10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (3019)

143. mál, laun karla og kvenna

Gunnar Jóhannesson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að það gladdi mig, þegar ég sá, að þess till. var komin hér fram, og tel, að hún marki tímamót. Það er þannig, að þetta mál, um jafnrétti kvenna og karla í launamálum, hefur verið mjög mikið baráttumál íslenzkrar verkalýðshreyfingar um langt árabil, og það verður að segja þá sögu eins og hún hefur gengið, að það hefur mælt ákaflega miklu andófi, svo að ekki sé meira sagt, frá atvinnurekendastéttinni að skilja það, að konur, sem hafa unnið t. d. sömu verk og karlar, ættu að fá sömu laun. Nú sjáum við það, að 7 ágætir sjálfstæðismenn hér í þessari hv. d. flytja hér þáltill. einmitt um það efni, og eins og ég sagði áðan, gleður mig sannarlega, að þetta mál er fram komið, og verkalýðshreyfingin mun sannarlega draga sína lærdóma af því, að svona mikil stefnubreyting hefur orðið einmitt í röðum hv. sjálfstæðismanna. Ég get lýst því hér yfir, að ég mun greiða þessari till. atkvæði. Ég tel sjálfsagt þó að till. sé kannske beint aðallega að því að ná jafnréttinu fram hjá því opinbera að í þeim undirbúningi sem ríkisstj. er falið samkv. þessari till. ef hún er samþ. að ganga frá láti ríkisstj. sem slík þær ráðstafanir ná lengra, m. a. að það verði í þeim lagabálki eða þeirri reglugerð. sem frá ríkisstj. kemur á sínum tíma sem vonandi verður ekki mjög langt að bíða m. a. gert ráð fyrir því að konur fái sömu laun og karlmenn fyrir sömu vinnu, hvar sem þeir vinna, hvort sem þeir vinna hjá því opinbera eða hjá einstaklingi eða bæjarfélagi. Mér finnst sjálfsagt. að það þurfi ekki að ræða slíkt. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. sjái sóma sinn í því að veita nú málinu fullan stuðning, svo að það hljóti samþykki hæstv. Alþingis og henni gefist sem fyrst tími til að ganga frá þessu máli. Þannig að það mætti verða henni til sóma og þá um leið þeim aðilum, sem málið fjallar um til hagsbóta.

Ég vil svo að lokum geta þess, að það er alveg rétt, sem hv. 3. landsk. þm. (HV) benti hér á áðan að það hefur legið hér fyrir þessu þingi frv. frá honum um svipað efni, sem gengur miklu lengra en þessi till. Það er búið að liggja hér óafgreitt í marga mánuði, og væri æskilegt, að það kæmi hér fram og það yrði þá endanlega frá því máli gengið, úr því að þessi mikli áhugi er hér allt í einu sprottinn upp í röðum sjálfstæðismanna. sem ég fagna fyrir mitt leyti og mun veita allan þann stuðning, sem ég get.