02.12.1953
Sameinað þing: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3048)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég skal gæta þess að fara ekki langt út í þessi málefni, þar sem ég hef talað þrisvar og hef aðeins rétt til að gera stuttar athugasemdir. Ég mun geyma mér að svara efnislega því, sem fram hefur komið hér nú í dag, þar til ég tek til máls við síðari umr. málsins. Ég vil þó aðeins leiðrétta hér við þessa umr. þann reginmisskilning, sem hefur komið fram hjá tveimur hv. þm., sem síðast hafa talað, að till. er ekki um það, eins og sést á þskj., að afhenda neinar eignir, heldur um hitt, að fela ríkisstj. að leita samninga um þessi atriði, en þeir hafa túlkað málið þannig hér á hv. Alþ., að hér sé um afhendingu eignanna að ræða. Ég hef hins vegar tekið það fram í mínum ræðum áður, að hér sé aðeins um samningaumleitun að ræða, en að sjálfsögðu verði ekkert gert nema með samþykki Alþ., ef til kæmi, að hægt væri að semja um þessi mál. Virðist því, að þeim sé svo umhugað um, að ekkert verði upplýst um þessi mál, að jafnvel megi ekki leita slíkra samninga.

Annað, sem ég vildi mega leiðrétta hér, vegna þess að það var mjög ósmekklega dregið hér inn í umr. af hv. 3. landsk., er það, að vegna þess að Esja hafi ekki getað annazt ákveðnar ferðir, þá hafi orðið hér 40 manna sjóslys, beinlínis vegna þess, að ekki voru nægilega mörg skip í strandferðunum. Það var nú nægilega mikill harmur hjá þjóðinni, þó að mennirnir væru ekki nema 33 og ekki væri bætt við 7, en ég vil benda hv. þm. á það, að þetta slys varð fyrst og fremst fyrir það, að Esja, sem var sömu dagana á ferðinni um Vestfirði, fékk ekki fyrir vanrækslu Skipaútgerðarinnar að koma inn til Bíldudals og taka þetta fólk. Hún fór þar fram hjá daginn eftir að þetta skip lét úr höfn og það þrátt fyrir það, að búið var að senda margar áskoranir til Skipaútgerðarinnar um það að taka fólkið á Bíldudal með Esju, sem var á ferðinni og hafði þar af leiðandi nægileg tækifæri til þess að taka það. — Þetta þótti mér rétt að láta koma hér fram.

Þriðja, sem ég vildi mega minnast hér á, er það, að hér hafa komið fram till. frá tveimur hv. þm. um að fella þessa till. frá nefnd. Telja þeir, að það væri hneyksli að láta till. ganga til nefndar til þess að fá þar m. a. upplýst, hvort hún eða gögn okkar flm. eða afsakanir og fullyrðingar þessara tveggja hv. þm. séu á rökum reistar. Út af þessu vildi ég aðeins mælast til þess við hæstv. forseta, að atkvgr. verði ekki látin fara fram í dag, heldur á næsta fundi, því að ef þetta á að skiljast sem flokkssamþykkt, þar sem annar er flokksformaður, þ. e. hv. 3. landsk., og ef orð hans eiga að skoðast flokkssamþykkt frá hálfu Alþfl. að hefta þannig frekari rannsókn í málinu og ef einnig á að skilja óskir og ummæli hv. 2. þm. N-M. (HÁ) sem samþykkt Framsfl., þá þykir mér ekkert óeðlilegt, að það sé látið biða til næsta fundar að hafa atkvgr. um málið.

Að síðustu þykir mér rétt að leiðrétta, að hv. 2. þm. N-M. sagði, að till. væri borin fram til þess að finna eitthvert form til árása á Skipaútgerðina og stjórn flóabátanna, en ég vil taka fram, að það er hér um hreinan misskilning að ræða. Till. er borin fram af beinni nauðsyn til þess að spara um 10 millj. kr. fyrir ríkissjóðinn og tryggja á sama tíma betri þjónustu fyrir fólkið í dreifbýlinu. Efnislega skal ég ekki ræða málið og ekki misnota leyfi hæstv. forseta til að gera athugasemd.