04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skil ekki almennilega, hvernig á því stendur, að hæstv. viðskmrh. er jafnilla og raun ber vitni við þá einföldu og meinlausu till., sem ég hef flutt, að almenningi skuli, ef honum sýnist, gert kleift að flytja inn til eigin nota þær vörur, sem á annað borð skal vera frjáls innflutningur á. Hæstv. viðskmrh. og hv. 3. þm. Reykv. virðast reka hornin alveg sérstaklega í þá hugmynd, sem hér er á ferðinni, og bera þar aðallega við, að með því móti sé hætta á, að illa verði farið með gjaldeyri þjóðarinnar. En mér er spurn: Hvaða ráðstafanir eru gerðar af hálfu ríkisstj. til þess að tryggja, að vel sé farið með þann gjaldeyri, sem nota má til þess að kaupa þær vörur, sem innflutningur er frjáls á? Þær ráðstafanir eru alls engar. Sá innflytjandi, sem biður um gjaldeyri fyrir frílistavörum, getur farið með hann alveg eins og honum sýnist. Hann getur fleygt honum í fullkomna vitleysu. Hann getur keypt inn hvað dýra vöru sem honum sýnist. Við þessu eru alls engar ráðstafanir gerðar. Og hvað á að þýða að rjúka svo allt í einu upp til handa og fóta, þótt lagt sé til, að almenningur skuli líka eiga kost á að flytja inn einstaka vöru, sem hann kann að vilja kaupa, fyrir sjálfan sig til eigin nota? Ef gerðar væru einhverjar ráðstafanir til þess, að farið væri skynsamlega og vel með frílistagjaldeyrinn, þá gæti ég skilið þetta. En að telja sérstaka nauðsyn á að hafa vit fyrir almenningi, sem í einstaka undantekningartilfellum mundi vilja nota sér þennan rétt, en láta sjálfa innflytjendurna algerlega afskiptalausa, það virðist bera vott um, að hér liggi eitthvað allt annað á bak við, að hér telji þessir hv. þm. vera eitthvað miklu meira að óttast en ég tel vera.

Hæstv. viðskmrh. endurtók það, að hjá þessum stóru pöntunarhúsum væri um smásöluverð að ræða. Það er alveg ástæðulaust fyrir okkur að deila lengi um þetta. Um það má ganga úr skugga með því að skoða einhvern slíkan vörulista. Þeir eru til hér í tugatali, í hundraðatali, og ósköp fljóti að gang~a úr skugga um þetta. Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um, að það verð, sem þarna er boðíð, er oft undir smásöluverði í viðkomandi löndum, og þetta hélt ég satt að segja, að hann, sem er reyndur kaupfélagsstjóri og hlýtur að hafa einhverja þekkingu á starfsemi slíkra pöntunarhúsa, vissi, ella væri gersamlega útilokað, að þessi pöntunarhús væru jafnstór og þau eru, þar sem þau á annað borð starfa, og viðskipti við þau væru jafnmikil og þau eru, því að viðskiptin eru mjög mikil með stórþjóðunum öllum og smærri þjóðum líka, ekki aðeins innanlands, heldur einnig við útlönd. Það væri útilokað, að þau gætu haft slík stórviðskipti, ef þau seldu á venjulegu smásöluverði síns lands. Nei, sannleikurinn er sá, að hér er um að ræða allmiklu lægra verð en smásöluverð, svo miklu lægra, að þetta verð er oft og einatt lægra en heildsöluverð mundi vera hér — það sagði ég áðan, og við það stend ég.

Hitt er svo annað mál, að hér getur ekki verið um að ræða kaup á öllum vörum, það dettur engum manni, sem þekkir til, í hug. Matvöru er ekki hægt að kaupa á slíkan hátt, ekki húsgögn, ekki þungavöru. Hér er um að ræða alveg takmarkaða vöruflokka, „standard“ fatnaðarvöru og ýmsar smávörur. Ég satt að segja skil ekki, hvers vegna almenningi má undir engum kringumstæðum vera kleift að bjarga sér sjálfur upp á þennan máta, ef honum sýnist svo. Að þessu gæti aldrei kveðið nema tiltölulega mjög lítið. En ástæðan til þess, að ég nefni þetta, er einmitt sú reynsla, að á mörgum þessum smávörum, sem hér er um að ræða, hefur verið gífurlegur verðmunur hér og í nágrannalöndunum í kringum okkur. Það er ekki mjög langt síðan ég átti sjálfur kost á því að gera slíkan samanburð með eigin augum í stórborg, þar sem ég sá í búðargluggum og verzlunum fjölmargar vörur, nákvæmlega sömu smávörurnar og eru hér í búðargluggum, en eru oft seldar hér á tíföldu verði við það, sem um var að ræða þar, þótt maður tæki tillit til tolla og venjulegrar álagningar. Það er þetta, sem er mjög óeðlilegt.

Ef verzlunin hér væri algerlega frjáls og algerlega heilbrigð og álagning væri hófleg, þá ætti heimild til þessa fyrir almenning ekkert að gera til. Ef menn ættu kost á því að kaupa slíkar smávörur hér í búðum við hóflegu og sanngjörnu verði, þá mundi engum detta í hug að standa í því sjálfur að útvega sér þær. En það er einmitt vegna þess, að reynslan hefur sýnt, að verzlunarhættirnir hér eru að mörgu leyti mjög óheilbrigðir, sem ég tel, að hér væri aðeins um heilbrigt aðhald að ræða. Þeim mun minna mun að þessu kveða sem verzlunarhættirnir eru heilbrigðari, og það mundi vafalaust mjög lítið að þessu kveða, ef verzlunin væri komin í fullt jafnvægi og vöruverð hér væri algerlega eðlilegt. En það mætti alltaf búast við því, að almenningur vildi geta gert slíkt einstaka sinnum, ef hann rækist á eitthvað eða frétti af einhverju, sem hann vildi geta aflað sér beint. Í smábæ eins og Reykjavík er náttúrlega vöruúrval heildverzlana og smásöluverzlana takmarkað og hlýtur ávallt að vera, og þá getur vel verið, að mönnum detti í hug að kaupa sér eitthvað, sem menn frétta af annars staðar, sem beinasta leið, og þá eiga menn að hafa rétt til þess. Það er ekkert frelsi í verzluninni, ef það á að skylda menn til þess að verzla eingöngu við milliliðina, sem hér starfa. Og ef milliliðirnir fyllast einhverjum fjandskap í garð jafneinfaldrar og sjálfsagðrar hugmyndar og þessarar, þá liggur einhver óhreinn fiskur undir steini.

Raunar tel ég sjálfsagt að taka fram, að mál sem þetta má ekki gera að neinu stórmáli eða aðalatriði. Þetta er hreint aukaatriði. Það hefur aldrei hvarflað að mér, að neitt mundi kveða að ráði að slíkum viðskiptum. Þau mundu ávallt vera eins og dropi í hafinu í heildarinnflutningi landsmanna. Það eina, sem ég hef viljað undirstrika, er það, að almenningur á að eiga rétt á slíku, ef honum sýndist svo. Verzlunarfrelsi er ekki algert, nema það nái til almennings líka í þeim tilfellum, sem almenningur telur sig geta komizt að sæmilega góðum kaupum upp á eigin spýtur. Hann á ekki að vera bundinn við milliliðina. Það er ekki hið sanna verzlunarfrelsi, sem þá er um að ræða.

Að síðustu þetta: Hæstv. viðskmrh. ítrekaði enn, að till. mín um frelsi í innflutnings- og útflutningsverzluninni væri traustsyfirlýsing á ríkisstj. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja, að ég vona, að till. verði samþ. Ég vona, að hæstv. viðskmrh. beiti sér fyrir því, að flokksmenn hans sýni honum og stjórn hans traust með því að samþ. þessa till.