28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (3071)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. (HG) sagði hér nokkur orð og vék þar m. a. að Sósfl. og hans afstöðu og því, sem fram hefði komið af hálfu tveggja þm. hans um þessa þáltill., sem hér liggur fyrir.

Mér sýndist nú raunverulega eða heyrðist ræða hv. 4. þm. Reykv. fyrst og fremst vera haldin til þess að reyna að draga fjöður yfir, að Alþfl. væri nú að reisa sig upp á móti hernáminu og jafnvel Atlantshafsbandalaginu. Hann vildi gera sem minnst úr því, að flokkurinn væri farinn að sjá, að hér yrði nú að breyta um stefnu frá því, sem var 1949 og 1951, og sjá það réttilega, og að hv. 4. þm. Reykv. vildi svona með öllum sínum diplómatísku hæfileikum láta sem minnst á því bera, að þarna væri nú raunverulega nokkur breyting á ferðinni, en þessi till. væri nú ósköp sakleysisleg. Hann hefði nú raunverulega átt að segja eitthvað dálítið meira um það til þess að reyna að fá sína gömlu samherja í Framsókn og Sjálfstfl. til þess að komast á þá sömu skoðun, að það væri nú alveg óhætt fyrir þá að samþykkja þessa till. Hins vegar kaus hann heldur að hafa hina aðferðina, að víkja dálítið að þeim, sem hafa verið andstæðastir Atlantshafssamningnum og hernáminu, og þess vegna verð ég nú ofur lítið að ræða víð hann um þau mál. Ég verð að segja. að ef þessar fögru vonir, sem hann virtist nú hafa um, að Framsfl. og Sjálfstfl. sem gamlir samherjar hans gætu nú gengið inn á þessa till., — ef hann hefði nú haft einhverjar ríkari vonir um það, þá hefði það gjarnan mátt koma betur fram, — það væri ákaflega gott, ef þær styddust við eitthvað, en ég er hræddur um, eins og ég mun nú koma að síðar, að því miður sé svo ekki. En það voru nokkur atriði í ræðu hv. þm., sem ég vildi sumpart ræða við hann og sumpart fá dálítið betri upplýsingar um.

Hann sagði, að 1951 hefði Alþfl. gengið inn á það að kalla hernámið yfir landið, að hleypa hér amerískum her inn í landið án þess að kalla saman Alþ., brjóta þar með stjskr. og skapa það hættuástand, sem nú ríkir í landinu, — það hefði verið gert vegna yfirvofandi hernaðarhættu. Má ég spyrja, — það er oft búið að spyrja að því hér á Alþ., en það hafa aldrei nokkurn tíma fengizt neinar upplýsingar um það frá hálfu þeirra, sem herinn kölluðu inn, hver var þessi yfirvofandi hernaðarhætta? Hver var þessi yfirvofandi hernaðarhætta 7. maí 1951, sem gerði það .að verkum, að það var nauðsynlegt að fá amerískt herlið inn í landið? Það hefur enginn maður hér á Alþ. enn þá dirfzt að halda því fram, að það hafi verið stríðið í Kóreu, sem hafi verið sú hernaðarhætta, m. ö. o., vegna þess að það hafi verið barizt í Kóreu, þá hafi verið alveg óhjákvæmilegt að kalla amerískan her til Íslands. Og ég vil taka það fram, að svo framarlega sem það er einhver þm. hér inni, sem hefur þá skoðun, að vegna þess að barizt hafi verið í Kóreu í maí 1951, þá hafi verið nauðsynlegt að kalla amerískan her til Íslands, þá hlýtur sá hinn sami maður að hafa þá skoðun, að það verði — ja, svo lengi sem við getum yfirleitt séð fram í tímann nú — óhjákvæmilegt að hafa amerískan her á Íslandi. Ég þyki yfirleitt bjartsýnn maður, en ég er ekki svo bjartsýnn, að ég geri mér vonir um það, að það verði ekki, það sem eftir er af þessi öld, einhvers staðar í veröldinni barizt með vopnum. Það hefur verið svo alla 20. öldina, sem af er, og var svo alla 19. öldina, og mannkynið mætti þá breytast á mjög skjótum tíma mikið til góðs, ef hvergi nokkurs staðar yrði barizt í veröldinni allan þann tíma, og Kórea er þó a. m. k. eitt af þeim löndum, sem eru einna lengst frá okkur landfræðilega séð, þannig að ef stríð í Kóreu ætti að vera ástæða til þess að kalla amerískan her inn í Ísland, þá er viðbúið, að það yrði lengi full ástæða til þess að kalla amerískan her hingað. En enginn þeirra manna, sem eru ábyrgir fyrir því að hafa kallað ameríska herinn til Íslands, hefur treyst sér til þess nokkurn tíma hér á Alþ. að svara þessu atriði.

Ég spurði að öðru hér: Var það ef til vill vegna þess, að það voru rússnesk síldarskip í nánd við Ísland, sem ameríski herinn var kallaður í maí 1951? Ég hef ekki heldur fengið svar við því. Ef það er álitið, ef síldarskip eru hér einhvers staðar nærri Íslandi, að þá sé alltaf hernaðarhætta hérna á Íslandi, þá fer nú að verða líklega anzi lengi óhjákvæmilegt að kalla amerískan her til Íslands. — Hví í ósköpunum getur sú hæstv. ríkisstj., sem er ábyrg fyrir því ástandi, sem hér ríkir nú, ekki svarað þjóðinni um það, hvaða hernaðarhætta þetta hafi verið?

Hv. 4. þm. Reykv. kom svo inn á það, að það væri enn þá óvissa, það væri enn þá ekki hægt að aflétta þessu hernámi, vegna þess að enn þá væri hernaðarhætta. Má ég spyrja, hver hún er? Hér á fundi í neðri deild í gær flutti einn hv. þm. Alþfl. fyrirspurn til ríkisstj. og lýsti afstöðu Alþfl. — sem ég var mjög feginn að heyra — í sjálfstæðisbaráttu Túnisbúa. Ég býst við, að við gerum okkur flestir ljóst, sem sjálfir höfum á sínum tíma háð okkar sjálfstæðisbaráttu í margar aldir og háð hana lengi m. a. vegna þess, að við vorum afvopnaðir og gátum aldrei barizt með vopnum og höfðum ekki mátt til þess gagnvart Dönum, — ég býst við, að við gerum okkur ljóst, að ef þjóðum eins og íbúum í Túnis, Marokkó og fleiri slíkum nýlendum er neitað um sitt sjálfstæði, þá koma þessar þjóðir til með að taka það með vopnum, og það hefur hvað eftir annað legið við undanfarið, að það yrði uppreisn í Túnis og í Marokkó til þess að hrinda af sér oki frönsku nýlendukúgaranna, á sama hátt og það varð uppreisn í því ríki, sem nú er Bandaríkin, fyrir rúmum 175 árum til þess að hrinda af sér oki Englendinga og á sama hátt og það er uppreisn í Indókína í dag til þess að veita af sér oki Frakka og þannig barizt víðar í veröldinni til þess að létta af sér oki nýlendukúgaranna í Evrópu, — spurning, hvenær barizt verði í British Guiana til þess að útvega þeirri þjóð frelsi, barizt nú sem stendur í Kenya til þess að reyna að tryggja frelsi þeim mönnum, sem verið er að ræna þar sínu landi. Meðan kúgaðar nýlenduþjóðir eru til í heiminum, þá munu þær reyna að hrinda af sér oki nýlendukúgaranna í Atlantshafsbandalaginu, og á meðan Ísland er bundið í Atlantshafsbandalaginu, þá er hægt að túlka hverja slíka uppreisn nýlenduþjóðanna sem árás á Atlantshafsbandalagið, enda tala Frakkar djarft um það nú, að þeir þurfi að fara að fá hjálp til þess að halda niðri íbúunum í Víetnam. Og kannske fara þeir að heimta hjálp Íslendinga sem eins aðilans í Atlantshafsbandalaginu til þess að halda niðri frelsisbaráttu íbúanna í Túnis og Marokkó. Meðan sú óvissa ríkir í veröldinni, að þessar þjóðir heimti frelsi, á þá amerískur her að vera á Íslandi? Er það meiningin? Ég er hræddur um, að þeir menn, sem tala hér allfreklega um óvissuna í alþjóðamálum, ættu að gera sér það fullkomlega ljóst, hvað þeir eru að segja. Það er ekki til neins með öðru orðinu að segja: Ég er með því, að Túnisbúar rísi upp og reki Frakka af höndum sér, — og með hinu orðinu: Ég vil hér amerískan her á Íslandi, svo lengi sem nokkur hætta er á því, að nokkur kúgaður maður í Túnis eða annars staðar fari að reisa sig upp á móti nýlenduríkjunum í Evrópu. — Þetta væri gott að fá upplýst, og fyrst hv. 4. þm. Reykv. er nú svo kurteis við þingheim að vera sá eini, sem ræðir þetta mál úr hópi þessara gömlu, sem samþ. Atlantshafsbandalagið 1949, því að hvorugur flm. þessarar till. er úr hópi þeirra, þá væri ákaflega æskilegt að fá nánari upplýsingar um þessa hluti frá honum. Hvað finnst honum, að hersetan á Íslandi þurfi að vera lengi, hver álítur hann að hafi verið hernaðarhættan, sem olli því, að hernema varð Ísland 1951, og hvað álítur hann að þurfi til, að slíkri hernaðarhættu sé lokið?

Þá minntist hv. 4. þm. Reykv. á skaðsamlega starfsemi okkar sósíalista. Hún átti að vera í því fólgin, að við hefðum verið að ófrægja setuliðið, og ég býst við, að það, sem honum hafi alveg sérstaklega runnið til rifja í sambandi við þessa starfsemi, hafi verið það, að flokksbróðir hans í Danmörku, Hans Hedtoft, lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar, að hernámsástandið hér á Íslandi væri svo slæmt, reynsla Íslendinga af hernámi Bandaríkjamanna væri svo raunaleg, að það ylli því, að danski Sósíaldemókrataflokkurinn tæki afstöðu á móti því að veita Bandaríkjamönnum herstöðvar í Danmörku. Ég býst við, að þessi stefnubreyting hjá Hans Hedtoft og danska Sósíaldemókrataflokknum sé afleiðing af því, hvernig hernámið á Íslandi hefur verið ófrægt, svo að ég noti orð hv. 4. þm. Reykv. Það, að við höfum sagt sannleikann um hernámið hérna, það, að við höfum vægðarlaust afhjúpað öll hneykslin í sambandi við það, það, að við höfum ekki legið á liði okkar að láta menn vita af því erlendis, m. a. okkar frændþjóðir á Norðurlöndum, hvað þær ættu í vændum, svo framarlega sem amerískt herlið settist að hjá þeim, hefur orðið til þess, að meira að segja danski Sósíaldemókrataflokkurinn hefur lært af því víti, sem hér hefur orðið á Íslandi til varnaðar fyrir Norðurlandaþjóðirnar. Ég efast ekki um, að hv. 4. þm. Reykv. hafi reynt að segja sósíaldemókrötunum í Danmörku sannleikann um ástandið hérna. Ég býst við, að hann hafi reynt að frægja amerísku hermennina hérna á Íslandi, hann hafi reynt að sjá um, að þeir fengju að njóta sannmælis. Ég veit ekki betur en að sjálfur fyrrverandi formaður flokksins hafi nýlega verið á Norðurlöndum að tala við sína flokksbræður þar, og ég efast ekki um, að sá ákveðni áhangandi Atlantshafsbandalagsins og einn frumkvöðullinn að því, að við Íslendingar gengum í það, hafi reynt á allan hátt að telja sínum dönsku flokksbræðrum trú um, að þetta væri fyrirmyndarástand, sem skapaðist á Íslandi við það að fá þessa blessuðu amerísku vini okkar hingað upp. En mér sýnist honum bara hafa gengið það bölvanlega. Ég sé ekki betur en að Hans Hedtoft og danski Sósíaldemókrataflokkurinn trúi betur þeirri skaðlegu starfsemi kommúnista, eins og hv. 4. þm. Reykv. orðar það, trúi betur því, hvernig við höfum verið að ófrægja varnarliðið, eins og hann orðar það, heldur er öllum sannleikanum, sem Stefán Jóhann segir niðri í Danmörku. Með öðrum orðum, staðreyndirnar um framkomu Ameríkana á Íslandi blasa svo við, að meira að segja danskir sósíaldemókratar geta ekki lokað augunum fyrir því, og þá held ég nú, að hægri armurinn í Alþfl. ætti að fara að hætta að loka augunum fyrir því líka.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að við hefðum verið að brigzla Bandaríkjunum um kúgun og ofbeldi. Við skulum athuga, hvort það eru staðreyndir eða hvort það eru brigzl, sem við höfum verið að segja. Ég býst við, að hann hafi kannske að sumu leyti átt við það, sem ég hef minnzt á hér í umr. um þetta mál og minnzt á stundum áður. Ég vil þá leyfa mér að spyrja í fyrsta lagi: Var það kúgun og ofbeldi hjá Bandaríkjunum og Bretum í júnílok 1941, þegar hernámssamningurinn svokallaði var gerður? Hv. l. þm. Reykv. veit eins vel og ég, að sá samningur var settur þannig á, að það voru gefnir 24 klst. úrslitakostir fyrir ríkisstj. Íslands 24. júní, á þeim tíma átti hún að samþ. þennan samning, annars yrði gripið til annarra ráðstafana. Var það ekki kúgun og ofbeldi? Alþ. var síðan kallað saman 9. júlí og samningurinn sem gerð staðreynd lagður fyrir Alþ. Sama dag steig ameríski herinn hér á land, og með ameríska herinn hér í Reykjavík var Alþ. látið samþ. hernámssamninginn. Var það kúgun og ofbeldi að setja vopnað lið annarrar þjóðar á land og leggja, eftir að hafa sett ríkisstj. þessa lands 24 klst. úrslitakosti, fyrir Alþ. samþ. þetta? Þm. þáverandi stjórnar hafa borið vott um það í þingtíðindunum, hvernig sá samningur var gerður. Þáverandi þm. Ak., Sigurður Hlíðar, lýsti því yfir í grg. fyrir atkv. sínu þá, að hann væri á móti þessum samningi og hann hefði komið hingað inn og verið á móti þessum samningi og ákveðið að greiða atkv. á móti honum, en hann sæi, að þessi ríki, sem þarna ættu í hlut, hefðu líf okkar í sínum höndum og þau gætu drepið okkur, ef þau vildu, og af því að hnífurinn væri á hálsinum á honum, þá ákvæði hann þess vegna að hætta við það, sem hann hefði ætlað sér: að greiða atkv. á móti samningnum — og mundi annaðhvort sitja hjá eða jafnvel greiða atkv. með honum. Það var ekkert verið að draga úr því, hvað verið væri að gerast þarna. Það var hrein kúgun og ofbeldi, sem haft var í frammi. Og þessi kúgun og ofbeldi voru svo ber, að Churchill treystist ekki til þess að segja brezka þinginu satt um aðfarirnar við Íslendinga. Ég hef hér áður vitnað í hans ræðu 9. júlí í brezka þinginu, og hv. þm. vita það allir saman, ekki sízt þeir, sem þá voru hér, hvernig málin voru lögð fyrir okkur Íslendinga af Bretum. Bretar skrifuðu þá ríkisstjórninni í gegnum sinn konsúl hér, að þeir mundu flytja allt sitt herlið hér af landi burt og þeir álitu, að landið ætti ekki að vera varnarlaust og þess vegna ætti Ísland að biðja um hervernd Bandaríkjanna. Og um það voru settir úrslitakostir. Þetta var það, sem sagt var við Íslendinga. Þetta var aðferðin, sem höfð var til þess að kúska íslenzku ríkisstj. til þess að láta undan. Hvað sagði Churchill við Breta í brezka þinginu? Hann sagði, að Bretar gætu ekkert haft á móti þessu, að Ameríkanarnir höfðu tekið Ísland. Þeir gætu ekkert við því sagt, því að íslenzka ríkisstj. hefði beðið Ameríkanana um það að koma inn. Hins vegar mundu Bretar halda sínum her áfram á Íslandi. Þetta sagði Churchill hálfum mánuði eftir að hann hafði látið skrifa íslenzku ríkisstj. og tilkynnt, að hann flytti allan herinn burt og þess vegna yrðu Íslendingar að biðja um vernd; sem sé, með hreinum lygum gagnvart Íslendingum og gagnvart Bretum var þessi kúgun og ofbeldi dulið. Við skulum þess vegna ekkert vera að nota hér stór orð. hv. 4. þm. Reykv., um þessi atriði. Þessar staðreyndir liggja fyrir, og ég skal, ef einhver væri að bera á móti þessu, koma með ræðu Churchills hérna.

Þá kemur næst 1945. Var þar búið við ofbeldi af hálfu Bandaríkjanna? Bandaríkin voru búin með þessum samningi, sem þau höfðu kúskað í gegn 1941, að skuldbinda sig til þess að fara burt héðan af Íslandi strax í stríðslok. Og allir íslenzkir alþm. og íslenzka ríkisstj. þá og öll utanrmn. voru sammála um skilninginn á þeim varnarsamningi. En Bandaríkjamenn tilkynntu bara, að þeir legðu annan skilning í samninginn, þeir gætu haft herinn hérna eins lengi og þeir vildu. Og meðan herinn er hér enn þá eftir stríðslokin, í maí og ágúst 1945, hvað gerist þá? Þá segja Bandaríkin við okkur, að þau vilji fá hér þrjár herstöðvar til 99 ára, þau vilji fá hér afhenta þrjá hluta af íslenzku landsvæði, svæði í kringum Keflavíkurflugvöll, svæði í kringum Skerjafjörð og svæði við Hvalfjörð, til algerra yfirráða til að útbúa þar hernaðarmannvirki. Það átti að verða amerískt land í næstu 99 ár, sem Íslendingar hefðu ekkert með að gera. Þessi krafa Bandaríkjanna um þessar herstöðvar til 99 ára hér á Íslandi, gerð meðan Ameríkanarnir hafa hér her enn þá í landinu og meðan þess vegna er raunverulega ekki hægt að ætlast til þess, að Íslendingar geti að öllu leyti talað af fullri djörfung við Bandaríkjamenn, — þessi krafa er kúgun og ofbeldi gagnvart smáþjóð, og það var ósvífni af Bandaríkjunum að bera þessa kröfu fram. Bandaríkin munu hafa borið þessa kröfu fram vegna þess, að þau ætluðust til þess, að það yrði gengið að henni. Þau höfðu sinn her hér í landinu, þau höfðu hér byssustingina í kringum okkur, og þau sögðu: Við viljum fá þrjú landsvæði í 99 ár.

Ég veit, að hv. fulltrúar hernámsflokkanna hér á Alþ. fást sjaldan til þess að tala um þessa kröfu Bandaríkjanna, því að hún sviptir grímunni af þeim. Bandaríkin voru þá ekki komin það langt í hræsninni, að þau væru búin að yfirtaka öll slagorð Hitlers um baráttuna gegn kommúnismanum, alveg búin að gera bandalag við Spán, Japan og stóriðjuhöldana í Þýzkalandi, bandalag við alla þá aðila, sem stjórnuðu Þýzkalandi og fasistaríkjunum yfirleitt í heimsstyrjöldinni síðustu. Bandaríkin voru þá ekki búin að útvega sér neitt yfirvarp, ekki neitt svokallað lýðræðisyfirvarp, ekki neitt frjálsra þjóða yfirvarp yfir sína beinu kúgunarstarfsemi. Þá áttu Íslendingar að fá að kenna á því, að bandarískur her væri hérna, og Bandaríkin héldu, að þau hefðu náð nógu miklum tökum á okkur til þess að fá þessari kröfu framgengt, og þess vegna gerðu þau hana. Sósfl. tilkynnti þá, að hann færi úr ríkisstj., ef gengið yrði að þessari kröfu. Og það voru kosningar framundan 1946, og það þótti ekki hentugt að ganga að þeirri kröfu þá.

Það, sem síðan hefur verið að gerast á Íslandi, er, að Bandaríkin hafa verið að reyna að ná slíkum tökum á flokkunum og þjóðinni, að þau gætu fengið þessu framgengt. Þau hafa ekki fengið því öllu framgengt enn. En þau stefna enn að þessu marki, sem þau ætluðu sér að ná í einum áfanga þá, en misheppnaðist vegna þess, að við sósíalistar stóðum á móti þessari kúgun og ofbeldi, sem Bandaríkin þá ætluðu að beita okkur.

Í þriðja lagi, hv. 4. þm. Reykv., hvernig var það 1946, þegar Keflavíkursamningurinn var gerður? Hvað sögðu Bandaríkin þá við okkur Íslendinga? Þau sögðu: Við skulum fella niður hernámssamninginn frá 1941 gegn því, að við fáum Keflavíkurflugvöllinn til umráða. Ef þið hins vegar gangið ekki inn á að láta okkur fá Keflavíkurflugvöllinn til umráða, þá munum við ekki fara með herinn burt af Íslandi. —Þetta var sú beina hótun Bandaríkjanna þá. M. ö. o.: Látið okkur fá Keflavíkurflugvöllinn, gerið Keflavíkursamninginn, þá förum við burt með herinn — þýddi nú raunverulega: þá setjum við hann í önnur föt. — En látum það vera. Þetta var það, sem lá fyrir þeim flokkum, sem þá samþykktu Keflavíkursamninginn, og var þeirra eina vörn fyrir því að samþykkja hann. Þeirra röksemdir í öllum umræðunum voru þessar: Með því að gera Keflavíkursamninginn fáum við Bandaríkjaherinn burt af Íslandi. — Hvað er þetta af hálfu Bandaríkjanna, að segja við þjóð, þegar þau hafa her sinn í landi hennar: Hér ætla ég að sitja með minn her áfram. Hér ætla ég sem sé að beita þig þeirri kúgun og ofbeldi að sitja með minn her áfram, nema því aðeins að þú gangir að þeim skilyrðum, sem ég set, Keflavíkursamningnum. — Þetta var kúgun og ofbeldi af hálfu Bandaríkjanna, ekkert annað.

1951, þegar hernámssamningurinn var gerður, — það var ekki hér í þingsölunum, það var hérna niðri í flokksherbergjunum, — mér er ekki kunnugt um, hvernig þeir þm., sem gerðu þann samning, voru látnir gera hann. Það gerðist með því móti, að það hefur enginn þeirra manna sagt frá því. Ég veit því ekki, hvort það hefur verið beitt kúgun eða ofbeldi. Ég veit ekki, hvers konar myndir hafa verið málaðar upp fyrir mönnum þá, hvers konar blekkingum hefur verið beitt. En hitt er mér alveg ljóst, að saga Bandaríkjanna og þeirra afskipta af Íslandi er ein óslitin saga af kúgun og ofbeldi, þar sem lygarnar og lygaáróðurinn síðan bættust ofan á.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um illmæli af okkar hálfu. Það hefur ekki verið sagt enn nema brot af því, sem þarf að segja um framferði Bandaríkjanna hér á Íslandi, og getur vel verið, að við förum að bæta meiru við það. Það er ef til vill kominn tími til þess, að Alþ. fari að athuga þær skoðananjósnir, sem ameríska sendiráðið uppi á Laufásvegi rekur hér í Reykjavík. Það er ef til vill tími til kominn, að það sé farið að athuga, hve margir Íslendingar eru í þjónustu Bandaríkjanna til þess að njósna um skoðanir manna hér. Það er ef til vill tími til kominn, að það sé farið að athuga það, samkv. hvaða heimild starfsmenn ameríska sendiráðsins leyfa sér að spyrja Íslendinga, sem koma þangað til þess að fá vegabréf, að því, hvernig þeir hafi kosið í síðustu kosningum. Það er ef til vill tími kominn til þess, að það sé farið að setja einhverjar hömlur við, hvernig ameríska sendiráðið slettir sér fram í íslenzk innanríkismál. Og það er ekki nóg með, að ameríska sendiráðið hér hafi þessi ólöglegu afskipti af íslenzkum innanríkismálum, án þess að ríkisstj. segi nokkurn skapaðan hlut við því, heldur er það meina að segja látið viðgangast á Keflavíkurflugvelli, að það séu beinar yfirheyrslur yfir íslenzkum verkamönnum, sem vinna þar, um hvaða stjórnmálaskoðanir þeir hafi. Ég lagði hér fyrir á Alþ. í fyrra beinar sannanir um lögbrot, sem ættu að gilda samningsuppsögn, ef hér væri ríkisstj., sem stæði á verði fyrir hagsmuni Íslands, þar sem íslenzkum verkamönnum og verkakonum er sagt upp með tilvitnun í ákveðin amerísk lög, sem einmitt snerta það, að viðkomandi menn hafi ákveðnar pólitískar skoðanir eða þeirra tengdafólk, sem er algert brot á ákvæðum varnarsamningsins sjálfs, sem fyrirskipa meira að segja Ameríkumönnum að hafa ekki skipti af stjórnmálum á Íslandi. Ég býst við, að hv. 4. þm. Reykv. vilji telja þetta illmæli. En þessar sannanir liggja hér fyrir, og ég hef lagt þær hér fyrir á Alþingi. Þessar skoðananjósnir, þessi skoðanakúgun, sem ameríska sendiráðið, ameríska herliðið, amerísku atvinnurekendurnir hérna eru látnir framkvæma, eru brot á öllum íslenzkum lögum og brot líka á sjálfum hernámssamningnum.

Það er ekki til neins að kvarta yfir illmæli og ófrægingu, á meðan allt það, sem við höfum sagt og lagt hér fram um afskipti Ameríkana af málum okkar Íslendinga, er þannig, að það eru í fyrsta lagi staðreyndir og í öðru lagi það leiðar staðreyndir, að öllum íslendingum. sem kynnast þeim, svíður undan þeim og þeim frændum okkar á Norðurlöndum, sem hingað koma, ógnar, hvernig komið sé. Menn þurfa ekki annað en tala við Dani eða Svía, sem hafa farið hérna um Keflavíkurflugvöllinn og séð, hvernig ástandið er.

Þá kom hv. 4. þm. Reykv. að því, að tilgangurinn með þessari þáltill. Alþfl. væri nú alls ekki sá að segja upp samningnum, þetta væri bara endurskoðun, og hann efaðist ekki um, að þessu yrði vel tekið af hálfu Bandaríkjanna. Og hv. 4. þm. Reykv. vildi leggja mjög mikla áherzlu á þetta, það væri nú eitthvað annað en að þeir, gamlir Atlantshafsbandalagsbrautryðjendur eins og hann, væru nú að hugsa sér að fara að segja upp hernámssamningnum. Má ég nú spyrja hv. 4. þm. Reykv.: Á hvern hátt hugsar hann sér að fá í gegn þessar breytingar á samningnum, sem felast í till. Alþfl.? Það er aðeins ein aðferð, sem er til, til þess að fá þessa breytingu í gegn, svo framarlega sem Bandaríkin beygja sig ekki í hvert skipti, sem litla fingrinum er veifað hér á Alþ., og það er að segja samningnum upp. Mig langar til að fá upplýsingar hjá hv. 4. þm. Reykv. um, hvaða ástæðu hann hefur til þess að ætla, að þessari endurskoðun yrði vel tekið af Bandaríkjunum. Ég hef grun um, að hæstv. núverandi ríkisstj. hafi ef til vill í því almenna undanhaldi, sem nú á sér stað hér á Íslandi viðvíkjandi þessum málum, gjarnan hugsað sér að fá fram einhverja endurskoðun á núverandi hernámssamningi. Ég hef jafnvel grun um, að hún hafi verið að leita hófanna hjá Bandaríkjunum, hvernig þau tækju í slíkt. En ég er ákaflega hræddur um, að Bandaríkin hafi tekið allt slakt mjög óstinnt upp, þau hafi ekkert kært sig um að eiga það neitt á hættu, að farið væri að hrófla við þessum samningi. Ég er hræddur um, að reynsla ríkisstj. hafi einmitt orðið sú, að Bandaríkin vilji halda fast í höndina, sem þeim var rétt 1951, og þau muni alls ekki hafa hugsað sér að ganga inn á mikla endurskoðun á þessum samningi, t. d. að hægt væri að reka þá burt héðan með þriggja mánaða fyrirvara með einhliða samþykkt Alþ. og annað slíkt.

Svo framarlega sem Bandaríkin ekki tafarlaust beygja sig fyrir hverri ósk, sem hér kemur fram, þá er aðeins einn hlutur til. Það er að segja samningnum upp og láta síðan Bandaríkin vita það, að af hálfu þeirra, sem yfirleitt vilja aftur við þau semja, komi ekki til neinna mála, að það sé yfirleitt talað við þau upp á aðra skilmála en þá, sem Alþ. hefur lagt fyrir. Ef hins vegar Alþ. í samningum við Bandaríkin á að fara að taka slíka afstöðu, þá er eitt, sem er nauðsynlegt að þeir menn, sem eiga að semja fyrir Íslands hönd, geri sér ljóst, og það er, að þægðin er einvörðungu Bandaríkjanna og engra annarra, að ef menn eru að semja um þessa hluti, þá eru menn að gera það fyrir Bandaríkin og enga aðra. Það eru eingöngu þau, sem hafa óskað eftir herstöðvum á Íslandi. Og Íslendingum geta þessar herstöðvar aldrei flutt neitt annað en hættu á tortímingu. Eigi að knýja fram þess vegna þá endurskoðun, sem Alþfl. hérna talaði um, þá er það því aðeins hugsanlegt, að þannig væri haldið á af hálfu þeirrar ríkisstj., sem um það semdi, að hún léti í það skína við Bandaríkin, að Íslandi dytti ekki í hug að gera neinn samning við Bandaríkin, nema þau gengju að öllum þessum skilmálum, sem þarna væru settir. Ef það yrði látið í veðri vaka, eins og hér er alltaf verið að reyna að blekkja menn með, að þetta væri að einhverju leyti í þágu Íslendinga, að Íslendingar þyrftu að draga úr sínu öryggisleysi með því að heimta her inn í landið, með því að heimta her til þess að ráðast á sig, — ef þannig er haldið á málunum af hálfu Íslendinga, þá verður aldrei gert annað en að beygja sig fyrir öllu því, sem Bandaríkin vilja. Þá er ekki hægt að tala við þau. Ég held þess vegna, að hv. 4. þm. Reykv. ætti ekkert að vera að draga neina dul á það, að ef Alþfl. hugsar sér nokkurn skapaðan hlut með þessari till., þá verður hann að vera reiðubúinn að vera með því að segja samningnum upp til þess þá m. a. að knýja fram endurskoðun í þeim anda, sem hann vill á koma.

Þá talaði hv. 4. þm. Reykv. um, að þetta, að við vildum ekki hafa herstöðvar á Íslandi, væri af því, að við vildum slíta öll tengsl við vestrænu lýðræðisþjóðirnar. Þessu hefur oft verið haldið fram, að þessi hlutleysisstefna, sem við höfum verið að halda fram, þýddi það að slíta öll tengsl við vestrænu lýðræðisþjóðirnar. Má ég nú minna hv. 4. þm. Reykv. á það, að í yfirlýsingu, sem utanrmn. Alþingis gaf 1946 í sambandi við inntökubeiðni Íslands í Sameinuðu þjóðirnar, var í sambandi við einmitt skilninginn á 43. gr. sáttmálans, spurninguna viðvíkjandi herstöðvum hér á Íslandi, alveg sérstaklega tekið fram og yfir lýst af hálfu utanrmn. eftirfarandi:

„Íslendingar eru eindregið andvígir herstöðvum í landi sínu og munu beita sér gegn því, að þær verði veittar.“

Þetta var afstaða utanrmn., og hún var undirskrifuð af eftirfarandi mönnum þá: Bjarni Benediktsson, formaður, Stefán Jóh. Stefánsson, fundaskr. og frsm., Hermann Jónasson, Bjarni Ásgeirsson, Jóhann Þ. Jósefsson, Garðar Þorsteinsson, Einar Olgeirsson. Og þessar tillögur með tilvitnun til þessarar fundargerðar voru samþ. einróma á Alþingi og þetta alveg sérstaklega undirstrikað. Og við áttum báðir, hv. 4. þm. Reykv. og ég, okkar þátt í því, að lýðveldið var hér endurreist 17. júní 1944, héldum báðir ræður í tilefni af því hér við stjórnarráðið og lýstum því yfir, eins og allir aðrir gerðu, að við endurreistum okkar lýðræði vopnlaust og varnarlaust og ætluðum að halda því þannig í okkar trú á það, að smátt og smátt mundi fara batnandi í veröldinni, og þetta var í miðri heimsstyrjöldinni. Við Íslendingar höfum gengið út frá því, og það í tveim heimsstyrjöldum og eftir þær, að halda okkar landi varnarlausu og vopnlausu, vegna þess að við vitum það ósköp vel, þegar við hugsum um þetta mál, að það er öruggast fyrir líf sjálfs fólksins í landinu. Þetta var stefna okkar sósíalista þá eins og allra annarra flokka, þegar lýðveldið var endurreist, og hún hefur haldið áfram að vera það. Ýmsir aðrir flokkar hafa hætt við þá stefnu. Af hverju? Af því að landið hefur verið hernumið af amerísku valdi og amerískt auðvald hefur læst sínum klóm um okkar íslenzka þjóðlíf, þannig að það er varla orðið hægt að hreyfa sig, ekki einu sinni að byggja hús á Íslandi án þess að spyrja Ameríkana um leyfi. Það er þess vegna ekki að ásaka okkur sósíalista fyrir að hafa haldið fast við þá stefnu, sem var stefna Íslands, þangað til Ameríkanar lögðu landið undir sig með kúgun og ofbeldi og halda því með blekkingum og áróðri. Það eru aðrir flokkar, sem hafa vikið frá þeirri stefnu í samræmi við hagsmuni Ameríkana, í samræmi við hagsmuni ameríska auðvaldsins.

Mér liggur við að spyrja þessa menn, sem tala svona mikið út af hlutleysisstefnunni og öllu því: Hvar er sú vernd, sem Íslendingar hafa gegn Bandaríkjunum og þeirra herliði, gegn morðunum, sem Bandaríkjamenn eru byrjaðir að fremja hér á Íslandi, gegn því, sem þeir koma til með að leiða yfir landið, ef þeir verða látnir halda svona áfram? Hvar er sú vernd? Það er ábyrgðarhluti að kalla vopnaðan her inn í eitt land. Það getur oft orðið erfiðara að losna við hann aftur. Ég fæ ekki séð, að það sé hægt með rökum að bera Sósfl. á brýn stefnubreytingu í þessum efnum. Hann hefur haldið við þá stefnu, sem var stefna þjóðarinnar. Það eru aðrir, sem hafa breytt um. Í því að reka ameríska herinn burt af Íslandi felst engan veginn að slíta öll tengsl við vestrænu lýðræðisþjóðirnar. Geta vestrænar lýðræðisþjóðir ekki haft tengsl við Ísland nema nota Ísland sem herstöð, nema stofna lífi íslenzku þjóðarinnar í hættu? Eru það einu tengslin, sem eru til? Við lýstum því yfir, þegar við slitum stjórnmálasambandinu við Danmörku hér á Alþ., að við vildum hafa menningarleg samskipti við Norðurlönd og við vildum tengjast þeim sem nánustum böndum, þó að við slitum þau bönd, sem gerðu okkur stjórnmálalega háða þeim. Ekkert Norðurlandanna hefur enn sem komið er, nema Ísland, látið Ameríkönum herstöðvar í té. Er þar með verið að gefa til kynna, að það sé stefna kommúnistanna, sem ráði í Danmörku og Noregi til dæmis? Er þar með verið að gefa til kynna, að Danmörk og Noregur séu að slíta öll tengsl við vestrænu lýðræðisþjóðirnar, ef það á að fara að heita að slíta öll tengsl við vestrænar lýðræðisþjóðir að hafa ekki amerískan her á Íslandi? Ég held, að það sé farið að ganga nokkuð langt í því að nota þessi orð um lýðræðistengslin, ef þau eiga að þýða það, að ekki sé hægt að hafa samband við t. d. Norðurlönd öðruvísi en að það séu amerískir vopnaðir menn á Íslandi. Þær till., sem hér liggja fyrir, eru um það að fá ameríska herinn burt af Íslandi, þær till., sem hv. 4. þm. Reykv. vitnar í, þær eru ekki um meira.

Að síðustu vil ég taka það alveg greinilega fram, einmitt vegna þess, að hv. 4. þm. Reykv. var að láta í ljós undrun sína yfir því, að það hefði komið fram ánægja frá hálfu ýmissa þm., bæði Sósfl. og annarra yfir þessari till. Alþfl., að það er full ástæða til þeirrar ánægju. Þessi till. Alþfl. er spor í áttina. Hún er spor í áttina á undanhaldinu frá hernámssamningnum 1951. Hún er spor á flóttanum frá því að ofurselja landið í hendur Bandaríkjaherliðsins. Hún er rétt spor í áttina. Og mín trú er, að meira að segja þessu litla spori í áttina sé ekki hægt að framfylgja öðruvísi en með því að segja upp samningnum við Bandaríkin, vegna þess að ég hef þá trú a. m. k. á núverandi valdhöfum Bandaríkjanna, að þeir séu það miklir asnar í utanríkisviðskiptum við þjóðir, að þeir kunni ekki að semja í tíma. Ég efast ekki um, að ýmsir þeir, sem stjórnuðu Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum, hefðu athugað þessi mál ofur lítið betur, þeir hefðu verið þeir diplómatar að fara að láta undan, þegar önnur eins óánægja skapast eins og hérna á Íslandi. Ef aðrir menn hefðu stjórnað Bandaríkjunum, gæti ég vel trúað, að Bandaríkin hefðu nú þegar boðið okkur upp á endurskoðun á samningnum. En það er vitað mál, að utanríkisþjónusta Bandaríkjanna er alveg með afbrigðum léleg. Við vitum ósköp vel, að það, sem er að gerast nú í Vestur-Evrópu, það er, að Bandaríkin eru með sinni þjösnalegu utanríkispólitík að ofbjóða þjóðum eins og Englendingum og öðrum slíkum. Þau keyra svo skarpt í afturhaldsáttina, að þau eru næstum því að slita vestrænu lýðræðisríkin í Evrópu, — svo að ég noti nú orðatiltæki hv. 4. þm. Reykv., þau eru að slíta þau aftan úr sér. Og það má mikið vera, ef þeir, sem ráða nú utanríkispólitík Bandaríkjanna, hjálpa okkur ekki hér á Íslandi með sama þjösnaskapnum til þess að slíta Ísland undan áhrifum þeirra líka.

Þegar að því kæmi, að þessi till. yrði samþykkt, að farið væri að ræða við Bandaríkin, þá yrði annaðhvort að hrökkva eða stökkva. Ef þau umyrðalaust féllust ekki á breytingu samkv. þessu, þá lægi ekkert annað fyrir en að segja samningnum upp og sjá þá, hvað þau gerðu. Þess vegna þýðir þessi till. raunverulega það, að Alþ. ákveður að segja samningnum upp, nema gengið sé að alveg ákveðnum skilyrðum. Það er alveg rétt fram tekið hjá hv. 4. þm. Reykv., að það er munurinn t. d. á því frv., sem ég flyt ásamt fleiri samflokksmönnum mínum í Nd., að ég legg til, að samningnum sé sagt upp, hann sé ekki endurskoðaður og ekki endurnýjaður. Með þessu er lagt til, að samningurinn sé endurskoðaður, og sú endurskoðun eru að mínu áliti engin líkindi til að verði framkvæmd öðruvísi en með því að segja honum fyrst upp. Þess vegna álít ég, að þessi till. sé spor í rétta átt. Ég hef nefnilega þá trú, að þegar svo langt væri komið, að samningnum yrði sagt upp við Bandaríkin, jafnvel þótt meira að segja önnur eins stjórn og núverandi ríkisstj. ætti að fara að semja við Bandaríkin, mundi þjóðin taka þannig í málið, að það yrði ekkert þægilegt fyrir hana að ná neinum samningi aftur.