13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2971)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af því, að hér hefur komið fram frá hv. flm. till. á þskj. 360, að hér væri um sama mál að ræða, vil ég aðeins leyfa mér að benda hæstv. forseta á, að ef till. hv. allshn. yrðu samþ. sem brtt. við aðaltill. á þskj. 360, þá mundi ég a. m. k. krefjast þess, að það yrði úrskurðað af hæstv. forseta, hvort ekki væri um nýtt mál að ræða.

Í upphafi er borin fram hér till. um að rannsaka mútur í kosningum og lögð megináherzla á það, enda höfuðatriðið í till. á þskj. 360. Nú hefur allshn. breytt þeirri till. og gerir það að höfuðatriði að rannsaka kjördæmaskipunina, en fellir í burt meginatriði úr till. á þskj. 360. Betur er nú varla hægt að löðrunga hv. flm. heldur en hv. n. hefur gert með nál. sínu, því að þar er alveg þurrkað út meginatriði till. og þar með að áliti n. sýnt fram á, að slíkar fullyrðingar hafi ekki verið annað en fleipur í hv. þm. og sé engin ástæða til að taka slíkt upp, hvorki í nál. né í till. Hér er því vissulega um allt annað mál að ræða og það svo, að hér er enginn skyldleiki á milli.

Sama má segja um þá till., sem hér er til umr. Úr henni er fellt alveg í burtu að rannsaka eða gera till. um kjördæmaskipunina, eins og hv. þm. A-Húnv. hefur bent á. Það er þar því enn um allt annað mál að ræða heldur en það mál, sem hv. allshn. hefur lagt til að afgreitt yrði. Þess vegna undrar mig mjög, þegar nú hv. 1. flm. till. á þskj. 360 tekur upp till. úr nál. við allt annað mál og óskar eftir að henni sé hnýtt aftan í það mál, sem hér um ræðir. Þó að till. sú, sem hér um ræðir, verði samþ. óbreytt, þá útilokar það ekki, að till. á þskj. 360 komi til atkv. og Alþ. segi um það, hvort það vill láta rannsaka, að hve miklu leyti einn eða annar flokkur hefur haft í frammi mútur í sambandi við kosningar, því að það er höfuðatriði þeirrar till. Og mér þykir ákaflega lítið leggjast fyrir kappann, ef hv. 1. flm. og allir hinir, sem með honum eru, sætta sig við það, að ekki sé efnislega rannsakað það atriði, sem þeir þóttust vera vissir um að Alþ. mundi samþykkja.

Út af hinu atriðinu, að ranglátt sé og ólýðræðislegt að leyfa ekki öllum flokkum að eiga sæti í þeirri nefnd, sem á að endurskoða kosningalöggjöfina, vil ég leyfa mér að benda á, að Sósfl. á Alþ. er þríklofinn; hann hefur hér 6 menn undir nafninu sósíalistar, hann hefur einn mann utan flokka, og hann hefur 2, sem ganga hér undir fölsku nafni. Hvaða heilindi væru í því eða lýðræði að leyfa slíkum flokki, sem kannske skipuleggur sjálfur sinn klofning þannig fyrir kosningar, að fá 3 fulltrúa, en lofa svo ekki stærsta flokki þingsins með 21 fulltrúa að hafa nema einn? Ég held, að þessi hv. þm. hafi ekki athugað nægilega vel, hvað hér er að gerast í þessum málum.

Ég vil svo aðeins að síðustu benda á, að auk þeirra agnúa, sem hv. þm. A-Húnv. gat um áðan á kosningalöggjöfinni, þá er mér kunnugt um, að fjöldamargir oddvitar í sveitum landsins hafa óskað eftir því, að endurskoðuð yrðu lögin um sveitarstjórnarkosningarnar. Það er svo nú, að það er ekki hægt að kjósa neina varahreppsnefndarmenn í þeim hreppsnefndum, þar sem ekki er kosið eftir listum. Ef einn af þeim þremur, eins og þeir eru venjulega, fellur frá, þá eru engir varamenn. Þá verður kosning að fara fram að nýju, því að hæstv. ráðuneyti hefur úrskurðað, að þessu sé ekki hægt að breyta nema því aðeins að breyta lögunum. Það er m. a. ein ástæðan fyrir því, að við óskum eftir því, að lögin í heild, bæði lögin um alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar, verði endurskoðuð.