02.12.1953
Sameinað þing: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að hefja mál mitt á því að vekja athygli á því, að hér er til umr. mikils háttar utanríkismál. Það er í þriðja skipti, sem þetta mál er á dagskrá. Þau tvö skipti, sem það hefur verið hér til meðferðar í sameinuðu þingi áður, hafa hæstv. ráðherrar ekki verið viðstaddir umræðu. Þeir eru ekki heldur viðstaddir núna, þegar umræða hefst um þetta mál í þriðja sinn. Hv. þm. stjórnarflokkanna hafa ekki tekið til máls um þetta mál hér, hæstv. ráðherrar ekki heldur, að undanteknum hæstv. utanrrh., sem flutti hér örfá orð, þegar þetta mál var fyrst til umr. Mér þykir rétt að taka einnig fram, að um þessi utanríkismál hefur verið hér borin fram önnur till. á þskj. 21. Umræður um hana fengust fyrst og fremst og hv. stjórnarflokkar fengust til að taka þátt í þeim umræðum vegna þess, að Þjóðvarnarflokkur Íslands lagði fram kröfu um það, ítrekaða, að fá útvarpsumræður um málið. Slík meðferð á mikilsvarðandi utanríkismáli mundi hvergi þekkjast, hvergi í veröldinni í nokkru lýðræðislandi, nema hér. Nú í dag hafa hv. stjórnarflokkar neitað um þinglega meðferð á þáltill. á þskj. 21. Þetta mundi heldur hvergi þekkjast í nokkru lýðræðislandi í veröldinni nema hér. Á þessu vildi ég vekja athygli.

Mér þykir eðlilegt og skiljanlegt og raunar ekki nema mannlegt, að hv. stjórnarflokkar vilji forðast umræður um þessi mál, slíkur sem málstaður þeirra er. Það er ekki nema mannlegt að forðast sem mest að ræða mál, þegar menn hafa slæman og jafnvel óafsakanlegan málstað, en það er aldrei stórmannlegt. Þá þykir mér einnig rétt að taka fram, að ég hafði haft í hyggju að sleppa hv. flutningsmönnum þeirrar till., sem hér er til umræðu á þskj. 20, við gagnrýni, þegar þetta mál væri til umræðu. Stafar það af því, að það eru ýmsir hlutir í þessari till., sem vel er um, þótt sorglega séu þeir fáir. En nú hefur hv. 1. landsk. þm. komið þar máli sínu, að ekki verður lengur við því þagað, og verður þá að ráðast, hvort honum fellur betur eða verr það, sem ég hef um þetta mál að segja.

Þegar till. sú, sem hér er til umræðu, um endurskoðun varnarsamningsins, og prentuð er á þskj. 20, var til umræðu síðast, talaði hv. 1. landsk. (GÞG) hér síðastur manna. Í ræðu sinni talaði hann í miklum umvöndunartón og eins og sá, sem valdið hafði, til hv. 8. þm. Reykv. fyrir það, eins og hann komst að orði, að hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) hefði ekki tekið ákveðna afstöðu til þess, hvað Íslendingum bæri að gera, ef og þegar styrjöld brytist út milli austurs og vesturs og vesturveldin óskuðu eftir að fá hernaðarbækistöðvar hér á landi. Í útvarpsumræðunum um þáltill. á þskj. 21 endurtók hv. 1. landsk. þessa spurningu sína með þvílíkum hávaða, að ætla mætti, að hún væri lausn við flestöllum vanda mannlegs lífs. Þá hefur hann einnig látið Alþýðublaðið birta spurninguna ásamt mörgum tegundum af útúrsnúningi á ræðum hv. 8. þm. Reykv. Hefur Morgunblaðið einnig tekið í spottann með hv. 1. landsk. í þessu efni.

Í ræðum sínum komst hv. 1. landsk. svo að orði, að hv. 8. þm. Reykv. væri kominn á öndverðan meið við yfirlýsta hlutleysisstefnu Þjóðvfl., að hann hefði ekki tekið ákveðna afstöðu til þess, hvað Íslendingum bæri að gera í herstöðvamálum, þegar styrjöld brytist út, og slíkt gæti enginn stjórnmálaleiðtogi leyft sér á hinu háa Alþingi, eins og hann komst að orði. Að vísu voru öll þessi digurbarkalegu svigurmæli byggð á útúrsnúningi hjá hv. 1. landsk. En þó að því sé sleppt, hygg ég, að enginn hv. þm. hafi haft minni ástæðu eða minni rétt til að tala í umvöndunartón í þessu efni en hv. 1. landsk. þm. (GÞG). Engum hv. þm. mætti fremur líkja við pendúl í klukku, sem sveiflazt hefði frá einni skoðun til annarrar gagnstæðrar merkingar allar götur síðan þessi herstöðvamál komu fyrst á dagskrá. Mætti lesa upp heil ókjör af yfirlýsingum og till. frá hv. 1. landsk. því til sönnunar, sem ég mun þó hlífa hv. þingmönnum við að þessu sinni. Hins vegar get ég nefnt það, sem þjóðfrægt er orðið, að síðan þessi hv. þm. fór að leggja línuna fyrir Alþfl. í utanríkismálum, eins og það er kallað, þ. e. a. s. eftir byltinguna miklu, sem varð í flokknum á s. l. ári, hefur það verið með þeim endemum, að annan daginn hefur Alþýðublaðið birt greinar með einhverju atriði í utanríkismálum, en hinn daginn á móti sama atriði.

Hér liggur fyrir þáltill. til umræðu um endurskoðun á varnarsamningnum frá 1951, og hv. 4. þm. Reykv. (HG) sá ástæðu til að endurtaka það oft í sinni ræðu um þetta mál, að Alþfl. meinti aðeins endurskoðun, en ekki uppsögn á samningnum, þar eð Alþfl. teldi uppsögn samningsins ekki tímabæra. En þegar Alþýðublaðið skýrði frá því, að þessi till. væri fram komin á Alþingi, sagði það í forustugrein, að þetta væri till. til uppsagnar samningnum. Vanur hringlandahætti Alþfl. í þessum efnum fannst mér þetta ekki óeðlilegt og í sjálfu sér að hér væri ekki um neina eðlisbreytingu á stefnu flokksins að ræða, heldur væri aðeins um að ræða aukna sveiflutíðni í grautnum, þannig að Alþfl. væri nú ekki með einhverju annan daginn og á móti því hinn, heldur með, þegar hann segðist vera á móti, og öfugt. Væri það mjög skiljanleg þróun á hinni víðfrægu „stefnu“ Alþfl. í utanríkismálum, eins og hún hefur runnið undan rifjum hv. 1. landsk. að undanförnu.

Spurningu hv. 1. landsk. um það, hvaða stefnu Þjóðvarnarflokkur Íslands vildi að Íslendingar hefðu, ef styrjöld brytist út milli austurs og vesturs, tel ég, eins og málum háttar, næstum ástæðulaust að svara. Stafar það af því, að það er alltaf tilgangslítið að tala við menn, sem hafa komið sjálfum sér í þá klípu, að þeir hvorki vilja né geta notað eða skilið sjálfsögð og augljós rök, en af kurteisissökum mun ég svara þessari spurningu, sem hv. 1. landsk. virtist liggja svo þungt á hjarta, spurningunni, sem hann sjálfur virðist standa andspænis í máttvana rökþroti. Að þessu sinni mun ég þó reyna að svara spurningunni í sem stytztu máli, vegna þess að gera má ráð fyrir, að hvorki geti hv. 1. landsk. né blað hans, Alþýðublaðið, haft svarið rétt eftir né vilji skilja það, svo að ástæða verður til að endurtaka það nokkrum sinnum og þá með skýringum.

Af eðli málsins leiðir, að svarið verður að greina í tvennt til að gera það sem ljósast.

1) Ef styrjöld skyldi brjótast út innan þess tíma, að þeir menn, er málum ráða í dag, verði að taka ákvörðun um það, hvað gera skuli.

2) Ef styrjöld skyldi ekki brjótast út fyrr en ný kynslóð hefur tekið við völdum hér á landi, en þeir, sem nú fara með völd, gætu af eðlilegum ástæðum engu um það ráðið þá, hvað gera skyldi.

Í fyrra dæminu er því fyrst til að svara, að meðan við erum í Atlantshafsbandalaginu, verðum við Íslendingar ekki að því spurðir, hvað við viljum eða viljum ekki í þessu efni. Að því er tekur til þess tíma, sem Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu, er því spurning hv. 1. landsk. þm. út í hött.

Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. 1. landsk. telji spurningu sinni fullsvarað með þessu, þótt svo sé í raun og veru. Þess vegna skal ég gera það fyrir hann persónulega að hugsa mér það ástand, að Ísland væri ekki í Atlantshafsbandalaginu og við hefðum því óbundnar hendur, ef styrjöld brytist út innan fárra ára. Í þessu tilfelli mundu þjóðvarnarmenn svara spurningu hv. 1. landsk. á þá leið, að þeir mundu gera nákvæmlega það sama og Íslendingar gerðu í síðustu styrjöld og allir lýðræðisflokkarnir voru þá sammála um. Þeir mundu neita öllum jafnt um hernaðarbækistöðvar í landinu, áður en styrjöld brytist út, þeir mundu mótmæla hernámi vesturveldanna, um annað hernám yrði ekki að ræða, eins og hv. 1. landsk. hefur réttilega tekið fram, en þjóðvarnarmenn mundu þola það hernám eins og skerf Íslands af þeirri bölvun, sem styrjaldir leiða yfir allt mannkyn, en krefjast þess jafnframt, að allur her yrði á brott af Íslandi jafnskjótt og þeirri styrjöld lyki, þ. e. a. s., þjóðvarnarmenn mundu gera nákvæmlega það sama og allir lýðræðisflokkarnir voru sammála um að gera í síðustu styrjöld.

Að því er síðara dæmið varðar, þ. e. a. s., ef styrjöld brýzt ekki út fyrr en ný kynslóð hefur af eðlilegum ástæðum tekið við völdum í landinu, er það að segja, að þá vefengir Þjóðvarnarflokkur Íslands ekki aðeins með gildum rökum getu hv. núverandi þm., þ. á m. hv. 1. landsk., til að taka nú skynsamlegar ákvarðanir um, hvað gera skuli þá, heldur neita þjóðvarnarmenn því eindregið og afdráttarlaust, að hv. núverandi þm. hafi nokkurn rétt, siðferðislegan eða lagalegan, til að taka ákvörðun í málinu. Þjóðvarnarflokkur Íslands neitar því eindregið og afdráttarlaust, að hv. þingmenn hafi rétt til að fjötra hendur komandi kynslóða íslenzkrar þjóðar í styrjaldarbrjálæðinu eða binda þeim bagga í dag, sem engum er fært að fullyrða að þær vilji taka á herðar sínar að bera í framtíðinni. Og allra fyrst neitar þó Þjóðvarnarflokkur Íslands þeim hv. þm., sem gerzt hafa berir að furðulegustu flónsku í þessum efnum, nema verri hvatir ráði, um rétt til að taka slíkar ákvarðanir, ef til vill aldir fram í tímann, sbr. það viðhald hernaðarbækistöðva hér á landi, sem ákveðið er í varnarsamningnum frá 1951. Ég leyfi mér einnig að efast um það, að hv. 1. landsk. þm. þori að halda því fram opinberlega, að hann hafi rétt eða getu til að taka bindandi ákvarðanir í hernaðarmálum fyrir komandi kynslóðir langt fram í tímann. Og nú leyfi ég mér að spyrja hann að því, hvort hann telji sig hafa rétt, getu eða skilyrði til þess. Vona ég, að það standi ekki á honum að svara.

Ég hirði ekki um að svara spurningu hv. 1. landsk. ýtarlegar að sinni, enda sjálfsagt tilgangslítið að ræða það við hann vegna samábyrgðar hans á hervarnarsamningnum frá 1951.

Í þeim tveim ræðum, sem hv. 1. landsk. hefur flutt hér um þáltill. á þskj. 20, voru að sjálfsögðu mýmörg atriði, sem ástæða væri til að brjóta til mergjar, þó að ég muni ekki gera það að þessu sinni, enda mun gefast tækifæri til þess síðar, þar sem hervarnarflokkarnir hamra ævinlega á sömu falsrökunum sínum vonlausa málstað til afsökunar. Ég get þó ekki látið hjá líða að taka sárfá atriði til meðferðar.

Hv. 1. landsk. og hv. 4. þm. Reykv. (HG) lögðu á það þunga áherzlu, að Ísland yrði að vera í hernaðarbandalögum og kasta fyrir borð hlutleysisstefnunni og að hernaðarsamningurinn frá 1951 hefði verið óhjákvæmileg og nauðsynleg ráðstöfun vegna yfirvofandi styrjaldarhættu Það má færa ótalmörg óyggjandi rök að því, að vorið 1951 var engin styrjöld yfirvofandi, sem ógnað gæti okkur á einn eða annan hátt, nema þá í heilabúum nokkurra lítilla karla hér úti á Íslandi. Að þessu sinni skal ég þó ekki nefna önnur rök til en þau, að tíminn, sem síðan er liðinn, og reynslan, sem löngum er talin ólygnust, hafa sannað, svo að ekki verður um villzt, að styrjöld var ekki yfirvofandi 1951. Þá menn, sem héldu hinu gagnstæða fram, hafa reynslan og tíminn afhjúpað sem flón, sem ekki gátu dregið rökréttar afleiðingar af augljósum staðreyndum, en sjálfir hafa þeir þó opinberað flónsku sína átakanlegast með því að halda því enn þá fram, að styrjöld hafi verið yfirvofandi 1951, svo og með því að halda því fram, að þær ákvarðanir séu réttar, sem augsýnilega voru byggðar á röngum forsendum. Af slíkum flónum þarf þá heldur ekki að vænta þess manndóms, að þau játi yfirsjónir sínar eða bæti það, sem brotið var. Til þess þarf heila menn og heiðarlega. Um það atriði, að íslenzkri þjóð sé nauðsyn að vera í hernaðarbandalögum og hafa hervarnir í landi sínu einnig á friðartímum, vil ég aðeins segja þetta: Ef menn hafa þessa skoðun, sem við þjóðvarnarmenn höfum ekki, hvers vegna sögðu þeir þá ekki 1945, að bækistöðvar þær, sem Bandaríkin vildu fá leigðar til 99 ára, væru nauðsynlegar til að tryggja varnir Íslands í næstu styrjöld? Hvers vegna neituðu þeir Bandaríkjunum um þessar bækistöðvar? Hvers vegna kölluðu þeir þetta bækistöðvar Bandaríkjanna á Íslandi, en ekki nauðsynlegar varnarstöðvar Íslands í næstu styrjöld? Það hefði þó verið ólíkt meira „system í galskabet“ og samhengi í stefnu, ef þeir hefðu játað kröfum Bandaríkjanna árið 1945. Og hvers vegna greiddi hv. 1. landsk. þm. atkvæði gegn þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu 1949, fyrst hann telur nú, að Íslandi sé nauðsynlegt að vera í hernaðarbandalögum? Ég vonast til, að háttvirtur 1. landsk. sjái sér fært að svara þessum spurningum. Og enn vildi ég spyrja hann: Ef það er rétt, að hann og þeir, sem samþykktu varnarsamninginn 1951, hafi talið styrjöld svo yfirvofandi, að nauðsyn bæri til að kalla hingað herlið til varnar, hvers vegna kölluðu þeir þá ekki hingað slíkt herlið, að einhverjar varnir gætu talizt? Töldu þessir menn, að þrjár þúsundir bingóspilandi amerísks ruslaralýðs gætu skapað Íslandi einhverjar varnir í yfirvofandi styrjöld?

Það gátu legið tvær ástæður til grundvallar hernámssamningnum 1951. Önnur sú, að styrjöld væri yfirvofandi, eins og sagt var, og Íslandi stafaði sérstök hætta af henni, eins og hv. 1. landsk. og hans tjáningarbræður halda fram, en þá hefðu þessir menn, ef þeir vildu vera sjálfum sér samkvæmir, átt að kalla hingað svo mikinn her, að hugsanlegt væri, að hann gæti veitt einhverja vernd, t. d. 100–200 þúsund manna lið. Hin ástæðan var ástæða Bandaríkjanna til að koma hér upp hernaðarbækistöðvum eins og á Spáni, Grikklandi og víðar samkvæmt kröfunum frá 1945, þó að styrjöld væri ekki yfirvofandi. Í því tilfelli þurfti aðeins lítið herlið og íslenzkt vinnuafl. Hvers vegna var röksemdafærslum, sem svöruðu til fyrra tilfellisins, beitt, en framkvæmdum hagað á þann hátt, að svaraði til þess síðara? Vona ég, að hv. 1. landsk. svari þeirri spurningu.

Til viðbótar vil ég svo aðeins nefna örfá atriði enn, sem helzt tilheyra hinni broslegu hlið þessara mála, ef leyfilegt er að líta þannig á málið.

Hv. 1. landsk. spurði í framsöguræðu að því og að því er virtist með nokkrum þjósti, hvort Þjóðvfl. hefði gert sér ljóst, hvað gæti gerzt, ef Ísland lýsti yfir ævarandi hlutleysi og aðrar þjóðir virtu það. Var helzt á hv. þm. að skilja, að hann væri til með að lýsa yfir hlutleysi landsins, aðeins ef það væri öruggt, að aðrar þjóðir lítilsvirtu okkur nægilega til að hafa þá yfirlýsingu að engu. Um það „billega“ verzlunarsjónarmið, sem þessi hv. þm. taldi að íslenzkri þjóð bæri að leggja til grundvallar stefnu sinni í utanríkismálum, vil ég aðeins segja það, að svo hörmulega lágt hefur hæstv. fyrrv. utanrrh., Bjarni Benediktsson, aldrei lotið opinberlega í vörnum fyrir þeirri þjóðhættulegu utanríkisstefnu, sem hann hefur þó verið oddviti fyrir, að halda því fram, að íslenzkri þjóð bæri að beygja sig fyrir þeim þjóðum, sem sýndu af sér þann. níðingshátt að ætla að kúga hana í hernaðarbandalög með því að hóta henni verzlunarstríði.

Þá voru tvö atriði í ræðu hv. 1. landsk., sem hefðu getað valdið því, að ég hefði komizt á þá skoðun, að hann væri kommúnisti, ef ég hefði ekki þekkt hann persónulega. Fyrra atriðið var það, að hann tvítók þá fullyrðingu, að ef Sovétríkin mættu ráða, mundu þau helzt kjósa, að Ísland væri hlutlaust. Ég verð að játa, að ég hef ekki meiri trú á Sovétríkjunum en það, að ég tel, að ef þau mættu ráða og hefðu aðstöðu til, mundu þau helzt kjósa að hafa hér bækistöðvar og herlið á sama hátt og Bandaríkin hafa nú. Síðara atriðið var það, að hv. 1. landsk. lýsti yfir því, að hann teldi styrjaldarhættuna minni nú en 1951. Árið 1951 áttu Bandaríkin kjarnorkusprengjuna og höfðu leyst leyndardóma vetnissprengjunnar, en Sovétríkin áttu þá hvorugt og áttu því undir þau ægivopn að sækja, ef þau ætluðu að hefja styrjöld, nema þá því aðeins að hv. 1. landsk. vilji gera svo vel að halda því fram, að það hafi verið Bandaríkin, sem ætluðu að hefja styrjöld árið 1951, þá styrjöld, sem hann óttaðist svo mjög, að hingað þurfti að kalla herlið til þess að bjarga landinu. Nú eiga Sovétríkin hins vegar hvort tveggja, kjarnorkusprengjuna og vetnissprengjuna, og hafa því mun betri aðstöðu til að hefja styrjöld nú en 1951, ef aðrar ástæður leyfðu. Þar að auki er það lögmál, að því lengri tími sem líður frá síðustu styrjöld, þeim mun nær dregur þeirri næstu, ef hún verður ekki umflúin, sem og það, að því meir sem vígbúnaðarkapphlaupið verður, þeim mun nær þokast styrjöldin. Styrjöldin, sem hv. 1. landsk. óttaðist 1951, getur því ómögulega verið fjær nú en þá. Þetta er aðeins sýnishorn af því, hve grátt flónskan getur leikið menn, þegar hún er eina hækjan til að styðjast við.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni, þegar þetta mál var hér síðast á dagskrá, að Þjóðvarnarflokkur Íslands vildi hafa landið óvarið og hafnir opnar og óvarðar. svo að hver gæti tekið þær, sem vildi. En með leyfi að spyrja: Hvaða hafnir eru svo vel varðar hér á landi nú, að þær væri ekki auðvelt að taka, ef einhver kærði sig um? Hvaða varnir eru hér nú, sem hindrað gætu það, að íslenzkri þjóð yrði útrýmt að mestu eða öllu t. d. á morgun, ef einhver vildi? Hvers vegna gerði þessi varnar- og hernaðarspámaður ekki kröfu til þess 1951, að hér yrði þá þegar komið upp t. d. loftvarnarbyrgjum og þess háttar, ef styrjöld var yfirvofandi, eins og hann sjálfur sagði þá? Það er ekki mikil virðing, sem þessir íslenzku stríðskappar bera fyrir sjálfum sér, þegar þeir telja sér samboðið að seilast til röksemda á borð við þær, sem ég hef hér nefnt.

Þá kem ég að öðru meginatriðinu í ræðum hv. 1. landsk., en það eru þau ummæli hans, að hlutleysisstefna Þjóðvarnarflokks Íslands sé nánast til tekið fjarstæða eða kommúnismi. Undir þessi ummæli tóku þeir hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Str. (HermJ) og aðrir samþykkjendur varnarsamningsins frá 1951. Í tilefni af þessum ummælum vil ég segja það við hv. 1. landsk, sérstaklega, að allt fram til ársins 1950 a. m. k. var hann þjóðvarnarmaður og meðlimur í Þjóðvarnarfélagi Íslendinga. Stefna þess félags í utanríkismálum og með tilliti til hlutleysis Íslands var nákvæmlega sú sama stefna og Þjóðvfl. Íslands hefur nú. Þá gerði hv. 1. landsk. enga athugasemd við þessa stefnu og hafði enga sérstöðu um hlutleysisstefnuna innan Þjóðvarnarfélagsins. Þvert á móti skrifaði hann greinar í blað félagsins, Þjóðvörn, þar sem hann komst m. a. svo að orði, að engum þm. hafi til hugar komið að halda því fram, að Ísland hefði varpað fyrir borð hlutleysisstefnunni, ekki einu sinni á stríðsárunum, þegar það bað um hervernd Bandaríkjanna. Þó að hans eigin glópskuverk neyði hann nú til að halda hinu gagnstæða fram í vonlausri sjálfsvörn og sjálfsafsökun, hefur það ekkert gildi sem rök í málinu í almennum umr. um það. Og þegar samþykkjendur varnarsamningsins frá 1951 ræða hlutleysi Íslands með hliðsjón af öðrum þjóðum og samanburði við það, sem aðrar þjóðir gera í því efni, þá er þar um að ræða bæði hugsanavillu og rökvillu í ræðum þessara manna. Íslenzk þjóð er eina sjálfstæða þjóð veraldar, sem aldrei hefur haft skipulagðan her eða hervarnir í landi sínu. Allar aðrar sjálfstæðar þjóðir hafa haft skipulagða heri og hervarnir frá örófi vetra. Hér getur því þegar af þessum ástæðum ekki verið um neinn samanburð að ræða. Þó að t. d. Danir telji sér skylt af gamalli venju að eyða fé og vinnuafli í jafnbroslega vonlaust fyrirtæki og danska herinn, samanber reynsluna í síðustu styrjöld, er það engin röksemd fyrir því, að Íslendingum beri að apa eftir Dönum í þessu efni. Meginmáli skiptir þó það í þessu sambandi, að það var og er tvennt og aðeins tvennt, sem gaf íslenzkri þjóð óvefengjanlegan rétt til að krefjast sjálfstæðis og til að krefjast þess, að aðrar þjóðir virtu það sjálfstæði eins og sitt eigið. Þetta var forn menning þjóðarinnar ásamt sérstöku þjóðerni og tungu og yfirlýsing beztu manna landsins í nafni og með samþykki þjóðarinnar allrar um ævarandi hlutleysi og vopnleysi í styrjöld. Glati þjóðin þessu öðru hvoru eða hvoru tveggja, mun engin þjóð í veröldinni virða sjálfstæði íslenzkrar þjóðar né telja hana verðskulda það, svo sem þegar hefur orðið vart við í samskiptum við bandaríska liðið, sem hér dvelst. Og ég vil lýsa því yfir í eitt skipti fyrir öll, að ummæli hv. varnarsamningsþingmanna um hlutleysi Íslands, manna, sem neyddir eru af sínum eigin verkum til að vera á móti hlutleysisstefnunni, metum við þjóðvarnarmenn jafnmiklu minna en rök þeirra, sem um allar aldir hafa haldið hinu gagnstæða fram, sem við metum þessa hv. varnarsamningsþingmenn sjálfa miklum mun minna en t. d. Einar Þveræing, Jón Sigurðsson og þá menn, sem lýstu yfir ævarandi hlutleysi og vopnleysi Íslands árið 1918. Öll saga íslenzkrar þjóðar er lifandi réttlæting þessarar yfirlýsingar og mun þó verða enn gerr, er tímar líða fram.