04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þeir þm. A-Húnv. og V-Húnv. hafa haldið hvor sína ræðuna í þessu máli, sem eru með nokkuð gagnstæðum blæ. Hv. þm. A-Húnv. lýsti mjög eindregnum fögnuði sínum yfir því, að með því frv., sem hér liggur fyrir, skyldu vera numin úr gildi lögin um fjárhagsráð. Hins vegar leyndi það sér ekki, að töluverður harmur var í huga þm. V-Húnv. yfir því, að þessi lagabálkur skyldi nú þurfa að falla fyrir ætternisstapa. Eru þeir í þessu máli mjög á öndverðum meiði, eins og reyndar í mörgum öðrum, þessir þm. Húnv.

Ég verð nú að segja það og taka undir með hv. þm. A-Húnv., að það skiptir ákaflega miklu máli um það, hvað mikla þýðingu þetta frv. og væntanleg löggjöf kann að hafa, hvernig framkvæmdin reynist. Get ég ekki stillt mig um að segja það, að ég mundi ekki vera sérstaklega vonglaður um framkvæmdina, ef hv. meðnm. minn, þm. V-Húnv., væri núna viðskmrh., eftir þá ræðu, sem hann flutti. Hann vék að því, sem hér hefur verið talað um tímamót í þessu máli, þ.e.a.s. tímamót aukins verzlunarfrelsis, sem sumir vilja binda við þetta frv. Hann taldi, að það bæri þá fremur að tengja þau við stjórnarmyndunina 1950 og það verzlunarfrelsi, sem þá ávannst í tíð stjórnar Steingríms Steinþórssonar. Ég álít, að þessi ágreiningur skipti nú ekki miklu máli, en vil minna á, að það var minnihlutastjórn Sjálfstfl., sem tók við völdum 1949, sem lagði fram hér í þinginn viðreisnartill. í efnahagsmálum þjóðarinnar með frv. um gengisbreytingu o.fl., og það var í því frv., sem lagður var grundvöllurinn að auknu verzlunarfrelsi í landinu. Framsfl. vann sér að vísu það til frægðar að samþykkja vantraust á minnihlutastjórnina, en stofnaði síðan, eins og kunnugt er, til samvinnu við Sjálfstfl. um stjórnarstefnu, sem í öllum aðalatriðum grundvallaðist á þeirri stjórnarstefnu, sem minnihlutastjórn Sjálfstfl. hafði markað með gengisbreytingarlögunum. Það eru kannske langmerkustu tímamótin í stjórnmálum síðari ára, sú stjórnarmyndun, þegar Sjálfstfl. tókst að fá Framsfl. til samstarfs um grundvallarstefnubreytingu í verzlunarmálunum. Síðan ber báðum flokkunum að þakka jafnt það, sem áunnizt hefur.

Í raun og veru má segja, að sumir hv. þm. Framsfl. hafi frá eldri tíma verið í eins konar álagaham í verzlunarmálunum. Einn af þeim, sem vitað er að langlengst hafa gengið í haftastefnuáttina, er einmitt hv. þm. V-Húnv. Ég álít, að eftir að mynduð var samvinnustjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna undir forsæti Steingríms Steinþórssonar 1950, hafi nú tekizt að ná þessum hv. þm. úr álagahaminum og það sé í raun og veru ekkert annað eftir fyrir hann en að brenna nú þennan álagaham, svo að hann eigi ekki á hættu að vera að skjótast í hann við og við, því að það verður honum ekki til neinnar sæmdar, úr því sem komið er, — og sannaðist reyndar í ræðu hans nú.

Það er kannske markverðast við flutning þessa frumvarps hér í þinginu að öðru leyti, að hér koma þm. upp hver á fætur öðrum til þess að lýsa því yfir, hvað þeir séu einlægir stuðningsmenn aukins frelsis í verzlun og viðskiptum. Þetta er alveg nýr tónn, sem kveður við hér í sölum Alþ., og ber vissulega að fagna honum. Menn deila helzt um það, hvort gengið sé nógu langt í frelsisáttina með þessu frv. Sumir segja, að það eigi að fara miklu lengra, jafnvel þeir menn, sem eru að stefnu til þekktir að því fram að þessu að hafa verið haftastefnumenn. T.d. talar hér hv. 1. landsk., sem samkvæmt sinni sósíalistísku kennisetningu er einn af haftastefnupostulum þessa þjóðfélags, og er þar alveg í samræmi við stefnu flokksins, enda hefur flokkur hans og hann á undanförnum árum haugað upp heilum bunka af málum, þar sem haftastefnan er innsigluð í málflutningi þeirra. En þegar hér er stefnt að því með þessu frv., eins og stjórnin hefur lýst yfir, að auka verzlunarfrelsið, segir þessi hv. þm., 1. landsk.: Það er ekki farið nógu langt. Þetta er ekki nægilegt frelsi, — og leggur til í brtt., að það verði lögákveðið algert verzlunarfrelsi hér. Ég verð nú að taka undir með hæstv. viðskmrh., að þetta er mikil traustsyfirlýsing til núv. ríkisstj. og lýsir því, að þessi hv. þm. bindur miklar vonir við afrek og ágæti þessarar stjórnar.

Þegar hins vegar er deilt um það, eins og hjá þessum þm., hv. 1. landsk., að undanförnum tveim stjórnum hafi alls ekkert orðið ágengt til þess að auka verzlunarfrelsið á undanförnum árum, þá er auðvitað reynslan ólygnust í þessum efnum. Menn eru mjög gleymnir, ef þeir átta sig ekki á þeim gífurlega róttæka mun, sem orðinn er í þessum málum frá því, að stjórn Stefáns Jóhanns lét af völdum. Þá var hér allt í höftum og bönnum í samræmi við gildandi lög um fjárhagsráð, eins og þau voru framkvæmd. Ég skal ekki deila um það, að mátt hefði framkvæma þau öðruvísi, eins og vikið var að hjá hv. þm. V-Húnv. En þá voru lögin framkvæmd þannig í samræmi við stefnu þeirra, sem fyrst og fremst lögðu megináherzlu á áætlunarbúskaparstefnu þá, sem í þeim fólst, að hér var allt í höftum og bönnum. Verzlunarfrelsi var ekkert. Þá var svarti markaðurinn. Hann var það, sem menn ráku sig alls staðar á, biðraðirnar voru hér þannig, að fólk stóð tímum saman, það leið yfir margar konur næstum því á hverjum morgni, og það voru birtar af þessu myndir í blöðunum. Þessa sögu hélt ég að væri nú óþarft að rifja upp eftir ekki lengri tíma. Hitt er svo annað mál, að það má viðurkenna margt gott í fari hv. 1. landsk. Hann er duglegur við að afla sér upplýsinga um tölur, og hann er líka nokkuð leikinn að fara með tölur, og má segja, að það sé í samræmi við hans atvinnu. En hann þekkir nú líka þetta gamla máltæki um hagfræðina, að statistíkin lýgur. Og það er þess vegna ekki alveg að öllu leyti byggjandi á því, þegar leiknir hagfræðingar fara að fara með tölur, og eiginlega verða menn að vara sig þeim mun fremur, sem hagfræðingarnir eru slungnari. Hann hefur hins vegar sýnt fram á, að gjaldeyrisverzlunin sé svo og svo takmörkuð, það eru ekki nema svo og svo mörg prósent af gjaldeyrinum, sem eru fyrir frílistavörur, svo og svo mikið fyrir bátagjaldeyri o.s.frv. Og niðurstöðurnar af þeim tölum eru svo þær hjá hv. þm., að það sé í raun og veru ekkert verzlunarfrelsi, og í framhaldi af því var það, að þessar tvær fyrrv. stjórnir hefðu eiginlega engu áorkað. Kannske eru allar þessar tölur réttar, en ég efa mjög niðurstöðurnar og bendi bara þess vegna á fortíðina, á það, hvernig ástandið var hér, áður en þessar stjórnir tóku við, og hvernig ástandið er í dag. Það þekkja allir, hvort sem þeir eru hagfræðingar eða ekki, eins og fram kom hjá hv. 1. landsk. Slíkur málflutningur skiptir í sjálfu sér ekki ýkja miklu máli. Hann kemur hér og segir, að hann beri fram till. um algert verzlunarfrelsi, bara til þess að fá úr því skoríð, hvort hæstv. ríkisstj. hafi trú á sjálfri sér. Þetta getur náttúrlega verið gaman að gera, og þetta gera menn kannske á málfundum í unglingaskólum og kannske gagnfræðaskólum líka, eins og nefnt var hér áðan, en þetta hæfir tæpast hér í þingsölunum. Menn eiga að bera fram sínar till. og marka með því sína stefnu og sýna alvöru sína í málinu, en ekki vera að neinum strákapörum í þessu efni. Þetta mál er miklu umfangsmeira en svo, að ástæða sé til þess.

Hv. 8. landsk. sagði, að í þessu frv. fælist ekkert aukið byggingarfrelsi, og hafa nú margir þm. áréttað, að þetta væri misskilningur hjá hv. 8. landsk. Þar held ég að sé langbezt að láta reynsluna tala líka, og það mun koma í ljós, þegar þetta frv. hefur orðið að lögum og verið í gildi um nokkurn tíma, hversu í raun og veru gífurlega mikið frjálsræði menn fá með þessu frv. frá því, sem einmitt hefur verið í byggingarmálunum. Það er ómögulegt að hrekja það, að menn hafa fengið frjálsræði til þess að byggja smáíbúðir 340–350 m3 síðari árin. Hér er um að ræða 520 m3, og það er auðvitað mikið frjálsræði í þessu einu, í þeirri stækkun, sem þarna er um að ræða, auk þess sem menn losna alveg, eins og hæstv. viðskmrh. benti á, við það umstang, sem því fylgir að sækja um byggingarvöruleyfi, og þar sem skömmtun byggingarvaranna á að afnemast. Ég ætla ekki að ræða frekar um kjallarann, sem byggður var á eftir risinu. Sannast að segja undraði mig á því, að hv. þm., sem er starfsmaður í fjárhagsráði, skuli koma hér upp í ræðustól til þess í raun og veru að lýsa því yfir, hvort sem hann gerir það klaufalega eða ekki, að fjárhagsráð hafi alls ekki farið eftir þeim reglum, sem settar hafa verið.

Það er eitt atriði, sem ég held að sé rétt að menn geri sér grein fyrir og fram kom í ræðu hv. þm. V-Húnv., þegar hann sagði, að það dygði auðvitað ekki að gefa byggingarfrelsi, ef þarf að skammta byggingarefni og menn þurfa að fara að slást um það, þ.e.a.s., það dugir ekki að gefa byggingarfrelsi, ef menn hafa ekki nóg byggingarefni og þurfa að fara að slást um það, hver á að fá það takmarkaða magn. sem til landsins flyzt af því. Þetta er rétt, og þess vegna ber að leggja áherzlu á það og verður að stefna að því, að það sé nægilegt fyrir hendi á hverjum tíma. En hv. þm. V-Húnv. dró þá ályktun að segja sem svo, að ef svo kynni að fara, að byggingarefni væri ekki nóg, þá liti hann á það sem skyldu ríkisstj. að skammta byggingarefnið, til þess að þeir ríku eða betur efnum búnu fengju ekki byggingarefnið umfram t.d. einstaklinga, sem byggðu til eigin afnota, eins og hann sagði, en hinir byggðu til þess að selja íbúðir og græða á þeim. Þetta getur látið vel í munni, en sannleikurinn er sá, að eins og ástandið hefur verið hér, þá fara bara þeir efnaðri í skjóli haftanna allt aðrar leiðir en þessa til þess að ná sér niðri á þeim minna efnuðu, og á því sannast, hversu lítils virði höftin eru. Nú er þessi skömmtun byggingarefnisins og menn fá ekki byggingarefni nema til þess að byggja til eigin afnota. Það eru margir efnaðir menn í þjóðfélaginu, — eða við skulum gera ráð fyrir, að það sé svo, — sem hefðu tök á því að byggja, eins og hv. þm. V-Húnv. sagði, fyrir aðra og selja íbúðirnar og mundu þá græða á þeim. En hvað gera þessir menn í dag? Þeir lána þeim fátæku á svarta markaðnum fjármagnið með okurvöxtum og hafa á þennan hátt miklu óheilbrigðari hagnað og gróða heldur en vera mundi, ef mönnum væri, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, frjálst að byggja. Og það legg ég áherzlu á, að mönnum er ekki aðeins frjálst að byggja eina íbúð, sem er 520 m3, heldur mega menn byggja fleiri íbúðir. Þannig mundi það vinnast m.a. með því aukna frjálsræði, sem hér er um að ræða, að fjármagnið, sem undanfarið hefur farið mjög óheillavænlegar brautir í þessu þjóðfélagi, — og mér þykir ólíklegt, að hv. þingmenn hafi getað lokað augunum fyrir því svartamarkaðsbraski með peninga, sem átt hefur sér stað vegna haftanna, — mundi fara heillavænlegri leiðir, og menn verða að átta sig á því, að það eru margar hliðar á því máli, hvort rétt sé að takmarka byggingarefnisúthlutun aðeins við þá, sem byggja til eigin afnota, eða þá, sem byggja íbúðir til þess að selja öðrum. Ég fyrir mitt leyti tel mörgum sinnum heillavænlegri og ákjósanlegri stefnu í þjóðfélaginu, að duglegir og atorkusamir byggingarmenn og aðrir, sem hafa efni til þess, byggi íbúðir í landi, sem vantar íbúðir, og selji þær öðrum, heldur en að menn, sem hafa einhver efni, noti fjármagn sitt til þess að duldum leiðum að fá óhæfilega og ólöglega okurvexti af því, eins og verið hefur. Af þessum sökum m.a. ber að fagna því, að þetta frv. er fram komið.

Loks vil ég svo segja það, að það var sagt hér, að fjárhagsráð hefði verið stofnað á sínum tíma til þess að taka á móti óánægju af ríkisstj. Þetta held ég að sé mikill misskilningur. Hitt er rétt, að óánægjan hefur bitnað á fjárhagsráði, og að því vék hv. þm. A-Húnv., að það væri að ósekju í mörgum tilfellum, að óánægja manna bitnaði á fjárhagsráði og fjárhagsráðsmönnum, sem margir hverjir og kannske allir hafa verið ágætir menn, og það er vegna þess, að það er í raun og veru sjálft haftakerfið, sem er undirstaða óánægjunnar, og óánægja almennings átti því og á því að beinast gegn haftastefnunni í hverri mynd sem hún birtist í þjóðfélaginu. Ber því að fagna þessu frv. og öðrum frv., sem fram koma og eru miðuð við það og stefna að því að létta af höftum og skapa aukið frelsi í þjóðfélaginu.