04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3038)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það út af ræðu, sem hæstv. dómsmrh. flutti hér áðan, að mér þykir það dálítið einkennilegt, að hæstv. ráðh. skuli sjá ástæðu til þess að vera að lýsa yfir hér á Alþ. áliti sínu á hæfileikum eða hæfileikaskorti opinbers starfsmanns til þess að gegna starfi, sem honum hefur ekki verið falið að gegna. Um það skal ég svo ekki hafa fleiri orð, en ég vil taka undir það, sem hv. þm. V-Húnv. sagði um það efni, og á þá leið, að mér kemur það dálítið á óvart, að hæstv. ráðh. skuli vera að láta slík ummæli falla hér.

En út af þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, þá vildi ég segja aðeins örfá orð, áður en þetta mál fer til n., sem væntanlega verður. Það er nú svo, að ég held, að menn hafi almennt litið svo á, að strandferðirnar hér í kringum landið ættu ekki endilega að vera reknar með það fyrir augum, að þær bæru sig. Hér hefur verið um að ræða opinbera þjónustu, sem innt hefur verið af hendi einkum í þágu atvinnuveganna og þess fólks, sem í strjálbýlinu býr, og ef nú ætti að fara að taka upp nýtt sjónarmið í þessu efni, þannig að endilega ætti að ganga út frá því, að strandferðirnar bæru sig reikningslega, þá er ég hræddur um, að ýmsum þætti nokkuð þungt undir því að búa. Það er líka svo, að það er ekkert einsdæmi í samgöngumálum, að hið opinbera hafi af þeim nokkurn kostnað, og er hendi næst að minna á þau miklu fjárframlög, sem ríkissjóður og fleiri aðilar opinberir inna af hendi árlega vegna samgangna á landi. Nú er það einnig svo, að síðan samgöngur í lofti hófust hér vegna innanlandsnotkunar hefur ríkissjóður einnig lagt nokkuð af mörkum til þeirrar greinar samgangnanna. Það er þess vegna ekkert sérstakt, þó að ríkissjóður þurfi að leggja af hendi nokkurt fé árlega, og jafnvel þó að það sé talsvert mikið, vegna strandferða. Það er sambærilegt við það, sem gerist í öðrum greinum samgöngumálanna innanlands. Ég held líka, eða mig minnir það, að það hafi stundum verið uppi raddir hér á Alþ. og í ríkisstj. um, að gera ætti ráðstafanir til þess að draga úr þeim rekstrarhalla, sem er á strandferðunum, og hefur þetta verið hugsað á þá leið, að hækkuð yrðu fargjöld og farmgjöld með skipunum og hækkuð gjöld fyrir útskipun og uppskipun á höfnum. En ef ég man rétt, þá hafa slíkar ráðstafanir að jafnaði strandað á því, að þm. hefur ekki þótt fært að hækka til verulegra muna þessi gjöld, sem almenningur í byggðum landsins innir af hendi fyrir strandferðaþjónustuna. Þessi orð, sem ég mæli hér, eru sögð vegna þess, að ég vildi, að það kæmi fram hér af minni hálfu, áður en n. tekur málið til meðferðar, að ég tel mjög vafasamt að breyta þannig viðhorfinu til þessara mála að fara að ganga út frá því, að þess sé krafizt, að strandferðaþjónustan beri sig reikningslega. Það er þetta, sem ég vil segja við þá n., sem væntanlega fær málið til meðferðar.