12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2991)

192. mál, alsherjarafvopnun

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki þarf að fara mörgum orðum um tilefni þeirrar þáltill., sem hér er til umr.

Atburðir þeir, sem gerðust á Kyrrahafi hinn 1. marz s. l., þegar Bandaríkjamenn sprengdu þar vetnissprengju með þeim afleiðingum, sem alkunnar eru, geta engum verið úr minni liðnir. Svo má heita, að allur heimur hafi staðið á öndinni vegna þess tortímingarmáttar, sem ljóst er að stórveldi þau, er framleiða vetnissprengjur, búa yfir. Menn vissu að vísu áður, að með tilkomu vetnissprengjunnar höfðu gífurleg eyðingaröfl verið leyst úr læðingi, en eftir atburðina á Kyrrahafi er öllum heimi þó enn ljósara en áður, hvílík ógn er búin mannlífi á þessari jörð, ef þvílík vopn yrðu notuð í styrjöld. Við vetnissprenginguna 1. marz er hættusvæðið talið hafa verið nær 300 þús. km2, eða þrefalt stærra en allt Ísland. Kjarnorkufræðingar hafa sjálfir lýst yfir, að ein slík sprengja gæti þurrkað út stórborgir eins og New York og London. Þá er það einnig viðurkennt, að sprenging þessi á Kyrrahafi hafi verið a. m. k. helmingi aflmeiri en kjarnorkufræðingarnir, sem höfðu tilraunirnar með höndum, reiknuðu sjálfir með. Sýnir það ljóslega, að mjög skortir á það, að jafnvel vísindamenn geti með nokkurri nákvæmni reiknað út eða sagt fyrir um afleiðingar slíkra tilrauna. Er því auðsætt, að hér hafa verið leyst úr læðingi öfl, sem enginn getur fullyrt, hvílíkan tortímingarmátt hafa; aðeins er ljóst af reynslunni. að hann er geigvænlegri en orð fá lýst.

Því hefur verið lýst yfir hvað eftir annað nú hinar síðustu vikur, að Bandaríkin muni halda áfram smíði á vetnissprengjum svo og tilraunum með þær á Kyrrahafi. Vitað er, að Rússar framleiða einnig vetnissprengjur og hafa þegar gert tilraunir með að sprengja þær. Það blasir því við nú, að stórveldin halda áfram í ríkara mæli en nokkru sinni áður kapphlaupi um framleiðslu og tilraunir með þessi ægilegu vopn. Með þessa staðreynd í huga hafa fjölmörg áhrifamikil blöð víðs vegar um heim, stjórnmálaflokkar og jafnvel fulltrúar heilla ríkja borið fram kröfur um það, að nú verði snúið við og horfið af þessum helvegi, tilraunum með vetnissprengjur og önnur kjarnorkuvopn verði hætt og stórveldin hefji þegar umræður og samninga um bann við framleiðslu kjarnorkuvopna, jafnframt því sem tryggt verði öruggt alþjóðlegt eftirlit með því, að það bann verði ekki brotið.

Einhverjir kunna að segja, að Ísland hafi litla aðstöðu til að skipta sér af þessum málum, rödd þess muni ekki heyrast, vilji þess muni engin áhrif hafa á ákvarðanir stórveldanna.

Ég er að því leyti alveg sammála flutningsmönnum þáltill. þeirrar, sem hér liggur fyrir, að Íslandi beri siðferðisleg skylda til að taka einarðlega undir þá kröfu, sem æ fleiri bera nú fram, að kapphlaupið um framleiðslu vetnissprengna verði stöðvað og stórveldin hefji samninga um bann við framleiðslu kjarnorkuvopna. Hins vegar lít ég svo á, að eðlilegt og rétt sé að beina slíkum áskorunum til allra þeirra stórvelda, sem starfa nú ákafast að framleiðslu kjarnorkuvopna. Þess er lítil eða engin von, að stöðvað verði kapphlaupið um gerð æ stórvirkari sprengna, nema því aðeins að þríveldin, Bandaríkin, Sovétríkin og Bretland, taki upp viðræður og samninga sín á milli og við aðrar þjóðir um að snúa við á þessari braut, áður en of seint er orðið.

Ég hef þess vegna leyft mér, ásamt hv. 4. þm. Reykv., að bera fram brtt. við till. á þskj. 620. Sú brtt. er þess efnis, að Alþingi feli ríkisstj. að beina þeirri áskorun til stórveldanna þriggja, er ég áðan nefndi, Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Bretlands, að taka nú þegar upp samninga sín á milli og við önnur ríki um bann við framleiðslu kjarnorkuvopna og strangt alþjóðlegt eftirlit með því að banninu verði framfylgt og að fella jafnframt niður frekari tilraunir með vetnissprengjur og önnur kjarnorkuvopn. — Þá leggjum við einnig til, að fyrirsögn till. breytist í samræmi við þetta.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt. okkar. Hún er prentuð á þskj. 719. Ég vænti þess, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþykkja hana.