02.12.1953
Sameinað þing: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (3047)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umræðu, gerir ráð fyrir, að ríkið létti af sér í 25 ár rekstrarhalla vegna strandferða og rekstrarstyrk til flóaferða með því móti að láta af hendi tvö stærri og tvö smærri strandferðaskip, eins og það er orðað í grg. En af hvaða ástæðum geta hv. flm. ekki um fimmta skipið, þ. e. olíuflutningaskipið Þyril? Í tillgr. segir: „enda tækju þá félögin við öllum þeim skipastól, er Skipaútgerð ríkisins hefur yfir að ráða og ríkissjóður á.“ Hvað veldur því, að mótorskipið Þyrill er ekki nefndur í grg., þar sem talið er upp, hvaða skipakost ríkið á að láta af höndum? Þyrill er þó sannarlega þess virði, að hans sé að einhverju getið, þegar á að farga honum eða gefa hann. Hann er bæði allmikið skip, verðmætt og gott, og innir svo merkilegt hlutverk af hendi í sambandi við útgerð og margvíslegar aðrar athafnir víðs vegar í kringum land, að það er, eins og hv. 3. landsk. (HV) benti, á, þess vert, að menn gefi gætur, hvað er verið að fara m. a. í þessu atriði tillagnanna. Og það er enn fremur, eins og hv. 3. landsk. benti á, ekki eingöngu um það að ræða að gefa verðmætt skip, heldur er verið að láta af höndum það skip, sem hefur innt af höndum mjög hagkvæmt og farsælt starf eða þjónustu í þágu dreifbýlisins, útgerðarinnar víðs vegar í kringum land. Og ef gerður er samanburður á rekstri mótorskipsins Þyrils annars vegar og olíuflutningaskipinu Skeljungi hins vegar, sem rekið er af því marglofaða einkaframtaki, þá fæst góð lexía fyrir hv. flm. til að íhuga, þar sem þar kemur í ljós mikill mismunur á kostnaði við dreifingu olíunnar út um land, því að eins og hv. 3. landsk. benti lauslega á, eru flutningsgjöld Skeljungs, ef sleppt er Faxaflóa, 30–74% hærri en Þyrils.

Í tillgr. tala hv. flm. um strand- og flóabátaferðir, en í grg. segir, að útgjöld ríkisins til strandferðanna hafi 1952 orðið rúmlega 10 millj. Hér er vísvitandi skýrt skakkt frá, því að útgjöldin urðu samkvæmt ríkisreikningi 8.6 millj. En hins vegar námu rekstrarstyrkir til flóabátanna í einstaklingsrekstri það ár nálægt 1½ millj. Strandferðir og flóabátastyrkir eru ætíð tveir aðgreindir liðir á fjárl., og það er blekking, þegar talað er um rekstur Skipaútgerðarinnar, að bæta þar við flóabátastyrkjunum. Það er vitanlegt, að ríkið hefur árlega orðið að leggja fram mikla fjárhæð vegna strandferða og einnig til flóabátaferðanna, og þessir útgjaldaliðir hafa eðlilega og óhjákvæmilega farið hækkandi með vaxandi dýrtíð og enn fremur vegna aukinna krafna frá dreifbýlinu um betri og tíðari ferðir á hverja einustu höfn kringum land. Og ég tel, að þegar gerð er tilraun til þess að draga úr þessari þjónustu við dreifbýlið, sem ekki eingöngu er eðlilegt að veita, heldur skylt, þá sæmi það a. m. k. illa þessum hv. þm., sem báðir eiga að vera fulltrúar dreifbýlisins, og því fremur sæmir þeim það illa, þar sem till. er auk þess mjög lævísleg tilraun til þess að draga úr strandferðaþjónustunni.

Hv. 3. landsk. gerði lítils háttar samanburð á því, hvað útgjöld strandferðanna hafi verið mikil byrði á einstökum árum miðað við ríkisútgjöldin í heild. Ég hef athugað það mál og tekið nokkuð. Á árabilinu frá 1930–39 voru útgjöld ríkissjóðs vegna strandferðanna að meðaltali öll árin nálægt 2.12% af ríkisútgjöldunum. Á öðru 10 ára bili, frá 1941–50, námu útgjöldin nálægt 1.85% og meðaltal áranna 1951–52 nálægt 1.93% af ríkisútgjöldunum. Á þessu sést, að hinn tilfinnanlegi baggi, sem hv. flm. tala um að sé með strandferðunum lagður á ríkissjóð, er þó tiltölulega léttari nú miðað við ríkisútgjöldin en hann var á árunum fyrir 1940.

Með þessu vil ég þó ekki segja, að það væri ekki æskilegt, að þessi útgjöld gætu verið eitthvað lægri. Að jafnaði eru þau líka lægri en árið 1952, því að á því ári fór fram, eins og kunnugt er, flokkun á tveimur stærstu skipunum, en ég hef ekki trú á því, að um mikla útgjaldalækkun geti verið að ræða á þessum lið að staðaldri, nema dregið væri stórlega úr þjónustunni á þessu sviði við dreifbýlið og hún gerð því dýrari. Og því fjarstæðara er það að mínum dómi, að ekki þurfi annað en að afhenda öðrum aðilum strandferðaskipin, að í raun og veru þurfi ekki annað en að setja aðra forstöðu fyrir Skipaútgerð ríkisins til þess, að hægt sé að losa ríkissjóð við öll útgjöldin, bæði útgjöldin vegna rekstrar Skipaútgerðarinnar sem slíkrar og flóabátaferðanna. Þetta er svo mikil fjarstæða, að hún er alveg furðuleg.

Hitt er svo annað mál, að það væri æskilegt, ef hægt væri, að létta eitthvað þessar byrðar fyrir ríkissjóð, án þess þó að dregið væri nokkuð úr þeirri þjónustu, sem dreifbýlið nýtur nú á þessu sviði og þarf að njóta og það jafnvel í vaxandi mæli frá því, sem nú er. Það gæti í þessu sambandi komið til greina að íhuga, hvort hægt væri að finna einhvern fastan tekjustofn handa Skipaútgerðinni, sem ekki hefur enn þá verið nýttur í þágu ríkissjóðs, og má ætla, að þar sé ekki um auðugan garð að gresja, en mér dettur í hug, að byrjun að slíkri tekjuöflun fyrir strandferðirnar væri t. d. að afnema skattfríðindi Eimskipafélagsins, og rynni þá skattur þess til strandsiglinganna, sem vitað er að Eimskipafélagið er fyrir löngu búið að vanrækja.

Hv. flm. segja, að Eimskipafélagið og Sambandið auki sífellt skipastól sinn og sýnilegt sé, að þessi félög muni auka samkeppni við Skipaútgerðina um fólks- og vöruflutninga. Hvað viðkemur samkeppni um fólksflutningana, þá virðist hún hrein fjarstæða. Skip Sambandsins eru ekki byggð til fólksflutninga, og þau skip Eimskipafélagsins, sem eru til slíkra hluta hæf, sjást mjög sjaldan við strendur landsins, a. m. k. á þeim stöðum, sem mest hafa þörf fyrir þá fyrirgreiðslu, sem Ríkisskip annast nú. Það er rétt, að Sambandið eykur vöruflutninga út á land með auknum skipastól, en í því efni verður tæplega það sama sagt um Eimskipafélagið, a. m. k. hvað varðar smærri hafnirnar. Þar, sem ég þekki til, er það hreinn viðburður, ef Fossarnir koma á smærri hafnir, og hreinasta undantekning, ef þeir koma upp að bryggju. Og það getur hver hv. þm. sem aðrir gert sér grein fyrir því, hvaða álag það er fyrir þær hafnir, sem þurfa að skipa vörum úr eða í skip langt úti á skipalegum í staðinn fyrir við bryggjur. Þess vegna hef ég ekki trú á því, að samkeppni skipadeildar S. Í. S. og Eimskipafélagsins í sambandi við vöru- og fólksflutninga út á land standi Skipaútgerðinni svo mjög fyrir þrifum. En það er vitanlega þegar til staðar samkeppni frá öðrum aðilum, sem auðvitað skerðir allmikið tekjur Skipaútgerðarinnar. Ég á þar við fólksflutninga með bílum og flugvélum og vöruflutninga með stærri bátum á stuttleiðum og bílum á einstökum lengri leiðum, þar sem vegirnir eru beztir. Og þær vörur, sem fluttar eru með bílum, eru fyrst og fremst þær vörutegundir, sem hæst flutningsgjald er reiknað af og þar af leiðandi gróðavænlegast að flytja. Þessi samkeppni um flutninga á fólki og vörum hefur átt sér stað og mun halda áfram, en án þess að minnki hin almenna og raunverulega þörf dreifbýlisins fyrir strandferðir.

Hv. flm. víta í grg. mjög harðlega, að Hekla hefur verið látin fara undanfarin sumur nokkrar millilandaferðir með farþega. Þeir segja, að það hafi kostað þjóðina allmikinn erlendan gjaldeyri. Ég hef ekki haft tækifæri til að rannsaka það mál nægilega, en ég ætla, að þetta sé fjarstæða, eins og margt annað í grg. till. Það er öllum vitanlegt, að með þessum ferðum hafa ferðazt mjög margir útlendingar, a. m. k. fram til síðasta sumars, og hafa þeir auðvitað greitt í erlendum gjaldeyri. Hvað snertir svo gjaldeyriseyðslu innlendra manna með Heklu, þá tel ég, að ef um ásökunarefni er þar að ræða, sem ég tel ekki, þá eigi að stefna fyrst og fremst þeirri ásökun til annars skipafélags, þ. e. Eimskipafélagsins, og svo flugfélaganna. Það má nærri geta, hvort innlendir menn hafi ekki í raun og veru eytt miklu meiri erlendum gjaldeyri í ferðalög með þessum farartækjum en með þessum fáu ferðum, sem haldið hefur verið uppi með Heklu stuttan tíma á undanförnum sumrum.

Þá segja hv. flm., að þessar ferðir hafi borið sig mjög illa og þar með hafi verið lagður mikill skattur á þjóðina. Ég held, að þetta sé eins og annað hreinasti sleggjudómur, því að þótt svo sé, sem ég hef heyrt, að ferðir Heklu hafi borið sig illa s. l. sumar, þá er það vitað mál, að áður hafa þær borið sig mjög sómasamlega. T. d. var hreinn gróði af þeim 1952 eitthvað 100 þús. kr. Og ef það er nú rétt, að þessar ferðir hafi a. m. k. að jafnaði borið sig fjárhagslega, þá er auk þess óbeini gróðinn mjög mikill fyrir Skipaútgerðina af þeirri ástæðu, að á þeim tímum, sem ferðirnar eru farnar, er langminnst að gera fyrir bæði stærri skipin á ströndinni. Þá ferðast menn yfirleitt með bílum og flugvélum, þar sem slíku verður við komið, og þeir vöruflutningar, sem um er að ræða með bílum, fara þá mjög mikið fram. Það má því fullyrða, að tvö minni skipin ásamt Esju anni þá yfirleitt strandferðunum nokkurn veginn sómasamlega. Tekjur Skipaútgerðarinnar af farþega- og vöruflutningum yfir t. d. tvo beztu sumarmánuðina mundu því sama og ekkert verða meiri, þótt Hekla væri með í þeim siglingum. Ég tel því, að utanlandssiglingar Heklu hafi verið tilraun til að reka Skipaútgerðina með minni halla en ella og beri ekki að lasta slíkt.

Í tillgr. er gert ráð fyrir, að á þann veg verði samið við Eimskipafélagið og Sambandið, að félögin taki á sínar herðar í 25 ár kostnað víð rekstur strand- og flóabátaferða og að þjónustan verði aldrei lakari en hún er nú og að auki skylt að uppfylla allar þær kröfur, sem fram kunna að koma þessi 25 ár. Ekki er nú smátt skorið á pappírnum. Allar óskir, sem fram kunna að koma í næstu 25 ár og stefna að enn betri og hagkvæmari strand- og flóabátaferðum, eiga þessi skipafélög að uppfylla. Auðvitað eiga Eimskip og S. Í. S. ekki að hefja starfsemina með tvær hendur tómar, þar sem á að afhenda þeim fjögur strandferðaskipin og Þyril að auki. En hvað tæki svo við eftir 25 ár, ef þessi till. væri samþ., sem auðvitað kemur ekki til nokkurra mála, því að hún er svo óheyrilega fjarstæð, að ég vil taka undir það með hv. 3. landsk., að það beri ekki að vísa till. til nefndar, heldur fella hana strax.

Það er ekki auðvelt að spá, hvað taki við eftir þau 25 ár, sem Eimskip og S. Í. S. er ætlað að annast strandferðirnar. Eitt er þó alveg augljóst, að þá þarf ríkið að semja að nýju við eitthvert eða einhver skipafélög um strandferðir og flóabátaferðir, og þarf ekki að fara í grafgötur með, að þá stendur ríkissjóður höllum fæti í slíkum samningum. Þá eru engin skip til að selja af hendi og ekki heldur nein skip til þess að grípa til að starfrækja, ef að afarkostum einum væri að ganga í samningum við skipafélög.

Hvernig sem á er litið, virðist þessi þáltill. hreinasta vitleysa og aðeins borin fram til þess að finna eitthvert form fyrir árás á Skipaútgerðina og þá, sem við hana hafa starfað, og einnig árás á alla þá mörgu aðila, sem hafa haldið uppi flóabátaferðum fyrir eigin reikning, en hafa ekki getað annazt þær ferðir nema með verulegum styrk frá ríkinu.

Hv. flm. segja raunverulega, að vegna lélegrar forstöðu í þessum málum hafi ríkið verið látið kasta á glæ mörgum milljónum árlega. Þetta eru svo þungar ásakanir, að manni verður á að spyrja, hvernig hv. flm. geti réttlætt eða rökstutt slíka fjarstæðu. Og hvaðan kemur þessum herrum myndugleiki til þess að knésetja alla þessa menn, sem þeir eru að seilast til með rökleysum sínum?

Síðast þegar þetta mál var til umræðu, tók hæstv. dómsmrh. þátt í þeim, m. a. til þess að afsaka það, að hann tók forstöðu landhelgisgæzlunnar úr höndum fyrrverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar. Hæstv. ráðherra taldi, að það þyrfti allt aðra hæfileika til þess að stjórna landhelgisgæzlu en skipaútgerð. O jæja. Segja má, að skylt sé nú skeggið hökunni. Sá maður, sem er fær um að stjórna umsvifamikilli skipaútgerð, hefur a. m. k. til að bera hæfileika, sem útgerðarstjóra landhelgisgæzlunnar má ekki vanta. Ég vil ekki heldur skilja þau orð, sem hæstv. ráðh. lét falla í sambandi við þetta atriði, þannig, að hann hafi tekið forstöðu landhelgisgæzlunnar úr höndum fyrrverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar vegna þess, að ráðherrann teldi, að hann hefði vantað hæfileika til að stjórna málunum. Ég vil ekki draga í efa, að núverandi forstjóri landhelgisgæzlunnar sé fær í sínu starfi, en það vita allir, að fyrrverandi forstjóri var það einnig, svo að af bar, og að það var hann, sem manna mest byggði upp landhelgisgæzlu okkar og gerði hana að því. sem hún er nú í dag. Ég held þess vegna, að ráðabreytni hæstv. dómsmrh. í þessu efni hljóti að byggjast á einhverjum verðleikum núverandi forstjóra, sem liggi utan og ofan við þá almennu hæfileika, sem verður að gera kröfu til, að forstjóri landhelgisgæzlunnar hafi til að bera.

Hæstv. ráðh. virðist ekki trúa mjög á það, að háar fjárveitingar til mála hrökkvi betur en lágar til að framkvæma það, sem framkvæma þarf. Ráðherrann spurði mig: „Hefur áætlunarupphæð til strandferða þeim mun betur staðizt sem áætlunarupphæðin hefur orðið hærri, eða hefur kannske hallinn orðið þeim mun meiri sem áætlunin var hærri í þinginu?“ Hér er í raun og veru furðulega spurt og satt að segja falin gráleg meining á bak við. Vitanlega hlýt ég að svara því játandi, að hver fjárveiting stenzt því betur sem hún er rýmri, það er augljóst. Og svo veit ég enn fremur, að forstaða Skipaútgerðarinnar er og hefur verið þannig, að það hefur verið reynt að fara eins vel með fjármuni og unnt hefur verið. Ég var satt að segja svo undrandi út af þessari fyrirspurn hæstv. ráðh., að ég fór að hugsa um, hvort ráðherrann gæti vitað þess nokkurt dæmi, að trúnaðarmenn ríkisins færu því óvarlegar með ríkisfé sem þeir hefðu hærri fjárveitingar í höndum. Ég fór að líta í ríkisreikningana, og urðu fyrir mér reikningar áranna 1949 og 1950. Ég sá þar, að 1949 hafði verið veitt til dóms- og lögreglustjórnar 11 millj. 756 þús. kr., en til málanna höfðu gengið 13 millj. 411 þús., og hafði þó tekizt á því ári að spara á landhelgisgæzlunni um 220 þús. Samkvæmt þessu hafði umframeyðsla á þessum lið fjárl. orðið nálægt 1 millj. 655 þús. kr. Árið 1950 var fjárveitingin til þessara sömu mála hækkuð í samræmi við eyðsluna 1949. Þá var veitt til dómsmála og lögreglustjórnar 13 millj. 188 þús., en sama árið var notað 15 millj. 835 þús., umframeyðsla nál. 2 millj. 647 þús. kr., þrátt fyrir það, að á því ári tókst líka að spara dálítið á landhelgisgæzlunni. Ég játa, að mér þótti þetta mjög athyglisvert, að hér fór saman hærri fjárveiting og hækkandi umframeyðsla. En þrátt fyrir þetta hlýt ég að halda fast við það, að háar fjárveitingar hrökkvi betur en lágar til hvers konar framkvæmda, eins og ég hlýt líka að trúa því, að embættismenn ríkisins, jafnt ráðherrar sem aðrir, muni yfirleitt ekki eyða meira fé en nauðsyn krefur, þótt jafnvel þeir fái í hendur rúmar fjárhæðir til að framkvæma það, sem þeir eiga um að sjá og yfir að ráða. — Ég sé, að hæstv. dómsmrh. er nú ekki hér viðstaddur, en ég held, að þessi skoðun mín sé rétt og að hæstv. ráðh. hljóti að verða mér sammála í þessu efni.