13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2966)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég get mjög stytt mál mitt, sökum þess að hv. 1. landsk. þm. (GÞG) hefur rakið gang þessa máls, sem ég hafði ætlað mér að víkja að.

Það er borin fram þáltill. hér í hinu háa Alþ. um skipun nefndar til þess að endurskoða einn þátt kosningalaganna. Þeirri till. er vísað til allshn. þingsins, og hún gerir þá brtt., að n. sé falið það hlutverk að endurskoða öll kosningalögin til Alþ. og jafnframt að gera tillögur um kjördæmaskipun landsins, sem vitanlega er ekki hægt að breyta með einföldum lögum, en átti að vera til leiðbeiningar fyrir væntanlega stjórnarskrárnefnd, ef hún nokkurn tíma lýkur störfum. Eins og hv. 1. landsk. þm. tók fram, þá var allshn. með öllu óklofin í till. sinni um þetta mál. Einn nm. var ekki viðstaddur að vísu, eins og ég gat um í gærkvöld, þegar það mál var til umræðu, en að öðru leyti var nefndin óklofin, og áttu þó sæti í henni fulltrúar fjögurra flokka.

Nú bregður svo við, að þessi till., sem nefnd er búin að athuga, er ekki einu sinni á dagskrá á þessum fundi, og þar með, að því er mér virðist, af forseta ákveðið, að hún komi tæplega til meðferðar framar. En í staðinn er lögð fram hér sérstök þáltill. um sama efni og ákaflega svipuð og brtt. allshn. var við hina till. Munurinn er sá, að í staðinn fyrir 5 manna nefnd, sem væri skipuð eftir tilnefningu allra þingflokkanna, komi 7 manna kosin nefnd, og svo er fellt niður, að þessi nefnd skuli athuga um kjördæmaskipun landsins. Þetta er breytingin.

Raunverulega virðist breytingin vera aðeins sú, að minnsta stjórnmálaflokknum í þinginu er bolað frá að taka þátt í þessu starfi og að nefndin á ekki að fjalla neitt um kjördæmamálið.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, en út af þessu vil ég segja það, að ég sé ekki, að þessi nýja þáltill. taki brtt. allshn. neitt fram. Að vísu mundu tveir stærstu flokkarnir í þinginu fá 2 menn hvor í þessa nefnd, en eins og ég tók fram í umræðunum um þá till., þá er það ekkert aðalatriði, hvort flokkur hefur einn eða tvo menn í nefnd, sem ekkert vald hefur, heldur á aðeins að gera till. Ég veit ekki heldur, hvort það er hyggilegt að ganga fram hjá því, ef menn eru ekki alveg horfnir frá því að setja nýja stjórnarskrá á næstu árum, að athugað sé um kjördæmaskipun landsins, því að á því atriði hefur það staðið, að ekki er þegar búið að ákveða nýja stjórnarskrá.

Á hinn bóginn álít ég þó betra að fá þessa þáltill. samþ. heldur en ekki neitt, og ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með þeirri brtt. við þessa till., sem hv. 1. landsk. þm. boðaði, en að henni fallinni, og sjálfsagt má búast við, að hún falli, þá mun ég þó þrátt fyrir það, að mér finnst málatilbúnaðurinn einkennilegur, greiða atkv. með þeirri þáltill., sem fyrir liggur.

Ég hef ekki séð ástæðu til að boða fund í allshn. út af þessari nýju till., þar sem henni hefur alls ekki verið vísað til nefndarinnar. Ég hef átt aðeins tal við suma af nefndarmönnum, en alls ekki alla, og ég veit ekki, hvernig þeir munu greiða atkv. um brtt., sem nú er lýst. En ef ekki liggur annað fyrir til atkv. að lokum heldur en sú þáltill., sem hér er til umr., þá hygg ég, að flestir nm. í allshn. muni greiða henni atkv.