13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (3024)

143. mál, laun karla og kvenna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar þessi till., sem hér er til umr. var borin fram, þá virtist það vera augljóst mál, að annar hv. stjórnarflokka, Sjálfstfl. hefði fengið mikinn áhuga á því, að hér yrði tryggt launajafnrétti milli kvenna og karla, því að menn þóttust vissir um það, að þeir 7 hv. alþm. í Sjálfstfl., sem að till. stóðu. hefðu vissulega ekki gerzt flm. hennar nema í fullu samráði við sinn flokk og þá fullvissir þess, að flokkurinn væri reiðubúinn til að framkvæma þessa till., verða við þeirri áskorun, sem í henni felst. En nú virðist svo sem það hafi orðið ofan á við athugun á till. í n., að ekki þyki fært að samþ. till. óbreytta, heldur eingöngu að skora á ríkisstj. að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæta vinnu geti orðið staðfest á Íslandi. N. kemst að þeirri niðurstöðu, að það séu þeir meinbugir á hér, að það sé ekki hægt að staðfesta jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að sinni og ríkisstj. skuli nú fá það hlutverk að undirbúa það, að það sé hægt að staðfesta þessa samþykkt ILO. Nú má það vel vera, að það sé alveg út í hött, að þessi þáltill. sé flutt, af því að áður en hún gæti haft nokkurt minnsta gildi, nokkra minnstu þýðingu aðra en að hræsna um fylgi við málið, þyrfti að tryggja annað tveggja, lagasetningu á Íslandi, sem skyldaði atvinnurekendasamtökin til að skuldbinda sig um greiðslu sömu launa til kvenna og karla eða að löggjöf væri sett um þetta mál, svo að atvinnurekendur væru skyldugir til að haga þannig launagreiðslum, að fullu jafnrétti milli kynjanna væri náð. Það er að annarri hvorri þessari leið, með heildarsamningum milli atvinnurekendasamtakanna og verkalýðssamtakanna eða með lagasetningu á Íslandi, sem þetta mál kemst í höfn, og að öðrum leiðum ekki. Það var því sýnt frá upphafi, að till. þeirra hv. 7 þm. Sjálfstfl. var sýndargagn eitt og þokaði málinu ekki nokkurn hlut í áttina til launajafnréttis. Alveg verður sama upp á teningnum, þó að brtt. hv. n. verði samþykkt. Málið er ekki komið neitt nær sinni lausn að samþykktri till. heldur en áður, nema því aðeins að hæstv. ríkisstj. annaðhvort tryggi heildarsamninga. sem leysi málið, eða undirbúi lagasetningu um lausn þess. En fyrir þessu hv. Alþingi hefur legið frv., og það er ekki í fyrsta sinn, sem það hefur legið hér fyrir, heldur er það í annað sinn og nokkur ár liðin síðan það var hér fyrst flutt, — frv. til laga um sömu laun til karla og kvenna. Hv. Alþingi hefur daufheyrzt við að samþ. þetta frv. í bæði skiptin, og virðist því vera augljóst mál, að hv. stjórnarflokkar hafi hvorki vilja né getu til þess að verða við þeim óskum, sem í till. fólust.

Ég álít, að hæstv. ríkisstj. fái nú enn þá einu sinni, ef þessi till. hv. n. verður samþ., að ganga undir próf um það, hvort hún og þar með þeir flokkar, stærstu flokkarnir í landinu, sem að stjórninni standa, eru vinsamlegir og fylgjandi launajafnrétti kvenna og karla eða hvort þeir eru fjandsamlegir því máli. Eftir því verða framkvæmdirnar á þessari till., sem þess vegna væri m. a. afgreidd sem prófsteinn á hv. stjórnarflokka í málinu.