19.10.1953
Sameinað þing: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (3066)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það liggja nú fyrir hv. Alþ. þrjár till. um uppsögn og endurskoðun varnarsamningsins svo nefnda frá 1951. Í fyrsta lagi er frv. um uppsögn samningsins og afnám lagagildis hans, sem flutt er af öllum hv. þingmönnum Sósfl. í Nd., og í öðru lagi þær tvær till. til þál., sem hér liggja fyrir, önnur flutt af báðum hv. þm. Þjóðvfl. um uppsögn samningsins, og hin, sú till., sem hér liggur fyrir til umr., um endurskoðun samningsins, flutt af hv. forustumönnum Alþfl., hv. 1. og hv. 3. landsk.

Bæði með tilliti til stöðu hv. flutningsmanna þessarar till. innan flokks þeirra og til yfirlýsingar þeirrar, sem hv. aðalflm. till. gaf um, að það hefði verið samþykkt í miðstjórn Alþfl. að bera fram þessa till. eins og hún liggur fyrir, þá tel ég fyrir mitt leyti ástæðu til að fagna því, að það virðast vera að gerast a. m. k. sinnaskipti og skoðanaskipti og stefnubreyting í þessum hv. flokki miðað við fyrri afstöðu hans. Hv. aðalflm. sagði að vísu ekkert um það, hvort allur hv. þingflokkur Alþfl. stæði að þessari till. eða hvort það væru skoðanir og stefna allra þm. flokksins, sem lægi fyrir í till. og þeirri grg., sem henni fylgir, en meðan því er ekki mótmælt, að allur þingflokkur Alþfl., allur Alþfl. í heild sinni, standi að þessari till., þá verð ég að ganga út frá því, að svo sé, að með þessari till. sé einmitt mörkuð stefna Alþfl. í utanríkismálum að því er varðar samninginn frá 1951 a. m. k. og afstöðu til hans og hersetu Bandaríkjanna hér á landi. Og ég tel ástæðu til að fagna því, að þessi flokkur einmitt virðist hafa breytt skoðunum sínum og afstöðu til þess hernáms Íslands, sem var samþykkt m. a. af fulltrúum þessa flokks vorið 1951 þrátt fyrir þá afstöðu, sem einmitt hv. flm. þessarar till. höfðu tekið árið 1949 til inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið.

Ég tel ekki síður ástæðu til að fagna ýmsu því, sem kom fram í ræðu hv. 1. landsk. fyrir þessari till. Sérstaklega fagna ég þeirri yfirlýsingu hans, er hann sagði, að það væri nú hægt að staðhæfa, að kenningin um, að það vofði yfir Íslandi árás úr austri, sífelld hætta á því, að Ísland yrði hernumið úr austri, hertekið af sjó, væri röng. Ég fagna því, að hv. þm. gefur nú svo afdráttarlausa yfirlýsingu um það, að þessi kenning sé röng. Ég hef oft í ræðu um þetta mál einmitt slegið því föstu og fært rök að því, að þetta er hin mesta falskenning. En ég veit ekki betur en að hernám Íslands 1951 hafi einmitt verið byggt á þessari falskenningu, þessari kenningu, sem ég hef opinberlega í ræðu leyft mér að kalla stærstu lygi, sem hefur verið haldið fram í íslenzkum þjóðmálum. Að vísu hafa aldrei komið fram nein rök fyrir þessari kenningu. Þau hefur hæstv. núverandi dómsmrh., fyrrverandi utanrrh., aldrei virzt þurfa að bera fram. Þetta er staðhæfing, sem hefur verið borin fram, að það vofi yfir Íslandi hernám, og það hefur verið látið liggja að því, þegar hernámssamningurinn 1951 var gerður og síðan, að þessi hætta á hernámi hafi einmitt vofað yfir vorið 1951 alveg sérstaklega og einnig síðan, en fyrir því hafa ekki heldur verið færð nein rök, því að þeir hv. 43 þm., sem stóðu að samningnum frá 1951, hafa aldrei þurft að færa nein rök fyrir því hér á Alþ., að þeir tóku ábyrgð á því að gera hann. Þeim nægði, að þeir voru 43. Þeir létu það nægja, að þeir höfðu meiri hluta og höfðu nægan blaðakost til þess að halda á lofti þeirri kenningu, sem hv. aðalflm. þessarar till. stimplar nú sem hina örgustu falskenningu, að það hafi vofað yfir Íslandi hernám í byrjun maí 1951. Ég fagna því, að hv. Alþfl. slær því nú föstu sem heild, að þessi kenning sé hin argasta falskenning, og hann byggir nú framvegis afstöðu sína í íslenzkum utanríkismálum og sérstaklega afstöðu sína til hersetu á Íslandi á því, að þessi kenning sé öll röng. Ég vona, að það sé orðin skoðun allra hv. þm. þessa flokks og að það verði ekki hvikað frá þessari skoðun í umr. um þetta mál framvegis.

Ég tel ekki þörf á að hafa langar umr. um þessa till., eins og hún hér liggur fyrir. Því hefur verið lýst yfir af hálfu hv. Þjóðvfl., að hann hafi óskað útvarpsumræðna um sína till. á þskj. 23 um uppsögn varnarsamningsins, og fara þar þá um leið væntanlega fram enn einu sinni almennar umr. um þessi mál, eins og þau horfa nú við. Ég vil nú aðeins segja það um mína afstöðu til þessarar till., sem hér liggur fyrir, að þó að hún sé í einstökum atriðum, að mínum dómi, ekki nógu ljóst orðuð og ég sé ekki samþykkur ýmsum skoðunum, sem eru settar fram í grg. hennar, þá fagna ég því þó, eins og ég hef áður sagt, að hún er fram komin. Í fyrirsögn þessarar till. er að vísu aðeins talað um endurskoðun þessa samnings frá 1951, en tveir fyrstu töluliðir þessarar till. eru þó ekki um endurskoðun samningsins. Þeir eru um atriði, sem snerta aðeins framkvæmd samningsins, og hinir síðari töluliðir þessarar till. sýna, að þó að hv. flm. tali um endurskoðun samningsins, þá er það alls ekki á þeim sama grundvelli og samningurinn frá 1951 var gerður, og skal ég víkja nánar að því síðar, á hverju ég byggi það. Þessi till. fjallar því að mínu viti að öðrum þræði um framkvæmd samningsins og að hinu leyti um nýjan samning á allt öðrum grundvelli, sem hv. flm. telja að kunni að koma til mála að gera í stað varnarsamningsins frá 1951. Þeir gera m. ö. o. ráð fyrir niðurfalli samningsins.

Það er í fyrsta tölulið þessarar till. lagt til, að framvegis skuli íslenzkir aðilar einungis annast framkvæmdir, sem ákveðnar voru á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 og enn er ólokið, segir þar. Það mun vera hér átt við ákveðin mannvirki, byggingar, sem hv. flutningsmönnum mun vera eitthvað sérstaklega kunnugt um að hafi verið ráðgerðar vorið 1951, þegar þessi samningur var gerður.

Í öðru lagi er í 2. tölulið till. gert ráð fyrir, að framvegis verði varnarsvæði þau, sem þegar hafa verið látin í té, þ. á m. sá hluti Keflavíkurflugvallar, sem eingöngu eða fyrst og fremst þarf að nota í hernaðarþágu, afgirt og öll almenn umferð um þau bönnuð. Mér er nú ekki kunnugt um, að í samningnum frá 1951 séu nein ákvæði, sem banni þessar ráðstafanir, og því virðist mér ekki þurfa að koma til endurskoðunar samningsins til þess að fá þessum atriðum kippt í lag og þau framkvæmd á þann hátt, sem hv. flm. gera ráð fyrir. Orðalagið um það atriði að girða þessi svæði er að vísu ekki nógu ljóst að minni hyggju, því að það getur ekki verið, að hv. flm. eigi við það einungis, að Íslendingum verði bönnuð umferð um þessi svæði, heldur hitt, að umferð hinna erlendu hermanna um svæði utan þessara svæða verði takmörkuð eða bönnuð. En hvorar tveggja þessar ráðstafanir má gera á grundvelli samningsins frá 1951, og framkvæmd þeirra er aðeins lagfæring, lítils háttar lagfæring á því stórkostlega sleifarlagi, sem hefur verið á allri framkvæmd samningsins alla tíð frá 1951, en sú framkvæmd hefur verið, eins og kunnugt er, í höndum fyrrverandi utanrrh. og hinnar svo nefndu varnarmálanefndar, sem hann skipaði sér til aðstoðar í þeim efnum.

Það er frá mínu sjónarmiði mjög gleðilegt tímanna tákn, að það kemur nú fram opinberlega úr æ fleiri áttum, að öll framkvæmd hervarnarsamningsins frá 1951 hafi verið í ólestri og með þeim endemum, að ekki verði lengur við unandi, Það er alveg sýnilegt, að nú er hér á hv. Alþ. mikill meiri hluti, sem er kominn á þessa skoðun, að öll framkvæmd varnarsamningsins frá 1951 í höndum utanrrh. Bjarna Benediktssonar, núverandi hæstv. dómsmrh., og varnarmálanefndar hafi verið í ólestri og óþolandi, óviðunandi með öllu. Sá sami þingmeirihluti mundi vafalaust fagna því, ef þær tvær ráðstafanir, sem hv. flm. þessarar till. gera ráð fyrir og óska eftir, yrðu framkvæmdar, í fyrsta lagi, að íslenzkir aðilar einir önnuðust byggingarframkvæmdir og aðrar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og öðrum svo nefndum varnarsvæðum, og í öðru lagi, að þessi varnarsvæði svo nefndu yrðu fullkomlega afgirt og tekið með öllu fyrir ónauðsynlegt ráp og flakk hermanna um allar jarðir á þessu landi og þá sérstaklega hér í Rvík. Það er ánægjulegt að vita það, að hér er nú orðinn fullur þingmeirihluti fyrir till. um svo eindregnar ráðstafanir í þessum efnum, en þær till. fengust ekki afgr., þótt fyrir lægju frá fleiri en einum flokki í fyrravetur hér á Alþingi. Ég vona, að það megi vænta þess, að núverandi hæstv, utanrrh. láti það ekki lengi dragast að gera þær ráðstafanir, sem hann hefur nú boðað, óljóst að vísu, í sinni ræðu hér áðan, um framkvæmdir til þess að bæta úr þeim ólestri öllum, sem verið hefur á framkvæmd þessara mála.

Ég get ekki ímyndað mér, hver ætti að harma, að það erlenda félag, sem hefur nú farið með mest af byggingarframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, yrði látið víkja, eins og hv. flm. þessarar till. leggja til, þannig að íslenzkir aðilar einir önnuðust þar framkvæmdir.

Það er alkunnugt, að þetta félag, sem er kennt við Hamilton, hefur brotið öll íslenzk lög, sem gátu snert á nokkurn hátt þess starfsemi hér á landi. Því hefur haldizt uppi að óvirða öll íslenzk stjórnarvöld, sem þau mál hafa heyrt undir, sem það hafa snert. Það hefur svikizt um að innheimta opinber gjöld samkvæmt íslenzkum lögum handa íslenzka ríkinu og íslenzkum bæjarfélögum. Það hefur brotið opinberlega alla samninga við verkalýðssamtök, sem gilda í þessu landi, jafnt líka þá samninga, sem voru gerðir með samþykki og að sumu leyti fyrir tilstuðlan hæstv. ríkisstj. á s. l. vetri. Þetta er alkunn og opinber staðreynd, og getur enginn hér á Alþingi né utan þess mótmælt því. Og nú upp á síðkastið hefur það gengið svo freklega fram í stríði sínu við íslenzk verkalýðssamtök, að því er nú í blaði, sem gefið er út á Keflavíkurflugvelli af starfsmönnum þar á vellinum, sem enn hafa ekki verið — ekki einu sinni af stjórnarblöðunum — vændir um að vera kommúnistar, slegið föstu, að þetta félag standi opinberlega í stríði við verkalýðssamtökin til þess að kúga þau og það sé um það að gera, hvort eigi að takast að kúga öll íslenzk verkalýðssamtök með samningsrofum og lögbrotum eða ekki. Og nú verður úr því skorið, hvort hv. Framsfl. og hans hæstv. nýi utanrrh., hvers tilkomu í það virðulega sæti, sem hann situr í, ég hef fagnað frá því að mér var kunnugt um, að hann mundi vera þangað væntanlegur, — nú verður úr því skorið, hvort hv. Framsfl., sem fer með þessi mál öll, stendur nú við það, sem hann hefur lýst yfir, að þetta félag skuli víkja; það mun verða að sjást, hann mun verða að taka ákvörðun um það nú næstu daga, því að þau mál eru komin í þann bobba, að það verður að leysa úr þeim eða skera á hnútinn.

Ég veit ekki heldur, hverjir ættu að harma það, þótt gerð yrði alvara úr því að framkvæma þá till., sem hér liggur fyrir og er komin fram úr öðrum áttum líka, frá hv. þm. Alþfl. á síðasta þingi, að það ætti að girða herstöðvarnar þar og loka þeim, þannig að engar ónauðsynlegar ferðir hermanna yrðu liðnar hingað til Rvíkur eða um landið yfirleitt. Það er a. m. k. víst, að húsnæðisleysingjarnir í Rvík hefðu ekki ástæðu til að harma það, að það væri tekið fyrir dvöl amerískra hermanna hér í Rvík. Það er alveg vitað, að þeir taka upp tugi eða hundruð íbúða hér í bænum, á sama tíma sem hér er meiri neyð í húsnæðismálum heldur en hefur hér þekkzt árum saman, ef ekki áratugum saman.

Þessi tvö atriði snerta, eins og ég áður sagði, aðeins framkvæmd samningsins frá 1951 og koma í raun og veru nauðalítið við endurskoðun hans.

Í 3. og 4. tölulið þessarar till. láta hv. flm. í ljós, með hvaða hætti þeir vilji endurskoðun þessa samnings. Þeir slá því föstu í fyrsta lagi, að Íslendingar geti farið með gæzlu þeirra mannvirkja, sem þegar hafi verið gerð á Keflavíkurflugvelli og annars staðar á svo nefndum varnarsvæðum, án þess að nokkur Íslendingur sé þjálfaður til hernaðarstarfa. Ég tek undir þessa skoðun hv. flm. og fagna henni. Þeir slá því föstu í 4. lið þessarar till., að þeir vilji ekki una við varnarsamninginn frá 1951 á þeim grundvelli, sem hann er, heldur telji þeir, að ef slíkur samningur sé gerður á annað borð, þá ætti hann að vera á þá leið, að Alþingi geti ákveðið með þriggja mánaða fyrirvara, að allur erlendur her, allt herlið Bandaríkjanna eins og það leggur sig, yrði að hverfa frá Íslandi, en í samningnum frá 1951 er langt frá því, að það sé gert ráð fyrir slíku, að það sé á valdi Alþingis að reka ameríska herinn burt úr landinu með þriggja mánaða fyrirvara. Í núgildandi uppsagnarákvæðum samningsins er því slegið föstu, að þó að svo færi, að Alþingi Íslendinga vildi uppsögn þessa samnings með öllu, vildi, að hann félli niður, vegna þess að alþm. væru komnir á þá skoðun, að amerískar herstöðvar hér í landi væru hvorki nauðsynlegar né æskilegar, þá verði Íslendingar að bíða í 18 mánuði eftir því, að þessi her víki. Þannig var um hnútana búið 1951 með samþykki hv. flm. þessarar till.

Ég vil því slá því föstu, að hv. flm. þessarar till. vilja nú, ef um samning væri að ræða að endurskoðuðum þessum samningi, sem nú gildir, samning á allt öðrum grundvelli heldur en þessi samningur er, og ég fagna því enn. Það er vitanlega út af fyrir sig rétt, að það er Alþingi eitt, sem á að ákveða það, hvort það sé her í landinu, erlendur her í landinu — eða ekki. Það er vitað, að það er óhæfa, eins og ákveðið var í samningnum frá 1951, að það skuli verða að líða 18 mánuðir frá því, að Íslendingar kæmust að þeirri niðurstöðu, að það eigi ekki að vera her í landi þeirra, — að þeir verði að bíða í 18 mánuði eftir því, að sá her, sem hér er, fari, en þetta var nú samþykkt 1951.

Uppsagnarákvæði varnarsamningsins svo nefnda frá 1951 mun vera einsdæmi í milliríkjasamningum, og ég benti á það í umr. um hann hér á Alþingi 1951, að það væri þá helzt samningur Breta við Egypta, sem hefði þvílík uppsagnarákvæði að geyma eins og þessi, en það er kunnugt, að sá samningur var gerður með nauðung, vegna þess að brezkur her sat og hafði setið áratugum saman í Egyptalandi og gat kúgað Egypta til hverra samninga sem var. Hann var gerður með vopnin, með brezka tanka og fallbyssur og flota yfir höfði sér. En þessi samningur var gerður, að því er sagt hefur verið og haldið fram, af frjálsum vilja 43 þm. Þeir gerðu hann af frjálsum vilja, það var ekki kominn — segja þeir og hafa lagt mikla áherzlu á — það var ekki kominn hér amerískur her eða floti. 43 þm. komust að þeirri niðurstöðu, að nú vofði slík hætta yfir Íslandi, að það yrði að gera samning, yrði að fá hingað erlent herlið, og þá bjuggu þeir um leið svo um hnútana, að það væri ekki hægt að losna við þetta herlið fyrr en að 18 mánuðum liðnum, eftir að þeir eða Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu, að herliðsins væri engin þörf. Þetta og önnur ákvæði þessa samnings munu verða geymd í sögunni, og allar aðferðir, sem notaðar voru við gerð þessa samnings, munu geymast í sögunni, væntanlega sem einsdæmi. En ef hv. Alþfl. og ef til vill fleiri af þeim mönnum, sem stóðu að þessum samningi, eru nú komnir á þá skoðun, að bæði sé framkvæmd hans með öllu óviðunandi og óþolandi í þeirri mynd, sem hún hefur orðið þau tvö og hálft ár, sem hann hefur gilt, og enn fremur að sá grundvöllur, sem þessi samningur var gerður á, sé rangur og að það komi ekki til mála að endurnýja þennan samning á sama grundvelli, eins og hv. flm. þessarar till. sýnilega meina, þá tel ég mikla ástæðu til að fagna og síður ástæðu til að erfa við þessa hv. þm. og aðra það, að þeir stóðu svo ábyrgðarlaust að gerð þessa samnings fyrir tveimur og hálfu ári. Hér er nú áreiðanlega, eins og ég áður sagði, meiri hl. á hv. Alþingi fyrir því að kippa í lag framkvæmd þessa samnings, meðan við hann verður að búa samkv. ákvæðum hans, og ef til vill er líka meiri hl. hér á hv. Alþingi fyrir því að krefjast þess, að í stað þessa samnings, ef um nokkurn samning ætti að vera að ræða, kæmi annar samningur á allt öðrum grundvelli. Flokkur hæstv. utanrrh., Framsfl., hefur lýst því yfir í blaði sínu og á annan hátt, hygg ég, að það sé hans skoðun, að það beri að endurskoða þennan samning, taka hann til endurskoðunar. En það hefur að vísu ekki komið eins fljótt fram, á hvaða grundvelli sá flokkur óskar endurskoðunar samningsins. Ef það er á svipuðum grundvelli og hv. flm. þessarar till. virðast vera komnir á, ef hv. Framsfl. er kominn á þá skoðun, að það ætti ekki að gera samning eins og þennan, á sama grundvelli, að sá grundvöllur, sem þessi samningur hvílir á, sé ekki réttur og æskilegur fyrir Íslendinga og þess vegna beri að taka samninginn til endurskoðunar, þá væri að mínum dómi mikil ástæða til að fagna því, ef slík sinnaskipti hefðu orðið. En ég tel víst, að það komi fram við meðferð þessa máls — einmitt þessarar till. — hér á hv. Alþingi, hvort þetta er svo, að flokkur hæstv. utanrrh. telji grundvöll varnarsamningsins frá 1951 einnig óviðunandi, eins og hann telur framkvæmd hans óviðunandi og óþolandi lengur. Það mætti þá vera, og mér virðist meira að segja, að það gætu bent ýmsar líkur til þess, að hér á hv. Alþingi mætti skapast þingmeirihluti í þessum málum, sem gæti fundið nýjan grundvöll í stað þess auðmýkjandi samnings, sem hefur verið búið við í tvö og hálft ár, en allir virðast nú vera að snúast á móti. En þetta mun einmitt, eins og ég áðan sagði, koma sérstaklega í ljós við meðferð þessa máls í hv. utanrmn. og hér á Alþingi.