipanna hefur eðlilega stórkostlega vaxið við hið breytta útgerðarform.

Auk þessa ber svo að líta á það, að togararnir hafa þrátt fyrir sífellt hækkandi tilkostnað hér í landi þurft að búa öll þessi ár við svo að segja óbreytt fiskverð — og í sumum tilfellum lækkandi fiskverð eins og ég var að geta um á saltfiski og skreið. Þeir hafa þurft að búa við óbreytt fiskverð allan þennan tíma á þeim fiski, sem þeir hafa þurft að landa nýjum til vinnslu í frystihús hér innanlands, nema hvað verð á karfa hækkaði nokkuð nú á s.l. ári. Hafa hv. alþm. almennt gert sér grein fyrir því, að togaraflotinn fær fyrir fisk, sem hann leggur hér upp til frystihúsanna til vinnslu, 85 aura verð fyrir þorskinn, á sama tíma sem bátarnir fá, þegar allt er reiknað á þeim grundvelli, sem gert hefur verið á undanförnum árum þeim til handa, ekki 85 aura fyrir kg, heldur kr. 1.40, því að það er líka rangt, að þeir fái kr. 1.22, sem er lagt til grundvallar í sambandi við útreikning á kaupi háseta, það er aðeins umsamin tala, en hið raunverulega verð, sem ætla má til bátanna, mun vera mjög nærri því að vera kr. 1.40 fyrir kg, miðað við þá reynslu, sem út hefur komið á undanförnum árum? En togararnir fá aðeins 85 aura fyrir kg, og þetta fiskverð er búið að standa óbreytt í mörg ár. Það þarf því engan að undra, með stórauknum tilkostnaði skipanna, þó að það vitanlega dragi smám saman af þessum rekstri og þó að t. d. bátaflotinn okkar komist eitthvað betur af, þegar þó þetta vel er að honum búið í samanburði við togarareksturinn.

Aðeins þessi dæmi, sem ég hef nefnt núna, eiga að vera flestum landsmönnum ljós og þau gefa alveg auga leið um það, að það er full ástæða til þess, að rekstrarafkoma togaranna hlýtur að vera þröng.

En til viðbótar við þetta liggur það svo fyrir, að ég sé ekki, hvaða ástæðu hæstv. ríkisstj. hefur til þess að vantreysta þeim upplýsingum, sem hún hefur fengið, eftir að hún hefur beðið um þær. Hún hefur nú fengið upplýsingar frá togaraeigendum um afkomuna, miðað við s. l. ár, og eru þær upplýsingar byggðar, eins og nú er komið, á reikningi um það bil helmingsins af öllum þeim skipum, sem rekin eru nú í landinu. Ég fullyrði það, að hún hefur ekki heimtað neitt svipað því eins glöggar og sundurliðaðar upplýsingar í sambandi við framlagða rekstrarreikninga frá bátaútvegi landsmanna eða frystihúsunum, þegar hún hefur verið að gera sínar ráðstafanir fyrir þessa aðila, eins og hún hefur nú þegar heimtað af togaraútgerðinni og fengið í sínar hendur, þó að hún álíti, að til viðbótar við þessa reikninga, sem fram eru lagðir, þurfi nú að setja mþn. til þess að athuga málið í marga mánuði. Auk þess má svo benda á það, að í hópi þeirra aðila, sem hafa lagt fram reikninga sína fyrir s. l. ár af togaraeigendum, eru t. d. fyrirtæki eins og Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem rekur 8 togara og hefur lagt fram reikninga yfir rekstur þessara skipa fyrir s. l. ár, mjög sundurliðaða og greinargóða reikninga, og býður sitt bókhald fram hverjum þeim, sem vill það athuga. Meðal þessara aðila eru margar aðrar bæjarútgerðir í landinu, þar sem svo að segja opinberir endurskoðendur fjalla um bókhaldið. Ég verð því að segja það, að ég álít, að nú þegar liggi fyrir það greinargott yfirlit um afkomu togaraútgerðarinnar í landinu, að það þurfi hvorki nokkur hv. alþm.ríkisstj. að efast um, að það er þörf á verulegum aðgerðum, ef ekki á að leiða til þess, að togaraútgerðin stöðvist. Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um það, að eins og nú er eru þegar stöðvuð nokkur skip, m. a. tvö af skipum bæjarútgerðarinnar í Reykjavík liggja hér í höfninni, og annað þeirra hefur legið lengi og ekki getað komizt á veiðar, og ég er alveg sannfærður um það, að ekki getur dregizt nema svona fram undir lok maímánaðar, að allur togarafloti landsmanna hlýtur að hætta rekstri, ef engar bætur eða engin aðstoð fæst frá hálfu hins opinbera í sambandi við rekstur skipanna.

Það væri auðvitað full ástæða til þess líka í sambandi við þetta mál að ræða nokkuð um það, hvaða leiðir eru tiltækastar í sambandi við lausn þessa vanda. En við 4 þm. Sósfl. hér höfum lagt fram þáltill., sem fjallar um þetta mál og er að finna á þskj. 613, og í þeirri þáltill. bendum við á nokkrar þær leiðir, sem við teljum fyllilega eðlilegt að reyna að fara í þessum efnum. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um það, að ef horfið yrði að því ráði, sem bent er á í þeirri till., þá væri hægt að aðstoða togaraútgerðina mjög verulega og a. m. k. tryggja það með þeim ráðstöfunum, sem þar er bent á, að rekstur togaranna yrði tryggður á þessu ári. Ég skal hins vegar ekki neita því, að þar er bent á ýmsar þær leiðir, sem ágreiningur getur verið um, hvort tiltækilegt sé að taka upp að svo stöddu. Ég hefði líka, af því að hér er um svo nauðsynlegt og alvarlegt mál að ræða, talið ekki óeðlilegt, að reynt yrði að komast að einhverjum samkomulagsleiðum, að allir þingflokkar hefðu reynt að leggja sig fram í því efni að ná samkomulagsleiðum um það, hvað gera á í þessum efnum, jafnvel þó að þeir gætu ekki fengið þá framkvæmd á lausn þessara mála, sem þeir hefðu helzt kosið hver um sig. En því miður hefur ekki verið horfið að því ráði enn að gera neinar slíkar tilraunir hér á Alþ., leita eftir slíku samkomulagi.

Við höfum með þessari þáltill., sem ég hef hér lítillega minnzt á, bent á þær leiðir, sem við teljum alveg sjálfsagt að reyndar verði og farið eftir þeim, það sem þær ná. Aðrir flokkar hafa ekki bent á neinar sérstakar leiðir, en þó hefur maður heyrt tilnefndar nokkrar ráðstafanir, sem gætu komið til greina, a. m. k. sem bráðabirgðaráðstafanir.

Ég skal ekki nú, af því að mjög er áliðið fundarins, fara ýtarlega út í að rekja þessar leiðir, sem við höfum bent á, enda okkar till. enn ekki hér tekin til umr., en vil þó benda á það, að það er staðreynd, sem ekki verður fram hjá gengið, að einn af stærstu útgjaldaliðum í rekstri togaranna er olíukostnaður þeirra. Verð á olíu hér á landi er miklum mun hærra, eins og tölur liggja fyrir um, og hefur verið í langan tíma hér hjá okkur miklum mun hærra heldur en í löndunum hér í kringum okkur. Þó eigum við að kaupa olíuna inn á sama verði og þau lönd gera. Og við eigum samkvæmt opinberum skýrslum þar um að njóta líka sömu flutningsgjalda og þau lönd njóta. Ég hef marggert tilraun til þess að fá skýringar á því, hvernig stendur á þeim mikla mismun, sem er á olíuverði hér og í löndunum í kringum okkur, og þær upplýsingar hafa ekki fengizt. Hitt er svo aftur vitað mál, að olíufélögin hér hafa verið að veita einstaka aðilum, sem hafa fengið verulega sterk tök á þeim, stórkostlegan afslátt frá hinu auglýsta verði, þó að togaraeigendur hafi ekki orðið þess aðnjótandi nema að litlu leyti. Í sambandi við það vil ég strax taka það fram, að það er gersamlega rangt, sem hér hefur verið sagt, að togaraeigendum hafi verið gefinn kostur á því að vera að meiri hluta til í einu því olíufélagi, sem stofnað hefur verið hér á landi nú og rekur olíuverzlunina. Mér er a. m. k. ekki kunnugt um það. Ég hef aldrei orðið var við það og þó fylgzt með þeim málum frá upphafi. (Gripið fram í.) Já, við erum í félaginu, og við fengum skeyti um það, að við mættum gerast aðilar að þessu félagi, og í því skeyti stóð, — ég á það enn þá, — að það væri bundið því skilyrði, að Samband ísl. samvinnufélaga ásamt tilteknum fjórum eða fimm kaupfélögum áskildi sér meirihlutarétt í félaginu. Það liggur skjalfest fyrir, að undir þessum kringumstæðum var okkur boðið upp á þátttöku í því félagi, en ekki annarri. En það er nú svo, að þrátt fyrir þær tölur, sem fyrir liggja um mjög mismunandi olíuverð á hinum ýmsu stöðum, þá hafa ekki getað fengizt hér fullnægjandi upplýsingar um það, hvernig á þessum mikla verðmismun stendur. Ég er því sannfærður um það, eftir að hafa kynnt mér þau mál allvel, að það er hægt að framkvæma verulega lækkun á olíuverði hér á landi og þannig bæta afkomu útgerðarinnar talsvert frá því, sem nú er.

Þá höfum við einnig bent á, að það virðist vera hægur vandi að bæta nokkuð afkomu togaraútgerðarinnar og útgerðar landsmanna almennt með því að framkvæma verulega lækkun á vöxtum hjá bönkunum, einkum á vöxtum í sambandi við hrein afurðalán. Nú eru teknir af afurðalánum hér á landi 5% vextir, sem eru miklum mun hærri vextir en maður þekkir hér í löndunum í kring. Ágætt dæmi um, hvað hægt er að gera í þessu efni, er það, sem nú liggur fyrir mjög greinilega í þessum efnum, þar sem annar aðalbankinn hér, sem er Útvegsbankinn, veitir sínum viðskiptavinum afurðalán og tekur 5% vexti af þessum lánum, en hann endurselur samtímis og hann veitir lánið þessa afurðavíxla til seðladeildar Landsbankans og borgar Landsbankanum 4½ af þessum vöxtum fyrir að endurkaupa víxlana, eða Útvegsbankinn annast það að veita þessi afurðalán til viðskiptamanna sinna fyrir ½%, en hins vegar hrúgast svo upp gróðinn hjá seðlabankanum og er nú orðinn miklum mun meiri á ári hverju heldur en þekkzt hefur áður. Það væri full ástæða til þess, að vextir af afurðalánum yrðu stórlega lækkaðir frá því, sem nú er, enda engin ástæða til þess að leggja slík lán að jöfnu við ýmis önnur lán, sem veitt eru undir alveg gersamlega öðrum kringumstæðum heldur en afurðalánin eru.

Ég hef einnig áður bent á það, að það er alveg tvímælalaust, að það er hægt, ef vilji er fyrir hendi, að fyrirskipa verulega lækkun á frögtum, einkum á frögtum, sem teknar eru fyrir flutning á framleiðsluvörum landsmanna á erlendan markað. Það hefur ekki leynt sér, að skipafélög þau, sem annazt hafa vöruflutninga til landsins og frá landinu, bæði Eimskipafélag Íslands og skip Sambandsins, svo að maður taki tvö stærstu félögin, hafa hagnazt drjúgum á undanförnum árum, og þau hafa hagnazt svo vel, að það bendir alveg ótvírætt á, að þau gætu stillt töxtum sínum meira í hóf heldur en þau hafa gert, einkum í sambandi við að flytja afurðir landsmanna á erlendan markað. En slík fragtlækkun mundi auðvitað veita aðstöðu til þess, að hægt yrði að hækka fiskverðið aftur að jöfnu á móti.

Nú, klukkan er þegar orðin 7, og fer eflaust að líða að lokum fundarins, enda ekki ástæða til þess að ræða þetta miklu meira á þessu stigi. En ég vildi lýsa því yfir sem minni skoðun, að sú leið, sem hæstv. ríkisstj. virðist hníga að með flutningi þessarar þáltill., verkar þannig á mig, að hún er raunveruleg uppgjöf á lausn í þessu máli. Hún er það að loka augunum fyrir aðsteðjandi vanda, sjá þó, að togararnir eru að leggjast og eru lagztir sumir hverjir. Fram undan er 6–7 mánaða starfstími þeirra, þangað til Alþ. kemur næst saman, og á meðan á að athuga um afkomumöguleika þeirra, en láta þá liggja ónotaða. Þetta er að gefast að verulegu leyti upp við þennan mikla vanda, og þetta tel ég því ekki viðhlítandi úrlausn fyrir Alþ. eins og nú standa sakir.