19.10.1953
Sameinað þing: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (3067)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýnist, í sambandi við þær umr. og þá þögn, sem hér fer fram, að undanhald sé að byrja hjá þeim hv. flokkum, sem stóðu að Atlantshafssamningnum og hernámssamningnum 1951. Mér virðist Alþfl. ryðja brautina allmyndarlega, enda þorir hann nú í fyrsta skipti um langan tíma að taka til máls um þessi mál. Framsókn var dálítið að hiksta á þessum málum fyrir síðustu kosningar, og íhaldinu hefur þótt gott núna að sleppa við aðalábyrgðina og forustuna í meðferð utanríkismálanna. Það er auðséð á öllum sviðum, að það er að bresta flótti í það lið, sem kallaði ameríska herinn inn á Ísland. Ég sé hins vegar á byrjuninni á þessum umr., að það muni vera meiningin hjá þm. Framsfl. og Sjálfstfl. að reyna að þegja, eins og þeir eru vanir, þegar þessi mál eru til umræðu hér á Alþingi. Það virðist vera þeirra afstaða, eins og það hefur verið hingað til, að þjóðina varði ekki um, hvað þeir hafi gert í þessum málum, og þeir eigi ekki að standa reikningsskap hér á Alþingi fyrir því, sem þeir gera. Ég vil að vísu láta í ljós ánægju mína yfir því, að mér heyrist hæstv. utanrrh. vera á annarri skoðun þarna og lýsir því yfir hér, að hann muni svara þinginu og gefa því upplýsingar á sínum tíma viðvíkjandi þessum málum. Það er hins vegar ekki hann, sem ber ábyrgð á því svívirðingarástandi, sem hérna ríkir á landinu núna. Það eru þeir hv. þm. Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., sem hér sitja í sínum þingsætum.

Ég held nú, fyrst Alþfl. er þó a. m. k. farinn að hafa kjark í sér til þess að tala um þessi mál og kveða upp úr með, hvers konar ástand sé hér skapað, úr þeim gömlu stjórnarherbúðum, þá held ég nú, að þm. og þeir ráðh., sem eru þm., úr Frams- og Sjálfstfl. ættu að sjá sér vænst að taka til máls líka, en ekki halda fast við að láta þögnina og baktjaldamakkið við Ameríkanana geyma þeirra málstað. Það er sannarlega tími til þess kominn, að þeir menn, sem bera ábyrgð á því ófremdarástandi, sem hér hefur skapazt á Íslandi, standi reikningsskap frammi fyrir þjóðinni, þannig að þeir þori að ræða hér á Alþingi við almennar umræður, hvað það er, sem gerzt hefur hér á undanförnum árum, og ég held það veiti ekki af því, að þau mál séu krufin alvarlega til mergjar.

Meðan ekki gefst tími eða tilefni til að ræða frekar við þá ráðh. Frams.- og Sjálfstfl., sem kölluðu ameríska herinn inn í landið, og þá þm., sem fylgja þeim til þess, þá mun ég nú fyrst og fremst ræða við 1. landsk. þm., sem hér hefur f. h. Alþfl. hafið undanhaldið í þessum málum, og athuga nokkuð þau rök, sem hann þar flytur fram sínu máli nú til stuðnings. Mér skilst raunverulega á honum, að það sé eiginlega nokkuð ný teoria þar á ferðinni, sem Alþfl. grundvallaði nú sína afstöðu í þessum málum á, hún væri sú, að það ætti að vera samvinna við aðrar þjóðir í hernaði, sem yrði að grundvallast á möguleikum til verzlunar í stríði. Ég verð nú að segja, að mér finnst þessi teoría dálítið undarleg, og ég skal koma að henni seinna. Við skulum fyrst athuga nokkrar aðrar af hans staðhæfingum.

Hann virtist líta svo á, að það væri ekki neitt annað að gera en að fara í einhver bandalög, það að fara eigin götur þýddi að fylgja einangrunarstefnu. Þetta er alveg hrein vitleysa. Utanríkispólitík hvers einasta lands á að miðast við það að varðveita þess sjálfstæði og þess tilveru út frá hagsmunum þjóðarinnar sjálfrar og án tillits til annars og að finna út frá þessum hagsmunum og út frá þessum lífsþörfum, hvaða pólitík sé hentugust á hverju augnabliki til þess. Það að fordæma fyrir fram sem einhverja einangrunarstefnu að fara eigin götur, þ. e. að reka sjálfstæða utanríkispólitík, er að fordæma sjálfstæði einnar þjóðar, fordæma möguleika hennar til þess að vera sjálfstæð.

Hv. 1. landsk. sagði, að við yrðum að miða við ástandið í þeim heimi, sem við búum í. Hv. þm. lýsti bara því ástandi algerlega skakkt. Það eru ákaflega sterk öfl til í heiminum, sem vinna að því, að smáþjóðir eins og við fái að vera í friði. Og ef við ætlum að meta, hvaða utanríkispólitík hæfir okkar hagsmunum bezt, þá verðum við að þora að miða við það, að slík öfl séu til sterk hjá öllum þjóðum, sem vilja varðveita fríð, meira að segja Bandaríkjum Norður-Ameríku líka. Það að ætla að beygja sig fyrir því, að yfirstéttir nokkurra ríkja hafi myndað hið svo kallaða Atlantshafsbandalag, beygja sig fyrir þeim staðreyndum og segja, að fyrst þetta bandalag hefur verið myndað, þá sé sjálfsagt fyrir okkur að vera í því, er sama sem að gefa upp sjálfstæða utanríkispólitík og gerast í staðinn taglhnýtingur þeirra, sem kunna að vera voldugir í einhverjum nágrannaríkjum okkar á viðkomandi augnabliki. Og að vera slíkur taglhnýtingur leiðir fyrr eða seinna til þess að verða hálfgert leppríki líka. Hví í ósköpunum ættum við Íslendingar, jafnvel þótt við stæðum einir um svona pólitík, ef við álítum hana rétta, ekki að þora að segja það? Við höfum jafnvel bjargað okkur áður í okkar sögu á því að þora að fara öðruvísi að en allar aðrar þjóðir, út frá því að okkar þjóðfélagi hentaði annað en það, sem öllum öðrum þjóðum hentaði þá.

Rétt á eftir kemur hv. 1. landsk. inn á það í sinni ræðu: Ja, ef einhverjar af þjóðunum í Evrópu, við skulum segja England, Norðurlönd, tækju upp hlutleysisstefnu, þá yrði það aftur raunhæft fyrir okkur Íslendinga að tala um hlutleysisstefnu. Af hverju er ekki jafnraunhæft fyrir okkur Íslendinga og jafnrétt að gerast brautryðjendur í hlutleysisstefnu á undan Norðurlöndum og jafnvel undan Englandi eins og að dragast aftan í Englandi og aftan í Norðurlöndum, á meðan þessar þjóðir væru ekki búnar að átta sig á því, hvað praktískast er fyrir þeirra eigin hagsmuni? Hví í ósköpunum ættum við Íslendingar ekki að geta rutt braut í þessum efnum? Auðvitað getum við vel rutt braut í þessum efnum. Ef við getum lifað, þá eigum við að koma vitinu fyrir þessar þjóðir, sem búið er að blekkja með þeim áróðri, sem þessi hv. þm. var á ýmsan hátt mjög vel að hrekja hér áðan, hræða á þeirri grýlu, sem Hitler notaði áður og Bandaríkin núna til þess að reyna að beygja lýðræðisríki undir voldugt auðvald.

Það er ef til vill ekki svo algerlega fjarri því, að við Íslendingar séum á vissan hátt að ryðja þessa braut. Hv. 1. landsk. man eftir yfirlýsingu formanns danska Sósíaldemókrataflokksins fyrir síðustu kosningar um, að Danir eða a. m. k. danski Sósíaldemókrataflokkurinn kærði sig ekki um að fá amerískar herstöðvar í Danmörku. Og hvað vitnaði hann í þar? Hann vitnaði í fordæmið frá Íslandi. Hann vitnaði í það, að Íslendingar væru svo óánægðir út af hernámssamningnum frá 1951, að það væri full hætta á fullum fjandskap við Bandaríkin vegna hans. Af hverju eru Íslendingar óánægðir með samninginn 1951? Af því að þjóðin er búin að sjá, hvað yfirgangur Bandaríkjanna þýðir, sá yfirgangur, sem hver viti borinn maður gat reiknað út 1951 og við vissum að mundi koma. En það, að við Íslendingar risum upp, þeir sem ekki létu fjötra sig af áróðri Atlantshafsbandalagsins og þess flokka hér, risu upp gegn þessu hernámi og börðust gegn afleiðingunum af því á Keflavíkurflugvelli og annars staðar, hefur leitt til þess, að þjóðir eins og Danir eru að byrja að átta sig á, hvaða hætta sé þarna á ferðinni. Þeir eru m. ö. o. að byrja að rísa upp og fylgja stefnu, sem þessir menn, sem hv. 1. landsk. stundum er að kalla kommúnista, hafa verið að marka hér á Íslandi. Það má vel vera, ef við segðum okkur úr Atlantshafsbandalaginu og rækjum ameríska herinn burt héðan af Íslandi, eins og við getum gert, að Danir og Norðmenn fyndu fulla ástæðu til þess að taka upp svipaða hlutleysisstefnu og við höfum haft áður og sæju, að það væri bezt fyrir þeirra hagsmuni. Er ekki hægt fyrir okkur að gera eitthvað svipað og Svíþjóð hefur gert? Hví í ósköpunum ættu okkar hagsmunir að vera eitthvað fjarri? Hví í ósköpunum ætti að fordæma sem einhverja þjónkun við erlent stórveldi hér á Íslandi það, sem Svíar hafa leyft sér að gera núna í mörg ár? Og hví í ósköpunum ættu Danir og Norðmenn ekki að geta séð hagsmuni sína í því að taka upp sömu stefnu? Nei, ég held, að það væri einmitt meiri heiður að því fyrir okkur Íslendinga að þora að gerast brautryðjendur, þora að segja nei við yfirgangi Bandaríkjanna heldur en að bíða og bíða, þangað til sprungan t. d. á milli Englands og Bandaríkjanna sé orðin svo mikil, að meira að segja England sjálft fari að rísa upp á móti Bandaríkjunum og segja þeim svo á eftir fullum hálsi, að þeir vilji ekki einu sinni lengur vera í bandalagi við þá. Og ég vil um leið og ég varpa fram þeirri hugmynd, sem vissulega er ekkert óraunhæf lengur, spyrja þessa hv. þingflokka, sem hafa nú veitt Bandaríkjunum þau ítök á Íslandi, sem þeir nú hafa: Hvað er það, sem þessir hv. þingflokkar hugsa sér, svo framarlega sem England skyldi nú taka upp þá afstöðu, sem við höfum stundum verið að berjast fyrir hérna, beygja sig ekki lengur fyrir yfirgangi Bandaríkjanna og taka héðan af upp hlutleysisstefnu? Er þá meiningin með þeirri pólitík, sem nú er rekin, að búið sé að gera Ísland nægilega háð Bandaríkjunum til þess að Ísland geti þjónað sem herstöð á móti Bretum líka? Það er bezt, að þessir hv. þm., sem alltaf hafa lýðræðið og lýðræðisríkin og ekki sízt Bretland í því sambandi á vörunum, geri sér alveg fyllilega ljóst, hvað þeir eru að gera. Það er ekki brezkur her, sem þeir kölluðu hingað inn, heldur amerískur, og sá amerískur her, sem á jafnt að vera notaður á móti þeim, sem þeir kalla sérstaklega lýðræðisþjóðir Evrópu, eins og á móti öðrum. Það eru þeir, sem bera ábyrgðina á þessu. Það eru þeir menn, sem hafa kallað ameríska herinn hér inn í landið, sem bera ábyrgðina, til hvers sem hann verður notaður, og það dugir engin afsökun í því sambandi, að þeir hafi ekki ætlazt til þess, að þessir blessuðu Bandaríkjamenn gerðu þetta og þetta. Þeir menn, sem hafa kallað ameríska herinn hér inn á Ísland, verða að gera sér ljóst, að þeir hafa kallað her árásarsinnaðs stórveldis, sem er að stefna að því að leggja undir sig heiminn. Þeir hafa kallað þann her hingað inn. Og það er á þeirra ábyrgð, þótt það sé ekki á þeirra valdi, hvað sá her kann síðar meir að gera. Það þýðir þess vegna lítið að vera að tala um, að við séum að skipa okkur í sveit með Bandaríkjunum og Stóra-Bretlandi í þessu sambandi. Við skulum athuga það máske betur síðar, hvernig þeim málum er hagað, hvernig menn eru að skipa sér í sveit þar.

En ég ætla ofur lítið að minnast á það, sem hv. 1. landsk. kom inn á og vildi nú sérstaklega náttúrlega drótta að okkur sósíalistum, eins og vant er, um hagsmuni Austur-Evrópuríkjanna í þessu sambandi. Það er nauðsynlegt, ef við ætlum að reyna að stjórna okkar landi, að einhverjir viti, eins og heimurinn er, að við gerum okkur ljóst, hvernig ástandið raunverulega er í heimínum, og að við reynum að skyggnast eitthvað dýpra og kryfja það ástand betur til mergjar en við gerum bara með því að lesa Morgunblaðið. Sum ríki í heiminum, sem nú eru sósíalistísk, hafa átt við það að búa, frá því að þau urðu til, að auðvaldsríkin í heiminum hafa undirbúið og gert árásir á þau. Og það ætti varla að hafa farið fram hjá þeim hv. Alþýðuflokksþingmönnum, a. m. k. sízt þeim, sem eldri eru, að eftir að byltingin var gerð í Rússlandi og alþýðan tók þar völdin, þá voru í upp undir fjögur ár meira eða minna háðar árásarstyrjaldir af Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, öllum þessum svo kölluðu lýðræðisríkjum, til þess að reyna að kæfa þá byltingu alþýðunnar í blóði. Það mistókst alveg, eins og það mistókst seinna meir fyrir Hitler að drepa þessi alþýðuríki. En hitt aftur á móti getur vafalaust enginn láð þeim verkamönnum og bændum, sem hafa brotizt til valda í þessum ríkjum, að þeir séu tortryggnir eftir þær árásir, sem þeir hafa orðið fyrir á þessum fáu áratugum, sem alþýðuvöld og sósíalisminn hafa verið til í heiminum, ekki sízt með tilliti til þess, að við vitum ósköp vel, hvernig auðvaldsríkin ekki aðeins út frá sínum stéttahagsmunum heyja þannig árásarstyrjaldir á þessi alþýðuveldi, heldur hvernig styrjaldirnar eru um leið stórfelldustu gróðafyrirtæki auðhringanna, sem ráða í þessum löndum. En ég ætla ekki að fara að rekja þau mál nánar, þótt ég sé reiðubúinn til þess, en aðeins athuga örstutt það, sem hv. 1. landsk. sagði, að auðvitað hljóti hinn hreini kommúnisti að taka afstöðu með hagsmunum alþýðulýðveldanna, það sé svo sem ekki út frá hagsmunum sinnar eigin þjóðar, sem hann sé að taka afstöðu, ef það af tilviljun kann að fara saman.

Veit hv. 1. landsk., hvað það er gamalt að bera sósíalistum á brýn, að þeir séu þjónar einhverra annarra en alþýðunnar sjálfrar? Veit hann, að þetta hefur verið gert frá því, að sósíalisminn varð til í heiminum? Upprunalega vorum við sósíalistar ásakaðir um það að vera sendiboðar djöfulsins, það var þegar menn voru ekki orðnir eins feimnir víð það að taka guð almáttugan sér í munn í sambandi við stjórnmálin eins og menn eru orðnir núna. Næst þar á eftir þótti mönnum praktískt að bera hverjum sósíalista, sem barðist á móti stríði sinnar eigin auðmannastéttar, það á brýn, að hann væri auðvitað erindreki auðvaldsins í hinu landinu. Hvað var sagt við Wilhelm Liebknecht og August Bebel 1871, þegar þeir í þýzka þinginu börðust á móti styrjöldinni? Auðvitað var sagt, að þeir væru erindrekar Frakka. Hvað var sagt um Jean Jaurez 1914, þegar hann sem foringi frönsku alþýðunnar þá barðist á móti þeirri stórveldastyrjöld, sem franska auðvaldið var að leggja út í? Auðvitað var sagt, að hann væri erindreki Þjóðverja, þýzka auðvaldsins — og myrtur á þeim grundvelli. Þetta eru röksemdir, sem hafa alltaf verið notaðar móti sósíalistum. Þetta er það, sem auðvaldinu hefur þótt þægilegast og eðlilega þægilegast, vegna þess að það hefur aldrei nokkurn tíma mátt né þorað að segja sannleikann í þessum efnum, að sósíalistarnir væru að berjast fyrir hagsmunum alþýðu síns eigin lands, á móti yfirstétt síns eigin lands. Þess vegna þykir yfirstéttinni hér á Íslandi, þeirri, sem var að selja Ísland undir Bandaríkin, heppilegast að nota slíkar röksemdir. En það er hart, að hv. 1. landsk. skuli taka undir þær, sérstaklega í því máli, sem hann er að tala um í dag. Hann segir, að auðvitað hljóti hinn hreini kommúnisti að vera á móti því að gera, hernámssamning eins og 1951. Má ég spyrja: Var hann hinn hreini kommúnisti, hv. 1. landsk., þegar hann stóð á móti því, þegar Keflavíkursamningurinn var gerður? Var hann hinn hreini kommúnisti, hv. 1. landsk., þegar hann barðist á móti því, að Atlantshafssamningurinn væri gerður? Og hvaða leyfi hefur hann að gera öðrum þær getsakir, sem hann ekki gerir sjálfum sér, þegar hann tekur sömu afstöðu?

Röksemdirnar fyrir því, að Ísland ætti ekki að ganga inn í Atlantshafsbandalagið, voru svo greinilegar og svo auðsæjar, að jafnvel hv. 1. landsk. sá þær, þó að hann hefði ekki þrek í sér til þess að standa við þær áfram, að standa á móti því, að hernámssamningurinn, sem var takmarkið, sem Bandaríkin stefndu að með öllum þeim samningum, sem voru þá gerðir á Íslandi, væri gerður líka. Við vissum það ósköp vel allir saman, við sem börðumst saman á móti Atlantshafssamningnum, að það var ekki þar um það að ræða, að Ísland væri að ganga í eitthvert varnarbandalag, — að það væri ekki um það að ræða, að við værum að tryggja okkur einhverja vernd frá hálfu Atlantshafsríkjanna. Við vissum ósköp vel, hvað var að gerast. Við vissum, að það voru hagsmunir Bandaríkjanna, sem kröfðust þess, að þeir næðu tökum á Íslandi. Og við vitum ósköp vel, að hagsmunir Íslands hafa aldrei staðið í neinu sambandi við herstöðvar hér á Íslandi. Herstöðvar hér á Íslandi leiða fyrst og fremst þá hættu yfir okkur, að þjóðin verði drepin. Herstöðvar á Íslandi, það þýðir fyrst og fremst aðstöðu fyrir útlenda þjóð til þess að geta barizt héðan sem bezt, til þess að geta látið skella á Íslandi árásirnar, sem hún væri hrædd um að ella kynnu að skella á sér. Það þýðir að tefla Íslandi fram sem peði til þess að láta drepa það til að verja kónginn heima fyrir. Fyrir okkur Íslendinga hafa aðeins verið einir hagsmunir í sambandi við styrjöld — og það er að lifa af, það er að gera ráðstafanir til þess, að við gætum lifað eftir þá styrjöld. Og um það hefðu þeir valdhafar, sem hafa haft ábyrgðina á stjórn Íslands á undanförnum sex árum, gjarnan mátt hugsa, — mennirnir, sem hafa gert allar ráðstafanir til þess að drepa þjóðina.

Þá spurði hv. 1. landsk., hvort það væri virkilega tilætlunin hjá okkur, sem stæðum á móti þessum hernámssamningi og vildum, að Ísland væri hlutlaust, að við mundum neita um aðstöðu hér eins og seinast, 1941, og sagði, að slíkt mundu þjóðir eins og Bretland og Bandaríkin, ef þær ættu þá saman í stríði, telja beinan fjandskap. Ég álít tvímælalaust, að þótt til styrjaldar kæmi, þá væri það langskásta aðstaðan fyrir Ísland að halda áfram að vera hlutlaust, meira að segja þó að það væri hersetið, og látum Bretland og Bandaríkin um það að ætla að telja þjóð, sem lýsir sig hlutlausa, í fjandskap við sig. Það er þá ný túlkun á alþjóðarétti, sem aldrei hefur þekkzt hingað til og mundi aldrei nokkurn tíma verða viðurkennd í neinum samningum, sem fram færu eftir stríð. Ísland var hlutlaust seinast, og Ísland mótmælti hernámi Breta, og ég veit ekki til þess, að það hafi verið skoðað sem fjandskapur. Það hefur verið skoðað sem eðlileg sjálfsvörn. Svo framarlega sem okkar hlutleysi, ef það væri, yrði ekki virt, þá er það þó miklu betra að vera hernuminn heldur en að vera virkur þátttakandi í styrjöld. Hvað þýðir það, sem gert hefur verið í Atlantshafsbandalaginu, svo framarlega sem Atlantshafsbandalagið yrði látið koma til framkvæmda, ef til styrjaldar kæmi? Það þýðir að gera Ísland að virkum aðila í styrjöld. Það þýðir að setja á Ísland ábyrgð af því öllu, sem þessi bandalög gera í viðkomandi styrjöld. Það þýðir að velta á Ísland öllum afleiðingunum af því, að slíkir bandamenn eins og Bretland og Bandaríkin eða kannske bara Bandaríkin ein mundu máske tapa í slíkri styrjöld. Það þýðir að gera Ísland að sakaraðila í slíku sambandi, að setja þá sök á Ísland, að það eigi sök á slíkri styrjöld með Bandaríkjunum. Og við höfum margrakið það hér áður, þó að hv. þingmenn stjórnarflokkanna, fyrri og seinni stjórnarflokka, hafi gert lítið með það, — við höfum margrakið það, hvað það mundi þýða að láta Ísland komast í aðstöðu yfirunninnar þjóðar, sem hefur tekið þátt í því með Bandaríkjunum að hefja árásir á aðrar þjóðir. Þá vitum við, hvað bíður slíkra landa, sérstaklega svo framarlega sem sú aðstaða, sem þau hafa veitt, verður til þess að valda ægilegum skelfingum hjá öðrum þjóðum. Við sjáum enn þá ríki eins og Austurríki, sem búa við slíkt að hafa lent inn í slíkri ógæfu, þó að stór hluti þjóðarinnar væri á móti. Og við skulum alveg gera okkur ljósa þá hreinu lögfræðilegu og samningslegu ábyrgð, sem við tökum af því að fleka Ísland inn í bandalag eins og Atlantshafsbandalagið.

En þá minntist hv. 1. landsk. á þá möguleika: Ef nú okkar hlutleysi væri virt í styrjöld. Ja, mér fannst honum bara helzt finnast það eitthvað voðalegt. Ég sé nú ekki betur en það væri þó það langsamlega skásta, sem fyrir okkur gæti komið í styrjöld, ef slíkt hlutleysi væri virt. Við skulum segja, að Bretland og Bandaríkin settu verzlunarbann á okkur í slíkri styrjöld, og mér heyrist nú nokkurn veginn, að spursmálið um verzlun sé einmitt það eina, sem allt eigi að miðast við. Ég held, að hv. 1. landsk. og því miður flestallir þm., sem um þessi mál tala, tali eins og þeir hafi ekki hugmynd um, hvað stríð er. Þeir hafa aldrei nokkurn tíma upplifað það sjálfir að vera mitt í styrjöld, vera daglega þar, sem sprengjurnar falla, sjá allt brennandi í kringum sig, vita ekki, á hvaða sekúndu þeir kunna sjálfir að farast. Þeir hafa ekki upplifað það, sem okkar togarasjómenn upplifðu á styrjaldarárunum, og þeir hafa sízt af öllu upplifað það, sem þjóðirnar á meginlandi Evrópu upplifðu í sambandi við styrjöldina síðustu. Þess vegna er talað svona gáleysislega um það og breytt enn þá gáleysislegar, þegar verið er að tala um styrjöld og hernaðarbandalög. Þess vegna er búið að fleka okkur inn í styrjaldarbandalag, árásarstyrjaldarbandalag, með eintómum áróðri og lygum, af því að okkar þjóð hefur, mér liggur við að segja til allrar hamingju, ekki fengið að kenna á því, hvað styrjöld er, nema örfáir af okkar mönnum, sem hafa staðið í siglingunum og þvílíku. Nei, ef okkar hlutleysi í styrjöld væri virt, jafnvel þó að við yrðum að lifa eins og okkar forfeður hafa lifað, jafnvel við sult og seyru, undir meira eða minna verzlunarbanni, þá væri það stórkostleg hamingja móts við það að vera skotmark í nútímastyrjöld.

Ég held, að þeir menn, sem nú eru farnir að sjá að sér, sem nú eru farnir að átta sig á því, hvers konar glapræði þeir gerðu 1951, þegar þeir báðu um ameríska herinn inn í landið, ættu að fara að segja þingheimi satt og hreint frá, hvernig stóð á því, að 43 íslenzkir þm. og þm. þar á meðal, sem stóðu á móti Atlantshafsbandalaginu, létu glepja sig út í þetta. Hvað var sagt við þessa menn? Hverju var logið að þeim? Á hverju voru þeir hræddir? Hvernig var grýlan máluð út fyrir þeim þá? Það hefur eitthvað þurft til að tryggja, að hv. þingmenn færu að brjóta stjórnarskrána, færu að brjóta sinn drengskapareið, færu að svíkjast aftan að þjóðinni, eins og gert var á fundunum í maí 1951. Það hefur eitthvað þurft til. Ég veit ósköp vel, að þessir menn hafa ekki horfið frá allri sinni fyrri stefnu án þess, að það hafi eitthvað verið lagt fyrir þá, sem þjóðin vissi ekki um enn þá. Hvað var þessum mönnum sagt? Hvernig stendur á því, að þessi samningur skuli hafa verið gerður 1951? Var þeim sagt, og trúðu þeir því kannske, að það væru rússnesk síldarskip hérna hringinn í kringum landið full af hermönnum til þess að ráðast á það? Voru það einhverjar svona bábiljur, sem tókst að telja þessum hv. þm. trú um? Hvað var það, sem olli því, að svona hlutur gat gerzt? Það þarf enginn að fara að segja mér, að það hafi verið Kóreustyrjöldin. Þessir hv. þm. tala núna um, að það líti friðvænlega út í heiminum, og það má þó víst eins búast við því, að Júgóslavía og Ítalía fari að berjast á morgun eða Arabaríkin og Ísrael. Og ég veit ekki betur en að stríðið haldi áfram í Indókína af fullum krafti. Ég held, að áfram haldi allar þessar styrjaldir, sem hafa verið síðustu 150 árin og verða líklega — því miður — það sem eftir er af þessari öld. Það þarf ekki að telja okkur hér trú um svona bábiljur. En það væri hins vegar æskilegt, að þessir hv. þm. skýrðu það, hvernig stendur á því, að þeir eru nú að falla frá því, sem þeir samþykktu þá.

En við vitum ósköp vel, hvað það var, sem olli því, að 1951 þótti Ameríkumönnum tækifæri til þess að knýja fram það, sem þeir höfðu ætlað sér allan tímann. Við vitum, að Keflavíkursamningurinn var að renna út; það voru liðin fimm ár. Við vitum, að átyllan, sem notuð var í sambandi við hann, var að verða nokkuð léleg: Þýzkalandsferðirnar. Við vitum, að Bandaríkin þóttust vera búin að ná nægilega miklum tökum á íslenzku ríkisstjórninni, vera búin að borga nógu mörg hundruð milljóna til íslenzku ríkisstj., til þess að það væri hægt að heimta andvirðið: hernaðarlegu yfirráðin yfir Íslandi. Ég held þess vegna, að það væri ákaflega fróðlegt fyrir okkur að fá upplýsingar um, hvað olli því, að beðið var um hernámið 1951, því að það er það hættulegasta, sem við nú stöndum frammi fyrir, og það er vitanlegt, að í þeim samningi eru líka ákvæði raunverulega, í 6. og 7. gr., til að binda Ameríkönunum herstöðvarnar hér áfram.

Svo er það viðvíkjandi rökunum, sem hv. 1. landsk. flutti fyrir því, að við yrðum að vera í bandalagi við Bandaríkin og við England. Það áttu að vera sameiginlegir hagsmunir af því að halda opinni sjóleið í styrjöld, sem kynni að koma. Ég á ákaflega bágt með að skilja, að það skuli allt í einu vera farið að beita svona röksemdum í þessu sambandi, svona geopólitískum röksemdum, eins og þeir hefðu nú kallað það kannske nazistarnir þýzku. Hvað þýðir þetta raunverulega, ef við ættum að vera tengdir bandalagi við ríki eins og Bandaríki Norður-Ameríku vegna sameiginlegra hagsmuna af því að halda opinni sjóleið í styrjöld, ef hún kynni að koma? Við vitum náttúrlega aldrei, hvenær slík styrjöld kynni að koma. Ef við ættum alltaf að vera við því búnir, þá þýðir það, að við þyrftum alltaf að hafa amerískan her hér. Eftir öllum þessum bábiljum, sem sagðar eru um þetta, mundi þetta þýða raunverulega ævarandi hersetu hérna. Það mundi þýða her hér til frambúðar, ef við gengjum út frá þessu sem röksemd. Enn fremur, ef við ættum að vera í bandalagi við einhverja þjóð eða eitthvert ríki bara vegna þess, að það liggur á svipuðum stað í heiminum og við og hefur sömu hagsmuni eins og við af því að halda opinni sjóleið í styrjöld, þá þýðir það, að við ættum að standa í bandalagi við slíkt ríki alveg án tillits til þess, hvaða stjórnarfyrirkomulag ríkir í því ríki. Við skulum segja t. d., að Bandaríkin verði fasistískt ríki, sem þau eru á góðri leið til, mjög góðri leið, mjög hraðri leið, með amerískum hraða, það ætti að þýða, eftir þessum röksemdum, að til þess að halda uppi opinni sjóleið með Bandaríkin sem sterkasta ríki á Atlantshafinu, þá ættum við að vera í bandalagi við fasistaríki. Við sjáum nú, að Bandaríkin hugsa þetta þannig sjálf. Þau eru nýbúin að gera bandalag við Spán, og það er alveg auðséð, að Spánn annars vegar og Ísland hins vegar eiga að vera armarnir, sem umlykja England og Frakkland, þau ríki, sem þyrfti að ráðast á, ef þau verða ekki þæg Bandaríkjunum, hvort sem þau væru borgaraleg eða sósíalistísk. Það er svo sem alveg auðséð, hvert þarna er verið að stefna, og það þarf ekki að hugsa langt fram í tímann til þess að sjá þann möguleika, að Repúblíkanaflokkurinn væri búinn að stíga nokkur skref áfram til hægri, dálítið lengra í McCarthyismanum. Bandalagið við Spán sýnir okkur, hvert þarna er verið að stefna, — argasta fasistaríki, sem til er á jörðinni. Og ég sé ekki heldur, að það hafi verið kvartað mikið yfir því bandalagi af þeim, sem hafa flekað Ísland inn í bandalag við Bandaríkin. Með þessari röksemd má þess vegna alveg eins færa rökin fyrir því, að við ættum að standa í bandalagi við fasistaríki eins og lýðræðisríki. Nei, það er ekki þessi rök, sem þarna hafa valdið. Þessi rök hjá hv. 1. landsk. þm. eru teoría, sem fundin er upp eftir á til þess að verja málstað, sem hann getur ekki varið fyrir sjálfum sér, af því að það er málstaður, sem ekki var málstaður hans, en hann af ógæfu hefur flekazt út í.

Hv. 1. landsk. talaði mjög rétt og mjög rækilega, og það er alveg greinilegt, að hann er sjálfur að reyna að komast inn á þá stefnu, sem hann áður hafði, fyrir 1951, um bábiljurnar í sambandi við árásarhættuna úr austri. En hann kveinkaði sér við að minnast á hitt, sem er staðreynd, sem við fáum að þreifa svo áþreifanlega á núna, og það er, að árásin úr vestri er hafin. Innrásarherinn úr vestri er kominn inn í landið. Menn kveinka sér við að nefna Bandaríkin og þeirra pólitík gagnvart Íslendingum þeim nöfnum, sem eru rétt og sönn um það. Það er einn ferill af yfirgangi og svikum gagnvart Íslandi þessi síðustu tólf ár, sem við höfum haft afskipti af Bandaríkjastjórn. Það er imperíalismi Bandaríkjanna, sem hefur komið í ljós í því að vilja ná fjárhagslegum tökum á Íslandi og skapa sér hernaðarbækistöðvar á Íslandi. Og það er þetta, sem hefur verið að gerast þessi tólf ár.

Ég held, að það, sem við verðum að gera okkur ljóst, sé, hvernig þessi Bandaríki hafa verið að fara með Ísland. Þau kúskuðu Bretland til þess að afhenda sér Ísland 1941. Bréf brezku ríkisstjórnarinnar til íslenzku ríkisstj. þá voru login yfirlýsing. Menn þurfa ekki annað en lesa ræðu Churchills í brezka þinginu 9. júlí 1941 til þess að sjá þar annað, sem hann segir við brezka þingið, heldur en það, sem hann lét sinn konsúl hér á Íslandi tilkynna íslenzku ríkisstj. þá. Það var tilkynnt Íslandi þá, að Bretar þyrftu að fara héðan burt með sinn her. Það var notað sem átylla til þess að kúska fram beiðni héðan á yfirborðinu, beiðni, sem raunverulega var gerð eftir úrslitakostum, um, að Bandaríkin tækju að sér hernám Íslands. Í ræðu sinni í brezka þinginu í júlí 1941 sagði Churchill, að Bretar gætu því miður ekkert að því gert, þó að Bandaríkin væru komin inn á Ísland, það hefði verið gert eftir beiðni íslenzku ríkisstj. sjálfrar. Það voru Bandaríkin, sem voru að kúska Bretland til þess að láta af hendi Ísland sem skiptimynt, á sama hátt og herstöðvarnar í nýlendum Breta í Vesturheimi voru þá leigðar Bandaríkjunum til 99 ára.

Síðan ætluðu Bandaríkin sjálf eftir styrjöldina að sjá um það að halda sinni hersetu hér áfram. Við munum ósköp vel, hvaða tangarhald var notað þá. Fyrst var gert áhlaup 1. okt. 1945 til þess að heimta herstöðvar til 99 ára. Það var árás Bandaríkjanna á Ísland. Það var að heimta íslenzkt land í heila öld undir sín yfirráð. Það kom greinilega fram, að hverju Bandaríkin stefndu. Þeirri árás var hrundið. Þá var samningurinn frá 1941 notaður sem tangarhald, samningurinn, sem var kúskaður fram með úrslitakostum, og það var sagt, að Bandaríkin mundu ekki fara héðan af Íslandi, því að þau skildu samninginn þannig, að þau mættu vera hér áfram, — nema því aðeins að Keflavíkursamningurinn væri gerður. Þannig var Keflavíkursamningurinn kúskaður fram með hótunum um að sitja hér annars í banni íslenzku þjóðarinnar. Og svona var haldið áfram. Þegar Keflavíkursamningurinn var að renna út, þá þóttust þeir með Marshallsamningnum og Atlantshafssamningnum vera búnir að binda Ísland nægilega vel til þess að geta þá flekað menn inn á hernámssamninginn 1951.

Svona hafa Bandaríkin verið að leggja undir sig Ísland. Og það er þetta, sem við eigum að þora að segja. Það, sem við stöndum þarna frammi fyrir, er barátta gegn yfirgangi Bandaríkjaauðvaldsins hér á Íslandi. Það er það raunhæfa í þessum málum: hernaðarlegur, efnahagslegur, fjárhagslegur yfirgangur þeirra, og stjórnmálalegur nú meira og meira. Það er nú komið svo, að ég býst við, að meira að segja Framsfl. mundi gjarnan segja þessum samningi upp. En hann fær það ekki, fær það ekki fyrir Bandaríkjunum. Það er ekki nein tilviljun, að þeir hv. framsóknarmenn, sem kölluðu herinn inn í landið, þora ekki að standa hér fyrir máli sínu. Þeir eru smám saman að sjá það meira og meira, í hvert óefni þeir eru búnir að koma þjóðinni. Mér þykir vænt um, að Alþfl. og ekki sízt einmitt þeir menn hans, sem stóðu með okkur í baráttunni móti Atlantshafssamningnum 1949, skuli vera búnir að sjá, hvað hér er að gerast. Og alveg án tillits til þess, sem kann að hafa greint á á undanförnum árum, og án tillits til þess, hvaða sök menn kunna að eiga sjálfir í því sambandi, þá er gefið, að eins og sakir standa nú, er það lífsnauðsyn fyrir íslenzku þjóðina, að hún losni við ameríska herinn af Íslandi. Frá því sjónarmiði að vernda líf þjóðarinnar, ef til styrjaldar kæmi, en þó sérstaklega frá því sjónarmiði að gera líf hennar hamingjusamt, á meðan friður er, þá er nauðsynlegt að losna við ameríska herinn af Íslandi. Hverju spori, sem stigið er í þá átt, ber þess vegna að fagna, hve skammt sem það er stigið. En höfuðatriðið er hitt, að þeir kraftar þjóðarinnar, sem sjá nú, í hverja hættu er komið, taki höndum saman um að knýja fram, að þessum samningi verði sagt upp, að knýja fram, að Alþingi og þjóðin sjálf ráði aftur í sínu landi, en ekki erlendur her og erlend ríkisstjórn.