04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðelns örfá orð til andsvars þeim tveim ræðum, sem fluttar voru í eftirmiðdag, eftir að ég hafði talað. Ég skal ekki lengja þessar umr., enda gefa ræðurnar ekki mikið tilefni til þess. Þó vil ég segja þetta:

Hæstv. viðskmrh. sagði, að aðaltill. mín á þskj. 239 um það, að verzlunin skuli gefin frjáls, bæri vott um það, að ég hlyti að hafa góða trú á, að úr rættist í fjárhagsmálum þjóðarinnar, og að hún væri í raun og veru traustsyfirlýsing til hæstv. ríkisstj.

Það, sem í till. þessari felst, er það eitt, að ég vil gefa hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarflokkum kost á því að sýna í verki með atkv. sínu, hvort þeir trúa á stefnu sína, hvort þeir trúa á það, að þeim hafi tekizt að framkvæma þá stefnu, sem þeir boðuðu fyrir þrem árum, er gengislækkun krónunnar var samþ. vorið 1950 að tilhlutan hæstv. fyrrv. ríkisstj.

Þegar gengislækkunarfrv. var borið fram, var því haldið fram í þeirri sérfræðilegu ritgerð, sem fygldi frv., að ef haldið væri vel og skynsamlega á efnahagsmálum þjóðarinnar og þó sérstaklega fjármálum hennar og peningamálum, þá væri hægt að gefa alla utanríkisverzlunina frjálsa. Þetta var boðskapur sjálfrar hæstv. fyrrv. ríkisstj. til þingsins, um leið og hún lagði frv. fram. Með því átti að stiga stórt spor í þá átt að gera efnahagskerfið heilbrigt, og það var undirstrikað sérstaklega, að það, sem á stæði til þess að gefa verzlunina frjálsa, væri það eitt, að rekin væri heilbrigð stefna í efnahagsmálum. Nú höfum við haft tvær ríkisstj., sem báðar hafa væntanlega framfylgt heilbrigðri stefnu í efnahagsmálum. Þessar stjórnir hafa báðar sagzt vilja framkvæma slíka stefnu og hafa ávallt sagzt vera að gera það. Það eru tvö eða þrjú ár liðin síðan framkvæmd þessarar heilbrigðu stefnu hófst, og nú langar mig að vita, hvort hæstv. ríkisstj. sjálf og stuðningsflokkar hennar trúa á árangurinn af stefnu sinni.

Hafi þessi boðskapur sérfræðinganna til þingsins verið réttur, og hafi þessar tvær ríkisstj. fylgt réttri fjármálastefnu, þá ætti núna að vera komið það ástand, að óhætt væri að gefa verzlunina frjálsa. Ef hæstv. ríkisstj. telur það ekki óhætt, þá getur ástæðan ekki verið nema önnur hvor, að boðskapurinn frá 1950 hafi verið rangur eða þá að stefna stj. í efnahagsmálum hafi verið óheilbrigð. Ég vil segja, að ef í þessum till. mínum felst traustsyfirlýsing til ríkisstj., þá vil ég benda hæstv. viðskmrh. á það, að ef stjórnin eða stjórnarflokkarnir fella þessa till., þá eru þeir að samþ. vantraust á hæstv. ríkisstj. Með því að lýsa þessum till. sem traustsyfirlýsingu á hæstv. ríkisstj., er hæstv. ráðh. eiginlega að beina því til flokksmanna sinna að samþ. till., því að fella þær væri að lýsa vantrausti á stjórnina. Ekki skil ég, að hæstv. viðskmrh. ætlist til þess af stuðningsmönnum sínum, að þeir lýsi vantrausti á honum sjálfum.

Hæstv. viðskmrh. sagði, og það sagði einnig hv. 5. þm. Reykv., að nú væru gjaldeyriserfiðleikar. Það hafði ég einmitt upplýst við 1. umr. málsins, en hæstv. viðskmrh. ekki. Hann hafði þagað algerlega um ástandið í gjaldeyrismálunum, svo alvarlegt sem það er nú, en ég varð til þess að skýra þingheimi frá því, hversu alvarlegt það er. Ef' hann bendir einvörðungu á gjaldeyriserfiðleikana sem rök fyrir því, að ekki sé hægt að gefa verzlunina frjálsa, þá vildi ég benda hæstv. ráðh. á, að hann virðist alls ekki hafa áttað sig á kjarnanum í röksemdafærslu sérfræðinga hæstv. fyrrv. ríkisstj. Kjarni röksemdafærslu þeirra er sá, að gjaldeyriserfiðleikar séu einvörðungu afleiðing af rangri stefnu innanlands í efnahagsmálum. Það gengur eins og rauður þráður í gegnum alla hina hagfræðilegu álitsgerð sérfræðinga fyrrv. ríkisstj., að gjaldeyriserfiðleikar séu aðeins ranghverfan á óheilbrigðri stefnu í fjármálum og peningamálum innanlands; með því að haga útlánapólitík bankanna og fjármálastefnu ríkisins á tiltekinn hátt og að öðru leyti stefnunni í fjármálunum, þá megi ávallt tryggja, að komizt verði hjá gjaldeyriserfiðleikum.

Samkvæmt kenningakerfinu, sem hæstv. ríkisstj. vill lifa eftir og segist lifa eftir, eru gjaldeyriserfiðleikar einmitt staðfesting á því, að fjármálastefnan innanlands hafi verið röng. Láti hæstv. ríkisstj. í ljós, að hún búist við því, að þessir gjaldeyriserfiðleikar muni halda áfram og þess vegna muni ekki verða hægt að létta á þeim höftum, sem nú eru; á næstunni, þá er það yfirlýsing um, að hún treysti sér ekki til þess að manna sig upp í að taka upp svo heilbrigða fjármálastefnu innanlands, að hún geti losað okkur við gjaldeyriserfiðleikana. Þetta er auðvitað mergurinn málsins.

Hæstv. ráðh. tók ekki vel í þá till. mína, sem ég flyt á þskj. 239, að létt verði undir með almenningi að gera sjálfur pantanir á vörum frá útlöndum, þeim vörum, sem á annað borð eru frjálsar. Verð ég að segja, að hér birtist ástin á verzlunarfrelsinu í mjög undarlegri mynd. Hvað á það að þýða að lýsa því yfir, að innflutningur á ákveðinni vöru skuli vera frjáls, en meina síðan almenningi að panta vöruna sjálfur, ef' hann vill og getur komizt í samband við erlent pöntunarfirma, sem selur einstaklingum, og hann sér í verðlistum frá því vörur, sem hann hefur ágirnd á? Varan er á frílista, og það á að vera frjálst að flytja hana til landsins. Hví má ekki einstaklingurinn panta hana, ef honum sýnist svo? Hví má ekki gera tilraun til þess að komast fram hjá milliliðunum og fá vöruna, sem hann velur sér sjálfur, við hagstæðu verði? Einu rökin, sem hæstv. viðskmrh. nefndi, voru þau, að hjá slíkum erlendum pöntunarhúsum væri um að ræða smásöluverð, en ekki heildsöluverð. Þetta er mesti misskilningur. Það verð, sem slík pöntunarfirmu bjóða upp á í verðlistum sínum, er mjög lágt, oft og einatt beinlínis lægra en heildsöluverð í viðkoman3i löndum, vegna þess að þessar verzlanir eru reknar sem heildverzlanir, eru mjög stórar og komast af með mjög lítið húsnæði, vegna þess að þær eru oft staðsettar í úthverfum bæja, hafa mjög einfalt afgreiðslukerfi, þar sem þær senda allt í pósti og afgreiða einvörðungu standardiseraðar vörur og í standardíseruðu formi, og hafa þess vegna ákaflega lágan afgreiðslukostnað og tekst því einmitt að bjóða upp á sérstaklega lágt verð. Þessi stóru heimsþekktu „mail-order“-firmu svo kölluðu, eins og t.d. Montgomery Ward í Ameríku, og mörg fleiri mætti nefna, sem starfa í Bretlandi, Frakklandi, Þýzkalandi og á Norðurlöndum, selja með verði, sem er lægra en smásöluverð, og það er í algeru ósamræmi við boðskap hæstv. viðskmrh. um nauðsyn á verzlunarfrelsi, ef hann vill meina almenningi að komast í beint samband við slík firmu og komast fram hjá milliliðum hér.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að sér kæmi það á óvart, að málsvarar flokka, sem aðhylltust sósíalistíska stefnuskrá, bæru fram till. um að gefa innflutning og útflutning frjálsan. Það er alger misskilningur á kjarna sósíalistískrar stefnuskrár að telja hana jafngilda höftum á innflutningi eða útflutningi. Kjarni sósíalistískrar stefnuskrár er, að komið sé á áætlunarbúskap og ríkisrekstri í ýmsu formi og á vissum sviðum. Þar er um að ræða gagngera heildarskipulagningu á atvinnukerfinu öllu. En ef atvinnukerfið á annað borð byggist á frjálsu einkaframtaki eða samvinnu frjáls einkaframtaks, samvinnurekstrar og opinbers rekstrar, þá er enginn kominn til með að segja, að það sé í samræmi við stefnu sósíalistískra flokka, að sá hluti hagkerfisins, sem er í höndum einkaframtaks, skuli vera háður einhvers konar höftum. Þvert á móti getur verið æskilegra og réttara, að sú starfsemi sé sem frjálsust og samkeppni milli aðilanna innbyrðis sem mest og bezt og samkeppni við hin önnur skipulagssvið efnahagslífsins, samvinnureksturinn og hinn opinbera rekstur. Ef um höft er að ræða á innflutningi eða útflutningi í hagkerfi, sem á annað borð er kapítalistískt, eru þau oft og einatt og venjulega sett af allt öðrum ástæðum og mjög oft til þess að leysa úr vissum bráðabirgðavandkvæðum, sem að steðja, til þess að koma í veg fyrir önnur enn þá verri vandkvæði, sem ella mundu dynja yfir. Þess vegna er það ekkert andstætt stefnuskrá sósíalistískra flokka, þó að þeir vilji, að sá einkarekstur, sem á annað borð er til, sé sem frjálsastur. Það getur verið miklu heilbrigðara, að hann sé algerlega frjáls og óheftur, heldur en að hann sé í viðjum hafta, sem þá kannske verða undirrót ýmiss konar spillingar og misnotkunar, eins og þau höft, sem hér hafa verið undanfarin ár, hafa verið að mjög mörgu leyti, fyrst og fremst vegna þess, að illa hefur verið á þeim haldið.