12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (2994)

192. mál, alsherjarafvopnun

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla þeirri aðferð, sem hæstv. forseti hefur um, hvernig umræðum sé hagað í þinginu í nótt. Það hefur aldrei tíðkazt á þessu þingi, og það eru allmörg þing liðin síðan sú aðferð hefur verið notuð að láta stjórnarlið á Alþ. ákveða með atkvgr. að hætta umræðum um mál, sem stjórnarandstaðan flytur. Það er gripið til þessa svo að segja síðustu nóttina, sem þingið á að starfa, í þeim tilgangi auðsjáanlega af hálfu stjórnarliðsins að eyðileggja umræður um þetta mál. Það er vitað mál, að á morgun ætlar utanrrh. að flytja skýrslu hér á Alþ. Það er enn fremur vitað, að það er eftir að afgr. mörg mál í báðum deildum. Það er enn fremur vitað, að allmargar kosningar þurfa að fara fram á morgun og að öllum líkindum síðari umr. um mál í Sþ., þannig að það eru ákaflega lítil líkindi til þess, að ef umr. lýkur ekki í nótt um þetta, þá komi þetta mál fyrir aftur. Forseti hefur aldrei gripið til þess að afsala sér sínu valdi til þess að tryggja það, að Alþ. ræði mál, fyrr en nú, og þurfti ekki nema að líta á forsetastólinn áðan til þess að sjá, hvað var að gerast, að stjórnarliðið sjálft og ríkisstj. var að leggja að forseta.

Ég álít, að hæstv. forseti misnoti sitt vald með því að skjóta nú undir stjórnarliðið og láta það ákveða að hætta þessum umræðum. Og ég vil mótmæla því. Þetta er í fyrsta skipti, sem hæstv. forseti hefur misnotað sitt vald sem forseti. Honum bar að taka jafnt tillit til þeirra, sem eru í stjórnarandstöðu, eins og ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðh. hafa ekki gert svo mikið að því að ræða þýðingarmikil mál hér á þinginu, að þeim hefði verið of gott að standa hér í nótt og tala. Ég vil þess vegna eindregið mótmæla því, sem hæstv. forseti nú hefur gert, að hann hefur gefið stjórnarliðinu tækifæri til þess að hindra áframhaldandi umræður um þetta mál.