13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3004)

192. mál, alsherjarafvopnun

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar kjarnorkan var beizluð fyrir nokkrum árum, hófst í raun og veru ný öld í sögu mannkyns. Atómið er mesti orkugjafi, sem mannkynið nú þekkir. Þennan orkugjafa má nota til góðs og til ills. Því miður urðu fyrstu kynni mannkynsins af þeim stórkostlega orkugjafa ill. Þetta mikla ægiafl var fyrst notað til eyðileggingar, en ekki til uppbyggingar. Á þeim árum, sem liðin eru, síðan tókst að beizla kjarnorkuna, hafa framfarir á því sviði orðið stórkostlegar, miklu stórkostlegri en nokkurn mun hafa órað fyrir, þegar uppgötvunin var gerð hið fyrsta. Síðan hafa verið gerðar vetnissprengjur og kóboltsprengjur, sem hafa þvílíkan eyðingarmátt, að stærstu borgir er hægt að leggja í rúst með einni slíkri sprengju, geysilandsvæði er hægt að gera óbyggileg öllum lífverum, sem við nú þekkjum.

Þegar þannig er komið, að í höndum mannsins eru slík eyðingartæki, er vissulega ástæða til þess að staldra við og hugleiða, hvar við erum á vegi staddir. Það mannkyn, sem hefur háð tvær stórstyrjaldir á hálfri öld og beitt í þeim ægilegum vopnum, getur ekki verið öruggt um hag sinn og framtíð sína, eftir að til er vitneskja um jafngeigvænleg vopn og kjarnorkusprengjur, vetnissprengjur og kóboltsprengjur eru. Þess vegna er það engan veginn að ófyrirsynju, að hugur manna er nú svo mjög bundinn við það að koma í veg fyrir, að nokkurn tíma komi til þess, að slíkum vopnum sé beitt.

Sérstök athygli hefur vaknað á þeirri stórkostlegu hættu, sem þessum vopnum fylgir, vegna tilrauna, sem nýlega hafa farið fram á Kyrrahafi, og þar sem komið hefur greinilega í ljós, að eyðingarmáttur þessara vopna er jafnvel enn þá meiri en gleggstu vísindamenn höfðu áður gert sér grein fyrir. Og einmitt nú, eftir að öllu mannkyni varð ljóst, hvað hér er í raun og veru á ferð, um hvílíkt vald hér er í raun og veru að ræða í höndum þeirra manna, sem ráðstöfunarrétt hafa á slíkum vopnum, þá hefur athygli stjórnmálamanna og almennings um gervallan heim beinzt í ríkari mæli en nokkurn tíma áður að því, með hverjum hætti gera mætti ráðstafanir til þess að tryggja, að ekki drægi til nýrrar styrjaldar og þá alls ekki til slíkrar styrjaldar, að þessum vopnum yrði beitt.

Í flestum löndum hefur það verið rætt í þessum mánuði og hinum næsta á undan, að æskilegt væri, að stórþjóðirnar gerðu ráðstafanir til þess, að til beitingar slíkra vopna kæmi aldrei. Þess vegna má segja, að ekki sé óeðlilegt, að jafnstórt mál og hér er um að ræða beri á góma á Alþingi Íslendinga. Mun það hafa verið tilefni þess, að nokkrir hv. þm. fluttu till. til þál. um áskorun til Bandaríkjastjórnar vegna vetnissprengju.

Ég get þó ekki fellt mig við þá till., eins og hún er orðuð á þskj. 620. Ég tel það fyrst og fremst ágalla á henni, að henni er beint fyrst og fremst að ríkisstj. Bandaríkja Norður-Ameríku, þó að vitað sé, þó að öllum heimi sé kunnugt, að Sovétríkin hafa einnig gert tilraunir með vetnissprengjur og að yfirráð yfir vetnissprengjum eru sízt hættuminni í höndum ráðamanna Sovétríkjanna heldur en ráðamanna Bandaríkjanna. Þess vegna fagnaði ég því, að flutt skyldi vera brtt. af hv. 8. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv. um það að umorða tillgr. þannig, að þeim tilmælum, sem gert er ráð fyrir, sé beint til allra þeirra ríkja, sem vitað er að hafa ráð þessara kjarnorkuvopna, Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Bretlands.

Á fundi, sem haldinn var í utanrmn. í dag, kom það fram af hálfu meiri hl. n., fulltrúa hv. Sjálfstfl. og hv. Framsfl., að þeir leggja til, svo sem þeir gera till. um á þskj. 862, að tillgr. sé orðuð á enn annan veg, þar sem gert er ráð fyrir því að skora á Sameinuðu þjóðirnar að beita sér fyrir allsherjarafvopnun, sem væri tryggð með raunhæfu alþjóðlegu eftirliti, enda sé það öruggasta ráðið til þess að koma í veg fyrir notkun kjarnorkuvopna.

Ég tel það galla á þessari till., að í henni er ekki vikið sérstaklega að þeim tilraunum, sem nýlega hafa farið fram með vetnissprengjur, síðan sú uppgötvun var gerð, bæði í Sovétríkjunum og Bandaríkjunum. Sérstök ástæða er til þess að beina því til stórveldanna, sem ráð hafa á þessum vopnum, að nota þau ekki og að láta af frekari tilraunum með þessi vopn, en fyrir því var einmitt gert ráð í till. þeirra hv. 8. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv. Þess vegna hef ég leyft mér í mínu minnihlutanál. að taka upp till. þeirra tvímenninganna sem brtt. við till. meiri hl., óbreytta að öðru leyti en því, að orði er vikið til og fyrirsögn till. orðuð öðruvísi, þ. e. a. s. ætlazt til þess, að hún heiti: Till. til þál. um allsherjarafvopnun og kjarnorkuvopn, en um bæði þessi atriði er fjallað í tillgr. sjálfri.

Ég tel, að ástæða væri til þess fyrir Alþingi að samþ. ályktun, sem í fælist, að því væri beint til ríkisstj. Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Bretlands að taka nú upp samninga sín á milli og við önnur ríki um allsherjarafvopnun og bann við framleiðslu kjarnorkuvopna og enn fremur strangt alþjóðlegt eftirlit með því, að banninu verði framfylgt, en fella jafnframt niður frekari tilraunir með vetnissprengjur og önnur kjarnorkuvopn. Í till. er fyrst og fremst lögð áherzla á nauðsyn allsherjarafvopnunar, en jafnframt algert bann við framleiðslu kjarnorkuvopna og strangt eftirlit með því, að því banni verði framfylgt. Ég hygg, að Alþ. mundi með slíkri ályktun geta lagt sitt lóð á vogarskálina, þótt ekki stórt væri, í viðleitninni til þess að forða mannkyni frá ógn.um styrjaldar, frá þeim ægilegu ógnum, sem styrjöld með kjarnorkuvopnum hlyti að hafa í för með sér.