13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2969)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós undrun mína yfir þeim óvenjulegu vinnubrögðum hæstv. forseta að taka ekki á dagskrá þessa fundar nál. allshn. um það mál, sem er í rauninni hið sama og hér liggur fyrir. Ég vil sömuleiðis taka undir þau ummæli, sem hér hafa fallið um það, að hér er um alveg óvenjulega afgreiðslu máls að ræða að því leyti, að till. kemur fram allsnemma á þinginu um, að gerðar séu ráðstafanir til þess að takmarka notkun fjár í kosningum. Allshn. Sþ. hefur haft málið til meðferðar á mörgum fundum. Hún hefur orðið sammála um að flytja brtt., sem mér skilst að flm. till. á þskj. 360 geti hið bezta sætt sig við, enda er þar um að ræða frjálslynda lausn á málinu. Þetta er býsna merkilegt af hæstv. ríkisstj., því að henni eigna ég till. á þskj. 839, sem hér er til umræðu, enda þótt hún sé ekki skráð sem flytjandi hennar. Það er ákaflega lítil víðsýni eða frjálslyndi, sem birtist í því, að fráleitt skuli þykja að afgreiða málið eins og allshn. óklofin hefur lagt til.

Ég ætlaði mér, þegar ég bað hér um orðið í upphafi vega, að gera að mínum brtt. við þetta þær till., sem allshn. hafði gert, en lýsi nú stuðningi mínum við þær, þegar aðrir hafa orðið mér fyrri til að flytja þær, og vænti þess, að þær nái samþykki, fyrst hæstv. forseta þótti ekki ástæða til þess að láta þær koma hér til atkvæða sem sjálfstæðar till., eins og mér hefði þó virzt að sjálfsagt hefði verið, enda fráleitt að virða till. allshn. í málinu minna en þær till., sem eru mjög síðla fram komnar og fluttar af nokkrum þm. að því er virðist einungis til þess að koma í veg fyrir það með tilstyrk hæstv. forseta, að till. frá allshn. komi til atkvæða.