04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (3037)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. (SkG) er auðsjáanlega í nöp við, að hér séu gefnar upplýsingar um hið sanna eðli þessa máls, og var þess vegna illa við þær tölur, sem ég nefndi, get ég ekki að því gert.

Varðandi það, hvort ég hefði fellt sleggjudóm yfir núverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar, þó tók ég það einmitt skýrlega fram, að ég dæmi ekkert um það, hvort hann sé hæfur til þess að veita því fyrirtæki forstöðu, sem hann er settur fyrir. Hitt þori ég að fullyrða, að hann skortir alla hæfileika til þess að vera yfirmaður löggæzlu á hafinu umhverfis Ísland, en það var forstjóri Skipaútgerðarinnar. Mig sannast sagt undrar, að hv. þm. V-Húnv. skuli ætla þingheim svo blindan, að nokkur maður trúi því. að þessi maður væri hæfur til þess, enda er hægast að bera saman, að þegar að því var fundið, að stjórn löggæzlunnar við hafið var fengin sérstökum manni, þá er gott fyrir hv. þm. V-Húnv. að líta í sína biblíu, Tímann, og sjá, hvað þar var fundið til varnar því að hafa þetta hjá Skipaútgerð ríkisins. Það voru þeir persónulegu kostir og reynsla, sjómennskuæfing og annað slíkt, sem Pálmi Loftsson hafði fengið, og óneitanlega mjög langur lærdómur af því að hafa raunverulega farið með þessi mál. Ekkert af þessu hefur núverandi forstjóri Skipaútgerðarinnar. Hann getur verið ágætur í sínu starfi þrátt fyrir það, og við skulum vona, að hann sé framúrskarandi hæfur fjármálamaður, enda veitir auðsjáanlega ekki af því, ef á að lækka 10 millj. kr. halla Skipaútgerðarinnar, að hann sé það.