04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í tilefni af þeim deilum, sem risið hafa hér um það, hvort Framkvæmdabankinn sé heppilegur til þess að taka við þeim störfum, sem honum eru ætluð eftir því frv., sem fyrir liggur, má geta þess, að eftir þeim umr., sem fram fóru hér á síðasta þingi um einmitt þennan Framkvæmdabanka, er greinilegt, að þar hafa þeir menn. sem nú standa að því að koma fjárfestingarmálunum undir hann, ekki reiknað með því, að hann hefði á hendi slík störf. Ég vil leyfa mér að vitna í þingtíðindi frá síðasta ári, 1952, þar sem Bernharð Stefánsson, hv. 1. þm. Eyf., kemst að orði um Framkvæmdabankann á þessa leið:

„Í þessu sambandi má benda á, að bankanum er ætlað að vera í sambandi við Landsbankann, þannig að Landsbankinn annast afgreiðslu og bókhald fyrir hann. Sýnir það m.a. sérstöðu hans.“

Og með leyfi hæstv. forseta vil ég einnig vitna í ummæli hæstv. núverandi fjmrh., Eysteins Jónssonar, þar sem hann segir um þessa sömu stofnun :

„Til þess á hinn bóginn að gera þessa stofnun sem allra ódýrasta, þá var tekið það ráð, að öll afgreiðslustörf stofnunarinnar, bókhaldsstörf, reikningsskil og öll afgreiðslustörf yfirleitt skuli framkvæmd af Landsbankanum.“

Ég læt þetta nægja til þess að sýna fram á það, að það er í alla staði óeðlilegt, að Framkvæmdabankanum verði falin þau störf, sem í frv. er gert ráð fyrir að undir hann verði lögð, enda hef ég gert að till. minni, að sú grein frv., sem fjallar um aðild Framkvæmdabankans, verði felld niður.

En þá vil ég leyfa mér að snúa aðeins máli mínu til hæstv. viðskmrh. Það er vegna brtt. minnar um það, að útflutningur verði einnig gefinn frjáls á sama hátt a.m.k. og gert er ráð fyrir að innflutningurinn verði gefinn frjáls, eða þó í öllu ríkari mæli, þar sem aðeins sé skilin eftir heimild fyrir ríkisstj. til þess að hafa hönd í bagga um þennan útflutning að því markmiði að uppfylla milliríkjasamninga og til þess að koma í veg fyrir, að undirboð verði á milli íslenzkra aðila á erlendum markaði. Þessari till. minni hefur ráðh. tvívegis svarað á þá leið, að hún sé óþörf, útflutningurinn sé í eins góðra manna höndum og á verði kosið. Og hann tilnefnir réttilega, að þeir aðilar, sem einkum hafa með útflutninginn að gera, eru Samband ísl. fiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga, og hann tilgreinir það einnig réttilega, að þessir aðilar hafa með sér samtök og haga útflutningnum á þann hátt, sem þeir telja beztan.

En þeir telja ekki útflutninginn beztan á þann hátt, sem hann er beztur fyrir íslenzka þjóðarhagsmuni. Ég vil upplýsa ráðherrann um það, að hversu ánægðir sem forkólfar S.Í.F., Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og S.Í.S. kunna að vera með þessa ráðstöfun, þá er það samt sem áður staðreynd, að íslenzkir útvegsmenn, og íslenzkir sjómenn þó allra frekast, fá langtum lægra verð fyrir sinn fisk heldur en nágrannaþjóðir okkar, eins og t.d. Norðmenn.

Verðmæti það, sem sjávarútvegurinn gefur af sér, er, eins og allir vita, sá nægtabrunnur, sem öll eða næstum öll utanríkisverzlunin byggist á, en í henni er spillingin í algleymingi. Ríkið hefur afhent fáeinum gæðingum sínum, eins og ráðh. réttilega tilgreindi, einkaleyfi til sölu á sjávarafurðum. Annað slagið hefur komizt upp um stórgróða milliliða í þessari verzlun. Enginn Íslendingur efast um það, að í gegnum afurðasöluna er útgerðin rænd gífurlegum upphæðum, og gleggsta dæmið um það er samanburður á fiskverði til sjómanna í Noregi og hér á s.l. vertíð. Íslenzkir fiskimenn fengu 1.37 kr. fyrir kg af hausuðum og slægðum þorski beztu tegundar, en Norðmenn fengu, miðað við ísl. krónur, 1.60–2.06 fyrir kg af sambærilegum fiski, og trúi því svo hver sem vill, að norskir fiskkaupendur bjóði svo upp verðið á fiskí, að þeir skaðist á kaupunum. Norska fiskverðið hefði gefið 30 þús. kr. hásetahlut, þar sem íslenzka verðið gefur 22 þús. kr. Og miðað við norska meðalverðið er því augljóst, að 27 fiskar af hverjum 100, sem á land eru dregnir alls hérlendis, eru alls ekki greiddir. Þeir eru hlutur söluokraranna. Það er þungur ómagi, sem sjómenn og útvegsmenn hafa þannig á framfæri sínu, þar sem eru þessir vildarvinir ríkisstj., sem nú eru margmennir. — Í fáum orðum sagt: Sjávarútvegurinn er tröllriðinn af milliliðaokrurunum, sem stinga í sína hít ótöldum milljónum af aflaverðmætum, og verðið, sem greitt er fyrir fiskinn, er miklum mun lægra en efni standa til. Því veldur fyrst og fremst gegndarlaus fjárgræðgi þessara söluokrara, fjárplógsstarfsemi þessara útvöldu vildarvina ríkisstj., sem jafnt með löghelguðum og glæpsamlegum starfsaðferðum draga sér fjárfúlgur af óbreyttum útgerðarmönnum og sjómönnum, að mestur hluti sjávarútvegsins er nú reikningslega á vonarvöl, þótt hann sé í rauninni máttarstoð þjóðarbúskaparins.

En ríkisstj. svarar því einn til, þegar lagt er til, að útflutningurinn verði frjáls, að S.Í.F., S.H. og S.Í.S., þ.e. okraraklíkurnar, sem svelgja í sig endurgjaldslaust 27 fiska af hverjum 100, sem dregnir eru á land, séu ánægð og þar með sé allt raunverulegt útflutningsfrelsi ekki einasta ónauðsynlegt, heldur beinlínis skaðlegt. Það er þessi skoðun hæstv. viðskmrh., sem ég vil eindregið mótmæla og spyrja hann um það, ef það skyldi nú vera skakkt hjá mér, að það séu milliliðaokrararnir í útflutningsverzluninni, sem svelgja þessa 27 fiska, sem Íslendingar fá ekki borgaða af hverjum 100, miðað við verðlag í Noregi, hvort hann álíti, að það séu einhverjir aðrir aðilar, sem hirða þá, heldur en útflutningshringarnir. Geti hann bent mér á, að ég fari hér með rangt mál og að þessi verðmismunur liggi í einhverju öðru, þá skal ég gjarnan taka við þeim upplýsingum hans. En meðan hann ekki sannar mér það, að hér sé farið heiðarlega að í útflutningsverzluninni, þá vil ég eindregið skora á hann og þá, sem beita sér gegn því, að útflutningur á sjávarafurðum verði gefinn frjálsari en hann er, að standa ekki í vegi fyrir samþykkt tillögu minnar.