10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (3017)

143. mál, laun karla og kvenna

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunna, að á undanförnum árum hefur þeirri skoðun aukizt fylgi meðal lýðræðisþjóða, að konum og körlum beri jöfn laun fyrir sömu vinnu. Það er og svo komið, að í fjölmörgum löndum hefur þessi háttur verið upp tekinn um launagreiðslur. Þrátt fyrir það brestur þó nokkuð á það hér á Íslandi, að réttur kvenna hafi verið gerður jafn rétti karla á þessu sviði.

Ísland hefur um nokkurra ára skeið verið aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni, en á þingum hennar hefur jöfn laun karla og kvenna borið mjög á góma. og um það hafa verið gerðar ályktanir. Með samþykkt, sem gerð var á þingi stofnunarinnar árið 1951, var lagt til við þau ríki, sem eru aðilar að henni, að þau tryggi, að reglan um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf komi til framkvæmda hjá þeim.

Síðan þetta gerðist hafa nokkur ríki staðfest þessa samþykkt heima hjá sér. Enn fremur hefur efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna tekið hana til meðferðar og skorað á aðildarríki sín að vinna að framkvæmd hennar og staðfesta þessa svokölluðu jafnlaunasamþykkt.

Í þessu sambandi vil ég benda á það, að í frv. til l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem liggur nú fyrir hv. Alþ., er gert ráð fyrir því í 3. gr.. að konur og karlar hafi jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf. Er hér greinilega um spor að ræða í þá átt, að opinberir starfsmenn njóti jafnréttis, hvort sem þeir eru karlar eða konur. Að öllu þessu athuguðu virðist sjálfsagt og eðlilegt, að Alþ. staðfesti fyrrgreinda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Við flm. þessarar þáltill. leggjum því til, að Alþ. skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að samþykkt stofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna verði staðfest að því er varðar Ísland og jafnframt undirbúi ríkisstj. nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykktin komist í framkvæmd.

Í samþykkt stofnunarinnar frá 1951 segir svo um það í 2. gr., hvernig jafnréttisreglunni skuli komið til framkvæmda: 1) með landslögum eða reglugerðum; 2) með ráðstöfunum, sem komið er á eða viðurkenndar eru með lögum til ákvörðunar á launum; 3) með heildarsamningum milli vinnuveitenda og verkamanna; 4) með þessum mismunandi aðferðum sameiginlega.

Ég hygg, að þetta mál liggi svo ljóst fyrir, að hv. Alþ. eigi auðvelt með að geta tekið afstöðu til þess. Ég vil geta þess, að mér er kunnugt um það, að fulltrúar Íslands á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 1951 greiddu atkv. með þessari samþykkt, og eðli málsins samkvæmt er því eðlilegt, að Alþ. samþykki hana, staðfesti hana og að síðan verði unnið að því að þeim leiðum, sem í samþykktinni sjálfri greinir, að konur og karlar fái jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.

Ég vil svo leggja til, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til athugunar hjá hv. allshn.