02.12.1953
Sameinað þing: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (3049)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. till. sagði, að það væri um misskilning að ræða, hann væri ekki að leggja til, að það ætti að afhenda eignir Skipaútgerðar ríkisins Eimskipafélagi Íslands og Sambandi ísl. samvinnufélaga, heldur ætti bara að hefja samninga um það. Vitanlega eiga þessir samningar að hefjast með það fyrir augum, að þeir takist, og tilgangur þessarar till. er sá, sem hér hefur verið ræddur af mér og hv. 2. þm. N-M. Ég vænti, að hv. flm. sé ekki horfinn frá þeim tilgangi till., og það er þess vegna ákaflega eðlilegt, að það sé rætt, hvort æskilegt sé að ná því markmiði, sem samningarnir eiga að snúast um, og hér hefur verið leitazt við að sýna fram á það, að það hefði verið síður en svo ómaksins vert að leggja út í slíkt samningaþóf. Það hefur líka verið á það bent í þessum umr., að það hafi verið auðvelt að losna við halla á þessum rekstri, ef hv. tillögumenn eða aðrir þm. vildu það. Það væri hægt með því að láta ríkisskipin hætta að sigla á afskekktar hafnir, það hefði verið hægt með því að hækka farmgjöld t. d. á áburði, á fóðurbæti, á byggingarvörum til fjarlægra hafna, ef t. d. þm. Sjálfstfl., stærsta flokks þingsins, vildu það. Það væri hægt, eins og hv. 2. þm. N-M. benti á, að hætta að veita Eimskip skattfrelsi og taka það fé, sem þannig fengist í ríkissjóð, til þess að bera uppi einhvern hluta af halla strandferðaþjónustunnar. Það væri líka, eins og ég benti á hér við byrjun þessarar umr., hægt að hugsa sér þá leið til þess að losna við þessi útgjöld úr ríkissjóði vegna strandferðanna, að ríkið tæki í sínar hendur allan aðflutning á vörum til landsins og flutning á vörum frá landinu og notaði gróðann af þeirri starfsemi til þess að bera uppi hallann af strandferðunum. Og það væri kannske eðlilegasta lausnin á því að snúa alveg efni þessarar till. við, það væri ríkið, sem tæki við Eimskip og kannske að einhverju leyti við samvinnuflotanum líka, en ekki hitt, að Eimskipafélagið og S. Í. S. tækju við skipum ríkisins, því að þá væri einn og sami aðili búinn að taka við hvoru tveggja (Forseti: Mér láðist að geta þess, að þetta er aðeins athugasemd.) ja, örstutt — hlutverkinu, því, sem græðist á, og hinu, sem tapast á, og það færi langbezt í höndum eins aðila, sem sé ríkisins sjálfs, sem gerir þetta fyrir þegna þjóðfélagsins.

Það var misskilningur hjá hv. frsm., að ég hefði lagt til, að málið yrði fellt frá nefnd. Ég sagði hitt, að þetta mál væri svo mikil fjarstæða, að það væri ekki síður maklegt að það væri fellt frá nefnd en það mál, sem hv. stjórnarflokkunum báðum þóknaðist áðan að fella frá þinglegri meðferð. Ég er ekki fylgjandi slíkum vinnubrögðum hv. stjórnarflokka, en þegar þeir beita þeim, þá er ekki nema alveg sjálfsagt af stjórnarandstöðunni að minna þá á, að það gæti átt við um sum þeirra mál að beita því líka, en till. hefur ekki verið borin fram um þetta enn þá.

Viðvíkjandi því, að það hafi verið vegna vanrækslu ríkisskips, að tugir manna fórust á Vestfjörðum, vil ég segja það, að það var vitanlega af því, að þá var ekki nægur strandferðaskipafloti hjá Skipaútgerð ríkisins til þess að geta komið nógu oft á hinar smærri hafnir.

Þess vegna varð Esja að halda sér við stærri hafnirnar og hraða sinni för til þess að komast aftur í aðra hringferð kringum landið. Önnur skip voru þá ekki til að annast þessa þjónustu. Þá gat liðið hálfur mánuður og þrjár vikur, kannske upp í mánuð, án þess að skip kæmu á Flateyri, Súgandafjörð eða Bíldudal, og þá varð fólk að safnast þar saman og bíða eftir ferðum og urðu þannig tugir manna, sem urðu svo að sæta hverri þeirri ferð, sem fékkst. Þetta slys varð af því, að Skipaútgerð ríkisins var þá ekki orðin svo öflug um skipakost, að hún gæti látið skip sín koma á smærri hafnirnar nægilega oft. Þetta á að vera okkur í minni, og við viljum hvorki stofna til þess ástands, að slíkt verði aftur fyrir það, að búið sé að leggja Skipaútgerð ríkisins niður við trog, eða að fólksflutningar í lestum hefjist á ný, eins og þegar Danir höfðu þessa þjónustu með höndum.