04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. (SkG) flutti hér eina þá frómustu og heiðarlegustu þingræðu, sem ég hef heyrt nokkurn hv. þm. stjórnarflokkanna halda hér á þingi. Hann kom þar máli sínu, að hann var mér algerlega sammála um, að frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 175, sé eitt hið minnsta mál, sem hér hefur verið til umr., enda þótt um það hafi verið rætt meira en flest önnur mál, sem hér hafa verið til umræðu.

Niðurstaða hv. þm. V-Húnv. var sú, að eina breytingin, sem þetta frv. hefði í för með sér við fjárhagsráðsl., væri sú, að nafnið „fjárhagsráð“ væri fellt niður ásamt þremur ráðsmönnum. Þetta er fullkomlega rétt hjá hv. þm. V-Húnv., og ástæðan til þess, að þessi breyting er gerð, er, eins og öllum er kunnugt, loforð hv. stjórnarflokka í kosningunum í sumar um að leggja niður fjárhagsráð. Þetta loforð hafa þeir efnt eða hyggjast efna á þann hátt að nema burt nafnið „fjárhagsráð“ og þrjá ráðsmenn.

Hv. þm. V-Húnv. sagði þó, þegar hann var búinn að lýsa frv. því, sem hér liggur fyrir, að hann mundi nú fylgja þessu frv. hæstv. ríkisstj., og skildist manni, að það hlyti þá eingöngu að vera af hlýðni og þægð við hæstv. ríkisstj., en ekki af því, að hann sæi neina skynsamlega ástæðu sjálfur að fylgja málinn fram.

Þessi hv. þm. gat þess einnig mjög réttilega, að eitt megineinkenni þessa frv. væri að færa málfar þess í öllu lágkúrulegri stíl en verið hefði á fjárhagsráðsl. Tók hann sem dæmi nafn stofnunar þeirrar, sem hér á að setja á fót, innflutningsskrifstofa, og sagði, að sér fyndist öllu minni reisn í því orði heldur en „fjárhagsráði“. Þetta er einnig fullkomlega rétt hjá hv. þm. V-Húnv., eitt meginatriðið í þessu nýja frv. ríkisstj. er að færa allt málfar frv. á lágkúrulegra stig en var á fjárhagsráðsl., gera það flatneskjulegra og rislægra að öllu leyti. Mun þetta vera gert til þess að færa íslenzka löggjöf í búning núverandi valdhafa og samræma hana þeirri meðalmennsku, sem verið hefur aðaleinkenni íslenzkra valdamanna síðustu árin.

Um það atriði, sem hér hefur verið nokkuð rætt, að í þessu frv. fælist nokkur rýmkun í byggingarmálum, vil ég aðeins endurtaka það, sem ég áður sagði, að svo er ekki. Hæstv. viðskmrh. viðurkenndi, að það væri rétt, sem ég hefði haldið fram, að bygging útihúsa í sveitum hefði verið frjáls nema að því formi til, að sækja hefði þurft um fjárfestingarleyfi fyrir þessum byggingum. Sagði hann þó, að hér væri mikill munur á, því að menn hefðu haft af því mikla fyrirhöfn og erfiði að bíða lengi eftir leyfum fyrir þessum byggingum, eiga viðtöl við fjárhagsráðsmenn og annað þess háttar, alls konar óþægindi, sem þetta hefði haft í för með sér.

Þó að hæstv. ráðherrar hafi mikla löngun til þess að sparka í þjóna sína í fjárhagsráði, sem verið hafa þeirra tryggustu þjónar undanfarin ár í verstu verkunum fyrir ríkisstj., — þó að þeir hafi mikla löngun til að sparka nú í þá svona rétt fyrir andlátið, þá held ég, að þeir ættu ekki að gera það, þar sem það er algerlega tilhæfu- og ástæðulaust. Varðandi þessi leyfi fyrir útihúsum í sveitum hafa engir þurft að bíða lengi eða baka sér óþarfa fyrirhöfn. Þessi leyfi hafa verið send inn á þeim tíma til fjárhagsráðs, þegar enginn gat byggt, þ.e.a.s. um áramót, og þau hafa ævinlega verið afgreidd fyrir febrúarlok, þ.e.a.s. áður en hægt var að hefja nokkrar byggingarframkvæmdir. Hafi leyfin úti um sveitir verið send fjárhagsráði að sumarlagi, þegar átti að fara að hefja byggingu, þá hefur það í velflestum eða öllum tilfellum verið afgreitt þannig, að samstundis hefur verið sent svar með símskeyti til viðkomandi aðíla, en leyfi síðan með fyrstu ferð. Mér þykir leitt, að hv. þm. N-Þ. er ekki hér viðstaddur, en hann á sæti í fjárhagsráði, er þar að auki einn af hv. þm. stjórnarliðsins og hefði getað borið vitni um þessi mál og um það, hvernig hæstv. viðskmrh. fór með þau.

Annað atriði var í ræðu hæstv. viðskmrh., þar sem hann vék að því, sem ég hafði áður um þetta sagt, sem ég vildi gera lítils háttar athugasemd við. Hann sagði þar, að ég hefði lofsamað, að því er mér skildist, það fyrirkomulag að sækja um fjárfestingarleyfi og vildi ekki, að það væri afnumið. Þetta er ekki rétt. Ég sagði hvorki lof né last um það atriði út af fyrir sig. Það eina, sem ég sagði, var það, að breyting á skriffinnskunni yrði engin með þessu nýja frv., þar sem í stað fjárfestingarleyfanna kæmi nú, að oddvitar og byggingarnefndir skyldu safna upplýsingum um þær byggingar, sem leyfðar væru, og þá vitanlega fá þessar upplýsingar hjá þeim, sem byggja, og baka þeim því alveg sömu fyrirhöfn hvað skriffinnsku snertir.

Loks ætla ég svo aðeins að víkja að því atriði, þegar hæstv. viðskmrh. ræddi hér um brtt. þá, sem ég hef borið fram. Hann færði aðeins eina röksemd fram gegn þessari brtt. Hann sagði, að Hagstofa Íslands gæti ekki tekið að sér það verkefni að semja þjóðhagsreikninga án þess að bæta við sig miklu starfslíði. Ég vildi nú mega spyrja hæstv. ráðh., hvort Framkvæmdabanki Íslands geti tekið þetta verkefni að sér án starfslíðs eða án þess að bæta við sig miklu starfsliði. Á Framkvæmdabanki Íslands eitthvað auðveldara með að leysa þetta verkefni án starfsliðs heldur en Hagstofa Íslands? Ég sagði í þeim orðum, sem ég mælti fyrir þessari brtt., að Hagstofa Íslands hefði nú þegar með höndum mikið af því starfi, sem leysa þarf í sambandi við þjóðhags- og þjóðartekjureikningana. Ég sagði, að hagstofan hefði og léti vinna árlega mikið af þessu starfi. Það er engin stofnun til í þessu þjóðfélagi, sem þyrfti minna að bæta við sig af starfsliði til að taka þetta verkefni að sér heldur en Hagstofa Íslands. Mér þætti ekki ótrúlegt, þó að Hagstofa Íslands þyrfti ekki að bæta við sig nema einum manni, þ.e.a.s. einum sérfræðingi, einum manni með sérþekkingu á þjóðhagsreikningum, til þess að geta tekið þetta verkefni að sér. En Framkvæmdabanki Íslands þarf fyrst og fremst þennan sérfræðing og þar að auki talsvert — ég þori að segja talsvert — starfslið annað til þess að geta leyst verkefnið af höndum. Þar að auki mundi Framkvæmdabanki Íslands aldrei geta leyst þetta verkefni af höndum nema fá þær upplýsingar, sem Hagstofa Íslands hefur nú þegar.

Það er líka eitt þýðingarmikið atriði í þessu sambandi. Ef á að semja þjóðhagsreikninga og þjóðartekjureikninga, sem byggja á síðan á ákveðnar mjög þýðingarmiklar ráðstafanir og gerðir, þá er nauðsynlegast af öllu, að þessir reikningar séu sem allra réttastir og allra nákvæmastir, og það getur enginn efazt um það, að það er fjöldi manna og fyrirtækja í þessu landi, sem ættu að gefa upplýsingar varðandi þessar breytingar, sem vantreysta Framkvæmdabanka Íslands fullkomlega og mundu aldrei af hræðslu einni saman þora að gefa honum nákvæmar eða réttar upplýsingar. Hins vegar vantreystir enginn maður Hagstofu Íslands, og Hagstofa Íslands er áreiðanlega sú stofnun þessa þjóðfélags, sem á hægast og auðveldast með að fá upplýsingar og fólk treystir almennt langbezt. Ég segi þetta ekki endilega Framkvæmdabanka Íslands til lasts. Það er sama, hvaða banki tæki þetta að sér, ef það þarf endilega að vera banki, sem ég alls ekki skil, því að það þekkist hvergi nokkurs staðar í veröldinni, að bankar hafi svona störf með höndum. Ef menn vilja gera eitthvert grín eða telja nauðsynlegt að fara fram hjá Hagstofu Íslands með þetta mál, þá væri miklu viturlegra að afhenda það — við skulum segja — framleiðsluráði landbúnaðarins, því að sú stofnun hefur ýmsar upplýsingar í höndum og safnar þeim árlega, sem þarf að nota við svona verk. Það væri miklu skynsamlegra. Landssambandi sjávarútvegsins væri miklu viturlegra að afhenda þetta heldur en einhverjum banka, og sízt af öllu kæmi þó Framkvæmdabanki Íslands til greina, vegna þess að í l. þess banka er ákveðið, að hann skuli hafa sem allra minnst starfslið. Þar er ákveðið, að Landsbanki Íslands skuli annast flestöll dagleg störf fyrir hann, og þetta var gert til þess, að þessi stofnun yrði ódýr í rekstri. En nú á allt í einu að fara að afhenda þessari stofnun verkefni, sem þarf, fyrst þessi stofnun tekur við því, áreiðanlega nokkuð marga menn til að leysa. Þetta er mikið og vandasamt verkefni. Framkvæmdabankinn hefur mér vitanlega engan mann í sinni þjónustu núna, sem gæti tekið þetta starf að sér eða unnið nokkuð að því. Og þó er það allra helzt að athuga, að þær þjóðir, sem bezta reynslu hafa í þessu efni og hafa látið semja svona þjóðhagsreikninga árum saman, hafa allar falið það verkefni stofnunum, sem eru algerlega hliðstæðar Hagstofu Íslands. Þess vegna vænti ég þess, að hv. þm. hafi vit fyrir hæstv. ríkisstj. í þessu efni og samþ. brtt. þá, sem ég hef borið fram, og ég vona það, þrátt fyrir það að handjárnin hafi verið sterk og séu sterk, meira að segja svo sterk, að hæstv. ríkisstj. er farin að tala hér sérstakt handjárnamál.

Í framsöguræðu þeirri, sem hæstv. viðskmrh. flutti fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 175, sagði hann svo í upphafi ræðu sinnar, með leyfi hæstv. forseta: „Með frv. þessu eru lög um fjárhagsráð afnumin.“ Ég hef aldrei heyrt það fyrr, að l. væru afnumin með frv., fyrr en þá frv. hefur verið samþ. og orðið að l. Þetta er handjárnamál. Þetta er orðað svo vegna þess, að ríkisstj. er viss um, að hennar lið þorir ekki annað en að samþ. það, sem hún ber fram. Ummæli eins og þessi eru þó algerlega ósæmileg hér á hinu háa Alþ., jafnvel frá hæstv. ríkisstj.