02.12.1953
Sameinað þing: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (3079)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þessi ræða, sem hv. 8. landsk. þm. var að enda við að flytja, er fortakslaust vitlausasta ræða, sem ég hef heyrt flutta um utanríkismál Íslendinga, ekki aðeins hér á Alþ., því að hér hefur hingað til ekki verið talað um utanríkismál af svo frámunalegri léttúð og vanhugsun sem þm. gerði, heldur á ég einnig við allar aðrar ræður, sem ég hef heyrt um málið frá fyrstu tíð, að farið var að ræða þau vandamál, sem nú eru á döfinni með íslenzku þjóðinni.

Hv. 8. þm. Reykv. var ekki viðstaddur. Mér skilst, að hann hafi gengið frá um leið og flokksbróðir hans hóf ræðu sína. Líklega hefur hann ekki treyst sér til þess að hlýða á hann. (GilsG: Ég var á áríðandi fundi. ) En hann var heppinn, hv. þm., að þurfa ekki að hlusta á flokksbróður sinn, reglulega heppinn, því að hann hefði ekki haldið aðra eins ræðu og þessa. Furðulegast af öllu var, að ræðan var flutt af blöðum. Ég hefði getað fyrirgefið þm., ef hann hefði talað svona upp úr sér og óundirbúinn, en að flytja slíka ræðu vandlega undirbúna og lesa hana upp af blöðum, það er ótrúlegt, að slíkt skuli geta hent þm. Auk þess var orðbragðið svo gróft og ruddalegt, að mann rekur í rogastanz.

Hv. þm. vann sér það til frægðar hér um daginn að flytja ræðu í söluskattsmálinu og nefna þar orðið „þjófur“ einum átta eða tíu sinnum, og orðið „að stela“ nefndi hann álíka oft. Ég hef aldrei áður heyrt ræðu hér á hv. Alþ., sem hefur verið með eins dónalegu orðbragði og sú ræða. Og nú heldur hv. þm. uppteknum hætti. Ég reyndi að skrifa það upp hjá mér, hversu oft þm. nefndi „flón“ og „fífl“, „flónsku“ og „glópsku“. Ég gafst upp við það. Hann talaði um „ruslaralýð“, „níðingshátt“, „kúgun“ og allt hvað eina. Látum vera, að menn mæli slíkt í hita umræðna, en að skrifa slíkt heima hjá sér og koma með það í hv. Sþ. og lesa það upp af blöðum án þess að roðna, — það er met hér á hv. Alþ. Þetta hefur líklega verið ræðan, sem hv. þm. fékk ekki að flytja í útvarpið um daginn, og það var sannarlega heppni fyrir flokkinn, að þessi ræða skyldi ekki vera flutt í útvarpið. Flokkurinn hafði tvo ræðutíma í útvarpinu. Allir gengu út frá því, að þingmenn hans mundu skipta tímanum til helminga á milli sín og tala báðir, en hv. 8. þm. Reykv. talaði einn og flutti mál sitt vel og skörulega, eins og hans er von og vísa. Líklega hafa þeir haft einhverja hugmynd um það, flokksmennirnir, hvað þessi hv. þm. mundi segja, hv. 8. landsk. þm., og þess vegna ekki hleypt honum að hljóðnemanum, og það voru engin undur. Eitt gott ráð vildi ég gefa hv. Þjóðvfl., það er að hleypa honum aldrei að hljóðnemanum, meðan hætta er á því, að hann tali svo harkalega af sér eins og hann gerði núna.

Hann talaði um okkur í Alþfl. eins og pendúl í klukku, talaði um hringlandahátt okkar og sveiflutíðni okkar í utanríkismálum. Fyrr má nú vera. Hvaða maður er það, sem hér talar úr ræðustóli? Það er maður, sem 1949–50 var framsóknarmaður og hafði verið framsóknarmaður til þess tíma, annað árið ánægður framsóknarmaður, hitt árið óánægður framsóknarmaður. 1950 var hann enn framsóknarmaður, en 1951 var hann frambjóðandi kommúnista, og 1953 var hann frambjóðandi þjóðvarnarmanna. 1955 gæti hann átt til að reyna að verða ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Það væri svo sem ekki nema mátulegt á þann flokk að þiggja hann sem ráðherra. En að slíkur maður, með slíkan feril, skuli leyfa sér að vaða upp á aðra menn með brigzlum um hringlandahátt, það er alveg dæmalaust. Öll tuttugu skiptin, sem hann nefndi flónsku í ræðu sinni, eiga við hann sjálfan. Það er bezta lýsingin.

Ég skal ekki gera honum sjálfum og ferli hans rækilegri skil að þessu sinni. En haldi hann uppteknum hætti í ræðumennsku, þá skal ég sannarlega taka mig til og gera það einhvern tíma, og þá skal mönnum verða það ljósara, hversu lítil efni hann hefur á því að tala jafndigurbarkalega og dónalega og hann gerði hér áðan. En í þetta skipti skal ég hlífa honum við því, þar eð fundartímanum er nú bráðlega að ljúka, og víkja í staðinn að nokkrum efnisatriðum í ræðu hans.

Ég skal þá leiðrétta það, áður en ég ræði efnisatriðin, að ein af þeim fáu staðreyndum, sem hann nefndi í ræðu sinni, var, að ég hafi verið meðlimur í Þjóðvarnarfélaginu. Þessi staðreynd var röng. Ég var aldrei skráður meðlimur í Þjóðvarnarfélaginu. Hitt er annað mál, að á þeim árum, er það félag var stofnað, hafði ég mikla samúð með þeim málstað, sem það barðist fyrir, og skrifaði eina grein í blaðið Þjóðvörn. Hún var nánast fræðileg útlistun á því frá mínu sjónarmiði séð, hvað fælist í hlutleysishugtakinu. Ég stend við allt, sem í þeirri grein stendur, og tel það enn vera allt fullkomlega rétt. Hann vísaði í þá grein eða einhverja aðra, sem ég hefði skrifað, þar sem ég hefði sagt, að engum hafi dottið í hug, að Íslendingar hafi ekki verið hlutlausir allt stríðið. Þessi ívitnun hans er algerlega röng og byggist á því, að annaðhvort skilur hann ekki greinina eða ekki mælt mál. Það, sem ég sagði um þetta efni og hef haldið fram bæði fyrr og síðar, er, að engum hafi dottið í hug, að herverndarsamningurinn 1941 hafi verið skerðing á hlutleysi Íslands. Þá var herverndarsamningur gerður við hlutlausa þjóð, við hlutlaust ríki. Og því var ekki haldið fram þá, að það væri ósamrýmanlegt hlutleysi Íslands að gera herverndarsamning við hlutlaust ríki. Ég er forviða á því, ef hv. þm. er svo skyni skroppinn, að hann átti sig ekki á þessu. Ég hef aldrei haldið því fram, að Ísland hafi verið hlutlaust, eftir að Bandaríkin fóru í stríðið. Það segir sig sjálft, að ef Íslendingar hefðu viljað halda hlutleysi sínu, þá hefðu þeir átt að segja herverndarsamningnum upp, þegar Bandaríkin gerðust stríðsaðili. Það var ekki gert, og kom engin till. fram um það. Í því fólst viðurkenning á því, að Íslendingar hurfu auðvitað frá hlutleysisstefnu sinni við það að hreyfa engum andmælum gegn herverndarsamningnum, þegar Bandaríkin gerðust stríðsaðili. Mér þykir hálfóviðkunnanlegt að þurfa að vera að setja ofan í við þingmann vegna jafnaugljósra atriða. Ég mundi ekki telja það eftir mér, ef einhver maður úti í bæ væri svo skyni skroppinn í þessum málum, að það þyrfti að benda honum á slíka hluti eins og þessa. En mér þykir hálfhart að þurfa að taka þm. svona á hné sér og leiðrétta hjá honum einföldustu grundvallaratriði í þeim málum, sem hann er að gera að umræðuefni.

Aðalatriðið í ræðu þm. var að svara loksins spurningu minni um það, hvað Þjóðvfl. hygðist gera, ef stríð skylli á, hvort hann ætlaði þá að neita vesturveldunum, Bretum og Bandaríkjamönnum og bandalagsríkjum þeirra, um sams konar aðstöðu hér og þeir höfðu í síðasta stríði eða hvort hann ætlaði að fallast á að veita slíka aðstöðu. Svarið var að vísu bæði loðið og illa samið, en ég held þó, að ég hafi komizt að réttri meiningu í því. Hún var, að Þjóðvfl. vildi neita öllum jafnt um herstöðvar hér á Íslandi, þótt stríð væri að skella á eða væri skollið á. Hér er þá komin skýlaus yfirlýsing um það, að Þjóðvfl. mundi í stríðsbyrjun svara tilmælum frá Bretum og Bandaríkjunum um sams konar aðstöðu hér og í síðasta stríði neitandi, alveg eins og hv. Sósfl. hefur lýst yfir að hann mundi gera. Ef flokkurinn raunverulega meinar þetta, — en ég vildi nú raunar helzt fá orð hv. 8. þm. Reykv. fyrir því, áður en ég tek þetta alvarlega sem skoðun flokksins, því að ég tek margfalt meira mark á honum heldur en hv. 8. landsk. þm., — ef þetta er skoðun flokksins, þá sé ég ekki betur en að flokkurinn sé endanlega og óafturkallanlega búinn að skipa sér á bekk með kommúnistum í íslenzkum utanríkismálum. Þá greinir bókstaflega ekkert, hvorki smátt né stórt, Þjóðvfl. og stefnu hans í utanríkismálum frá stefnu kommúnista. Eina vonin fyrir Þjóðvfl. til þess að greina sig frá kommúnistum var þó þetta, að segja, að þeir væru reiðubúnir til þess í stríði að veita vesturveldunum hér sams konar aðstöðu og þau fengu í síðasta stríði. Það hefði verið afstaða út af fyrir sig og í greinilegri andstöðu við stefnu kommúnista. En þann manndóm hafa þeir ekki haft í sér, heldur skipað sér endanlega, ef þetta er stefna flokksins, í bát með kommúnistum. Og þá sé ég satt að segja ekki, hvaða erindi þessir menn eiga í sérstakan flokk. Ef þeir telja stefnuna í utanríkismálum vera alfa og omega í íslenzkum stjórnmálum, þá eiga þeir heima í kommúnistaflokknum og hvergi annars staðar, því að þetta er nákvæmlega stefna kommúnista.

Það er ekki nóg að segja, að það, sem greini þá frá kommúnistum, sé afstaðan til Rússlands, að kommúnistum líki vel stjórnarfarið í Rússlandi, en þessum mönnum líki það illa, því að það er að gera Rússland einu sinni enn að aðalatriði í íslenzkum stjórnmálum, það er að gera afstöðu til erlendra stórvelda að uppistöðu í flokkaskiptingu á Íslandi. Þeir hafa einmitt sagt, þessir menn, að það vilji þeir ekki, þeir vilji ekki láta afstöðuna til Rússlands eða Bandaríkjanna ráða flokkaskiptingu í íslenzkum stjórnmálum. En hafi þeir sömu stefnu og kommúnistar í aðalmáli þjóðarinnar, en gera afstöðuna til stjórnarfarsins í Rússlandi einu ástæðuna fyrir því að fylla sérstakan flokk, þá er það að láta Rússa ráða flokkaskiptingunni á Íslandi, og þá gera þeir þveröfugt við það, sem þeir segjast ætla að gera.

Hv. þm. hafði það eftir mér, að Ísland yrði að vera í hernaðarbandalögum. Ég sé satt að segja ekki, hvernig hv. þm. fer að sitja hérna á þingbekkjum og hlusta á einar tvær eða þrjár ræður, sem ég hef flutt, og hafa þetta eftir mér. Ég vil biðja hann um að lesa yfir handrit að ræðum mínum hér frammi á skrifstofu þingsins og finna þeim orðum sínum stað, að ég hafi haldið því fram, að Ísland yrði að vera í hernaðarbandalögum. Allur málflutningur hans er þessu marki brenndur. Þessi orð hef ég aldrei sagt, og þetta er ekki skoðun mín. Ég greiddi á sínum tíma atkv. gegn því, að Ísland gengi í Atlantshafsbandalagið. Það var vegna þess, — og þá skal ég um leið svara fyrirspurn hans um það efni, — það var vegna þess, að ég taldi á þeim árum, árunum 1947–49, þann möguleika vera fyrir hendi í evrópskri pólitík, að mynduð væru hlutleysisbandalög, að ýmis ríki í Evrópu tækju upp hlutleysisstefnu, sem reyndi að vega salt á milli stórveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Ef það hefði orðið ofan á, þá hefði það verið raunhæfur möguleiki fyrir Íslendinga að gerast aðilar að slíkum bandalögum. Þessi sjónarmið voru á árunum 1947–49 rædd mjög mikið um allan heim og sérstaklega þó í Vestur-Evrópu. Í Bretlandi átti sú skoðun allmiklu fylgi að fagna, að Bretland tengdist ekki traustum böndum við Bandaríkin, heldur myndaði þriðju blökkina í Evrópu, sem reyndi að vega salt á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Þessi skoðun átti miklu fylgi að fagna í Frakklandi, og hún átti einnig nokkru fylgi að fagna í Þýzkalandi, að svo miklu leyti sem þar var tekið að ræða slík mál, og hún átti líka miklu fylgi að fagna á Norðurlöndum. Hugmyndin um varnarbandalag Norðurlanda var einmitt byggð á þeim möguleika, að í Vestur-Evrópu gæti orðið þriðja blökkin, sem yrði óháð og reyndi að vega salt á milli stórveldanna. Jafnaðarmannaflokkarnir bæði í Noregi og Danmörku voru fylgjandi varnarbandalagi Norðurlanda einmitt út frá þessu sjónarmiði. Sú andstaða af hálfu annarra en kommúnista hér á landi, m. a. mín, gegn því, að Íslendingar gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu, var byggð á nákvæmlega sama grundvelli. Hún var fylgisyfirlýsing við þá hugmynd, að komið yrði upp í heiminum þriðju blökkinni, sem gæti vegið salt á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. En þessi hugmynd náði ekki fram að ganga, eins og allir vita. Hugmyndin um þriðju blökkina beið algeran ósigur í Bretlandi, í Frakklandi, í Þýzkalandi, á Norðurlöndum. Þessi ríki mynduðu með sér Atlantshafsbandalagið undir forustu Breta og Frakka hér í Evrópu, og þau tvö Norðurlandaríki, sem næst okkur standa, Noregur og Danmörk, sáu þá, m. a. jafnaðarmennirnir í þessum löndum, að þýðingarlaust væri fyrir þessi ríki ein að mynda varnarbandalag, sem skyldi vera hlutlaust. Þess vegna tóku Noregur og Danmörk þann kostinn að fylgjast að inn í Atlantshafsbandalagið. En um leið og þetta gerðist, þá var möguleiki Íslands eins til þess að fylgja hlutleysisstefnu algerlega um garð genginn. Það eru nátttröll, mörg ár á eftir tímanum, sem láta sér detta það í hug, að skilyrði Íslendinga hafi verið þau sömu 1951 og séu þau sömu núna og þau voru 1947, 1948 og 1949, meðan hugmyndin um þriðju blökkina og hlutleysisbandalögin var ofarlega á baugi í Evrópu. Danir og Norðmenn, eða Jafnaðarmannaflokkarnir dönsku og norsku, sem eru stærstu flokkarnir í löndum sínum, breyttu afstöðu sinni til varnarbandalags Norðurlanda, eftir að þeir sáu, að hugmyndin um þriðju blökkina var úr sögunni. Danski Jafnaðarmannaflokkurinn breytti afstöðu sinni til Atlantshafsbandalagsins, þegar hann sá, að um norræna varnarbandalagið gat ekki verið að ræða, eftir að Norðmenn ákváðu að fara í Atlantshafsbandalagið. Eins og þetta gerbreytti skilyrðunum í utanríkispólitík Dana. þá auðvitað gerbreyttust skilyrði okkar við það, að ekkert hlutleysisbandalag var myndað í Vestur-Evrópu. Ég satt að segja furða mig á því, að menn, sem gert hafa það svo að segja að pólitískri atvinnu sinni að hugsa um utanríkismál, skuli ekki skilja þetta. Þeir væru þá betur alveg atvinnulausir á þessu sviði, ef þeir geta ekki á nokkrum árum komizt til botns í jafnaugljósum staðreyndum og þessum.

Hv. þm. spurði, hvers vegna ég hefði ekki verið með herstöðvum 1945, fyrst ég hefði greitt atkv. með varnarsáttmálanum 1951. Ég er satt að segja alveg forviða á því, að svona spurningar skuli vera bornar fram á Alþingi. Gagnfræðaskólapiltur gæti spurt svona á málfundi í bekkjarfélagi sínu, en þm. getur ekki leyft sér að tala svona við aðra þm., opinbera svo gersamlega algert þekkingarleysi á grundvallaratriðum þeirra mála, sem hér er um að ræða. Ungum gagnfræðaskólapilti fyrirgefur maður ýmislegt, en þingmann verður að taka svolítið öðrum tökum. Ég ætla nú samt sem áður að gera honum þann heiður að svara þessu.

Ástæðan til þess, að allir Íslendingar, bæði ég og aðrir, voru sammála um að neita tilmælum um herstöðvar hér 1945, var sú, að ef sagt hefði verið já við þeim tilmælum, þá hefði það jáyrði verið í algerri mótsögn við þá stefnu, sem var ráðandi um alla Evrópu og í öllum heiminum á þeim árum. Það var stefna, a. m. k. meðal vesturveldanna, að heri ætti að draga til baka, og allir herir voru á heimleið. Herstöðvar voru yfirgefnar. Ef við hefðum sagt já við herstöðvum 1945, þá hefði það jáyrði verið í mótsögn við yfirlýsta stefnu bandamanna okkar eða hinna vestrænu þjóða í stríðinu. Það var þetta, sem gaf okkur sem betur fer siðferðislegan styrk til þess að segja neiið og gerði þetta nei svo sterkt, að það var ómótstæðilegt.

1951 voru aðstæður hins vegar orðnar gerbreyttar á þeim sex árum, sem liðin voru. Í fyrsta lagi var aðstaðan orðin sú, að við vorum orðnir meðlimir í Atlantshafsbandalaginu, sem lagði okkur auðvitað vissar siðferðislegar skuldbindingar á herðar. Í öðru lagi var þá hafinn af hálfu Atlantshafsbandalagsríkjanna einn mesti vígbúnaður, sem um getur í sögu þjóðanna. Gat það verið hugsanlegt, að við, verandi í Atlantshafsbandalaginu, einir þjóða í bandalaginu hefðum getað leitt algerlega hjá okkur allar þær ráðstafanir, sem allar hinar þjóðirnar voru að gera? Við vorum auðvitað minntir á þær siðferðislegu skuldbindingar, sem á okkur hvíldu og við hefðum tekizt á hendur með inngöngu í Atlantshafsbandalagið, og á þeim tíma var talin veruleg stríðshætta. Það er hægt að koma núna og segja: Hún var engin. — En þannig var ekki hægt að tala þá. Við gátum ekki staðið framan í bandalagsþjóðum okkar og sagt: Þið skrökvið því, að stríðshætta sé nokkur, — því að þær sögðu ekki aðeins, að hún væri, heldur hegðuðu sér eins og hún væri. Við hefðum getað sagt við menn, sem staðhæfðu, að það væri stríðshætta á ferðum: Þið meinið ekki það, sem þið segið, þið trúið því ekki, — ef þeir hefðu sjálfir ekkert gert, sem benti til þess, að þeir tryðu því. En að standa framan í fulltrúum þjóða og rengja, að þeir trúi á stríðshættu, samtímis því sem það er sjáanlegt, að þeir leggja á sig óheyrilegar byrðar vegna þeirrar hættu, sem þeir segja vera á ferðum, það er ekki hægt. Þessar þjóðir höfðu allar saman, meira að segja smáþjóðirnar í grenndinni, lengt herskyldutímann upp í átján mánuði, — annars staðar var hann tvö ár. Þessar þjóðir lögðu á sig byrðar, þyngri byrðar en þær höfðu nokkurn tíma áður lagt á herðar sér vegna vígbúnaðar. Hvernig var þá við því að búast, að við einir gætum sagt: Það er engin stríðshætta. Við trúum ekki því, sem þið segið. Þið meinið ekkert af því, sem þið segið? — Það getur vel verið, að þingmenn Þjóðvfl. hefðu treyst sér til þess að standa þannig, svo að ég noti orð hv. 8. landsk. þm., eins og flón gagnvart þeim vandamálum, sem uppi voru í heiminum á þessum árum. En hvorki ég né nokkrir aðrir þm., sem vildu líta á málin ábyrgum augum, treystum okkur til slíks. Hitt er svo allt annað mál, að það ástand, sem skapaðist með herverndarsamningnum, var bráðabirgðaástand og átti aldrei að verða annað en bráðabirgðaástand í mínum augum. Það tók ég fram þegar, hef margítrekað það í ræðu og greinum síðar og þá m. a. við þessar umr. núna.

Það kom enn fremur fram í ræðu hv. 8. landsk. þm., að hann botnar í raun og veru ekkert í þeim meginrökum, sem lágu til þess, að herverndarsamningurinn 1951 var gerður, því að hann spyr og beindi því sérstaklega til min, hvers vegna ég hefði ekki lagt til, að herinn væri þá hafður 100 þús. manns, vegna þess að það hefði þó veitt aukið öryggi. Ég er búinn að segja það, ég veit ekki hvað oft, og skrifa það oft, að herverndarsamningurinn 1951 var alls ekki hugsaður til þess að veita Íslandi fullkomna og tryggjandi vörn gegn árásum. Þetta hef ég tekið fram einum tvisvar sinnum í þessum umræðum sjálfum. Og þess vegna er það alveg dæmalaust, að hv. þm. skuli ekki enn hafa skilið þetta. Ég veit ekki, hvað oft ég þarf að segja honum það, til þess að hann skilji það. Höfuðrökin fyrir herverndarsamningnum voru, samkv. þeim skilningi, sem ég hef í hann lagt, þau, að með því var sköpuð aðstaða hér á sérstaklega viðsjárverðum tímum til þess að koma þeim mannvirkjum, sem hér er um að ræða, í það horf, sem talið var að þau þyrftu að vera í á því andartaki, sem stríð skylli á. Hlutverk liðsins hér hefur fyrst og fremst verið að gæta öryggis þessara mannvirkja og — að svo miklu leyti sem styrjöld hefði verið talin alveg yfirvofandi — að undirbúa komu þess liðs, sem meira væri og ætti að vera staðsett hér í stríði með samþykki þeirra aðila, sem þeirri stefnu vilja fylgja, að vesturveldin eigi að hafa hér aðstöðu í stríði. En staðsetning liðsins hlýtur auðvitað að vera algerlega bundin við viðsjárverða hættutíma, og liðið á ekki að vera hér samkv. margyfirlýstri skoðun minni degi lengur en um slíka viðsjárverða hættutíma er að ræða. Ég er þegar búinn að taka það fram, að það er persónuleg skoðun mín, að ástand í heimsmálum hafi batnað svo mikið á undanförnum tímum, að tími sé kominn til þess að gera hér breytingar á og hefja undirbúning að því, að íslenzkir aðilar taki að sér þá gæzlu á mannvirkjunum og þann rekstur þeirra og viðhald, sem óhjákvæmilegt er, og við það miðast sú afstaða, sem ég hef lýst í þessu máli við þessar umr. áður. Þess vegna er þessi spurning hv. þm. beinlínis byggð á skilningsskorti á þeirri röksemdafærslu, sem hefur verið viðhöfð af minni hálfu bæði í ræðu og riti varðandi herverndarsamninginn og þá nauðsyn, sem ég tel nú á því að endurskoða hann og taka upp nýja skipan á þessum málum, sem hæfi betur ástandi venjulegra tíma.

Ég skal svo ljúka máli mínu með því að benda á, að þótt hv. þm. hafi lesið upp undir það hálftíma ræðu af blöðum til þess að svara fyrirspurnum, sem ég hef borið fram, þá láðist honum að svara einni. Ég hef oftar en einu sinni spurzt fyrir um það, hvar væru samherjar hv. þm. í utanríkismálum í Evrópu eða í öðrum nágrannalöndum, hvort hann gæti bent á nokkra kunna stjórnmálamenn í Vestur-Evrópu, sem hefðu sömu skoðanir á utanríkismálum og þessir hv. þm. hafa. Þessari spurningu hefur ekki verið svarað enn. Mér hefur ekkert slíkt nafn verið nefnt. Ég þykist fylgjast sæmilega vel með umræðum um stjórnmál og utanríkismál í Vestur-Evrópu af lestri tveggja eða þriggja blaða, sem ég hygg að skýri mjög samvizkusamlega frá þeim skoðunum, sem efst eru á baugi í hverju landi hverju sinni, mesta athygli vekja. Ég get sagt það, að ég hef ekki rekizt þar á þau ummæli eftir nokkrum einasta þekktum stjórnmálamanni, sem geti bent til þess, að hann aðhyllist sömu skoðanir í utanríkismálum og þessir hv. þm. Þjóðvfl. Ég þekki enga stjórnmálamenn í Vestur-Evrópu, sem mæli með því, að land þeirra skuli við núverandi kringumstæður taka upp stefnu algers hlutleysis og algers vopnleysis. Mér þætti gaman heyra nafn einhvers slíks manns og þá að heyra jafnframt ummæli, sem staðfesta, að hann hafi þessa skoðun. Ég er viss um, að á engu þjóðþingi situr nú maður, sem mundi halda ræðu, sem hefði þetta að innihaldi. Ekki aðeins enginn flokkur, heldur enginn mikils metinn þm. eða stjórnmálamaður hefur sömu skoðanir og þessir tveir hv. þm. Þjóðvfl., ef taka má ræðu hv. 8. landsk. þm. sem mælikvarða á skoðanir Þjóðvfl. Þeir eru því í þessum málum algert viðundur. Þeir eru viðundur á Evrópumælikvarða.