04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (3032)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nú í fyrsta lagi leyfa mér að þakka þeim hv. þm. tveimur, sem hér hafa rætt um þessi mál. Þar hefur a. m. k. komið fram nýtt sjónarmið, sem er sjónarmið út af fyrir sig. Hins vegar sakna ég þess mjög frá hv. þm. V-Húnv. (SkG), að hann skyldi ekki ræða málið meira efnislega, því að hann gerði ekki hina minnstu tilraun til þess að hrekja nokkuð þær upplýsingar, sem ég bar fram hér í sambandi við þáltill. og voru raunverulega mergur þessa máls, heldur var með alls konar aðrar aðfinnslur, sem koma ekki kjarna málsins við, eins og ég skal nokkuð sýna fram á.

Honum þótti það nokkuð einkennilegt, að nú skyldi þetta vera borið fram í þál.- formi, en hefði á s. l. þingi verið borið fram í frv. formi. Skal ég gjarnan skýra, hvers vegna þetta er svo. Í því frv., sem ég lagði fram til umræðu og afgreiðslu í hv. Ed. á s. l. þingi, var tekið fram í 2. gr., eins og hv. þm. minntist á, hvernig skyldi fara með eignir félagsins, vegna þess að það er ekki hægt að afhenda eignirnar nema gefa um það heimild frá þinginu, og slík heimild verður að vera í lagaformi. Þetta er ekki gert í þáltill., vegna þess að það er ekki hægt að heimila ríkissjóði að afhenda eignir ríkisins með þáltill. Það er hægt að heimila ríkissjóði að taka að sér alls konar greiðslur í þáltill., en það er brot á stjórnarskránni að heimila með þáltill. að láta af hendi nokkrar eignir ríkisins, og fyrir það er þessi þátturinn ekki tekinn með hér. Þess vegna hef ég líka lagt megináherzlu á það atriði málsins að komast að samningum um málið. Þegar þeir samningar lægju fyrir og þeir þættu viðunandi af hæstv. ríkisstj., þá bæri henni að sjálfsögðu að leggja slíka samninga til samþykktar fyrir Alþ., ef þeir samningar hafa í för með sér eignarafhendingu. Þetta er skýringin á því, hvers vegna ég hef heldur valið þessa leiðina. Ég tel einnig, að það sé miklu auðveldari leið að takmarkinu að byrja þannig að leita samninganna en fyrir fram að ákveða um þetta lög, eins og hugsað var á síðasta Alþingi, og hef ég m. a. komizt að því í sambandi við þær umræður og meðferð, sem málið fékk á síðasta þingi, og þykir enginn vansi að taka það til athugunar við flutning málsins nú í þetta skipti.

Þá sagði hv. þm., að það mundi verða mjög erfitt að semja um þessi mál til 25 ára. Ég hygg nú, að honum sé vel kunnugt um það, eins og mér og mörgum öðrum hv. þm., að það þykir ekki neitt ákaflega langur samningstími í stórmáli, hvorki á milli aðila né milli ríkja, þó að samið sé um 25 ár síður en svo. Og það ætti því ekki að vera nein fjarstæða að semja um þessi mál hér innanlands við slíka aðila eins og hér er bent á, þar sem annars vegar er ríkið, þ. e. a. s. þegnar þjóðfélagsins, og hins vegar er mikill hluti af þessum sömu þegnum, sem bæði eiga Eimskipafélagið og samvinnufélagsútgerðina, svo að ég teldi að það yrði engum vandkvæðum bundið að semja um þessi mál, svo að vel færi, enda kæmi það þá á daginn, þegar farið væri að ræða þau, hvort þessir erfiðleikar eru það miklir, að ekki væri hægt að komast yfir þá.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að frv. á þskj. 515 var sent Eimskipafélaginu í fyrra til umsagnar. Og eina ástæðan, sem félagsstjórnin bar fram fyrir því að geta ekki afgreitt málið skyndilega, var sú, að það væri ákaflega umfangsmikið og þyrfti vitanlega að ræða það frá ýmsum hliðum, sem er alveg rétt. Hins vegar kom ekki nokkur ábending um það frá stjórn Eimskipafélagsins, að það væru þau vandkvæði á þessu máli, sem ekki væri hægt að komast yfir, nema síður sé, svo að ég hygg, að það sé óhætt að samþ. till. fyrir það, þó að hv. þm. finnist, að það séu ýmis vandkvæði í sambandi við svo langan samning.

Hv. þm. minntist einnig á það, að þegar lesið væri frv. á þskj. 515, þá gerði ég ráð fyrir, að það þyrfti einhvern styrk annan en andvirði eignanna. Allt eru þetta samningsatriði. Það yrði fyrst og fremst komið undir því, hvað þeir taka að sér langan starfstíma, einnig komið undir því, hvaða þjónustu þeir vilja gefa, hvort þeir vilja bæta þjónustuna mikið frá því, sem nú er, og eyða allmiklu fé í það, eða hvort þeir vilja miða við, að þjónustan sé lík og hún er í dag. Þess vegna verður ekkert sagt um það á þessu stigi málsins, hvort þurfi að veita þeim sérstaklega annan styrk en eignayfirfærsluna. Hins vegar tel ég ekki á þessu stigi málsins, að það sé ákaflega mikil fórn fyrir ríkið að afhenda eignirnar, vegna þess að það er vitað, að ef ríkið heldur áfram að reka strandferðirnar í næstu 25 ár, þá eru þessar eignir þeim einskis virði, þær hverfa þá í afskriftum eða í meðgjöf til þjóðarinnar til þessarar þjónustu. Hins vegar ef litið er á málið þannig, að það sé hægt fyrir ríkið að selja skipin út úr landinu eða einhverjum öðrum aðilum, þá er það náttúrlega ákveðin fjárhæð, sem gengur til þess að kaupa samninginn, svo að það sést ekki fyrr en samningurinn hefur verið reyndur, hversu mikil byrði það væri fyrir ríkissjóðinn að fara þessa leið, sem ég þegar hef bent á.

Þá gat hv. þm. um það, að það hefði orðið sú breyting á í sambandi við flutning þessa máls, að ég hefði fyrr viljað afhenda þetta einum aðila, en nú vildi ég afhenda þetta tveimur aðilum. Þetta er ákaflega skiljanlegt, og vil ég í sambandi við það leyfa mér að vísa til þeirra gagna, sem komu fram í minni framsöguræðu. Það var sameiginlegt álit þeirra manna, sem störfuðu í mþn., m. a. fyrrverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar, sem hafði víðtæka þekkingu á þessum málum, hvað sem okkur hinum viðkemur, og viðurkennt af öllum þessum aðilum, að það væri nauðsynlegt, að sá aðili, sem flytur inn til landsins vöruna, dreifði henni einnig og bæri kostnaðinn af dreifingunni. Og þegar nú er viðurkennt, að Samband ísl. samvinnufélaga er ekki einasta að auka skipastól sinn, heldur einnig upplýst hér af hv. þm. V-Húnv., að því verði haldið áfram, þannig að þeir geti séð um alla flutninga með sínum stærri skipum á stærri hafnirnar og með sínum smærri skipum á smærri hafnirnar, þá er ekkert eðlilegra en einmitt að þessi aðili sé einnig tekinn með í þann samning, sem hér um ræðir, því að ég hef bent á, að með því að skipta þessum flutningum á marga aðila, þá sé alveg útilokað að komast að þeim hagstæðu kjörum fyrir þjóðina í sambandi við flutningana, sem hægt er að komast að, ef þetta er skipulagt með einum eða tveimur aðilum, eins og hér er lagt til. Það gæti verið full samvinna á milli þessara tveggja aðila, sem einir raunverulega í dag mætti segja að hafi þá þjónustu á hendi að flytja til landsins vöruna. Það gæti verið fullkomin samvinna á milli þeirra um að dreifa henni um landið, og þess vegna eðlilegt, að það sé sett inn, að það eigi að semja við báða þessa aðila. Ég hefði hins vegar ekkert á móti því, ef það kæmi fram við samningsumleitanir, að annar hvor aðili vildi bjóða betri þjónustu fyrir minna fé frá ríkissjóði og landsmönnum en hinn, að honum einum væri afhent þetta hlutverk. Væri mér þá nákvæmlega sama, hvort það væri S. Í. S. eða Eimskipafélagið.

Till. er því borin fram beinlínis sem eðlilegur árangur af þeim niðurstöðum, sem féllu í mþn. Og formaður n., eins og ég tók fram hér í minni framsöguræðu, hélt því ákaflega fast fram, að það hefði verið alveg útilokað að hafa þessa þjónustu á hendi fyrir ríkið, nema því aðeins að þeim væri þá tryggt sérleyfi á hafnirnar. Ég hygg nú, að það verði ekki margir samvinnufélagsmenn, sem vildu samþykkja það, að þeirra skip skyldu ekki fá leyfi til þess að flytja nokkra vöru á hinar smærri hafnir, heldur aðeins annaðhvort til Rvíkur eða Akureyrar og svo yrði ríkið að dreifa henni á þeirra kostnað. Ég ímynda mér, að því yrði ekki vel tekið hjá landsmönnum yfirleitt. En það var þetta, sem forstjóri Skipaútgerðarinnar vildi stefna að, og ef hv. þm. V-Húnv. trúir mér ekki á því sviði, þá vil ég benda honum á að lesa nál. mþn., sem til er hér í þingskjölum, þessi skoðun formannsins kemur alveg skýrt fram þar. Hann vildi láta fyrirskipa, að þeir menn, sem önnuðust flutningana á milli landa, skyldu skila vörunum að mestu leyti í fjórar hafnir á landinu, eina á Austurlandi, eina á Vesturlandi, eina á Norðurlandi og eina á Suðurlandi, og síðan mættu þeir ekki flytja þá vöru út til neytendanna, þó að þeir hefðu flutt til landsins og ekki heldur taka við vöru frá viðskiptamönnum sínum á smærri höfnunum og flytja á þessar stóru hafnir, þetta skyldi vera hlutverk, sem ríkissjóður skyldi gera og hafa einkaleyfi til að gera og enginn annar koma nálægt. Og ég er alveg viss um, að hversu erfiðlega sem það kann að ganga að koma fram þessari till., þá verður þúsund sinnum erfiðara að koma þeim fyrirmælum fram hér á Alþingi, að slík skipun skuli vera á þessum málum. Þá mundu margir menn rísa upp og segja: Þetta látum við nú ekki bjóða okkur. Svo mikill aukakostnaður hefur orðið við það að þurfa að umskipa vörum, setja þær í land á einni höfn, flytja aftur um borð o. s. frv. og óþægindi fyrir landsmenn, að þeir mundu aldrei verða þakklátir neinum þeim þm., sem kæmi á slíkri skipan í landinu. — Og þá er ekki önnur leið út úr þessu öngþveiti en að láta sama aðilann hafa dreifinguna sem hefur flutningana til landsins, eins og hv. 3. landsk. (HV) viðurkenndi, þótt hann vildi fara aðra leið, sem ég skal koma að síðar, en einmitt í hans ræðu kom þetta skýrt fram, að hann viðurkenndi ekki einungis sjónarmið mitt, heldur einnig ágreiningslaust sjónarmið mþn. í þessu máli. Það er líka alveg sýnilegt, að eftir því sem báðir þessir aðilar, Eimskipafélagið annars vegar og samvinnufélögin hins vegar, og þá alveg sérstaklega samvinnufélögin, auka sinn skipakost, eins og hv. þm. V-Húnv. minntist á eða tilkynnti hér áðan að mundi verða gert og mér þykir ekki nema eðlilegt og gleðilegt að verði, — þá er alveg áreiðanlegt, að það hlýtur að skapa stórkostlega samkeppni við þann aðila, sem hefur strandferðirnar á hendi, hvort sem það er ríkið eða einhverjir aðrir, og sá aðili er dæmdur til þess að tapa í þeirri samkeppni, hann getur ekki neitt annað. Hann er varnarlaus fyrir því, hvað mikið þessir aðilar taka og flytja á hina ýmsu staði og frá þessum stöðum, og verður að gera svo vel sjálfur að sigla með tómar fleyturnar á eftir þeim eða samhliða þeim á staðina, eins og þegar er gert í dag, og það er ein meginorsökin til þess, að það verður að breyta þessu fyrirkomulagi.

Hv. þm. V-Húnv. notaði allmikinn tíma til þess að ræða um það, hvað það væri ójafnt skipt á milli Eimskipafélagsins og Sambandsins í sambandi við skattfrelsi. Ég skal ekki fara mikið út í þau mál, það gefst sjálfsagt tími til þess að ræða það á öðrum vettvangi. En ég vil þó benda á, að ef þessi till. yrði samþ., verður þó tekinn að minnsta kosti einhver kúfur af þeirri upphæð. sem menn vilja að Eimskipafélagið greiði í ríkissjóð, ef þeir með þessu tækju að sér að halda uppi strandferðum umhverfis landið, án þess að fá nokkurn styrk til þess hjá ríkissjóði. Ég vil aðeins benda á það. Og ég segi alveg eins og hv. 3. landsk., að mér fyndist það ekkert óeðlilegt, að sá aðili, sem þénar á því að flytja vörurnar til landsins, eins og Eimskipafélagið hefur gert og Sambandið hefur gert, taki einmitt á þennan hátt að sér að greiða til ríkissjóðs skatt eins og hér er lagt til. Ef það hins vegar er hægt fyrir þessa aðila að inna þjónustuna af hendi fyrir miklu minna fé en ríkið gerir í dag, þá er það þeirra mál og þá er það líka gleðilegt, en útkoman verður sú sama, að þeir hafa þá á þennan hátt notað eitthvað af sinum gróða eða sínum hyggindum til þess að spara ríkissjóði fé. Ef skip Sambandsins greiða of mikið í skatt til ríkissjóðs af sinni þjónustu, þá mundi sú fúlga einnig minnka, ef þeir á þennan hátt tækju að sér einhvern hluta strandferðanna og þénuðu ekki á því fé, svo að það kæmi allt í sama stað niður.

Hv. þm. V-Húnv. vildi leiðrétta umsögn mína um samanburð á tapinu og áætlaðri upphæð til strandferðanna 1952. Ég vil mega leiðrétta það, sem kom fram hjá honum hér, af því að þar var ekki að öllu leyti farið rétt með. Það er að vísu rétt, sem hann sagði, að tapið á strandferðunum hefði verið um 8½ millj. kr. En ég bar saman tvær upphæðir í báðum tilfellunum. Ég bar saman það, sem veitt er til strandferða og flóabáta árið 1950 á fjárl., og það eru um 5 millj. kr. til beggja, en af því er rúm milljón til flóabátanna og hitt til strandferðanna. Og síðan bar ég saman þó upphæð, sem þetta hvort tveggja hefði kostað á árinu, en það var rúmar 10 millj. kr., svo að það hefur verið eytt úr ríkissjóði rúmlega 5 millj. kr. meira en áætlað var til þessarar starfsemi. Hins vegar ber hv. þm. V-Húnv. saman annars vegar þá tölu, sem veitt var á fjárl. til beggja þessara aðila, og hins vegar aðeins tapið hjá öðrum aðilanum, og það er rangt. Ég veit, að þetta er gert fyrir misskilning hjá hv. þm., ekki af ásettu ráði, en ef hann flettir upp í yfirliti, sem hefur komið frá hæstv. fjmrh. og verið lagt hér alveg nýlega á borðið, þá mun hann sjá, að undir B-lið, þ. e. til skipaútgerðar og flóabáta, var áætlað 5 millj. kr., en varð 10 millj. 150 þús., svo að minn samanburður var hárréttur, og vænti ég, að hv. þm. viðurkenni það.

Þá spurði hv. þm. um það, hvaðan það fé væri tekið, sem Eimskipafélagið nú þénaði, þ. e. ágóði Eimskipafélagsins. Í fyrsta lagi ber að athuga hvort Eimskipafélagið sigli þá fyrir hærri flutningsgjöld á milli landa en aðrar þjóðir. Ég hef ekki orðið var við, að það sé, og hygg, að það muni ekki vera, og ef svo væri, þá mundu aðrar þjóðir sigla hér til Íslands. En ég hygg, að það sé ekki gert nema á þeim sviðum, þar sem Íslendingar hafa ekki, því miður, nein flutningstæki, svo sem er með olíuflutninginn. Einmitt á þeim sviðum sigla útlendingar, en á öðrum sviðum munu Íslendingar hafa tekið að sér mestalla þessa flutninga, sem betur fer, og þá a. m. k. ekki fyrir hærra verð en við þyrftum að greiða til annarra í erlendum gjaldeyri. Það, sem það græðir á þeim flutningum, er þá það sama sem aðrir mundu græða, og færi það allt út úr landinu, væri hver sú króna af því töpuð. Annars vegar kunna þeir að geta skipulagt sína starfsemi betur en aðrir og geta þá þar af leiðandi haft betur upp úr því. Þess vegna er ekki annað eða meira tekið af þjóðinni fyrir þessa flutninga en aðrir aðilar mundu taka af henni á opinberum markaði. Sama er um það, sem Samband ísl. samvinnufélaga tekur af þjóðinni, er það siglir fyrir sömu gjöld, sem ég hygg að það muni sigla fyrir, og mun þá hv. þm. leiðrétta það, ef ég fer þar rangt með, svo að því verður ekki blandað saman við taprekstur strandferðaskipanna.

Þá minntist hv. þm. á það, að ef Skipaútgerðin hefði fengið eitthvað af þeim gróða, sem Eimskipafélagið fékk í stríðinu, þá stæði Skipaútgerðin betur að vígi. Ekki skal því mótmælt. En það haggar ekki þeim staðreyndum, að í dag er ekki hægt fyrir Skipaútgerðina að reka þessa útgerð nema með stórkostlegu tapi. Þó að það tap væri greitt af einhverjum sjóðum, sem hefðu safnazt upp fyrir óvenjuleg atvik á stríðstímunum, þá var það aðeins til þess að mæta því á meðan þeir entust, en kerfið sjálft er jafnóheppilegt fyrir því, þó að þeir sjóðir væru til. En það er svo annað atriði, og ég skal ekki draga það inn í þessar deilur, hvort það hefði verið rétt að láta það renna frá Eimskipafélaginu til einhverrar annarrar starfsemi. Hitt má þó benda á, að Eimskipafélagið hefur notað þetta fé — eins og það hefur notað sinn gróða allan — til þess að byggja upp nægilega góðan og stóran flota fyrir Ísland til þess að flytja vörur hér á milli, samfara því sem Sambandið hefur einnig tekið þátt í þeirri uppbyggingu, og ég virði alveg eins vel, að það hefur verið gert af þeim aðila eins og Eimskipafélaginu, en þetta hvort tveggja er sterkasti þátturinn í því að viðhalda sjálfstæði landsins, hvernig sem fer, og því má þó ekki gleyma.

Þá sagði hv. þm., að það hefði verið búizt við því, þegar safnað var fé um allt land, að Eimskipafélagið mundi þjóna öllum landslýð án þess að mismuna fólkinu. Ja, það er nú einmitt það, sem ég vil ná með þessari till. Nú segi ég, að Eimskipafélagið hafi að sjálfsögðu gert þetta í annarri mynd. Það tók að sér í gegnum tvennar stórar styrjaldir margra ára að flytja til og frá landinu vörur, þegar engir aðrir voru til þess að gera það. Og það er alveg áreiðanlegt, að lífsskilyrðin á Íslandi hefðu orðið allt önnur og lakari, ef þetta hefði ekki tekizt, að hafa þá nægilegan eða a. m. k. þann flota, sem þá var fyrir hendi og Eimskip hafði yfir að ráða, og þeim hefði ekki einmitt verið stjórnað á þann hátt, sem gert var. Þá hefðu lífsskilyrði verið allt önnur og miklu lakari hér á Íslandi. En þessu virðast menn gleyma. Nú, þegar Eimskipafélagið er orðið svo fjársterkt, að það gæti einnig sinnt hinum öðrum hlutverkum, þ. e. að sigla með vörurnar á allar hafnir landsins, þá er það einmitt ég, sem ber það hér fram, að sú tilhögun verði höfð á, og ég hefði ekki í dag neina ástæðu til þess að ætla, að Eimskipafélagið vilji skjóta sér undan þeim skyldum. Það reynir þá fyrst á það, ef þessi till. verður samþ. og Eimskipafélagið vill ekki uppfylla þær vonir, sem við það eru bundnar. Þá reynir fyrst á það að sjá, hvaða svar þeir kunna að gefa í þessu máli. Vil ég ekki hafa neinar getgátur um það í garð Eimskipafélagsins, nema síður sé. — Ég hygg því, að þessi ummæli, sem hv. þm. hafði um Eimskipafélagið í sambandi við það, að þeir hafi brugðizt trausti manna, séu ofmælt, og vona, að það hafi verið gert í hugsunarleysi, en ekki að athuguðu ráði, að bera hér fram á hæstv. Alþ. þá ádeilu á Eimskipafélagið, sem kom fram í orðum hv. þm.

Þá sagði hv. þm., að hann vissi ekki, hvort þetta mál væri borið fram af okkur flm. af umhyggju fyrir hag ríkissjóðs eða vegna umhyggju fyrir bættum samgöngum í landinu. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að það er borið fram af umhyggju fyrir þessu hvoru tveggja, bæði fyrir hag ríkissjóðsins annars vegar, eins og kom fram í minni framsöguræðu og í grg., og einnig af umhyggju fyrir, betri þjónustu við fólkið, því að það er mín bjargfasta skoðun, að þjónustan við fólkið verði miklu betri, ef þessari skipan verði komið á. Og það er ekkert annað, sem liggur til grundvallar flutningi þessarar till., hvorki frá mér né hv. þm. Snæf., en umhyggja fyrir báðum þessum þáttum. — Hann benti svo á, að þá hefðum við átt eða Sjálfstfl. að haga sér öðruvísi í sambandi við stjórnina á landhelgisgæzlunni. Við skulum ekki blanda þessu máli hér inn í, því að það er alveg áreiðanlegt, að það verður aldrei neinum manni talin trú um það, að hin beinu útgjöld eða sparnaður, á hvora hliðina sem menn vilja reikna það, við að setja aðra yfirstjórn yfir þann hlutann, sem ríkið rekur, nemi nokkrum milljónum eins og tapið á strandferðunum. Það þarf enginn maður að halda það. Hitt getur numið milljónum, ef forráðamenn, nýir eða gamlir, hafa gert eða gera einhver glappaskot í þeim málum. En sjálf yfirstjórnin sem slík, laun til yfirstjórnarinnar, getur ekki numið nema sáralitlum upphæðum, og það svo sáralitlum, að það getur komið fram margfalt, hundraðfalt, þúsundfalt í betri stjórn en hjá öðrum aðilum og líka einnig í lakari stjórn. — Úr því að hv. þm. fór að blanda þessu inn í, þá þykist ég hafa heimild til þess að benda honum á, að það er ekki búið að gera út um það enn, hvað það kostar ríkissjóðinn mörg hundruð eða tugi þúsunda eða milljónir, hvernig gengið var frá því bezta skipi, sem hefur verið byggt í þessar ferðir. Ég sé ekki annað en að það sé óútgert um það mál enn, og verður þar a. m. k. ekki kennt um hinum nýju stjórnendum. Annars var þetta krafa frá fjöldamörgum mönnum að aðskilja landhelgisgæzluna frá strandferðunum, enda ekkert skylt með þessum tveimur málum. Annað liggur undir dómsmálum og hitt liggur undir atvinnumálum, og það er enginn skyldleiki á milli þessara mála yfirleitt. Hitt skal ég svo láta hv. þm. V-Húnv. vera einan um að reikna út, hvort nokkuð af þessum rúmum 5 millj., sem nú koma fram sem beint meira tap en gert var ráð fyrir á strandferðunum, stafar af því, að ekki voru til nein strandgæzluskip til að setja eitthvað af því tapi yfir á þann reikninginn; það skal ég láta hv. þm. V-Húnv. glíma við. En ákaflega stingur það í stúf að sjá nú allt í einu, þegar þessi reikningur og þessi stjórn eru aðskilin, að þá eru það loksins strandferðirnar, sem tapa nú 5 millj. kr. meira en áætlað var, eins og hefur komið fram í reikningunum. (Gripið fram í.) Ég segi, það skal ég láta hv. þm. um, að bera saman og reikna, hvort það stafi af því. Annars var alveg óþarfi að draga þetta mál, sem er alveg óskylt mál, inn í þessar umræður.

Hv. þm. notaði nú í ræðu sinni — sem ég nú ekki bjóst við — svo litla háttvísi að fara að tala um það hér, að ég hefði eitthvert horn í síðu Skipaútgerðarinnar. Ég veit ekki til þess, að ég hafi nokkru sinni haft nokkurt horn í síðu Skipaútgerðarinnar. Milli mín og fyrrverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar tókst alltaf ágætis samvinna í öllum viðskiptum og það mjög góð. Og milli okkar í nefndum, þar sem við störfuðum saman, var sú samvinna einnig ágæt, eins og á milli mín og margra annarra góðra framsóknarmanna, svo að ég frábið alveg slíka háttvísi í umræðum hér að vera að koma með slíkar getgátur. Hitt er allt annað atriði, að ég hef leyft mér að benda á betri aðferðir í sambandi við þessi mál en hafa verið hafðar í frammi; það er allt og sumt. Og hv. þm. fær hvorki hv. þingheim né þjóðina nokkru sinni til þess að viðurkenna það, hvað margar ræður sem hann heldur um það, að kaupin á Súðinni hafi verið vel gerð. Það er alveg áreiðanlegt, að ef hann vill draga þau mál hér inn í, þá get ég mætt honum um það atriði, hvenær sem hann vill. Það er ekki að hafa neitt horn í síðu einhvers fyrirtækis eða stofnunar, þó að menn leyfi sér almenna gagnrýni á þeirra gerðum, þegar um er að ræða, að það fé, sem farið er með, er tekið úr ríkissjóði og alveg eins úr mínum vasa að nokkru leyti eins og hvers annars. Ég hef sannarlega ekki undir neinum kringumstæðum borið nokkurn kala til hæstv. forseta sameinaðs þings, þó að ég benti á það á sínum tíma, að það hafi ekki verið rétt farið með ákveðna eign. Og ég veit, að hann persónulega hefur ekki látið sér detta í hug, að það væri á nokkurn handa máta sneitt að honum sjálfum; síður en svo. Og það er nákvæmlega sama hér. Það er alls ekki þinglegt af jafnmerkum manni og hv. þm. V-Húnv. að halda því fram, af því að ég ber hér fram gagnrýni á ákveðna stofnun, að þá sé ég að hafa eitthvert horn í síðu stofnunarinnar. Sá maður, sem ekki færir nein önnur rök fyrir máli sínu en það, á engin rök til í málinu. Hann er orðinn rökþrota algerlega.

Ég skal þá koma aðeins nokkrum orðum að ræðu hv. 3. landsk. Hann sagði, að fáir hefðu búizt við því, að þessi þjónusta yrði notuð sem fjárplógsstarfsemi. Ég þekki þessi rök. Hv. 5. landsk. þm. (EmJ) margsinnis staglaðist á þessu sama, þegar verið var að ræða um það hér í þinginu að leggja niður ferðirnar á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og milli Reykjavíkur og Akureyrar. Hann þráfaldlega bar það fram, að þó að honum þá sem ráðherra, sem réði yfir þeim málum, hefði ekki tekizt að reka þessar ferðir svo, að þær gætu borið sig, þá stafaði það beinlínis af því, að það hefði aldrei verið ætlazt til þess, að þetta væri fjárplógsstarfsemi; fólkið yrði að fá þessa þjónustu. ríkið yrði að taka þennan þátt á sig. Og það var fyrir þá andstöðu, sem ekki var hægt að leggja þessa starfsemi niður fyrr en sjálfstæðismenn voru einir í stjórn. En hvað er nú? Ég hygg jafnvel, að hv. 5. landsk. mundi ekki þora í dag að koma til þingsins og segja: Takið upp þessa starfsemi aftur. Greiðið þið fleiri hundruð þúsundir og allt í milljón í tap frá ríkissjóði til þess að fá sömu þjónustuna sem þið höfðuð þá. — Ef hann vill bera saman þá þjónustu, sem nú er, og ef hv. 3. landsk. vill líka gera það, þá veit ég, að það er enginn af þm., sem þorir að bera slíkt frv. hér fram, vegna þess að reynslan hefur sýnt, að allt, sem þeir sögðu um þessi mál þá, var rangt. Nú hafa þessi mál verið sett í hendur annarra manna, með miklu betri árangri, miklu betri vögnum, miklu öruggari ferðum og miklu minna tapi fyrir ríkissjóð vegna þess að ríkissjóður hefur ekkert tap af því. Þetta eru nákvæmlega sömu rökin sem nú koma frá hv. 3. landsk: — Hitt er svo allt annað atriði, það sem hv. þm. ræddi um, að það væri rétt að taka Eimskipafélagið og leggja það undir ríkið. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En í því liggur fullkomin viðurkenning fyrir því, að þessi mál eiga að fara á eina og sömu hönd. Þá er að kanna það. Er meira fylgi fyrir því hér í hv. Alþ. að taka Eimskipafélagið og leggja það undir ríkissjóðinn, láta það taka við öllum störfunum og þá að gefa ríkisvaldinu, þ. e. ríkissjóði, einkarétt til þess að flytja allar vörur frá og til landsins, — er meira fylgi fyrir því en fyrir minni tillögu? Og ef það er minna fylgi fyrir því, þá eiga þeir menn, sem vilja þó koma þessu á eina hönd, að fylgja minni till., ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir. Það er alveg sýnilegt. Þess vegna vænti ég þess, að þegar Alþfl. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að fyrir því er nú ekki þingfylgi, nema þá kannske hjá Alþfl. og þó ekki víst einu sinni að það sé hjá honum óskiptum, þá fylgi hann því, að málinu verði veitt í það horf, sem ég hef lagt til í minni till. á þskj. 94.