04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti, Ég get ekki annað en látið uppi undrun yfir því, að svo glöggur maður eins og hv. þm. N-Þ. skuli finna hér að ummælum mínum á þann veg, sem hann gerði.

Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram, eins og hv. þm. V-Húnv. (SkG) gerði, að það hafi verið aðfinnsluvert að aðskilja Skipaútgerð ríkisins og löggæzluna á sjónum, nema því aðeins að sá maður, sem á hverjum tíma veitir strandferðunum forstöðu, hafi hæfileika til þess að fara með löggæzluna. Ef hann hefur það ekki, þá er ekki hægt að telja, að það sé aðfinnsluvert að aðskilja þetta. Í ummælum hv. þm. fólst því ábending, sem gaf til kynna, að það var fyllilega réttmætt, sem ég sagði. Að öðru leyti hallaði ég ekkert á þann mann, sem hér um ræðir, frekar en ég mundi halla á hv. þm. V-Húnv., þó að ég segði um hann, að ég hafi ekki heyrt, að nokkur lifandi maður leitaði til hans sem skurðlæknis (Gripið fram í.) eða vildi gera hann að biskupi, já. Hann er ágætur maður í sínu héraði, hefur verið prýðilegur kaupfélagsstjóri, er vel frambærilegur þingmaður, en það þætti eitthvað skrýtinn maður, sem vildi fara að láta hann skera upp á sér vömbina.