13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (2970)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það mál. sem hér er til umræðu, svo furðulegt sem það er þó, bæði hv. 1. landsk. þm. og hv. 8. þm. Reykv. hafa gert það og sagt það, sem ég vildi segja í þessu máli. En það er aðeins lítið atriði, sem ég vildi skjóta hér inn í þessa umræðu. Brtt., sem hv. 1. landsk. þm. og fleiri flytja, er orðrétt till. í máli, sem áður hefur legið fyrir nefnd. Hins vegar hefur aðaltill., sem hér er til umr., ekki verið vísað til nefndar.

Nú er það sýnilegt, að skipun 7 manna mþn. til að athuga þessi mál hlýtur að hafa talsvert mikinn kostnað í för með sér, og því tel ég, að samkvæmt þingsköpum ætti að vísa þeirri till. til nefndar milli umræðna, ef hún yrði samþykkt.

Ég vil því gera það að till. minni, að svo framarlega sem brtt. verður felld, sem er raunverulega till. frá nefnd og hefur verið fjallað um í nefnd, þá verði aðaltill. vísað til hv. fjvn. á milli umræðna.

Fleira en þetta ætlaði ég ekki að segja. Þó vil ég aðeins taka það fram, að mér þykir hafa orðið hér mikil skoðanaskipti á hv. Alþ. síðan í gær. Í gær var borin hér fram till. um það að fækka í mþn., sem var till. um að kjósa hér, mþn. í heilbrigðismálum. Það lá hér fyrir till. um að kjósa 5 manna mþn., og hið háa Alþ. sá ástæðu til að fækka þessu í 3 menn. Nú hefur þn. lagt til að kjósa 5 manna nefnd, en fram er komin á hinu háa Alþ. till. um að fjölga í þeirri n. upp í 7 menn. Ástæðan til þess að fjölga á í n. og kjósa hana með þeim hætti, sem nú er lagt til, er aðeins ein, sú að útiloka einn þingflokkinn, nefnilega Þjóðvarnarflokk Íslands, frá því að eiga fulltrúa í nefndinni.

Ég skil það mætavel. að hv. stjórnarflokkar kjósa það fremur að hafa fulltrúa frá Alþfl. og Sósfl. í n. með sér, en vilja losna við Þjóðvfl. og hafa nefndina fjölmennari og fórna meira fé úr ríkissjóði til þess eins. En einhvern veginn kann ég nú samt ekki við þessa aðferð, allra sízt þegar hv. þm. stjórnarflokkanna, eins og hv. 1. þm. Eyf. (BSt), frsm. allshn. hér í gær, lýsti afstöðu sinni til þessa máls og rökum fyrir því, að það væri eðlilegt og sjálfsagt, að allir þingflokkarnir ættu mann í slíkri nefnd sem þessari, og færði þar m. a. fram sem rök, að í stjórnarskrárnefndinni svo kölluðu voru þingflokkarnir jafnréttháir, a. m. k. um eitt skeið.