19.10.1953
Sameinað þing: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3063)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Um leið og ég fylgi þessari till. úr hlaði, tel ég rétt að fara nokkrum orðum um viðhorf þau, sem nú blasa við í íslenzkum utanríkismálum.

Sérhver Íslendingur verður að taka afstöðu til eins grundvallaratriðis í utanríkismálum. Vill hann hafa samvinnu við aðrar þjóðir um sameiginlega stefnu í utanríkis- og varnarmálum, eða vill hann, að Íslendingar taki sjálfir ákvarðanir sínar án alls tillits til aðgerða annarra? Þetta er grundvallaratriði.

Ég held, að þeir séu mjög fáir, sem treysta sér til þess að rökstyðja það, að íslenzk þjóð gæti af eigin rammleik tryggt sér það öryggi, sem flestar þjóðir sækjast eftir, að henni yrði í stríði og friði vel borgið, ef hún samræmdi að engu leyti gerðir sínar því, sem aðrar þjóðir eru að gera hverju sinni, ef hún tæki á engan hátt tillit til hagsmuna þeirra. Höfuðrökin fyrir því, að Íslendingar hljóti að leita samvinnu við aðrar þjóðir um utanríkismál, eru fólgin í því, að þeir geta ekki komizt af án samvinnu við aðrar þjóðir í viðskiptum. Líf Íslendinga í þessu landi er háð því, að þeir geti siglt til annarra landa. Það er grundvallaratriði fyrir Íslendinga, að siglingaleiðirnar umhverfis landið séu opnar og öruggar. Ef samvinna þeirra við aðrar þjóðir eykur líkur á því, að þessar siglingaleiðir haldist opnar, þá er sú samvinna í samræmi við hagsmuni Íslendinga.

Utanríkisstefna einskis ríkis getur verið algerlega óháð þeim aðstæðum, sem ríkjandi eru á því svæði heimsins, þar sem það er, allra sízt hinna smæstu ríkja. Það jafngildir þó ekki því, að þau þurfi að vera leppríki. Sagan kennir okkur, að öll ríki hafa ávallt miðað utanríkisstefnu sína við þær aðstæður, sem þau hafa búið við, en ekki þær, sem þau kunna að hafa óskað að búa við. Það er ekki þáttur í sjálfstæði ríkis að vera fært um að komast af án allrar samvinnu við önnur ríki, heldur hitt, að vera frjálst að því að velja sér þau ríki til samvinnu, sem það telur sér henta.

Ef ríki kýs að fara að öllu leyti eigin götur, þ. e. a. s. að fylgja svo nefndri einangrunarstefnu, á það um ýmsa kosti að velja. Það getur vígbúizt til varnar eða sóknar, og það getur verið vopnlaust og óvarið. Ríki, sem leitar samvinnu við önnur ríki, getur og leitað eftir margs konar bandalögum. Til hafa verið mörg hernaðarbandalög stórvelda og bandalög smærri ríkja um hlutleysi í átökum stórvalda og þá misjafnlega vopnuð.

Ef Íslendingar kjósa nú að eiga samvinnu við aðrar þjóðir um utanríkismál sín, verða þeir að miða aðgerðir sínar við það, hvernig ástatt er í þeim hluta heimsins, þar sem þeir búa. Þar er nú um að ræða tvær þjóðafylkingar. Okkur kann að þykja miður, að svo skuli vera. En við staðreyndirnar verður að miða, en ekki hitt, hvernig við vildum hafa þær. Við gætum þó auðvitað miðað gerðir okkar við það að reyna að breyta þessum staðreyndum, ef þær eru okkur andstæðar eða ógeðfelldar, en meðan þær eru staðreyndir, hljóta þær þó að móta þá möguleika, sem fyrir hendi eru, og að því leyti að hafa grundvallaráhrif á gerðir okkar.

Í Evrópu er nú ekki til neitt bandalag hlutlausra þjóða. Engin þeirra þriggja Evrópuþjóða, sem nú fylgja hlutleysisstefnu, Svíþjóðar, Sviss og Írlands, á að nokkru verulegu leyti sömu hagsmuna að gæta og Ísland, þannig að samvinna við þau kæmi til gr eina fyrir Íslendinga. Ef Íslendingar vildu því nú lýsa yfir hlutleysi, yrði það að vera hlutleysi einangraðs lands, sams konar hlutleysi og þeirra þriggja ríkja, sem ég nefndi. Tvö hin fyrrnefndu. Svíþjóð og Sviss, hafa að því leyti sams konar aðstöðu og Ísland, að þau eru hernaðarlega mikilvæg, og hafa þau því talið sér nauðsynlegt að verja miklu fé til landvarna og að hafa tiltölulega mjög sterkan her. Hið þriðja, Írland, hefur litla hernaðarþýðingu sökum nálægðar við Stóra-Bretland og hefur því talið sig geta komizt hjá verulegum varnarráðstöfunum.

Ef við á annað borð eigum að hafa, samvinnu við aðrar þjóðir, eins og nú háttar, verður sú samvinna þess vegna annaðhvort að vera við hin vestrænu lýðræðisríki innan Atlantshafsbandalagsins eða við hin svo nefndu alþýðulýðveldi í Austur-Evrópu. Hagsmunir okkar og ríkjanna í Austur-Evrópu eru í öryggismálum svo gerólíkir, að enginn málsmetandi maður hefur mér vitanlega mælt með neins konar bandalagi við þau. Hagsmunir þeirra eru í styrjöld milli austurs og vesturs auðvitað þeir, að siglingar milli Bandaríkjanna og Bretlands séu sem ótryggastar. Hagsmunir okkar eru þveröfugir. Þetta er svo augljóst. að enginn mælir með bandalagi við Austur-Evrópuríkin. Hins vegar er hagur þeirra af því, að Ísland væri hlutlaust og leyfði hér engar hernaðaraðgerðir, hvorki í stríði né friði, einnig augljós. Með því væri ríkjunum báðum megin Atlantshafs gert örðugra en ella að gæta öryggis siglingaleiðanna um norðanvert Atlantshaf. Siglingar og loftferðir um það svæði yrðu óöruggari, og yrði það þessum ríkjum að sjálfsögðu til tjóns. Sú utanríkisstefna, sem Sovétríkin og Austur-Evrópuríkin kysu því helzt að Íslendingar fylgdu, væri stefna hlutleysis og vopnleysis. Auðvitað eru það ekki nægileg rök fyrir því, að við eigum ekki að fylgja slíkri stefnu. Aðalatriðið er: Hverjir eru hagsmunir okkar sjálfra?

Meginhagsmunir okkar í utanríkismálum eru tengdir því, að siglingaleiðunum um Atlantshaf sé haldið opnum, en þeir hagsmunir eru sameiginlegir hagsmunum landanna báðum megin við Atlantshaf og þá fyrst og fremst Bandaríkjanna, Bretlands og Noregs. Þessir hagsmunir skipa okkur því í sveit með þeim. Ef einhver þeirra ríkja, sem þessara hagsmuna eiga að gæta, mynda hlutlaust bandalag eða gerast aðilar að slíku bandalagi, þá verður hlutleysisstefnan aftur að raunhæfum möguleika í íslenzkum utanríkismálum, í þeim skilningi, að hún gæti samrýmzt grundvallarhagsmunum okkar, en meðan svo er ekki, er hún eingöngu í þágu þeirra ríkja, sem hafa þveröfuga hagsmuni við okkur sjálfa.

Þrátt fyrir það, sem nú hefur verið sagt, er ekki óeðlilegt, að nokkur hópur manna hér á landi aðhyllist stefnu algers hlutleysis. Það er höfuðeinkenni hins hreina kommúnista, að hann telur hagsmuni alþýðulýðveldanna ávallt einnig vera hagmuni síns eigin lands. Allt það, sem styrkir aðstöðu alþýðulýðveldanna, er þegar til lengdar lætur, líka til gagns fyrir hann sjálfan og þjóð hans. Út frá þessu sjónarmiði er það eðlilegt, að íslenzkir kommúnistar aðhyllist nú hlutleysiskenninguna í íslenzkum utanríkismálum. Það er rökrétt afleiðing þeirrar skoðunar þeirra, að bezta ráðið til að efla Ísland sé að efla Sovétríkin og bandamenn þeirra.

En nú hefur annar flokkur manna einnig tekið kenninguna um hlutleysi og vopnleysi Íslands undir núverandi kringumstæðum upp á arma sína, þ. e. a. s. Þjóðvarnarflokkurinn. Hann hefur að vísu ekki gert mikið til þess að rökstyðja hana, en þó lagt áherzlu á, að hann ætli henni alls ekki að vera til stuðnings Sovétríkjunum, heldur sé hún ein í samræmi við hagsmuni Íslands. En hafa forvígismenn Þjóðvfl. í raun og veru gert sér grein fyrir því, hvað yfirlýsing um hlutleysi Íslendinga nú í dag mundi þýða? Í henni fælist tilkynning til Bandaríkjamanna og Breta um það, að í styrjöld, sem brjótast kynni út, fengju þessar þjóðir ekki með samþykki Íslendinga samskonar aðstöðu og þeir höfðu hér á landi í síðustu styrjöld. Er það tilætlun þessara manna, að um þá aðstöðu yrði neitað? Það er mál til komið, að þeir tali skýrt um skoðanir sínar. Er þeim það ekki jafnljóst og öllum öðrum, að Bandaríkjamenn og Bretar telja slíka aðstöðu hér á landi svo mikilvæga í styrjöld við ríki á meginlandi Evrópu, að þeir mundu, eins og nú háttar, telja slíka tilkynningu beinan fjandskap við sig? Er þeim ekki jafnljóst og öllum öðrum, að þessi ríki mundu vafalaust í styrjöld telja sig verða að taka þessa aðstöðu með valdi, ef þeim yrði neitað um hana, eins og Bretar gerðu í síðustu styrjöld? Er þeim ljóst, að með afstöðu sinni eru þau þá að kalla á það, að aðstaða Íslendinga í slíkri styrjöld yrði aðstaða hernuminnar þjóðar? Eru þeir reiðubúnir til þess að taka á herðar sér ábyrgð af því hlutskipti, sem þá kynni að bíða Íslendinga meðan á styrjöldinni stæði og að henni lokinni? Ef þessir menn mæla með hlutleysi, eins og nú háttar í heiminum, vitandi það, að engin þjóð, sem við gætum haft vonir um að hafa samband við í styrjöld, er nú hlutlaus, verður að ætlast til þess, að þeir geri sér grein fyrir því, hvað gerðist, ef hlutleysið yrði virt, því að væntanlega vona þeir það, en ekki hitt, að landið yrði hernumið. Íslendingar yrðu að vera við því búnir í stríði að geta við hvorugan styrjaldaraðilann verzlað, og þeir gætu ekki haldið uppi stöðugu og öruggu sambandi við neina hlutlausa þjóð, sem þeir gætu átt nauðsynleg viðskipti við. Eru þeir menn, sem boða íslenzkt hlutleysi, miðað við núverandi kringumstæður, raunverulega reiðubúnir til þess að bera ábyrgð á slíku, eða eiga þeir enn þá talsvert óhugsað um þessi mál?

En þótt Íslendingar telji nauðsynlegt að eiga samvinnu við þær þjóðir, sem þeir telja að eigi sömu hagsmuna að gæta, verður að hafa það í huga, að sú samvinna getur orðið með mörgu mótl. Hvernig hún er talin eiga að vera, hlýtur fyrst og fremst að vera komið undir því, hverja skoðun menn hafa á utanríkispólitískri og hernaðarlegri aðstöðu Íslands. Ýmsir virðast telja, að markmiðið með aðild okkar að varnarsamstarfi hinna vestrænu lýðræðisríkja eigi fyrst og fremst að vera það, að hér verði komið upp þeim vörnum, að Íslendingar þurfi ekki að óttast árás eða hertöku úr austri. Ef þannig er hugsað, hefur það tvær afleiðingar. Í fyrsta lagi verða varnirnar þá að sjálfsögðu að vera svo öflugar, að þessari árásarhættu sé bægt frá. og í öðru lagi verða Íslendingar þá sóma síns vegna að annast þær að meira eða minna leyti sjálfir, bæði greiða kostnað við framkvæmdirnar og leggja til lið landinu til varnar. Það er auðvitað óhugsandi, að nokkur sjálfstæð þjóð, sem telur stöðuga árásarhættu vofa yfir landi sínu, geti til frambúðar og á venjulegum tímum látið aðra þjóð greiða fyrir sig kostnað af landvörnum sínum og leggja sér til menn til þess að annast þær. Þeir, sem þá kenningu boða, að við séum í árásarhættu úr austri, verða því að hugsa hugsanir sínar til enda. Það væri hræðilegt, ef rétt væri, að við værum í stöðugri hættu af árás og hertöku úr austri. Það væri auðvitað hörmulegt böl, ef við yrðum fyrir slíkri hertöku. Við þá hættu búa þó ýmsar þjóðir. Hitt væri ekki síður ömurlegt, að vera sér þess meðvitandi að geta vegna smæðar sinnar bókstaflega ekkert gert, er að gagni gæti komið, til þess að afstýra slíkri hættu, en verða að treysta öðrum í þeim efnum að öllu leyti, en slíkt er ekki hollt þjóð, sem vil] halda sjálfsvirðingu sinni og sjálfstrausti. Ef við ættum að hafa nokkra sæmilega tryggingu fyrir því, að land okkar yrði ekki hertekið af óvinum hinna vestrænu ríkja, þá yrðu varnarráðstafanir hér að vera svo miklar og varnarlið svo fjölmennt, að okkur sjálfum væri algerlega um megn að standa undir slíku. Ættum við að fela slíkar framkvæmdir öðrum og hafa hér til langframa það erlenda lið, sem veitti okkur sæmilegt öryggi gegn hertöku, þá skapaðist þjóðinni sjálfri af því slík hætta inn á við, að hún væri óbærileg. Það er því gæfa Íslendinga, að hægt skuli vera að staðhæfa, að þessi skoðun sé röng.

Meðan bandarísk-brezki flotinn er svo að segja allsráðandi á norðanverðu Atlantshafi, verður Ísland ekki hertekið með ofansjávarflota annarra ríkja. Með neðansjávarflota einum verður landið ekki hertekið og því þaðan af síður haldið. Og enn er flugtækni ekki komin á það stig, að þau hergögn verði flutt flugleiðis, sem þyrfti til þess að halda landinu gegn sókn af hálfu þeirra, sem ráða hafinu umhverfis það. Af þessum sökum getum við leitt hjá okkur þær miklu varnarráðstafanir, sem nauðsynlegar væru að öðrum kosti.

Það er löngu kominn tími til þess, að menn tali ljósar um þessi mál en gert hefur verið lengi undanfarið. Það gengur ekki, að stjórnmálamenn og blöð prédiki þá kenningu, að við búum við stöðuga hættu af árás úr austri, en ræði síðan ekkert um þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar væru, ef þetta væri rétt. Það er augljóst, að hafi verið og sé um verulega árásarhættu að ræða, eru ráðstafanir þær, sem gerðar voru með herverndarsamningnum 1951, engan veginn nægilegar til öryggis landinu. Það er svo að segja jafnóvarið eftir sem áður gegn slíkri hættu. Ef menn trúa á árásarhættuna, er það rökrétt afleiðing af því, að hér sé efnt til miklu meiri varnarframkvæmda en gert hefur verið og að herliðinu hér sé fjölgað. Og ef menn telja, að slíkt eigi að gera, þá eiga menn að segja það, svo að hægt sé að ræða málið heiðarlega og fyrir opnum tjöldum.

En það má færa fram önnur rök fyrir nauðsyn þess, að Íslendingar hafi samstarf við nágrannaþjóðir sínar báðum megin Atlantshafs, en þau, að árásarhætta steðji að landinu. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar og þeirra, að siglingaleiðunum um norðanvert Atlantshaf sé haldið opnum. Það er staðreynd, að í styrjöld auðveldar aðstaða hér mjög, að slíkt takist. Þess vegna eigum við að vera reiðubúnir til þess að láta þessum þjóðum í té slíka aðstöðu í styrjöld. En óhjákvæmileg afleiðing þess getur orðið sú, að séu nágrannaríkin að vígbúast vegna þess, að þau gera ráð fyrir styrjöld, verði að gera hér nokkrar ráðstafanir til þess, að landið geti þegar í upphafi stríðs gegnt hlutverki sínu, t. d. með viðbúnaði á Keflavíkurflugvelli og á stöðum, þar sem radarþjónustu er talin þörf, og jafnvel með staðsetningu nokkurs herliðs, ef ástand er talið sérstaklega tvísýnt. Slíkur viðbúnaður verður þó að miðast við það eitt, að landið gegni sams konar hlutverki og í síðustu styrjöld, en ekki. að héðan verði háð árásarstyrjöld. Fámenni þjóðarinnar og lega höfuðstaðarins veldur því, að slík not landsins mundu leiða yfir það óbærilegar hættur. Og það herlið, sem hingað væri sent á sérstökum hættutímum. yrði að sjálfsögðu að hverfa á brott þegar í stað, er Íslendingar teldu þessa hættutíma liðna. En einmitt í þessum rökstuðningi samstarfsins við ríkin báðum megin Atlantshafs felst ástæða þess, að við getum kinnroðalaust tekið því, að þessar þjóðir greiði kostnað af þeirri mannvirkjagerð, sem er nauðsynleg. Hún er gerð í þágu sameiginlegra hagsmuna, sem þó eru auðvitað miklu brýnni fyrir þær þjóðir, sem eru margfalt stærri en við Íslendingar.

Við flm. þessarar till. lítum þannig á, að herverndarsamningurinn 1951 hafi verið gerður á grundvelli þessara skoðana. Við lítum ekki á það sem hlutverk þeirra ráðstafana, sem gerðar voru, að bægja frá árásarhættu úr austri, enda duga þær auðsjáanlega ekki til þess. Við lítum á þær sem óhjákvæmilegan þátt í þeirri utanríkisstefnu Íslendinga að hafa samstarf við hinar vestrænu lýðræðisþjóðir í þágu sameiginlegra hagsmuna varðandi öryggi sjóleiða og loftleiða um norðanvert Atlantshaf. Ráðstafanir þær, sem í samningnum fólust, voru tvíþættar. Aðalatriði hans var, að efnt skyldi til ýmissa framkvæmda, sem bráðnauðsynlegar voru taldar til þess, að landið gæti þegar í upphafi styrjaldar gegnt hlutverki sínu, en það var fyrst og fremst bygging fjögurra radarstöðva, lenging flugbrauta á Keflavíkurvelli og bygging híbýla þar. Hitt atriðið var staðsetning nokkurs liðs í landinu, þ. á m. flugsveita á flugvellinum. En á það var fallizt af hálfu Bandaríkjastjórnar að hafa þetta lið svo fámennt, eða aðeins 3900 manns í mesta lagi, að augljóst var, að ekki gat verið um venjulegar landvarnir að ræða. Að flugsveitunum frátöldum var hér nánast um að ræða öryggisgæzlu mannvirkja og tæknistörf.

Þótt liðið, sem koma skyldi til landsins, væri ekki fjölmennara en þetta og framkvæmdirnar fjarri því að vera risavaxnar, var samt ljóst, að af hvoru tveggja gætu hlotizt alvarleg vandamál, ef ekki væri vel á málum haldið. Íslenzka þjóðfélagið er svo dvergsmátt og að mörgu leyti svo sérstætt, að taka verður þar á svo að segja öllum hlutum öðruvísi en með stærri þjóðum. Þess vegna var það, að ég fyrir mitt leyti lagði sérstaka áherzlu á það, er samningurinn var undirbúinn, að skilið værí sem greinilegast milli hers og þjóðar. Ég ræddi það mál ýtarlega við fulltrúa ríkisstjórnarinnar við samningsgerðina, Hans G. Andersen þjóðréttarfræðing, og fullvissaði hann mig um, að skilja bæri 3. gr. samningsins svo, að íslenzk stjórnarvöld gætu kveðið á um dvalarstað liðsins, og að ráð væri fyrir því gert, að hermenn kæmu yfirleitt ekki til Reykjavíkur eða annarra bæja nema þá í snöggar hópferðir og undir leiðsögu yfirmanns, þ. e. a. s. ekki sem einstaklingar og í einkaerindum. Þannig var og framkvæmdin í fyrstu. En nokkrum mánuðum síðar var gildandi reglum um þessi efni breytt, að því er mér var sagt, einhliða af herstjórninni og án þess að um það væri fengizt af íslenzkum stjórnarvöldum. Ég vakti athygli þeirra á þessu, andmælti afskiptaleysi þeirra og varaði við afleiðingunum. Þegar þing kom saman um haustið, ræddu þm. Alþýðuflokksins þetta mál við þáverandi hæstv. forsrh. og utanrrh., og var þar lögð áherzla á, að reglur þær, sem giltu í fyrstu um dvalartíma hermanna utan stöðva sinna, væru látnar taka gildi á ný. Mér til mikillar undrunar hélt þáverandi hæstv. utanrrh. því þá fram, að mjög vafasamt væri, að nokkur heimild væri til þess að banna hermönnunum frjálsar ferðir um landið í frístundum sínum. Lofuðu ráðherrarnir samt að gera ráðstafanir til þess að koma því til leiðar, að ferðir hermanna til Reykjavíkur yrðu takmarkaðar. En framkvæmdir urðu hins vegar litlar. Hermenn sóttu meir og meir til Reykjavíkur og annarra bæja í nágrenni við stöðvar þeirra. Þeir og aðrir amerískir starfsmenn tóku meira að segja að leigja húsnæði hér í bænum og annars staðar í allstórum stíl. Þeir sóttu skemmtistaði í ríkum mæli og settu í vaxandi mæli svip sinn á bæjarlífið. Samskipti við íslenzkt æskufólk og þó einkum stúlkur jukust óðfluga. Og af þessu hlutust margs konar vandræði. Þar kom meira að segja, að hermönnum var leyft að vera óeinkennisklæddum í frítímum sínum, væntanlega til þess að minna bæri á þeim. Allt var þetta mjög öðruvísi en ég og margir aðrir höfðu gert ráð fyrir og töldum eðlilegt. Nefnd þriggja valinkunnra manna var skipuð til þess að fjalla um sambúðarvandamálin, sem upp voru komin. Hún mun hafa gert ýmsar tillögur, m. a. um að takmarka mjög dvalartíma hermanna utan stöðva sinna. En þessum till. var ekki sinnt af ríkisstjórninni. Seint og síðar meir voru þó settar nokkrar reglur um þetta efni, en þær voru ófullnægjandi, þar eð þær náðu aðeins til nokkurs hluta herliðsins, og auk þess lítið gert til þess að tryggja, að þeim væri framfylgt. Allt vandamálið margfaldaðist svo við það, að leyft var að flytja inn um það bil þúsund ameríska verkamenn, sem voru algerlega frjálsir ferða sinna í frítímum sínum, höfðu mikil fjárráð, voru alókunnugir þjóðháttum öllum og ollu miklum félagslegum vandræðum. Við þetta bættist svo, að á Keflavíkurflugvelli var haldið þannig á málum, að það var til þess stofnað, að upp risi þar íslenzk-amerískur bær, þar sem allt skyldi vera hvað innan um annað, íbúðir hermanna og starfsmanna, Íslendinga og Ameríkumanna. Kunni slíkt ekki góðri lukku að stýra, enda létu sambúðarvandamálin ekki á sér standa. Þá voru og bæði íslenzkir og erlendir verktakar látnir hafa framkvæmdir með höndum, og hinir erlendu verktakar, sem og herstjórnin, höfðu bæði íslenzka og erlenda starfsmenn og verkamenn í þjónustu sinni samhliða. Fjöldi Íslendinga var látinn vinna undir stjórn amerískra verkstjóra, sem engin trygging var fyrir að þekktu íslenzkar aðstæður. Og kaupgreiðslur til Íslendinga og Ameríkumanna voru og eru ekki hinar sömu, Íslenzkir verkamenn reyndust og reynast enn eiga í miklum útistöðum við hinn erlenda verktaka, Hamiltonfélagið, og ýmsum erfiðleikum bundið að ná rétti sínum gagnvart því. Allt varð þetta á ekki löngum tíma til þess að gera andrúmsloftið á Keflavíkurflugvelli með þeim hætti, að það hefur orðið gróðrarstía andúðar á bandaríska hernum og þeirri utanríkisstefnu, sem lá herverndarsamningnum til grundvallar. Réttmæt óánægja með alla framkvæmd herverndarsamningsins hefur og orðið svo megn, að vafalaust má telja, að fjölmargir, sem á sínum tíma viðurkenndu nauðsyn þess, að samningurinn væri gerður, hafa snúizt gegn honum. Eins og oft vill verða, hafa menn ekki greint skýrt milli þess, hvað er afleiðing samningsins sjálfs, og hins, hvað er afleiðing slælegrar framkvæmdar á honum. Frámunalegt aðgæzluleysi og sleifarlag af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar hefur gert þá utanríkisstefnu, sem átti að liggja samningnum til grundvallar, tortryggilega og jafnvel hæpna í augum fjölda fólks, sem alls ekki aðhyllist hugmyndir kommúnista um utanríkismál þjóðarinnar. Þess vegna er ábyrgð fyrrverandi ríkisstjórnar þung á þessu sviði. Hún tók að sér framkvæmd mikilvægasta og viðkvæmasta samnings, sem Íslendingar hafa gert á síðari árum. Á bak við þá samningsgerð stóð án efa mjög sterkur meiri hluti þjóðarinnar af skilningi á ríkri nauðsyn hennar. En ríkisstj. brást því trausti, sem henni var sýnt, því að á skömmum tíma var óánægja með framkvæmd samningsins orðin svo almenn í öllum flokkum, í öllum stéttum, að ekki er lengur við ástandið unandi. Og nú í dag er ástandið þannig, að flestir virðast viðurkenna, að eitthvað þurfi að gera til þess að bæta úr því ófremdarástandi, sem mál þessi séu í. Spurningin er, hvaða ráðstafanir eigi að gera, hvaða stefnu eigi að fylgja.

Mér virðist sem um fimm meginleiðir eða stefnur sé nú að ræða fyrir Íslendinga.

Í fyrsta lagi er sú leið að grundvalla stefnuna á árásarhættukenningunni og efna þá hér til nýrra hernaðarframkvæmda og þá fyrst og fremst byggingar nýs hernaðarflugvallar, sem hlyti auðvitað einnig að hafa í för með sér, að fjölga yrði hér hinu erlenda liði eða koma á fót íslenzku herliði til þess að treysta varnir landsins. Alþfl. hefur fyrir sitt leyti tekið eindregna afstöðu gegn slíkum ráðstöfunum. Í apríl s. l. samþykkti miðstjórn flokksins ályktun, þar sem lýst er algerri andstöðu gegn því, að gerðir verði nýir samningar um fjölgun hins erlenda liðs eða byggingu nýrra hernaðarmannvirkja utan þeirra svæða, sem hernum nú hafa verið fengin samkv. samningnum 1951. Þessi afstaða flokksins er fyrst og fremst rökstudd með því, að ástandið í heimsmálunum hafi ekki versnað, heldur batnað, síðan herverndarsamningurinn var gerður, og þess vegna geti auknar ráðstafanir ekki verið nauðsynlegar. Er þetta í fyllsta samræmi við það, að ýmis smáríki, svo sem Danir og Norðmenn, hafa ekki viljað stíga ný spor á vígbúnaðarbrautinni nú undanfarið og stórþjóðirnar sjálfar hafa dregið úr framlögum sínum til vígbúnaðar, enda hefur von manna um, að friður haldist, nú um langt bil ekki verið sterkari. Núverandi stjórnarflokkar hafa þó ekki tekið skýra afstöðu til þessa máls. Spurningin um það, hvort leyfa ætti byggingu nýs flugvallar, hefur þó verið rædd svo mikið opinberlega, að stjórnmálaflokkunum er öllum skylt að taka afstöðu til hennar.

Í öðru lagi er sú stefna að halda varnarsamningnum, eins og hann er nú, óbreyttum í aðalatriðum og sömuleiðis grundvallaratriðum í framkvæmd hans, þ. e. a. s. að gera enn um ófyrirsjáanlegan tíma ráð fyrir vist erlends hers í landinu, en hyggja hins vegar ekki á neinar nýjar framkvæmdir eða aukningu herliðsins. Við þetta er þó það að athuga, að meginhluti þjóðarinnar leit áreiðanlega ekki á herverndarsamninginn og þá skipun, sem upp var tekin með honum, sem frambúðarlausn á varnarmálum Íslands. Í honum fólst tilraun til þess að leysa í skyndi mikið vandamál fyrir nágrannaþjóðir Íslendinga og þá sjálfa. Allir íslenzkir stjórnmálaflokkar hafa lýst yfir því. að þeir telji ekki koma til mála, að hér verði erlendur her til frambúðar. Spurningin er þá fyrst og fremst um það, hvenær tími sé kominn til þess að taka ákvörðun um, að herinn skuli hverfa á brott, og hvaða ráðstafanir þá skuli gera. Reynslan, sem fengizt hefur af framkvæmd samningsins, hefur hins vegar verið með þeim hætti, að við flm. þessarar till. teljum ekki koma til mála að halda áfram á sömu braut og hingað til, heldur álítum við, að tímabært sé að endurskoða samninginn og taka upp skipun, sem fremur væri til frambúðar.

Í þriðja lagi mætti kannske nefna þá leið, að hinn erlendi her væri látinn hverfa á brott, en íslenzkum her komið á fót í staðinn til þess að annast hlutverk hans. Væntanlega yrði þá að semja um það við Bandaríkjastjórn, að hún lyki þeim framkvæmdum, sem verið er að vinna að, en er ólokið. Enginn íslenzkur stjórnmálaflokkur hefur gerzt formælandi þessarar leiðar, og er það vel. Hún hefur hins vegar verið rædd í blöðum, og því nefni ég hana.

Í fjórða lagi er svo sú stefna, að segja eigi samningnum upp, láta herinn fara strax og unnt er án þess að gera nokkrar ráðstafanir í framhaldi af því, stöðva, að því er manni skilst, þær framkvæmdir, sem verið er að vinna að, svo sem byggingu radarstöðvanna, og lýsa yfir hlutleysi og vopnleysi þjóðarinnar. Þessi stefna kemur fram í tveim þskj., sem liggja fyrir þessu þingi: í till. til þál. frá hv. þingmönnum Þjóðvfl. og í frv. frá hv. þingmönnum Sósfl. Ef miðað er við þessi þskj., er enginn munur sjáanlegur á afstöðu þessara tveggja flokka. Innihald þessara tveggja þskj. er í aðalatriðum nákvæmlega hið sama. Hv. þingmenn Sósfl. hafa gert grein fyrir því hér á Alþ. áður, að þeir telja rétt og hægt að segja herverndarsamningnum upp og kveða á um tafarlausan brottflutning liðsins án þess að gera nokkrar aðrar ráðstafanir í því sambandi. Ég vék að því fyrr í máli mínu, að rök þeirra fyrir því eru ofur einföld. Þeir eru á móti því, að hinum vestrænu lýðræðisríkjum sé búin hér nokkur aðstaða til verndar siglinga- og loftleiðum um Atlantshaf, ef styrjöld kynni að brjótast út. Þess vegna voru þeir á móti því, að nauðsynlegum mannvirkjum í því sambandi yrði komið upp, og þeir mundu líka vera á móti tilvist þeirra hér, þótt þeirra væri gætt af íslenzku starfsliði. Þetta er allt skiljanlegt út frá þeirri meginforsendu, sem þeir álykta út frá, þ. e. a. s., að það, sem sé hinum vestrænu lýðræðisríkjum að gagni og Sovétríkjunum og bandamönnum þeirra til skaða, það sé Íslandi líka til skaða. Hitt mun mönnum yfirleitt hins vegar ekki ljóst enn þá, hvernig hv. þingmenn Þjóðvfl. hugsa það að láta hinn erlenda her hverfa úr landinu og gera alls engar ráðstafanir til þess að þau mannvirki, sem búið er að reisa eða verið er að reisa, verði rekin og þeirra gætt af Íslendingum. Þeir þurfa að upplýsa, hvort þeir ætlast til þess, að rekstur Keflavíkurflugvallar verði lagður niður að nokkru leyti eða hvort hann á kannske að eyðileggjast að nokkru eða öllu leyti. Þeir þurfa að upplýsa, hvort þeir ætlast til þess, að hætt verði við byggingu radarstöðvanna, eða hvort þeir ætlast til þess, að Íslendingar ljúki við að reisa þær fyrir eigin fé. Ef þeir eru þeirrar skoðunar, að láta eigi þær framkvæmdir, sem búið er að gera á Keflavíkurvelli, grotna niður aftur í gæzluleysi og hætta við byggingu radarstöðvanna, þá eru þeir sammála hv. þingmönnum Sósfl. En ef þeir eru þeirrar skoðunar, að mennta eigi íslenzka menn, til þess að hægt verði að halda Keflavíkurflugvelli við undir alíslenzkri stjórn, ljúka eigi við radarstöðvarnar og reka þær síðan af Íslendingum, þá eru þeir sammála þeirri till., sem hér er nú til umr. Um þriðju leiðina í þessu sambandi er alls ekki að ræða. Og þeim mun fyrr sem hv. þingmenn Þjóðvfl. gera sjálfum sér og öðrum ljóst, hver er afstaða þeirra í þessu sambandi, þeim mun betra.

Í fimmta og síðasta lagi er síðan um að ræða þá stefnu, sem felst í till. okkar hv. 3. landsk. þm„ þeirri, sem hér er nú til umr. Það er meginatriði þessarar till., að samningurinn skuli endurskoðaður með það fyrir augum, að Alþ. geti með þriggja mánaða fyrirvara ákveðið brottflutning hersins, en jafnframt skal ríkisstj. þegar í stað gera ráðstafanir til þess að mennta Íslendinga til þess að taka að sér rekstur og gæzlu þeirra mannvirkja, sem upp hefur verið komið eða verið er að koma upp samkv. herverndarsamningnum. Hér er um tæknistörf og algeng gæzlustörf að ræða, og engrar hernaðarþjálfunar er þörf, enda er berum orðum sagt í till., að ekki skuli þjálfa Íslendinga til neinna hernaðarstarfa. Þegar menntun þessa nauðsynlega starfsliðs væri lokið eða tryggðir hefðu verið erlendis sérmenntaðir starfskraftar, hefði Alþ. skilyrði til þess að kveða á um brottflutning hersins með stuttum fyrirvara. Jafnframt er í till. gert ráð fyrir því, að íslenzkir verktakar einir annist þær framkvæmdir, sem enn er ólokið, þótt kostnaður við þær verði greiddur af Bandaríkjunum eða Atlantshafsbandalaginu. Einn höfuðvandinn, sem siglt hefur í kjölfar herverndarsamningsins, hefur átt rót sína að rekja til þess, að erlendur verktaki, sem hefur haft ónóga þekkingu á íslenzkum staðháttum hefur haft hér með höndum miklar framkvæmdir. Það er ástæðulaust. Íslenzkir aðilar hafa sýnt, að þeir eru vel færir um að annast þær framkvæmdir, sem hér er um að ræða, enda auðvitað ekkert því til fyrirstöðu, að þeir ráði sér erlenda sérfræðinga eftir þörfum. Æskilegast væri, að ríkið sjálft hefði þessar stórframkvæmdir með höndum, en ef það treystir sér ekki til slíks, þá þeir íslenzkir aðilar, sem mesta reynslu hafa. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að þann tíma, sem hinn erlendi her eigi eftir að dvelja í landinu, skuli hann dvelja á varnarsvæðunum og ekki hafa önnur afskipti við landsmenn en þau, sem skyldustörf hans krefjast, og að sá hluti Keflavíkurflugvallar, sem eingöngu eða aðallega er notaður til hernaðarþarfa, sé girtur og öll almenn umferð um hann bönnuð.

Fyrir þrem vikum var það samþykkt einróma í miðstjórn Alþfl., að þessi till. til þál. skyldi flutt á Alþ. Með henni er bent á raunhæfa leið út úr þeim ógöngum, sem fyrrverandi ríkisstj. leiddi þjóðina í með slæmri framkvæmd á herverndarsamningnum. Það væri algerlega óviðunandi, ef haldið yrði áfram á sömu braut og gengin hefur verið s. l. tvö og hálft ár. Ný ríkisstj. hefur nú tekið við völdum og þar með nýr utanrrh. Hann hefur ekkert látið uppskátt um það enn, hverri stefnu hann mun fylgja, og skulu engar getsakir hafðar uppi um það að óreyndu. Alþfl. hefur hins vegar viljað marka sína stefnu skýrt og ljóst í þessari till. og er sannfærður um, að samþykkt hennar mundi verða heillaríkt spor og marka ný tímamót í viðleitni þjóðarinnar til þess að varðveita sjálfstæði sitt og treysta öryggi sitt. Kjarni málsins er í rauninni ljós og skýr. Að baki þessarar till. er staðfastur vilji til þess að eiga samstarf við hinar vestrænu lýðræðisþjóðir um verndun siglinga- og loftleiða um norðanvert Atlantshaf, að sjálfsögðu í ófriði, en einnig í friði á þann hátt, að íslendingar reki mannvirki, sem samstarfsþjóðum þeirra eru nauðsynleg í fyrrgreindu skyni, ef ófriður brýzt út, og leyfi jafnframt vist nokkurs liðs í landinu, ef alveg sérstök hætta er talin steðja að, t. d. ef siglinga- eða loftleiðir umhverfis landið verða ótryggar. En að öðru leyti grundvallast hún á þeirri bjargföstu sannfæringu, að á venjulegum tímum sé hér engin þörf herliðs, hvorki erlends né innlends, sem betur fer, þar eð innlendur her yrði þjóðinni ofviða, en engin þjóð, sem varðveita vill sjálfstæði sitt og sjálfsvirðingu, getur til langframa haft erlendan her í landi sínu.

Að svo mæltu óska ég þess, að umr. verði frestað, herra forseti, og málinu vísað til hv. utanrmn.