13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3010)

192. mál, alsherjarafvopnun

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil nú ógjarnan verða til þess að lengja þessar umr., ef hægt væri að fara að ljúka þeim.

Ég skil það vel, að hv. þm., sem sjálfir stóðu að því að fá Ísland inn í Atlantshafsbandalagið, eru eðlilega dálítið viðkvæmir fyrir þeim ádeilum. sem fram koma á Bandaríkin, og ég vil ekki hér, af því að við höfum nú deilt um þau mál allheitt og harkalega stundum, fara að rifja það upp í sambandi við þessi mál. Ég hef flutt þau rök það oft hér, að ég held, að þess ætti ekki að þurfa, enda heppilegast, að hægt væri að losna við þau. En hitt verða menn að gera sér ljóst. að það eru Bandaríkin núna sem stendur, sem hafa fleiri hundruð herstöðvar úti um alla veröld í öllum heimsálfum og hafa sjálfir kjarnorkuvopn, sem þeir hafa tilkynnt að þeir muni vera reiðubúnir til þess að beita í stríði. Þetta skapar sérstöðu Bandaríkjanna í heiminum. Enn fremur hitt, að þeir hafa þegar sýnt sig í því að beita slíkum vopnum í styrjöld — og svo nú upp á síðkastið með sinni breyttu hermálapólitík í janúar gert þetta að höfuðatriðinu í öllum þeirra stríðsundirbúningi, í allri þeirra hernaðarpólitík. Þetta er, eins og ég sýndi fram á áðan, það, sem skapar þá sérstöku hættu, sem hér er fyrir hendi.

Ég vil aðeins minna menn á, hvað sagt var við ýmsa, sem beittu sér fyrir því fyrir nokkrum árum, að það væri skorað á Bandaríkin, þegar þau áttu ein kjarnorkuvopn í heiminum, svo að vitað væri, að undirgangast þá skuldbindingu að nota þau ekki í hernaði. Það voru skapaðar æsingar á móti þeim mönnum, sem þá voru að beita sér fyrir því, að kjarnorkuvopn væru bönnuð. Ég veit, að hv. þm. muna eftir því í sambandi við undirskriftirnar undir Stokkhólmsávarpið.

En ég ætla ekki að fara að rifja neitt upp af þessu eða deila um það. Aðeins vildi ég segja hitt, ekki sízt í sambandi við þá fallegu ræðu, sem hv. þm. Vestm. var að halda: Ef þetta er rétt. sem hann segir að sé meiningin hjá meiri hl., að vilja svona ákaft byrja á allsherjarafvopnun — ég ætla nú ekki að skjóta því inn, hvort það standi í sambandi við það, að það eru að koma fram till. um að fara að vopna Íslendinga hérna heima, — hvað geta þeir þá haft á móti því að samþykkja þá viðbót, sem ég er með, að fyrsta skrefið til allsherjarafvopnunar sé, að tafarlaust sé hætt öllum tilraunum með vetnissprengjur og notkun þeirra og annarra kjarnorkuvopna sé bönnuð? Hvað getur verið á móti því að samþykkja þessa viðaukatillögu? Ég hef ekki heyrt nokkur rök á móti því, og þau eru ekki til. Það veit hver einasti hv. þm., að það er ekki hægt að komast að samkomulagi um það, að allar þjóðir í heiminum afvopnist undireins, því miður, það er ekki hægt. Hvað mundu þessir hv. þm. segja sjálfir við þær þjóðir, sem eru að berjast fyrir sínu frelsi núna, sumar með furðulega frumstæðum vopnum, lítið betri en þeim, sem Íslendingar höfðu stundum í gamla daga? Getið þið virkilega búizt við því, getum við gert okkur vonir um það? Því miður ekki í svipinn. En það er hitt, sem við verðum að einbeita okkur að, að afstýra því, að þessi kjarnorkuvopn verði notuð. Og ég held það hafi verið misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv., þegar hann talaði um þær áskoranir. sem ég undirstrikaði að hefðu komið fram frá ríkisstj. Japans og þingflokkunum þar, frá forsætisráðherra Indlands, frá ýmsum þingflokkum og þingum í Evrópu. Ég var ekki sérstaklega að segja, að þessar till. allar saman og þessi ávörp væru samhljóða þeim, sem við hefðum verið að flytja hérna. Ég var þvert á móti að tala um, að öllum þessum till. er einbeitt að því einu að reyna að hindra notkun kjarnorkuvopna í styrjöld og að reyna að hindra, að það verði gerðar fleiri tilraunir með vetnissprengjuna. Sannleikurinn er, að við vitum ekki, hvenær slíkar tilraunir kunna að leiða til álíka skelfinga eins og styrjaldar, og við vitum ekki enn þá, til hvers þær tilraunir hafa leitt, sem þegar hafa verið gerðar, eins og nú þegar er farið að tala um, að Kyrrahafið sé orðið geislavirkt. Ég vil því mega vona það, hvað sem okkur nú annars greinir þarna á um, að þessi litla viðbótartill. mín á þskj. 866 verði í öllu falli samþykkt.